RÚV Pétur H. Ármannsson, fróður arkitekt.
RÚV Pétur H. Ármannsson, fróður arkitekt. — Morgunblaðið/Eggert
„Bærinn er skrýtinn. Hann er fullur af húsum.“ Svo hefst ljóð borgarskáldsins, Tómasar Guðmundssonar, Húsin í bænum.

„Bærinn er skrýtinn. Hann er fullur af húsum.“ Svo hefst ljóð borgarskáldsins, Tómasar Guðmundssonar, Húsin í bænum. Lag Gunnars Þórðarsonar við þetta fræga ljóð er upphafsstef – og nú fullyrði ég – einna bestu þátta sem nokkurn tímann hafa verið framleiddir á Ríkissjónvarpinu.

Þættirnir, Steinsteypuöldin, í umsjón Egils Helgasonar, voru fyrst sýndir í Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum árum og í þeim fer Egill um byggingarsögu 20. aldarinnar á Íslandi, í fulltingi Péturs H. Ármannssonar arkitekts (sem gaf út veglega bók um Guðjón Samúelsson, fyrsta húsameistara ríkisins, um síðustu jól).

Þættirnir hefjast eftir brunann mikla í Reykjavík í apríl 1915 og þeim lýkur á áttunda áratug síðustu aldar eða þar um bil. Straumum og stefnum íslenskrar byggingasögu er gerð góð skil og hún fléttuð inn í þjóðarástand, pólitík, dægurþras og jafnvel bóktmenntastefnur hvers tíma fyrir sig.

Steinsteypuöldin er sannkölluð fróðleiksperla, sem gaman er að horfa á aftur og aftur. „Hver skilur öll þessi hús, sem í röðum liggja? Hver skilur lífið og allar þess óbyggðu lóðir? Og af hverju er verið að byggja?“ spyr Tómas í lok ljóðsins. Þetta allt skilur Pétur H. Ármannsson – og nú ég.

Oddur Þórðarson