Ríkisstjórn Noregs tilkynnti í gær að hún hygðist fresta afléttingu sóttvarnaaðgerða gegn kórónuveirunni, þar sem Delta-afbrigðið hefur sótt mjög á að undanförnu.

Ríkisstjórn Noregs tilkynnti í gær að hún hygðist fresta afléttingu sóttvarnaaðgerða gegn kórónuveirunni, þar sem Delta-afbrigðið hefur sótt mjög á að undanförnu. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, sagði að aflétting aðgerða nú hefði í för með sér aukna smithættu.

„Við viljum ekki taka þá áhættu nú, þegar svo skammur tími er þar til allir fullorðnir hafa fengið tækifæri til að verja sig með bólusetningu,“ sagði hún og bætti við að hún miðaði nú við að öllum aðgerðum gegn faraldrinum yrði aflétt í lok þessa mánaðar, en þá er stefnt að því að um 90% allra fullorðinna Norðmanna hafi verið fullbólusett gegn veirunni. Það hlutfall er nú 71,9%, en alls hafa 89,1% allra fullorðinna fengið að minnsta kosti fyrri skammtinn af bóluefninu.

Ríkisstjórnin hyggst einnig bjóða unglingum á aldrinum 12-15 ára upp á bólusetningu í þeirri von um að það muni hægja á faraldrinum.

5.000 manna samkomubann

Noregur hóf að létta á sóttvarnaaðgerðum sínum í vor, þar sem bólusetning gekk vel og tilfellum fækkaði. Var upphaflega stefna stjórnvalda að ljúka afléttingum sínum í júlímánuði, en því hefur nú verið frestað nokkrum sinnum vegna áhyggna um að faraldurinn væri að ná sér aftur á strik.

Í núgildandi aðgerðum er samkomubann, sem nær til allt að 5.000 manna innandyra og 10.000 manna utandyra.

Kosið verður til norska þingsins 13. september næstkomandi, en skoðanakannanir benda til þess að stjórnarandstaðan muni þar fá meirihluta, þrátt fyrir að ríkisstjórnin sé talin hafa staðið sig vel í heimsfaraldrinum. Leiðir norski Verkamannaflokkurinn allar kannanir, og mælist hann á bilinu 22-26%, en Hægri, íhaldsflokkur Solbergs, er með um 18-21% fylgi.

Sóttvarnaaðgerðir
» Núgildandi takmarkanir leyfa 5.000 manna samkomur innandyra og 10.000 manns utandyra.
» 71,9% fullorðinna Norðmanna eru nú fullbólusettir. 89,1% hafa fengið minnst eina sprautu.