Danska viðskiptablaðið Børsen fjallaði um það í gær hve mjög opinberum starfsmönnum hefði fjölgað í Danmörku síðasta árið eða svo. Fjöldinn hafði verið svipaður fyrir rúmum áratug en svo fækkaði nokkuð og hélst stöðugt þar til nú.

Danska viðskiptablaðið Børsen fjallaði um það í gær hve mjög opinberum starfsmönnum hefði fjölgað í Danmörku síðasta árið eða svo. Fjöldinn hafði verið svipaður fyrir rúmum áratug en svo fækkaði nokkuð og hélst stöðugt þar til nú. Kórónuveiran skýrir hluta af fjölguninni nú því að töluverður fjöldi hefur verið ráðinn til að sinna ýmsu sem hana snertir. En það er fleira sem veldur, svo sem almenn fjölgun í stjórnsýslunni.

Haft er eftir aðalhagfræðingi Danske bank að fjölgunin vegna veirunnar hafi verið umfram það sem vænst hafi verið. Og hann bendir á hið augljósa, að eftir því sem hið opinbera fjölgar hjá sér sé svigrúmið minna fyrir fyrirtæki í einkaeigu. „Hið opinbera sogar til sín starfsmenn af vinnumarkaðnum með tilheyrandi tjóni fyrir danskt efnahagslíf,“ segir hann, og bætir við að hættan sé sú að fyrirtæki verði að flytja framleiðslu sína úr landi.

Danmörk er ekki ein um að þurfa að hafa áhyggjur af þessari þróun. Í greiningu frá BHM í maí sl. kom fram að umsvif hins opinbera hefðu í fyrra aukist í 19 af 34 löndum Evrópu og er kórónuveiran nefnd sem skýring.

Í greiningunni koma að vísu ekki fram áhyggjur af fjölguninni en það er full ástæða til að hafa áhyggjur. Og það þarf að vinna markvisst að því að draga úr hlut hins opinera í efnahagslífinu, ekki aðeins vegna þess að veiran hefur gefið eftir heldur almennt til að efla atvinnulíf og bæta lífskjör.