Sigurður Eggertsson fæddist 9. janúar 1933 í Reykjavík. Hann lést á hjartadeild Landspítala við Hringbraut 29. ágúst 2021.

Foreldrar hans voru Helga Ágústa Halldórsdóttir, f. 1909, frá Hnífsdal og Eggert Sveinsson, f. 1906, frá Hálsi í Grundarfirði og starfaði við málmsteypu í Reykjavík.

Systkini Sigurðar, Halldór Salómon, f. 1931, Guðný Anna, f. 1934, Salóme Ósk, f. 1935, Sveindís, f. 1940, Ásgeir Valur, d. 1952. Hálfsystkin samfeðra, Eggert, f.1950, Ómar, f. 1951, Kristín, f. 1952, og Sveinn, f. 1954.

Fyrri kona Sigurðar var Stefanía Guðný Guðmundsdóttir sem lést um aldur fram, þau eignuðust eina dóttur, Jónínu, hennar maður er Rafn Ingólfsson. Seinni kona Sigurðar er Elín Sigurvinsdóttir, börn þeirra, Sigrún, í sambúð með Helga Daníelssyni, Sigurður, í sambúð með Elínu Ólafsdóttur, og Sigurvin, kona hans er Kristrún Daníelsdóttir. Barnabörnin eru níu, langafabörn eru 13 og langalangafabörnin eru sex.

Sigurður hóf störf í Þjóðleikhúsinu við stofnun þess 1950, og lét af störfum 55 árum síðar. Starfaði lengst af sem hljóðmeistari hússins en síðari ár sem dyravörður við móttöku gesta.

Jarðarförin fer fram í dag, 3. september 2021, kl. 15 frá Grensáskirkju.

Tjaldið er dregið fyrir, stórsýningu er lokið, og pabbi kveður stóra sviðið.

Hversu oft hefur pabbi upplifað sýningarlok á sínum rúmlega 55 árum í stafi hjá Þjóðleikhúsinu sem hófst við stofnun þess árið 1950, og hann 17 ára gamall. Störfin voru meðal annars að vinna sem sviðsmaður, í propsinu, hljóp í skarðið sem sýningarstjóri en lengst var hann hljóðmeistari hússins. Síðustu árin sem yfirmaður framhúss, þ.e.a.s. umsjón með öllu sem sneri að leikhúsgestum.

Það var í leikhúsinu sem pabbi kynntist mömmu þegar hún var að stíga sín fyrstu skref þar með Þjóðleikhúskórnum. Fyrir okkur leikhúskrakkana, sem fengum að skottast um gangana og skoða flest skúmaskot var leikhúsið og það sem þar fór fram, einn ævintýraheimur. Sem barn var þetta bara hluti af lífinu að alast upp við leikrit, söngleiki og óperur sem þá voru alltaf fluttar í Þjóðleikhúsinu og ekki fyrr en við eldumst að við áttum okkur á, hve mikil forréttindi þetta voru.

Ekkert haggaði pabba, alltaf rólegur og yfirvegaður. Það skipti engu hvaða verkefni ég tók mér fyrir hendur alltaf var pabbi boðinn og búinn að hjálpa og átti ráð við öllu, allt gat hann lagað, sama hvað. Mér er minnisstætt á ferðalagi einu sinni ég ein með son minn þá átta ára að það var vesen að starta bílnum og ég kom honum ekki í gang, þá gall við, opnaðu húddið mamma, svo klifraði strákurinn upp til að sjá og ná betur í húddið, gerði svo eitthvað og sagði; startaðu núna, og bíllinn hrökk í gang. Ég spurði hvernig honum hefði dottið þetta í hug, afi kenndi mér þetta var svarið. Þau eru ótal handtökin sem fengum að læra af pabba.

Eftir að pabbi hætti að vinna vorum við duglegri að ferðast saman og minningarnar margar frá skemmtilegum ferðum, oftast vorum við bara með bíl og þvældumst um. Vínhéruð Frakklands, viskíverksmiðjur og sveitir Skotlands, heimsóknir til Bandaríkjanna til systra pabba, stórafmælisferðir til Kanada, Búdapest og Flórída og svo heimsóknirnar til mín þegar ég bjó í Salzburg og Brussel og margar fleiri ferðir.

