Erna Sigurgeirsdóttir fæddist á Arnstapa í Ljósavatnsskarði 15. desember 1934. Erna lést 16. ágúst 2021. Hún var dóttir hjónanna Önnu Guðrúnar Guðmundsdóttur, f. 22.8. 1897, d. 17.12. 1989, og Sigurgeirs Bjarna Jóhannssonar, f. 20.10. 1891, d. 8.7. 1970. Systkini Ernu: Guðmundur Kristján, f. 1918, d. 1996, Jóhann Kristinn, f. 1919, d. 2005, Halldór, f. 1924, d. 1968, Sigrún, f. 1926, d. 2017, Sigurveig, f. 1930, d. 2012, og Guðríður Kristjana (Gígja), f. 1933.

Erna giftist Hreini Kristjánssyni, f. 3.3. 1928, d. 18.6. 2016, 17.9. 1955, þá bónda í Fellshlíð.

Þau eignuðust sex börn: 1) Viðar, f. 3.11. 1956, bókmenntafræðingur. Kona hans er Anna Guðrún Júlíusdóttir, f. 20.6. 1961, verkefnastjóri. Þau eiga fjögur börn og fjögur barnabörn. 2) Bergur, f. 31.12. 1957, d. 14.4. 1958. 3) Sigurgeir Bjarni, f. 31.5. 1959, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar, áður bóndi á Hríshóli. Kona hans er Bylgja Sveinbjörnsdóttir, f. 13.12. 1962, kjóla- og klæðskerasveinn. Þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. 4) Kristján, f. 21.8. 1964, viðskiptafræðingur. Kona hans er Anna Sigrún Rafnsdóttir, f. 19.3. 1968, sérfræðingur í skólaþróun. Kristján á þrjú börn úr fyrri sambúð með Sigurveigu Kjartansdóttur, f. 22.1. 1962, kennara. Anna Sigrún á þrjú börn úr fyrri sambúð. 5) Ævar, f. 22.5. 1966, bóndi í Fellshlíð. Kona hans er Elín Margrét Stefánsdóttir, f. 8.2. 1971, bóndi í Fellshlíð. Þau eiga þrjú börn. Elín á eldri son sem á eitt barn. 6) Helga Berglind, f. 1.7. 1972, hársnyrtir, hjúkrunarfræðingur og bóndi á Hríshóli. Maður hennar er Guðmundur Óskarsson, f. 15.6. 1972, véliðnfræðingur og bóndi á Hríshóli. Þau eiga fjögur börn.

Erna ólst upp á Arnstapa við sveitastörf og hafði meira gaman af útiverkum en heimilisstörfum. Hún fór í Héraðsskólann á Laugum 1951-1952 og síðan í kaupamennsku í Eyjafjörð, fyrst hjá Guðmundi bróður sínum og Ingibjörgu í Klauf, síðan á Uppsölum og Bringu. Einn vetur vann hún í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri og eftir það í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Þá voru þau Hreinn trúlofuð og hann sótti hana er skólanum lauk. Þau bjuggu í Fellshlíð til vorsins 1961 að þau fluttu í Fjósakot, breyttu nafninu í Hríshól og byggðu upp stórbúskap. Eyjafjörður rann þeim í merg og blóð þar sem fyrir voru þingeyskir átthagar.

Erna og Hreinn voru vinamörg og vinsæl, tóku fjölda barna í sveitadvöl og höfðu lengi verknema frá Hvanneyri. Erna var í nokkur ár í barnaverndarnefnd hreppsins og starfaði í kvenfélaginu Hjálpinni, lagði starfi þess mikið lið í flestum stjórnarembættum og nefndum í áratugi.

Hún var nærgætin og umhyggjusöm við menn og málleysingja og hafði yndi af ferðalögum, samneyti við fólk, handavinnu og plönturækt innan húss og utan.

Þegar heilsunni hrakaði síðasta árið naut hún góðrar umönnunar, fyrst Helgu dóttur sinnar og fjölskyldu hennar, síðan Heimahlynningar og síðustu mánuðina á Öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 3. september 2021, klukkan 10. Jarðsett verður í Munkaþverárkirkjugarði.

Streymt verður frá athöfninni á Facebook-síðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju. Virkan hlekk á streymið má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat/.

