Bólusett Þórólfur kveðst nokkuð ánægður með tölurnar núna.
Bólusett Þórólfur kveðst nokkuð ánægður með tölurnar núna. — Morgunblaðið/Eggert
Karítas Ríkharðsdóttir Oddur Þórðarson Alls greindust 54 innanlands með Covid-19 í fyrradag. Þar af voru 29 í sóttkví við greiningu og 25 greindust utan sóttkvíar.

Karítas Ríkharðsdóttir

Oddur Þórðarson

Alls greindust 54 innanlands með Covid-19 í fyrradag. Þar af voru 29 í sóttkví við greiningu og 25 greindust utan sóttkvíar.

Af þeim 54 sem smituðust í fyrradag voru 33 óbólusettir, 20 voru fullbólusettir og bólusetning hafin hjá einum til viðbótar.

Alls voru tekin um fjögur þúsund sýni svo að hlutfall jákvæðra sýna var um 1,3 prósent.

Staðan söm á Landspítala

Staðan á Landspítalanum hélst óbreytt á milli daga, tíu liggja inni á spítalanum með Covid-19, allir á bráðalegudeildum og enginn á gjörgæslu. Af þeim eru þrír óbólusettir og sjö fullbólusettir.

Í sóttkví eru alls 2.333 og 816 í einangrun. Lítillega fækkaði í báðum hópum á milli daga.

Þokast í rétta átt

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is að hann væri nokkuð ánægður með tölurnar.

„Við sjáum að þó að það sé munur á milli daga þá þokast þetta hægt og bítandi niður á við og það er bara ánægjulegt. Við erum væntanlega að ná einhvers konar jafnvægi utan um þetta myndi ég halda,“ sagði hann.

Óvenjuhátt hlutfall óbólusettra af þeim sem greinst hafa undanfarna daga með Covid-19 útskýrir Þórólfur með ungum aldri greindra.

„Við erum að greina meira af yngra fólki, börn á skólaaldri og jafnvel börn sem eru ekki inni í bólusetningartölum almennt séð og eru ekki inni í bólusetningaráformum.“