Sterkur Júlían J.K. Jóhannsson var valinn Íþróttamaður ársins 2019.
Sterkur Júlían J.K. Jóhannsson var valinn Íþróttamaður ársins 2019. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kraftlyftingar Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

Kraftlyftingar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson varð á sunnudaginn Evrópumeistari í réttstöðulyftu og tryggði sér um leið bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur á Evrópumeistaramótinu í Pilsen í Tékklandi. Hann lyfti 400 kílógrömmum í hnébeygju, 315 kílógrömmum í bekkpressu og 390 kílógrömmum í réttstöðulyftu, samanlagt 1.105 kílóum.

Júlían náði að lyfta 420 kílógrömmum í hnébeygju en sú lyfta var dæmd ógild vegna tæknigalla og bronsverðlaun fyrir samanlagðan árangur því staðreynd. Hefði hún verið dæmd gild hefði Júlían tryggt sér gullverðlaunin fyrir samanlagðan árangur.

„Fyrst og fremst er ég bara mjög ánægður með þetta. Ég er ánægður með að vera kominn svolítið inn í þessa keppnisrútínu aftur, að fá að geta komið hingað út og keppt meðal annarra þjóða og gegn fremstu mönnum frá öðrum þjóðum. Það er gaman að vera úti í svona keppnisferð,“ sagði Júlían í samtali við Morgunblaðið, spurður um hvað honum þætti sjálfum um árangur sinn á mótinu.

„Minn árangur litast auðvitað líka af undirbúningnum, eins og hann er búinn að vera. Kannski er maður smá ryðgaður á þessum stóru mótum eftir þetta ástand en ég get ekki verið neitt annað en bara mjög ánægður með þetta,“ hélt hann áfram.

Það er enda langt síðan hann keppti síðast á stórmóti, heimsmeistaramótinu í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, í lok nóvember árið 2019, þar sem hann bætti eigið heimsmet í réttstöðulyftu, sem stendur í 405,5 kílógrömmum. „Það eru að verða tvö ár síðan, það var í lok árs 2019. Svo var ég í undirbúningi fyrir mót í maí 2020 þegar öllu var lokað,“ sagði Júlían og vísaði þar vitanlega til kórónuveirufaraldursins.

Faraldurinn hafði þau áhrif að Júlían keppti ekki á neinu stórmóti á síðasta ári og varð þess einnig valdandi að EM um helgina var frestað um nokkra mánuði. „Þetta mót sem ég keppti á hér í Tékklandi átti að vera haldið í maí en var frestað fram í ágúst. Næsta mót er heimsmeistaramót og það er í nóvember í Noregi,“ útskýrði hann.

Tilbúinn og fullur sjálfstrausts

HM í kraftlyftingum fer fram í Stafangri í Noregi dagana 17.–21. nóvember næstkomandi. Júlían telur að þátttakan og árangurinn á EM um helgina muni koma til með að hjálpa honum þar. „Ég held að þetta muni alveg klárlega hjálpa mér. Líka það að vera kominn í rútínuna aftur og vera búinn að dusta rykið af keppnisbúnaðinum og keppnishugarfarinu. Það skiptir einfaldlega gríðarlega miklu máli.“

Á mótinu í Pilsen um helgina gerði Júlían aðra tilraun til þess að næla sér í gullverðlaun fyrir samanlagðan árangur í kjölfar þess að 420 kílógramma hnébeygja hans var dæmd ógild. Þá freistaði hann þess að stórbæta eigið heimsmet í réttstöðulyftu þegar 420,5 kílógrömm voru sett á stöngina, sem er heilum 15 kílóum þyngra en núverandi met hans.

Sú þyngd fór hins vegar ekki upp í það skiptið. „Allt þetta mót sem ég var að keppa á um helgina var ég alltaf einhvern veginn með aðra höndina á gullmedalíunni en rétt missti hana úr greipum mér,“ sagði Júlían. Hann bætti við að gullverðlaun fyrir samanlagðan árangur séu ávallt þau eftirsóknarverðustu fyrir kraftlyftingamenn þó góður árangur í einstökum greinum gleðji auðvitað alltaf líka.

Aðspurður hvað hann þyrfti helst að bæta eða laga til þess að krækja í gullverðlaun fyrir samanlagðan árangur á stórmóti sagði Júlían: „Ég held að það hafi aðallega verið þessi keppnisfiðringur sem kom í veg fyrir það á mótinu. Nú er ég búinn að dusta rykið af keppnisbúnaðinum og veit að ég kem tilbúinn og fullur sjálfstrausts inn í næsta mót í nóvember.“

Hann sagðist sannarlega ætla að halda áfram að reyna að bæta eigið heimsmet í réttstöðulyftu á næstunni, þó hann setji enga pressu á sjálfan sig um að það verði að gerast strax á HM í nóvember. „Ég ætla allavega að reyna að bæta það á næstu mótum,“ sagði Júlían að lokum í samtali við Morgunblaðið.