Erla Björk Daníelsdóttir fæddist 2. október 1928. Hún lést 20. ágúst 2021.

Útför Erlu fór fram 27. ágúst 2021.

Hún var ætíð glaðlynd og tók hress á móti manni þegar maður lagði leið sína í Ísbjörninn. Innanbúðar stóð Erla og afgreiddi viðskiptavininn hvort sem leitað var að bókum eða ritföngum, að ekki sé talað um að endurnýja happadrættismiða. Ávallt tók samtalið samt smá beygju því annaðhvort urðu skólamál eða íþróttir aðalmálið. Já, hún var góð kona sem vann samfélagi sínu ásamt eiginmanni sínum óeigingjarnt starf á ýmsum sviðum.

Við fráfall Erlu reikar hugurinn aftur til áranna þegar starf frjálsra íþrótta stóð með miklum blóma í Borgarnesi og Borgarfjarðarhéraði. Hjónin í Ísbirninum áttu sinn hlut í þeim glæsta árangri sem náðist jafnt í héraði sem utan. Segja má að heimili þeirra hafi verið sem félagsmiðstöð þeirra fjölmörgu barna og unglinga sem lögðu stund á íþróttina. Fyrir æfingar og eftir var safnast saman og málin rædd, næsta ferð utan héraðs skipulögð og svo framvegis. Alltaf var Erla þátttakandi og lagði orð í belg. Þá var unglingunum færð hressing og þau nutu samverunnar meðan við er eldri vorum ræddum hin ýmsu mál, s.s. íþróttaaðstöðu, hreppspólitík og að sjálfsögðu hvað framundan væri.

Nú er Erla farin og hennar er saknað. Það er ekki svo langt síðan við áttum tal saman um fyrri tíma og þá velgengni sem náðist í köstum, stökkum eða hlaupum. Þá færðist sælubros yfir mína konu og hún sagði: „Þetta var svo skemmtilegur og gefandi tími.“

Dætrum Erlu, Írisi og Svöfu, sem og fjölskyldum þeirra sendum við Kristín Ingibjörg okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Flemming Jessen,