Erna Mist
Erna Mist
Eftir Ernu Misti: "Hugvekja um hvernig maður mótar mann."

Þú lifir ekki í fortíðinni en fortíðin lifir í þér. Þú gleymir nótunum en líkaminn man hvernig hljóðfærið virkar. Þú hættir að læra en þekkingin margfaldast áfram. Þá sem þú elskaðir einu sinni elskarðu enn og frá því færðu ekki sloppið. Þegar þú opnar þig fyrir öðrum flytur fólk inn í þig og þeir sem tékka sig inn á hótelið sem þú ert tékka sig aldrei út. Þú ert safn af öðrum, á meðan fortíðarútgáfur af þér dreifast og geymast á annarra manna söfnum.

En þú ert meira en minjagripurinn sem þig langar að vera og þú getur sannað það. Þú átt fæðingarvottorð sem staðfestir hvaðan þú kemur, vegabréf sem sýnir hvar þú hefur verið og nágranna sem vita hvar þú ert. Þú hefur einhvers staðar til að vera, eitthvað til að gera og einhvern sem stendur ekki á sama. Þú veist hverjum þú tilheyrir og hverjir tilheyra þér. Þú finnur þig í spegli, í mannfjölda og á skjá sem þú geymir í vasanum. Þú sýnir ólíkar hliðar í ólíkum aðstæðum og hliðarnar á þér trúa ekki hver á aðra. Hvernig þú talar dæmigerir hvernig þú hugsar og hvernig þú hlustar sýnir hvað þú veist. Þú veist hvað þú ert að gera og hvað það mun gera þér. Þú ert meðaltal þeirra sem þú þekkir og miðgildi þeirra sem þú kannast við. Þú ert summan af því sem þú gerir mínus það sem þú gerir ekki. Þú ert möguleikar deilt með takmörkunum sinnum, heppni í tilviljanakenndu veldi. Þú ert úthugsað dæmi sem gengur upp þar til annað kemur í ljós.

Vitundin er verksmiðja minninganna og lærdómur er vitnisburður um erfiðleika. Þar af leiðandi kunna erfiðustu minningarnar að vera minnisstæðari en aðrar, vegna þess að þær geyma einhvern sannleik sem við erum tilbúin að þjást fyrir. Þær minna okkur á hverfulleika lífsins og undirstrika þá staðreynd að þolinmæði er mælikvarði ástarinnar. Heimurinn er tráma, fólk er triggerandi og lífið er ómetanlegt tækifæri til að díla við þetta allt saman.

Höfundur er listmálari. ernamist@ernamist.net

Höf.: Ernu Misti