Mikilvæg Dani Rhodes tryggði Þrótti stig á Selfossi í gærkvöldi.
Mikilvæg Dani Rhodes tryggði Þrótti stig á Selfossi í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fótboltinn Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Selfoss og Þróttur úr Reykjavík eru áfram hnífjöfn í fjórða og fimmta sæti Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta eftir 2:2-jafntefli á Selfossi í gærkvöldi.

Fótboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Selfoss og Þróttur úr Reykjavík eru áfram hnífjöfn í fjórða og fimmta sæti Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta eftir 2:2-jafntefli á Selfossi í gærkvöldi. Liðin eru nú með 19 stig, einu stigi á eftir Stjörnunni í þriðja sæti.

Brenna Lovera kom Selfossi tvisvar yfir, fyrst á 12. mínútu og síðan 51. mínútu, en Katherine Cousins jafnaði í 1:1 á lokamínútu fyrri hálfleiks og Dani Rhodes tryggði Þrótti stig með síðasta marki leiksins á 83. mínútu.

Þróttarar eru væntanlega sáttari við stöðuna en Selfyssingar, sem virtust ætla að taka þátt í toppbaráttu í upphafi leiktíðar. Selfoss vann fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni en hefur síðan þá aðeins unnið einn í síðustu níu deildarleikjum. Það hefur reynst liðum erfitt að vinna Þrótt í sumar en síðustu tæpa tvo mánuði hefur Þróttur aðeins tapað fyrir efstu liðunum; Breiðabliki og Val. Þá eru Þróttarakonur einnig komnar í undanúrslit í bikarkeppninni og því spenndi tímar í Laugardalnum.

„Eins og í fyrri hálfleik þurfti Þróttur smá tíma til þess að jafna sig á því að hafa lent undir. En þeim óx ásmegin þegar leið á leikinn og á lokakaflanum voru Selfyssingar að reyna að halda fengnum hlut á meðan sóknarþungi Þróttar jókst stöðugt. Stíflan brast á 83. mínútu þegar boltinn barst inn fyrir Selfossvörnina og Dani Rhodes kom á sprettinum inn fyrir. Hún kom sér í góða stöðu í teignum og afgreiddi boltann glæsilega í fjærhornið,“ skrifaði Guðmundur Karl Sigurdórsson m.a. um leikinn á mbl.is.

SELFOSS – ÞRÓTTUR R. 2:2

1:0 Brenna Lovera 12.

1:1 Katherine Cousins 45.

2:1 Brenna Lovera 51.

2:2 Dani Rhodes 83.

M

Brynja Líf Jónsdóttir (Selfossi)

Susanna Friedrichs (Selfossi)

Þóra Jónsdóttir (Selfossi)

Brenna Lovera (Selfossi)

Andrea Rut Bjarnadóttir (Þrótti)

Katherine Cousins (Þrótti)

Dani Rhodes (Þrótti)

Lorena Baumann (Þrótti)

Dómari : Arnar Þór Stefánsson – 5.

Áhorfendur : 163.

* Liðsuppstillingar, gul spjöld, viðtöl og greinar um leikina – sjá mbl.is/sport/fotbolti.