Fjölskyldan Frá vinstri: Jökull Orri, Aríel með Eld Hrafn á háhesti og Hrefna Marín Sigurðardóttir með Esju Marín í fanginu.
Fjölskyldan Frá vinstri: Jökull Orri, Aríel með Eld Hrafn á háhesti og Hrefna Marín Sigurðardóttir með Esju Marín í fanginu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Aríel Pétursson tók við formennsku í Sjómannadagsráði höfuðborgarsvæðisins í fyrradag, en hann var kjörinn varaformaður ráðsins á aðalfundi þess í vor. Hann leggur áherslu á að hann taki við mjög góðu búi. „Ég er með einstaklega gott starfsfólk, samstarfið innan stjórnar er sérlega gott og fulltrúar stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu í Sjómannadagsráði eru hafsjór af fróðleik og veita okkur góðan stuðning.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Aríel Pétursson tók við formennsku í Sjómannadagsráði höfuðborgarsvæðisins í fyrradag, en hann var kjörinn varaformaður ráðsins á aðalfundi þess í vor. Hann leggur áherslu á að hann taki við mjög góðu búi. „Ég er með einstaklega gott starfsfólk, samstarfið innan stjórnar er sérlega gott og fulltrúar stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu í Sjómannadagsráði eru hafsjór af fróðleik og veita okkur góðan stuðning.“

Sjómannadagsráð var stofnað 1937. Henrý Hálfdánarson stýrði ráðinu til 1961, Einar Thoroddsen var formaður í eitt ár áður en Pétur Sigurðsson sjómaður tók við 1962 og gegndi stöðu formanns til 1993. Guðmundur Hallvarðsson var síðan í forystu til 2017, þegar Hálfdán Henrysson tók við keflinu, sem hann svo afhenti Aríel 1. september. Svo skemmtilega vill til að Pétur sjómaður var á 34. ári þegar hann tók við formennsku í ráðinu og Aríel, sem fæddist 50 árum eftir stofnun þess, verður 34 ára í nóvember.

Grettistakið heillaði

Tilgangur Sjómannadagsráðs var fyrst að vekja athygli á lífi og störfum sjómanna með því að sjá árlega um hátíðarhöld sjómannadagsins í Reykjavík. Undanfarin ár hefur utanumhaldið verið í samstarfi við Faxaflóahafnir og útgerðarfélagið Brim með áherslu á að vekja athygli á samfélagslegu og þjóðhagslegu mikilvægi stéttarinnar. Fljótlega beitti ráðið sér fyrir byggingu dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Sú starfsemi varð síðan að almennri þjónustu fyrir aldraða og auk Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði rekur Sjómannadagsráð nú sex heimili með það að markmiði að veita öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Að loknu námi í Stýrimannaskólanum var Aríel stýrimaður á togurum í nokkur ár. Hann fór síðan í nám til Danmerkur og útskrifaðist úr Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins í Kaupmannahöfn 2019. Hann hefur verið yfirstýrimaður á freigátum danska sjóhersins síðan fyrir utan stuttan tíma sem stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni.

Fyrir mörgum árum kynntist Aríel störfum Sjómannadagsráðs í gegnum vinnufélaga á sjó. Hann segist síðan hafa kynnt sér söguna og starfið æ betur og heillast af því grettistaki sem ráðið hafði lyft í þágu sjómannastéttarinnar og síðar einnig samborgaranna allra. „Þessi kraftur á bak við vinnufélaga mína heillaði mig. Helsta driffjöðrin var að gera gott í samfélaginu með hag og öryggi íbúanna að leiðarljósi og þegar ég var í náminu í Danmörku sá ég fyrir mér að ég ætti eftir að koma að störfum ráðsins og leggja lóð mitt á vogarskálina í þessu merkilega starfi.“

Langur vegur er frá störfum úti á sjó að rekstri einnar stærstu heilbrigðisstofnunar landsins en Hrafnista rekur um fjórðung hjúkrunarrýma hérlendis og er með um 1.700 manns í vinnu. „Sennilega tekur styttri tíma að snúa herskipi en þessari skútu en engu að síður er ég viss um það að margt af því sem ég hef lært og þroskast í úti á sjó nýtist í þessari nýju freigátu.“