Flóttamannabylgjan sem menn óttast nú verður að óbreyttu ekki sú síðasta

Allt stefnir í að hinn ógæfulegi flótti vesturveldanna frá Afganistan muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér á ýmsum sviðum, ekki síst fyrir almenning í landinu. Fyrirséð er því að Afganar muni freista þess að flýja land, ekki síst þar sem allar líkur eru á því að talíbanar muni vilja hindra samlanda sína í leitinni að betra lífi.

Spurningin um hvar eigi að koma flóttafólkinu fyrir hefur þegar vaknað, og ákvað Evrópusambandið því að efna til fundar innanríkisráðherra aðildarríkja sinna á þriðjudaginn til þess að leita svara. Sambandið er raunar brennt af fyrri reynslu í þessum efnum, en skemmst er að minnast þess þegar stríður straumur flóttamanna frá Sýrlandi og Líbíu barst yfir Miðjarðarhafið árið 2015.

Viðbrögð Evrópusambandsins þá einkenndust af ráðaleysi og máttleysi í senn. Olli þetta hörðum deilum innan sambandsins, bæði innan ríkjanna sjálfra og þeirra á milli, um málefni hælisleitenda. Vandinn var ekki leystur, heldur einungis stagbættur með samkomulagi við Tyrki, þar sem þeim var borgað sérstaklega fyrir að hindra för sýrlenskra flóttamanna til sambandsins.

Fundur innanríkisráðherranna nú var haldinn í skugga þessarar sögu, sem sást ekki síst í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins, þar sem mörkuð var sú stefna að reyna að endurtaka sáttmálann við Tyrki frá árinu 2015, með því að bjóða nágrannaríkjum Afganistans svipaðan samning. Rætt var um 600 milljónir evra í því sambandi til þess að borga ríkjum Mið-Asíu, en Horst Seehofer, innanríkisráðherra Þýskalands, hafði áhyggjur af því að þau myndu jafnvel vilja enn hærri fjárhæðir.

Ekki skal gert lítið úr því, að það er vandasamt að takast á við bylgju flóttamanna af þeirri stærðargráðu sem óttast er að kunni að koma frá Afganistan. Ekkert ríki getur ráðið við það að opna landamæri sín fyrir öllum þeim sem vilja koma eins og stundum mætti þó ætla af umræðunni, meðal annars hér á landi. Staðfesta og skýr skilaboð ríkja Evrópusambandsins og annarra ríkja Evrópu er nauðsynleg til að skilaboð berist um að landamæri séu ekki galopin, eins og þau reyndust vera árið 2015 með þeim afleiðingum sem síðan hefur verið glímt við. En ótti Evrópusambandsins við að missa tökin á ný og að fortíðin endurtaki sig virðist vera ávísun á endalausa fjárkúgun, þar sem nágrannaríki Afganistans muni sífellt biðja um meiri peninga eða aðrar ívilnanir, ellegar verði flóttamennirnir sendir af stað. Íran virðist jafnvel geta orðið í þeim hópi og eru þó veikleikar Evrópusambandsins gagnvart klerkastjórninni þar nægir fyrir þó að þetta bætist ekki við. Og Tyrkir hafa þegar beitt slíkum hótunum fyrir sig í annars óskyldum deilum sínum við aðildarríkin.

Nú þegar forseti Bandaríkjanna hefur að óþörfu búið til margs konar vanda, meðal annars mögulegan flóttamannavanda, er mikilvægt að ríki Evrópu staldri við og finni aðrar leiðir en þær sem hingað til hafa brugðist í glímunni við það viðfangsefni. Það kann að felast í því að senda skýr skilaboð um að Evrópusambandsríkin verji ytri landsmæri sín en getur einnig falist í því að aðstoða flóttamennina heima fyrir. Í Afganistan getur það til að mynda þýtt matvælaaðstoð, en óttast er að hungursneyð vofi yfir landinu. Ástandið var slæmt fyrir valdatöku talíbana, en gæti orðið skelfilegt innan skamms tíma.

Viðbrögð ríkja Evrópusambandsins nú einkennast af því að þau voru óundirbúin, enda gaf forseti Bandaríkjanna þessum sögulegu vinaþjóðum sínum engan fyrirvara þegar hann ákvað að hraða herliði sínu heim í slíku óðagoti að talíbanar halda nú hersýningar með nýjustu vígtólum og fagna mjög. En viðbrögðin einkennast líka af því að umræða um flóttamenn hefur ekki mátt eiga sér stað á eðlilegum forsendum. Þeir sem lýsa áhyggjum af háskalegri þróun eru úthrópaðir af vandlæturum sem þó bjóða engar lausnir. Um leið og reynt verður að bregðast við þeirri bylgju flóttamanna sem óttast er að skelli nú á Evrópu er óhjákvæmilegt að umræða fari fram um hvernig þessum málum skuli háttað til framtíðar. Það gengur ekki að bregðast ítrekað við „óvæntum“ aðsteðjandi vanda því að flóttamannabylgjur munu ekki hverfa á meðan ríki Evrópu reka ómarkvissa stefnu og á meðan öfgahreyfingar og ofbeldismenn vaða uppi í nágrenni Evrópu, bæði í Austurlöndum nær og Afríku.