Björn Jónasson fæddist á Akureyri 20. maí 1946. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sólteigi, Hrafnistu í Reykjavík 29. júlí 2021.
Foreldrar Björns voru Ingunn Anna Hermannsdóttir húsmóðir, f. á Skútustöðum í Mývatnssveit 20. ágúst 1921, d. 4. janúar 2010, og Jónas Pálsson, fv. rektor KHÍ, f. í Rípurhreppi í Skagafirði 26. nóvember 1922, d. 23. ágúst 2014. Þau slitu samvistir árið 1982. Blóðfaðir Björns var Sigurður Pálsson, f. í Kolagröf í Skagafirði 1. september 1922, d. 19. janúar 2017.
Systkini Björns eru: 1) Hermann Páll Jónasson, f. 18.11. 1951, búsettur í Reykjavík; 2) Finnbogi Jónasson, f. 20.1. 1953, d. 6.1. 2011, var búsettur í Reykjavík; 3) Gunnar Börkur Jónasson, f. 17.10. 1955, kennari við Háteigsskóla, búsettur í Hafnarfirði, maki Ingibjörg Dóra Hansen innanhússarkitekt; 4) Kristín Jónasdóttir, f. 7.2. 1958, félagsfræðingur og skrifstofustjóri við nemendaskrá Háskóla Íslands, búsett í Reykjavík.
Hinn 30. mars 1972 giftist Björn Hrafnhildi Guðrúnu Önnu Sigurðardóttur menntaskólakennara, f. 26. september 1943, d. 11. ágúst 2006. Björn og Guðrún skildu árið 1983. Börn þeirra eru: 1) Jónas Páll, f. 18. ágúst 1972, framkvæmdastjóri. Maki Soumia Islami Georgsdóttir, f. 22. desember 1975, framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru: Sofia Sóley, f. 17. desember 2002, Elías Andri, f. 1. september 2005, og Ómar Páll, f. 14. september 2009. 2) Bryndís, f. 17. febrúar 1978, forstöðumaður. Maki Eiríkur Fannar Torfason, f. 12. mars 1980, tölvunarfræðingur. Börn þeirra eru Hekla, f. 4. ágúst 2013, og Flóki, f. 8. janúar 2017.
Björn ólst upp á Kársnesi í Kópavogi stærstan hluta sinna barnæskuára og stundaði nám við Kópavogsskóla og Kársnesskóla. Að því loknu lauk Björn námi í rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík en starfaði stutt í því fagi. Á fullorðinsárum bjó Björn ýmist í Kópavogi, Garðabæ eða Hafnarfirði. Mestan hluta starfsævi sinnar starfaði hann sem verslunarmaður, lengi vel í JL-húsinu, því næst BB byggingarvörum og fagnaði svo 20 ára starfsafmæli í Byko um svipað leyti og hann hætti þar sökum aldurs og veikinda í janúar 2020.
Útför Björns fer fram frá Lindakirkju í dag, 10. ágúst 2021, og hefst athöfnin klukkan 13.
Nú er elsku faðir minn, Björn Jónasson, búinn að kveðja okkur eftir erfið veikindi. Móðir mín, Guðrún Sigurðardóttir, kvaddi okkur fyrir nákvæmlega 15 árum og mig langar því til að minnast þeirra beggja hér.
Pabbi og mamma voru umhyggjusamir foreldrar og lifðu mikið fyrir börnin sín, mig og yngri systur mína Bryndísi og síðar barnabörnin.
Æskan í Garðabænum var góð. Pabbi var duglegur að spila ýmsa leiki við okkur systkinin, meðal annars skák, krikket og badminton. Þórsmörk var í uppáhaldi hjá pabba. Pabbi tók alltaf með badmintonspaða í ferðalög og þar kveikti hann áhuga minn á spaðaíþróttum og óhætt að segja að það hafi haft mikil áhrif á líf mitt.
