Hengirúmin eru tveir uppblásnir kútar í ýmsum litum með neti á milli. Í þessu getur fólk legið og slakað á í heitum pottum eða sundlaugum.
Hengirúmin eru tveir uppblásnir kútar í ýmsum litum með neti á milli. Í þessu getur fólk legið og slakað á í heitum pottum eða sundlaugum.
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hengirúm fyrir heita potta hafa selst eins og heitar lummur í allt sumar hjá NormX og ekkert lát er á vinsældunum.

Meira en tvö þúsund hengirúm fyrir heita potta hafa selst í pottaverslun NormX í Auðbrekku í Kópavogi nú í sumar. Orri Stefánsson sölu- og verslunarstjóri segir í samtali við ViðskiptaMoggann að hengirúmin hafi svo sannarlega slegið í gegn og allar sendingar seljist upp á leifturhraða. Nú eru einhverjar þúsundir hengirúma í pöntun að sögn Orra og fólk þarf því að hafa hraðar hendur vilji það tryggja sér eintak.

„Ég prófaði að panta eitt stykki í vor til að prófa sjálfur. Mér fannst ótrúlega þægilegt að liggja í þessu, þótt þetta sé mjög einfalt í sjálfu sér, en að sama skapi mjög sniðugt,“ segir Orri.

Í kjölfarið segist hann hafa pantað inn meira magn og í fyrstu seldist eitt og eitt rúm. „Svo fór fólk að koma aftur sem hafði keypt rúm áður. Því líkaði varan svo vel að það vildi kaupa handa vinum sínum og fjölskyldu. Svo vatt þetta bara upp á sig. Við seljum yfir hundrað stykki á dag.“

Taka með til útlanda

Í kringum verslunarmannahelgina var salan með eindæmum góð og rúmin rifin úr hillunum. Mörg hundruð rúm seldust á stuttum tíma. „Það voru margir að kaupa hengirúm til að hafa með sér í frí til útlanda. Þar voru svo kannski ferðalangar í sömu ferð sem kynntust rúmunum og þegar heim var komið mætti fólkið í búðina til að kaupa sér sín eigin rúm. Maður heldur alltaf að það fari að hægjast á sölunni, en það er ekki farið að gerast ennþá,“ segir Orri, sem vart hefur undan að panta inn.