Tölvuleikur Guy horfir hugfanginn á Molotov Girl í Free Guy.
Tölvuleikur Guy horfir hugfanginn á Molotov Girl í Free Guy.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Sean Levy. Handrit: Zak Penn og Matt Lieberman. Aðalleikarar: Ryan Reynolds, Jodie Comer, LilRel Howery, Joe Keery og Taika Watiti. Bandaríkin og Kanada, 2021. 115 mín.

Ef einhvern tíma hefur verið ástæða til að búa til tölvuleik út frá kvikmynd þá er það nú með Free Guy . Þetta er kvikmynd fyrir Z-kynslóðina svokölluðu, fólk fætt milli 1997 og 2012 sem alist hefur upp við nettengda tölvuleiki á borð við Fortnite og Minecraft , við að leika með og á móti fólki hvaðanæva. Kynslóðina sem þekkir með nöfnum svokallaða „jútjúbera“, þ.e. karla og konur sem hafa lífsviðurværi sitt af því að taka upp youtube-vídeó af sér að leika tölvuleiki og lýsa því sem fram fer með tilþrifum og oftar en ekki miklum ýkjum.

Sumir þessara jútjúbera eru moldríkir og við sem eldri erum, foreldrar hinna ungu leikmanna, hristum höfuðið í skilningsleysi yfir þessum nýja veruleika. Auðvitað voru til tölvuleikir þegar ég var barn og unglingur en þeir voru ekki mjög raunverulegir á að líta og þeir sem ætluðu að spila saman urðu að vera á sama stað. Nú þurfa leikmenn ekki lengur að hittast og fólk getur auk þess verið annað en það þykist vera, villt á sér heimildir.

Inn í þennan heillandi en um leið ógnvekjandi veruleika er Frjáls gaur skrifuð og er margoft vísað í myndinni í þekkta tölvuleiki og þá sérstaklega Fortnite . Þar skipta leikendur um „skinn“, þ.e. breyta útliti sínu og geta einnig valið úr vopnum og öðrum tólum og farartækjum. Eru það oft æði skrautlegar persónur og búnaður og börn þekkja fyrir vikið hinar ólíku tegundir skotvopna og sprengjuvarpa. Ofbeldið er líka mikið þó ekkert blóð sjáist Fortnite , óvinir eru skotnir úr fjarlægð og svo birtist dróni og fjarlægir þá. Það er svo til dæmis um sívaxandi tengsl tölvuleikja og kvikmynda að nú eru persónur úr Free Guy komnar í fyrrnefndan tölvuleik og kæmi ekki á óvart ef Lego færi líka að selja sett tengd myndinni.

Í Free Guy segir af náunga sem heitir Guy (Gaur) og er titillinn tvíræður því bæði má skilja hann sem ákall um að frelsa þennan gaur eða að hann sé nú þegar frjáls. Það er hann þó alls ekki því Guy er svokallaður NPC í tölvuleik, persóna sem er ekki leikmaður (NPC er skammstöfun á „non playing character“) og því aðeins persóna í bakgrunninum. Guy er gjaldkeri í banka sem er rændur daglega og honum þykir ekkert athugavert við það því rán og ofbeldi eru daglegt brauð í borginni hans, Free City. Þar ríkir stanslaust stríðsástand með tilheyrandi sprengingum og skothríð. Besti vinur Guy, Buddy, er öryggisvörður í bankanum og á meðan á ránunum stendur liggja félagarnir á gólfinu og ræða daginn og veginn og hvort þeir eigi að skreppa og fá sér ís eftir vinnu. Þetta er býsna skondið og Reynolds er bráðfyndinn í hlutverki hins einfalda og bláeyga Guy sem er alltaf eins klæddur, í blárri skyrtu og drapplituðum buxum og gerir það sama alla daga. LilRel Howery er líka hlægilegur í hlutverki Buddy.