Móðir mín og faðir voru ólík. Pabbi hugsaði um smáatriðin og skipulag en mamma var meiri sveimhugi, metnaðarfullur kennari og bjó yfir yfirburðaþekkingu á enskri tungu. Þau áttu það sameiginlegt að þau voru bæði fölskvalaus, hlý og heiðarleg. Bæði höfðu þau áhuga á tónlist og höfðu gaman af því að sækja tónleika. Þau höfðu mikinn metnað fyrir hönd barna sinna og voru mjög áfram um að við systkinin myndum ganga menntaveginn. Mamma og pabbi skildu þegar ég var tólf ára. Sambandið á milli þeirra var þó oftast gott og voru þau samstíga sem foreldrar.
Mamma og pabbi voru sterkar persónur hvort á sinn hátt. Mamma var mjög vönd að virðingu sinni, fastheldin, kurteis og hæglát. Undir niðri bjó hún samt yfir miklum metnaði, bæði faglega og fyrir hönd barnanna sinna og var stórhuga og keppnismaður í eðli sínu.
Pabbi var mjög hreinskilinn eins og mamma en óð meira áfram og sagði það sem hann var að hugsa og var ákveðinn. Pabbi var líka metnaðargjarn um að sinna vinnu sinni vel og ef eitthvað var ekki til inni í búðinni sem viðskiptavininn vantaði þá fannst honum það ómögulegt. Hann var því vanur að fara í símann og panta vöruna hjá heildsala og fá hana samdægurs, ekki mátti klikka á að þjónusta viðskiptavininn.
Pabbi passaði barnabörnin sín oft og var fastagestur á heimilinu. Hann sótti sérstaklega í að aðstoða Elías Andra sem er fjölfatlaður og mikill sjarmör og þeir fögnuðu alltaf hvor öðrum þegar þeir hittust. Pabbi heimsótti mig líka reglulega í vinnuna í Tennishöllina og lá ekki á skoðunum sínum yfir því sem þurfti að gera þar en hjálpaði líka oft til. Mér er minnisstætt að hann horfði mikið á mig keppa á tennismótum þegar ég var unglingur og einnig jafnvel þegar ég var fullorðinn og þótti mér þá stundum nóg um. Það kom til dæmis fyrir að ég fékk á mig bolta sem var algjörlega vonlaust að ná og þá átti pabbi það til að kalla til mín: „Af hverju hleypur þú ekki á eftir boltanum strákur?“ Við pabbi náðum árið 2006 að verða saman Íslandsmeistarar í tennis í tvíliðaleik öðlinga 30 ára og eldri og pabbi var mjög hreykinn af þessum árangri með syni sínum.
Ég er þakklátur fyrir umhyggjusama foreldra. Ég vildi að þau hefðu fengið að lifa lengur en ég veit að þau voru bæði stolt af börnum sínum og barnabörnum og það var það sem skipti þau mestu máli.
Takk fyrir allt elsku pabbi og mamma.
Jónas Páll Björnsson.
Þú hafðir alltaf tíma til að styðja við okkur og tilbúinn að eyða öllu fríinu þínu í að passa upp á barnabörnin þín. Ég er endalaust þakklát fyrir allt það sem þú gerðir fyrir okkur fjölskylduna. Þú stóðst með okkur í einu og öllu, áhugamálunum og öllu því sem við stóðum fyrir. Þú varst með sterka ábyrgðartilfinningu gagnvart okkar fatlaða dreng, Elíasi Andra, augasteininum þínum, og ástin þín gagnvart honum skein í gegn. Það lýsir vel samskiptum ykkar hér að Ómar Páll, okkar litli, hafði orð á því þegar þú komst í heimsókn með kleinurnar þínar og djús og gafst Elíasi alla athyglina: „Afi, það eru líka fleiri en Elías hér.“ Samband ykkar Elíasar var einstakt og söknuðurinn verður mikill fyrir Elías Andra þó að hann geti ekki tjáð sig um það.
Elsku Bjössi, ég er svo þakklát fyrir okkar góðu kynni og sérstaklega fyrir tímann sem við áttum saman síðastliðin ár, við náðum að kynnast alveg upp á nýtt og eignuðumst minningar sem munu ylja mér um hjartarætur til eilífðar.
Hvíldu í friði elsku afi og tengdapabbi, við munum sakna þín sárt. Megi Guð og englarnir umvefja þig, við elskum þig.
Soumia, Sofia Sóley,
Elías Andri og Ómar Páll.