Það er undarlegt þegar uppsprettur manns sjálfs fjara út og hverfa, hljóðlát ást og umhyggja sem maður tók sem gefnum hlut en lagði þó grunn að lífi manns og tilveru.

Mamma kenndi mér snemma að lesa og skrifa, sem dugði vel framan af skólagöngu, örvaði mig og gaf mér bækur og fékk lánaðar á öðrum bæjum. Við fengum Síðasta bæinn í dalnum á Stekkjarflötum þegar ég var sex ára, óbærilega spennandi sögu. Ég lagði hana frá mér þar sem tröllkarl elti góðan dverg á klettabrún, sagði mömmu að ég væri búinn og hún gæti skilað henni. Hana grunaði hvernig var og stríddi mér á því löngu síðar.

Hún skildi fróðleikslöngun mína, hvatti mig og studdi alla tíð. Það skipti öllu. Stephan G. orti um móður sína:

Þó að væri oft, við allt,

ófimlega og illa lokið,

ástarhendi gaztu strokið

listanna minna höfuð hallt.

Hún var fróðleiksfús, bókelsk og fylgdist vel með því sem ég tók mér fyrir hendur, las bækur mínar og sótti fyrirlestra.

„Hættu þá“ sagði hún brosleit þegar ég hótaði að hætta í menntaskóla þjáður af námsleiða. Hún vissi að ég myndi varla gera alvöru úr því en meinti að maður ber sjálfur ábyrgð á lífi sínu. Sjálf átti hún ekki kost á langri skólagöngu þó að hún hafi haft góða námshæfileika. Húsmæðraskólinn var veganestið, tíðarandinn beindi konum ekki annað. Hún vildi þó ekki festast í hjólförum og lærði snemma á bíl með Deddu vinkonu sinni á Hrísum. Ég hafði hana líka stundum grunaða um að kjósa eitthvað róttækara en Framsókn. Á kvennafrídaginn lagði hún niður störf en skrapp þó og keypti nokkra hænuunga.

Þegar mamma var 10-11 ára bjargaði hún hálfdauðum fugli upp úr mógröf og lífgaði við í volgum bakarofni svo hann gat flogið burt, lífinu feginn. Minningin yljaði henni alla ævi. Hún fann til með mönnum og málleysingjum sem áttu um sárt að binda eða undir högg að sækja, hlynnti að þeim sem hún náði til en bar eigin harm í hljóði. Sorgin vegna Bergs litla sem dó tæpra fjögurra mánaða fylgdi henni alltaf.

Í góðvild voru mamma og pabbi samhent og tóku börnum opnum örmum. Öll máttu þau kalla hana ömmu. Leggir, Legó og dúkkur í forstofunni að leika með. Við eldri börn spjallaði hún af víðsýni um hvað sem var. Skopskyn hennar birtist í hnyttnum tilsvörum allt til hinstu stundar. Ekki var hún afskiptasöm nema um að ég léti klippa mig oftar en mér þótti þurfa.

Mamma hélt dagbækur, slitrótt frá 1965 en óslitið frá 1989 til loka síðasta árs. Fátt er um tilfinningar en meira af daglegu lífi og félagslegu samneyti við góða granna, vini og frændfólk. Umhyggjan undir niðri, skrifin birta hljóðlátt og ástríkt lífsstarf. Að ævilokum var hún þakklát fyrir lífið, fjölda afkomenda, vinina og sveitina góðu, sannfærð um að pabbi og Bergur biðu hennar í björtu sumarlandinu.

Tímar breytast. Framtíðin er ískyggileg en björt minning mömmu verður uppspretta þeirrar samkenndar og umhyggju sem heimurinn þarfnast sárlega.

Nú er Gígja frænka ein eftir af sjö hjartahlýjum systkinum. Henni sendi ég einlægar samúðarkveðjur.

Við Hríshólssystkin þökkum þá góðu umönnun sem mamma fékk hjá Heimahlynningu og Hlíð.

Viðar Hreinsson.

Þá er elsku mamma komin yfir í sumarlandið enda löngu ferðbúin. Hún bjó yfir þeirri bjargföstu trú að þar tæki pabbi á móti henni enda hafði hann lofað því. Ég veit að hún hlakkaði til að hitta aftur drenginn sinn. Sorgin yfir barnsmissi var djúp og sár þótt ekki væri það mikið rætt. Fleiri hafa verið í móttökunefndinni svo endurfundir hafa verið ljúfir.

Mamma var einstök kona og dýrmæt fyrirmynd. Alltaf boðin og búin að hjálpa og umhyggjan fyrir mönnum og málleysingjum sérstök. Við afkomendurnir og fjölskyldur nutum þess í ríkum mæli. Óteljandi oft passaði hún barnabörnin eða hjálpaði til, hafði ætíð tíma fyrir fólkið sitt og krökkunum þótti alltaf gott að koma til ömmu og afa í sveitinni. Þar var spilað, lesið fyrir háttinn, spjallað og stússað. Hún passaði upp á að fólk væri vel mett og stundir hennar í eldhúsinu voru óteljandi. Hún gerði heimsins besta skúffukökukrem og lummur, pönnsur, vöfflur og kleinur hafa runnið ljúflega niður á ýmsum tímum. Eitt sinn beið hún langt fram á nótt með vöfflur þegar við vorum að klára heyskap.

Ef ætti að lýsa mömmu í fáum orðum gætu þau verið hjartahlý, hjálpsöm, þolinmóð, barngóð, hrekkjótt, gamansöm, hannyrðakona, félagslynd, vinamörg, nákvæm, umhyggjusöm, nærgætin, jákvæð, bjartsýn, með hlýja nærveru og græna fingur.

Hún hafði yndi af blómarækt úti og inni. Garðurinn hennar var fallegur og vel hirtur og ófáar stundir átti hún í sólskálanum sínum. Hún hafði líka gaman af handavinnu eins og bútasaumi, hekli, prjóni og tréskurði en hefði þurft fleiri tíma í sólarhringinn til að sinna því eins og hana langaði.

Ekki er hægt að minnast mömmu án þess að minnast pabba. Þau voru samhent og samstiga í öllu. Henni var tíðrætt um það síðustu misseri og algjörlega sannfærð um að þau pabbi áttu að ná saman, örlögin höguðu því þannig. Hún var líka þakklát fyrir sveitina sína, Eyjafjarðarsveit og enga sveit vissi hún fallegri eða búsældarlegri. Mesta þakklætið var þó fyrir hópinn hennar; börnin, þeirra fjölskyldur og fjölda annarra tryggra vina og ættingja.

Elsku mamma, takk fyrir allt og sjáumst þegar minn tími kemur.

Hjartans þakkir færi ég þeim sem komu að umönnun mömmu síðastliðið ár.

Ég veit um systkin svo sæl og góð,

og syngja vil um þau lítinn óð,

en ekkert þekkjast þau þó;

um húsið hún leikur sér út og inn;

hann einnig sér leikur – um

himininn,

drengurinn litli, sem dó.

Hún veit hann var barn svo blessað

og gott,

hann bróðir hennar, sem hrifinn var

brott;

hún þráir hann ekkert þó.

Sér barnung mær tekur missirinn

létt,

en mamma´ hennar hugsar jafnt og

þétt

um litla drenginn, sem dó.

Hún þráir sinn litla, ljóshærða son,

sitt ljós og sitt gull, og sinn engil og

von;

hún man hve hann hjúfraði og hló,

hve blítt hann klappaði' um brjóst

henni og kinn,

hve brosið var indælt og svipurinn

á litla drengnum, sem dó.

Er stúlkan flýgur í faðm hennar inn,

þá felur hún líka þar drenginn sinn

með sorgblíðri saknaðar ró.

Í hjarta´ hennar dafnar vel dóttirin,

þó dafnar þar enn betur sonurinn,

drengurinn hennar, sem dó.

(Einar H. Kvaran)

Helga Berglind.

Það er fátt mikilvægara en góðir tengdaforeldrar og ég datt svo sannarlega í lukkupottinn þegar ég valdi tengdaforeldra. Já valdi, því ég kynntist þeim fyrst. Vorið 1993 fór ég í verknám frá Hvanneyri að bænum Hríshóli í Eyjafjarðarsveit. Ég var ekki búin að vera lengi þegar ég áttaði mig á hvers konar gæðafólk Erna og Hreinn voru. Og til að gera langa sögu stutta þá hafa þau verið tengdaforeldrar mínir frá því fljótlega eftir þetta.

Nú hafa þau lokið sinni lífsgöngu, en það er margs að minnast frá þeim tæplega 30 árum sem ég hef þekkt þau. Þegar við Ævar bjuggum á Akureyri og vorum með strákana litla var farið í Hríshól flestar helgar og aldrei nokkurn tíma man ég eftir að Ernu þætti það eitthvað mikið þó fjölgaði eitthvað við matarborðið. Alltaf voru allir velkomnir og nógur matur fyrir alla. Það var heldur enginn fljótari til ef vantaði aðstoð við einhverja hluti, þá voru Erna og Hreinn mætt með það sama. Einu sinni var ég dagmamma á Akureyri og var með fullt hús af börnum, en varð allt í einu eitthvað lasin og hringdi í Ernu og bar mig eitthvað illa. Ég var varla búin að sleppa símanum þegar hún var mætt og tók að sér öll börnin meðan ég gat hvílt mig.

Eftir að við fluttum í Fellshlíð fyrir nærri 20 árum var Hreinn sjálfskipaður vinnumaður hjá okkur flestalla daga þar til heilsunni fór að hraka. Og oft kom Erna líka og tók þá til hendinni, enda veitti nú ekki af.

Það var ekki haldið barnaafmæli eða aðrar veislur öðruvísi en Erna kæmi með stóran hluta af veitingunum og alla jafna stóð hún í eldhúsinu og sá um að allt væri hreint og snyrtilegt.

Erna var potturinn og pannan í kvenfélaginu Hjálpinni um árabil og hélt því lifandi á þeim árum þegar ekki þótti fínt að vera í kvenfélagi og starfsemin var alveg að lognast út af. Fyrst eftir að ég kynntist Ernu fannst mér hún sífellt vera að baka eða eitthvað að stússa fyrir kvenfélagið og sagði einhvern tímann að ég skildi nú ekki tilganginn í að vera í þessu kvenfélagi, hún gerði ekkert nema baka! Hún var nú ekki lengi að svara því og benti mér á að í svona samfélögum þurfa allir að leggja sitt af mörkum og þessi litlu félög eru límið í samfélaginu og svo væri félagsskapurinn svo skemmtilegur. Mín skoðun á kvenfélögum snarbreyttist og ég gekk í kvenfélagið um leið og ég flutti í sveitina. Reyndar var það þannig að Erna skráði mig í kvenfélagið, því hún hringdi og bauð mér með á fund, en ég komst ekki með, þá sagði hún: „Ég skrái þig bara.“

Dagbókin skipaði stóran sess hjá Ernu og í henni er hægt að fletta uppá ýmsu þarflegu, t.d. hvenær var nógu hlýtt til að Hreinn færi úr síðbrókinni, eða hvenær þeir sjaldgæfu dagar voru sem þau fóru ekkert eða enginn kom.

Það er seint fyllt skarðið sem Erna skilur eftir sig, en síðustu mánuðir voru henni erfiðir, það var ekki hennar stíll að láta aðra hafa fyrir sér. Hún var meira fyrir að snúast í kringum aðra, alltaf vel til höfð, fín um hárið og með naglalakk og oftar en ekki í háhæluðum skóm.

Takk fyrir allt elsku Erna.

Þín tengdadóttir.

Elín M. Stefánsdóttir.

Amma Erna var ekki bara amma mín heldur einnig ein besta vinkona mín, við áttum ófáar stundir saman þar sem við spjölluðum um lífið og tilveruna, spiluðum, bökuðum og brösuðum alls konar saman. Það var aldrei langt í húmorinn og fíflalætin, við þurftum hins vegar stundum að vanda okkur við að vera stilltar og prúðar meðal almennings. Við Halldór Ingi fórum fyrir stuttu síðan í lystigarðinn með ömmu, við fengum hjólastól að láni sem hún var svo sem alveg sátt við en sagði að við gætum nú alla vega skipst á að keyra hvor aðra! Ég er ofboðslega þakklát fyrir að hafa átt gott samband við ömmu mína og fengið að búa nærri henni og afa alla mína ævi. Ég er ánægð að amma hafi fengið að fara í friði, verkjalaus og elskuð. Ég veit að afi var farinn að bíða eftir henni og ég vona að þau séu sameinuð á ný. Ljúf minning lifir.

Anna Hlín Guðmundsdóttir.

Elsku heimsins besta amma og langamma okkar.

