Netagerð Ísfell er að stærstum hluta í eigu Selstad Holding AS.
Netagerð Ísfell er að stærstum hluta í eigu Selstad Holding AS. — Morgunblaðið/Eggert
Ísfell, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði veiðarfæraþjónustu og sölu á útgerðar- og rekstrarvörum ýmiss konar, skilaði 97,5 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 60 milljóna hagnað árið áður.

Ísfell, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði veiðarfæraþjónustu og sölu á útgerðar- og rekstrarvörum ýmiss konar, skilaði 97,5 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 60 milljóna hagnað árið áður. Rekstrartekjur félagsins drógust nokkuð saman og námu 3.558 milljónum, samanborið við 3.702 milljónir árið 2019.

Kostnaðarverð seldra vara dróst saman, samfara minni umsvifum og nam 2.368 milljónum, samanborið við 2.615 milljónir árið 2019.

Laun og annar starfsmannakostnaður nam 624,3 milljónum og jókst milli ára um 31,4 milljónir króna. Annar rekstrarkostnaður dróst saman og nam 285,9 milljónum, samanborið við 298 milljónir ári fyrr. Í rekstrarreikningi er bókfært tap upp á 16,5 milljónir vegna hlutdeildar í afkomu dótturfélaga. Nam tap Maris ehf. 19,8 milljónum en félagið er að fullu í eigu Ísfells. Hins vegar var bókfærður hagnaður upp á 3,3 milljónir hjá félaginu Isfell Sisimiut AS. Eignarhlutur Ísfells í hinu grænlenska dótturfélagi er færður á 0 kr. þar sem eigið fé þess er neikvætt um 649 þúsund danskar krónur.

Eignir Ísfells námu 2.349 milljónum í árslok 2020 og höfðu aukist um rúmar 300 milljónir milli ára. Munaði þar mestu um vörubirgðir sem jukust um 130 milljónir milli ára og þá hækkuðu viðskiptakröfur um 153 milljónir króna. Skuldir félagsins námu 1.408 milljónum og jukust um ríflega 200 milljónir milli ára. Eigið fé félagsins nam 941,2 milljónum í lok árs í fyrra en hafði numið 844,4 milljónum 12 mánuðum fyrr.