Gunnlaugur Eiðsson fæddist 5. júní 1954. Hann lést 5. júlí 2021.

Gunnlaugur var jarðsettur í kyrrþey 27. júlí 2021.

Látinn er okkar kæri skólabróðir frá útskriftarárgangi Menntaskólans á Akureyri, 1974, Gunnlaugur Eiðsson.

Hans hefur þegar verið minnst hér, með óvenjuvel skrifuðum minningargreinum, og hef ég nú litlu að bæta við það, nema hvað við röbbuðum nokkrum sinnum saman á síðari áratugum á kaffihúsum hér í Reykjavík – og jafnvel hjá Sjálfstæðisflokknum!

Hann var, líkt og ég, iðinn við greinaskrif í skólablöðin í MA forðum og þáði svo seinna af mér eina ljóðabók mína!

Það kom fram í minningargrein að hann hefði skrifað mikið um sögu Hveragerðis, jafnvel gert efnileg olíumálverk. Kannski væri þá ráð að minnast hans frekar með því að gefa þetta nú út á bók, eða þá á netinu? Að vísu má þegar sjá greinaskrif eftir hann á Tímarit.is.

Ég vil minnast hans með því að vitna hér í ljóð mitt sem heitir: Bóndasonur og MA-stúdent, en það ljóð er innblásið af skáldsagnatilraunum mínum frá MA-námstímanum og endar á þessum orðum:

... og náði þá að þrýstast inn í MA,

sjálfan Menntaskólann á Akureyri,

þar sem menntaskólastúlkur

skvöldruðu

meira en fiskvinnslu- og bændakonur,

og undi mér svo sem dável hjá þeim,

á marrandi trégólfi þessa eðalhúss,

meðan skuggar garðtrjánna voru

langir,

og steig líka í gráðið á böllunum!

Tryggvi V. Líndal.