Nú kveðjum við þig með hjartað fullt af söknuði, þakklæti og hugann stútfullan af góðum minningum. Þú varst einstök og manneskja með opnari faðm er vandfundin. Hjartahlýjan var slík að þrátt fyrir að búa alla tíð í sveit gastu ekki horft upp á dýr deyja. Þú skilur eftir þig stóran hóp af fólki sem ég veit að mun sakna þess mjög að kíkja í heimsókn, og þá er ég ekki aðeins að tala um börnin og barnabörnin heldur svo miklu fleiri. Við fjölskyldan munum svo sannarlega sakna þess. Mikil forréttindi sem það eru að hafa alist upp í næsta húsi þar sem við systkinin vorum alltaf velkomin til þín og fengum að brasa með þér, hvort sem það var að spila, baka með þér eða skreyta jólatréð fyrir jólin. Nú eða rétt kíkja við í búrið og grípa kex eða flýja til þín þegar okkur fannst foreldrarnir ósanngjarnir. Þá hefur þú ansi oft rifjað það upp með mér og við hlegið að því saman það eina skipti sem ég fór í fýlu við þig og ákvað að hætta að heita Erna og ætlaði að heita Dísa í staðinn.

Heimsóknir til þín voru aldrei skylduheimsóknir, alltaf svo notalegt að kíkja í kaffi og krakkarnir jafn spenntir fyrir því. Svo var ekki að spyrja að því að ávallt var kominn matur á borðið innan nokkurra mínútna ef heimsóknin var í kringum matartíma, skúffukakan þín besta í eftirmat og pönnsur í kaffinu sem börnin mín sakna nú þegar enda ljóslifandi fyrir þeim þar sem þú ert með pönnurnar tvær á fullu að steikja pönnsur í tugavís. Og oftar en ekki vorum við send með nesti til Reykjavíkur, nýsteiktar kleinur í poka eða fiskiklatta í frystinn sem við áttum að grípa með okkur rétt fyrir brottför suður. Og ekki léstu þitt eftir liggja, kíktir alltaf í heimsókn þegar þú komst í borgina og vildir auðvitað helst gera eitthvað í leiðinni, svo sem steikja kleinur og gafst þér alltaf tíma til að spila við börnin, rétt eins og við mig í æsku.

Sem betur fer var alltaf mjög stutt í grínið alveg fram á síðasta dag. Ég er svo innilega þakklát að hafa náð að kíkja til þín stuttu áður en þú kvaddir, og jafnvel þá náðir þú að koma með þín hnyttnu skot. Við munum sakna þeirra ásamt öllu hinu, elsku amma. Hvíldu í friði og við biðjum að heilsa afa.

Erna, Stefán, Arnar Geir, Lára Bryndís og Marín Bylgja.

Fyrir okkur þrjú sem ólumst að miklu leyti upp án þeirra forréttinda að eiga ömmur og afa þá var það okkur óendanlega dýrmætt að eiga ykkur Hrein að, því þið voruð okkur ekkert minna en nákvæmlega það. Amma og afi. Þegar við vöxum úr grasi þá sjáum við að blóðtengingar skipta oft ekki höfuðmáli, heldur þær tengingar sem við stofnum til af eigin dáðum og finnum kærleika og væntumþykju burtséð frá raunverulegum fjölskylduböndum.

Sindri man eftir því að hafa hætt að kalla ykkur ömmu og afa um 10 ára aldur því honum fannst það eitthvað furðulegt vitandi að þið væruð það nú ekki samkvæmt hefðbundnu skilgreiningunni.

Þó sá hann alltaf eftir þessari ákvörðun í bernsku og ákvað að spyrja þig fyrir nokkrum árum yfir skúffuköku við eldhúsborðið hvort hann mætti kalla þig ömmu að nýju, þín vegna. Svarið var: „Tja, þú svafst nú upp í þar til þú varst 10 ára þannig að ég sé ekki hvað er því til fyrirstöðu“ og brostir svo kankvíslega yfir borðið. Og þannig varstu alltaf. Röggsöm, stóð aldrei á svörum og fannst ekkert sjálfsagðara en að við værum hluti af þinni fjölskyldu. Það teljum við vera eitt okkar mesta gæfuspor í lífinu. Takk ævinlega fyrir allt, amma.

Aðalheiður, Eggert og Sindri.