Veiði var í miklu uppáhaldi hjá pabba og var ásamt fleirum með laxveiði á, á leigu um tíma og naut þess að rölta langar leiðir með ánni. Það eru ótal minningar af tjaldferðum á Þingvöll, þar sem pabbi þreyttist aldrei á að laga flækjur á okkar veiðistöngum, man að hann var alltaf kominn út að veiða þegar við vöknuðum sennilega til að fá smá frið í veiðina sjálfur. Síðustu veiðiferðirnar voru nú bara út á bryggjuenda á Ólafsfirði, þá var pabbi með langafabarni, nafna sínum og sólstólar hafðir með til að hvíla lúin bein.

Við áttum fína ferð norður í lok júlí og pabbi naut sólar í góða veðrinu á pallinum við húsið okkar í Ólafsfirði og fjölskyldan með nýjustu langalangafa börnin, þriggja vikna tvíbura kíktu í heimsókn og fengu að kúra smá í fanginu á afa.

Pabbi lést á hjartadeild Landspítala eftir viku legu, og naut þá daga frábærar umönnunar starfsfólksins þar. Pabba verður sárt saknað, en hlýjar minningar og leiðsögn hans mun fylgja okkur áfram. Hvíl í friði elsku besti pabbi og takk fyrir allt.

Sigrún.

Elsku afi.

Okkur langar til þess að kveðja þig með nokkrum orðum. Við systkinin sitjum hérna saman og rifjum upp allar minningarnar sem við áttum með þér. Það er frekar erfitt að koma með einhverja eina minningu þar sem þú varst svo stór hluti af okkar lífi, við bjuggum öll saman í Drápuhlíðinni í rúm 20 ár.

Það voru ófáar stundirnar á morgnana þegar við sátum niðri í eldhúsi, þið að borða hafragraut og grape á meðan við systkinin gæddum okkar á Cheeriosi með fullt af sykri. Bíómyndakvöldin okkar með Indiana Jones og Star Wars eða kennsla í sjálfsvörn í forstofunni. Það eru þessir hversdagslegu hlutir sem eru svo ómetanlegir, að hafa fengið að alast upp með þig og ömmu á heimilinu og fyrir það erum við ævinlega þakklát.

Þú varst órjúfanlegur hluti af okkar rútínu á daginn. Þegar við komum heim úr skólanum stoppuðum við alltaf fyrst hjá ykkur ömmu í drekkutíma áður en við héldum áfram upp á efri hæðina. Fyrir okkur systkinin var Drápuhlíðin eitt heimili fyrir eina fjölskyldu, íbúðin ykkar á neðri hæðinni var jafn mikið heimilið okkar og risið.

Eitt af því sem kemur upp í hugann þegar við ræðum búsetuna í Drápuhlíð eru öll yatzi-kvöldin, þar sem við trítluðum niður til ykkar og spiluðum þangað til komið var að háttatíma, lykillinn var auðvitað að safna sexum. Það var líka þú sem varst fyrstur af stað niður Eskihlíðina þegar Daníel fótbrotnaði og þú hlúðir að honum þangað til sjúkrabíllinn kom.

Það er okkur minnisstætt þegar Latibær var í sýningu í Þjóðleikhúsinu og við fengum að skoða sviðið og hitta alla leikarana.

Þú varst alltaf til taks og alltaf til staðar fyrir litlu ormana á efri hæðinni, aldrei hækkaðir þú róminn eða æstir þig á okkur. „Afi getur allt“ voru orð sem foreldrar okkar fengu reglulega að heyra, það var bara þannig, ef eitthvað bilaði eða brotnaði þá gast þú alltaf lagað það.

Elsku afi, þú fylgdist með okkur vaxa og dafna, sýndir okkur einstaka umhyggju og kenndir okkur svo margt. Við eigum þér svo ótalmargt að þakka, ofurhetjan okkar. Guð geymi þig.

Þín

Elín og Daníel.