Íran Ebrahem Raisi Íransforseti ræddi við Macron í síma í gær.
Íran Ebrahem Raisi Íransforseti ræddi við Macron í síma í gær. — AFP
Ebrahim Raisi, forseti Írans, lýsti því yfir í gær í samtali við Emmanuel Macron Frakklandsforseta að allar viðræður um kjarnorkuáætlun Írana yrðu að tryggja réttindi og hagsmuni íranskra stjórnvalda.

Ebrahim Raisi, forseti Írans, lýsti því yfir í gær í samtali við Emmanuel Macron Frakklandsforseta að allar viðræður um kjarnorkuáætlun Írana yrðu að tryggja réttindi og hagsmuni íranskra stjórnvalda.

Forsetarnir ræddust við símleiðis í gær og stóð símtalið yfir í um klukkustund. Macron hvatti þar Raisi til þess að hefja viðræður fljótlega um endurreisn kjarnorkusamkomulagsins frá 2015, en síðustu umleitanir til þess runnu út í sandinn í júnímánuði.

Þá hvatti Macron Íransstjórn til að láta af öllum aðgerðum sínum sem brjóta í bága við samkomulagið, en Íranar hafa ekki viljað ljá máls á slíku nema Bandaríkjastjórn aflétti refsiaðgerðum sem hún setti á Íran árið 2018.

Raisi tók við embætti í síðustu viku, og var samtal hans við Macron fyrstu samskipti hans í embætti við leiðtoga vestræns ríkis. Sagði Raisi meðal annars að Íranar myndu „viðhalda fælingarmætti“ sínum í Persaflóa, en þeir hafa verið sakaðir um að hafa staðið að árás á olíuflutningaskipið MT Mercer undan ströndum Ómans 29. júlí síðastliðinn. Þá yrði öllum ógnum við öryggi Írans svarað af fullum krafti.

Íranar hafa neitað allri sök, en flutningaskipið tilheyrði ísraelska fyrirtækinu Zodiac Maritime. Tveir úr áhöfn skipsins létust, einn Breti og einn Rúmeni. Hafa Ísraelar hótað hefndum vegna árásarinnar.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hét því einnig í gær að Bandaríkjastjórn myndi gera Írana ábyrga fyrir árásinni, og sagði að heimsbyggðin gæti ekki leyft þeim að sleppa undan refsingu fyrir hana. Sagði Blinken að slíkt myndi einungis hvetja Írana og aðra til þess að virða alþjóðalög og hafréttarsáttmála að vettugi.