Guy dreymir um að eignast kærustu og sér ákveðna draumadís fyrir sér sem Buddy segir ímyndun eina. Dag einn birtist þessi dís, vígakvendi með sólgleraugu eins og allir „flottu“ borgarbúarnir sem eru í raun leikmenn, fólk í raunheimum að spila þennan ofbeldisfulla leik, Free City . Þegar Guy tekur óvænt upp á því að afvopna bankaræningja og nær sólgleraugunum af honum birtist honum nýr heimur, leikurinn eins og hann birtist leikmönnum á tölvuskjá með sínum bónusstigum, auka-lífum og dóti sem hægt er að grípa úr lausu lofti. Guy hefur einhvern veginn öðlast frelsi innan leikjarins en er eftir sem áður bara forrituð persóna. Draumadísin hans, Molotov Girl, er hins vegar leikmaður, leikjahönnuður að nafni Milly sem er í leit að ákveðnum grunni sem hún telur framleiðanda leikjarins, hinn illa Antwan (sem er stórkostlega ofleikinn af Taika Waititi), hafa stolið af henni og félaga hennar, Keys, sem starfar nú fyrir Antwan. Milly og Guy verða ástfangin í leiknum en sú ást gengur auðvitað ekki upp þar sem hún er í sýndarheimi. Þegar Antwan kemst að fyrirætlan Milly eru góð ráð dýr og þurfa þau Guy að reyna að koma í veg fyrir að hann tortími Free City.

Ég, miðaldra gagnrýnandi og þriggja barna faðir, var orðinn frekar lúinn að mynd lokinni þó ekki hafi hún farið yfir tvær klukkustundir. Þegar myndin var hálfnuð var svo mikið búið að gerast, líkt og í tölvuleik, að mér fannst sem hún hlyti bráðum að enda. Í því felst úthaldsmunur minnar kynslóðar og fyrrnefndrar Z, kynslóð sonar míns sem fór með mér í bíó. Ég er ekki vanur þessu mikla áreiti tölvuleikja eins og þeir líta út í dag og verð bara frekar lúinn af því að horfa á þá. Fyrir börnum og unglingum er þetta daglegt brauð og eðlilegt og ánægjulegt áreiti og ef ekki hefði verið fyrir skemmtilegar persónur, líflegan leik, vel útfærð hasaratriði, tölvubrellur og ágætt grín hefði mér eflaust þótt nóg um Free Guy . Þau Reynolds og Comer halda manni við efnið og myndin heldur vel dampi frá upphafi til enda.

Free Guy vegur salt milli tveggja heima, hins raunverulega og tölvuleikjarheimsins en persónur af holdi og blóði lifa, samt sem áður, fyrir tölvuleikinn og eru háðar honum. Þannig líður leikjahönnuðinum Milly í raun betur í sýndarheiminum en hinum raunverulega, líkt og eflaust mörgu ungmenninu í dag og með góðum vilja má þarna greina ádeilu hjá handritshöfundum á tölvuleiki og möguleg skaðleg áhrif þeirra. Höfundar Free Guy fara heldur ekki leynt með á hverju þeir eru að græða og til hverra er verið að höfða og ekkert svo sem að því. Allir eru jú að græða á einhverjum þegar kemur að afþreyingu.

Sumir hafa líkt myndinni við hina öllu betri Truman Show þar sem Jim Carrey kemst að því að hann er persóna í raunveruleikasjónvarpi og að ekkert er raunverulegt og ekta, öllu er leikstýrt og allir eru að leika hlutverk. Eflaust upplifa margir heiminn þannig og jafnvel eins og þeir séu staddir í tölvuleik. Að lífið sé bara endurtekning þar til við deyjum og að ekkert sé raunverulegt. Það er vissulega efni í mun drungalegri og þunglyndislegri mynd en Free Guy er ágætt sumarléttmeti og vel heppnuð bíómynd sem slík.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson