Leit Björgunarsveitarmenn hafa sinnt mörgum útköllum í sumar.
Leit Björgunarsveitarmenn hafa sinnt mörgum útköllum í sumar. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Átján ára frönsk stúlka lést er hún féll niður bratta hlíð við göngu í Súlum í Stöðvarfirði í fyrradag. Konan var hluti af sjálfboðaliðahópnum Veraldarvinum sem unnið hafa sjálfboðaliðastarf á Austurlandi í fjölda...

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Átján ára frönsk stúlka lést er hún féll niður bratta hlíð við göngu í Súlum í Stöðvarfirði í fyrradag. Konan var hluti af sjálfboðaliðahópnum Veraldarvinum sem unnið hafa sjálfboðaliðastarf á Austurlandi í fjölda ára. Þegar tilkynning barst lögreglu um klukkan 17 voru lögregla, björgunarsveitir, sjúkralið á Austurlandi og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Aðstæður á vettvangi voru erfiðar.

Þetta er fjórða banaslysið í sumar sem rekja má til fjallgangna og útivistar. Í lok maí lést karlmaður á miðjum aldri eftir að hafa lent í miklum straumi í Svuntufossi í Ósá í Patreksfirði. Hinn 15. júní lenti kona í skriðu í Flekkudal í Hvalfirði. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi tveimur dögum síðar. Þá lést kona af áverkum sínum eftir að hún slasaðist á fjallgöngu í suðurdal Fljótsdals hinn 21. júní.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, kveðst telja að þetta séu óvenju mörg banaslys af þessu tagi á skömmum tíma. „Við vitum að það er fleira fólk á ferðinni út af Covid. Það er mikill áhugi á gönguferðum og útivist en þessar tölur eru hrikaleg áminning um það að hætturnar í íslenskri náttúru geta leynst víða. Við þurfum að bera virðingu fyrir náttúrunni, búa okkur vel og fara varlega. Minnstu mistök geta haft hrikalegar afleiðingar.“