Skáldið Bragi Ólafsson á vinnustofu sinni við Vesturgötu árið 1991.
Skáldið Bragi Ólafsson á vinnustofu sinni við Vesturgötu árið 1991. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Ritþing um rithöfundinn, ljóðskáldið og leikskáldið Braga Ólafsson verður haldið í Borgarbókasafninu í Gerðubergi á morgun, laugardag, frá kl. 14 til 16.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Ritþing um rithöfundinn, ljóðskáldið og leikskáldið Braga Ólafsson verður haldið í Borgarbókasafninu í Gerðubergi á morgun, laugardag, frá kl. 14 til 16.30 og ber það yfirskriftina Stefnumót við Braga Ólafsson - „Á horni Bayswater Road og Lækjargötu“ . Hafa ritþing verið haldin þar í húsi allt frá árinu 1999 og gengur ritþingið þannig fyrir sig að höfundur svarar spurningum stjórnanda og spyrla, leikin verður lifandi tónlist sem tengist höfundi og lesið verður upp úr verkum hans. Spyrlar á ritþinginu á morgun verða Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og skáld, og Einar Falur Ingólfsson, ljósmyndari og blaðamaður, og verður ritþingið brotið upp með uppákomum í anda höfundarins, að því er segir í tilkynningu.

Leikkonan Maríanna Clara Lúthersdóttir mun flytja ljóð, Eggert Þorleifsson leikari fer með brot úr útvarpsverki Braga, Gestabókinni , og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari mun flytja frumsamið verk innblásið af skáldskap Braga. Þá verður áður óbirtum texta eftir Braga dreift ókeypis á ritþinginu. Ritþingin eru hljóðrituð og gefin út rafrænt á heimasíðu bókasafnsins og þurfa þeir sem komast ekki því ekki að örvænta.

Áhersla á höfundarverkið

Stjórnandi þingsins er Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur og er hún spurð að því hvers vegna hún hafi verið fengin til að stjórna þinginu. „Ég hef haft mikinn áhuga á verkum Braga og skrifaði mastersritgerðina mína um tvær bækur eftir hann, Hvíldardaga og Samkvæmisleiki . Ætli það séu ekki þau tengsl?“ svarar Guðrún en Bragi hefur gefið út margar skáldsögur, ljóðasöfn, smásögur og leikrit og því hægt að nálgast hann frá ólíkum hliðum.

Guðrún er spurð að því hver áherslan verði á ritþinginu. „Hún er í rauninni á höfundarverkið og við ætlum að reyna að fá fram hans fagurfræði, hans sýn á veruleikann og hverju hann er að miðla í gegnum sín verk. Við ætlum að tæpa á – og vonandi gengur það eftir – ljóðum og smásögum og leikritum en skáldsögurnar verða kannski fókuspunkturinn og við gerum ráð fyrir að þær taki mesta tímann. En umfram allt er hugmyndin að reyna að taka þetta saman, skoða hvað einkennir verk hans og reyna að fá hann til að segja okkur hvað hann er að hugsa,“ svarar Guðrún.

Ótrúlega skemmtilegar

–Þú skrifaðir meistararitgerð um tvær bækur eftir Braga, hvers vegna varð hann fyrir valinu og þessar tilteknu bækur?

„Bara af því mér finnst þær svo ótrúlega skemmtilegar. Stundum er sagt að maður eigi ekki að velja höfunda sem maður elskar til að skrifa um því þá skorti mann alla gagnrýni en ég bara gat ekki hugsað mér betra og skemmtilegra efni að skrifa um. Það er svo ótrúlega margt heillandi í þessum bókum,“ segir Guðrún og nefnir að í skrifum Braga séu undir niðri alltaf spurningar um hvernig saga sé sögð, spurningar um bókmenntirnar sjálfar.

Hún segir bækur Braga líka mjög persónulegar á einhvern sérstakan hátt, lesandi kynnist mjög náið sögupersónum. „Maður fær svolítið ósíað hugsanaflæði persóna og það getur orðið mjög náið á mjög sérstakan hátt,“ bendir Guðrún á.

Samofinn söguheimur

Guðrún segir margar af bókum Braga tengjast hver annarri og það sé mjög sérstakt. Þar birtist samofinn söguheimur. „Hann er að stinga sér niður í risastórt persónugallerí og það eru að dúkka upp aftur sömu persónur í bókunum,“ segir Guðrún og að persóna úr einni eða tveimur bókum hafi meira að segja dúkkað upp í útvarpsleikriti.

„Þetta er náttúrlega á einhvern hátt einstakt og okkur langar svolítið til að teikna þennan söguheim upp á þessu þingi og fara ofan í þessi tengsl og þennan stóra veruleika sem hann er búinn að búa til þarna. Ég vona að við getum fengið eitthvað upp úr honum um hann og hvort hann eigi eftir að segja sögur af einhverjum úr þessum heimi,“ segir Guðrún.

Hlakkar brjálæðislega til

Guðrún er spurð að því hvort hún hafi áður stjórnað ritþingi af þessu tagi og segist hún ekki hafa gert það. Hlakkar hún til þess eða er hún kvíðin? „Ég hlakka alveg brjálæðislega til,“ svarar Guðrún létt í bragði og nefnir að margoft sé búið að fresta þinginu, sem átti upphaflega að halda fyrir einu og hálfu ári, vegna kófsins. „Við erum bara ótrúlega spennt og mér finnst við búin að setja saman áhugaverða dagskrá sem ég vona að höfði bæði til þeirra sem þekkja verk Braga og líka annarra.“

Enginn aðgangseyrir er að þinginu og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en skráning fer fram á slóðinni borgarbokasafn.is/vidburdir/bokmenntir/ritthing-stefnumot-vid-braga-olafsson. Borgarbókasafnið býður til móttöku að ritþingi loknu.