Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Vilji allra stendur til þess að skólastarfið verði eftir sem áður kröftugt og fjölbreytilegt þar sem þeim hæfniviðmiðum sem aðalnámskrá leggur til grundvallar í námi verður mætt,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla.
Eins og Morgunblaðið greindi frá á laugardag verður ekki hægt að hefja kennslu í færanlegum skólastofum fyrir yngstu bekki Fossvogsskóla þegar skólinn verður settur eftir tæpar tvær vikur. Viðgerðir standa yfir á skólahúsinu sjálfu. Tilkynnt var í gær að viðræður stæðu nú yfir milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Víkings um að kennsla fyrir 2. til 4. bekk skólans færi fram í húsnæði íþróttafélagsins í Víkinni fyrstu vikurnar. Í tilkynningu frá borginni segir að vonast sé til að hægt verði að færa kennslu í einingahúsin um miðjan september. Skólastofunum verður komið fyrir á bílastæði starfsfólks skólans þegar grenndarkynningu er lokið og gengið hefur verið frá skipulagsmálum.
Þegar hafði verið ákveðið að kennsla í 5. til 7. bekk fari fram í Korpuskóla. Kennsla í 1. bekk fer aftur á móti fram í Útlandi í húsnæði Frístundar. Skólasund verður áfram í Laugardalslaug eins og verið hefur.