— Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Styrmir fæddist í Reykjavík hinn 27. mars 1938. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi, hinn 20. ágúst 2021.

Hann var sonur Salmaníu Jóhönnu Jóhannesdóttur og Gunnars Árnasonar, framkvæmdastjóra Kassagerðar Reykjavíkur. Foreldrar Salmaníu voru Sigríður Auðunsdóttir frá Svarthamri í Álftafirði og Jóhannes Jónsson sjómaður frá Skálavík og foreldrar Gunnars voru Vilborg Runólfsdóttir úr Vestur-Skaftafellssýslu og Árni Eiríksson, leikari og kaupmaður úr Reykjavík. Systkini Styrmis eru Hjördís f. 1943, d. 2007, Gunnar fæddur 1948, Vilborg fædd 1951 og Margrét fædd 1957. Eiginkona Styrmis var Sigrún Finnbogadóttir (Bista), dóttir Huldu Dóru Jakobsdóttur, bæjarstjóra í Kópavogi, og Finnboga Rúts Valdimarssonar, bæjarstjóra og alþingismanns. Hún lést árið 2016.

Styrmir og Bista giftu sig 5. desember 1964. Þau eignuðust dæturnar Huldu Dóru, f. 17. september 1965 og Hönnu Guðrúnu, f. 12. desember 1967. Synir Huldu og Haraldar Hjaltasonar eru: Styrmir Hjalti, f. 1993, Ágúst Páll, f. 1995 og Jóhannes Árni, f. 2001. Sonur Hönnu og Thant Myint-U er Thurayn Harri, f. 1999.

Styrmir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958, embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1965 og fékk héraðsdómslögmannsréttindi 1973. Hann tók virkan þátt í félagsstörfum á yngri árum, og var formaður Orators 1960-61, formaður Heimdallar 1963-66 og í stjórn SUS 1965-67. Hann var varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins 1966-69 og var formaður Æskulýðsráðs Reykjavíkur og átti sæti í Fræðsluráði Reykjavíkur á þeim tíma. Eftir að eiginkona hans veiktist á geði 1968 dró hann sig út úr félagsstörfum að mestu, en vann að pólitískum hugðarefnum í gegnum störf sín á Morgunblaðinu. Hann tók aftur upp þráðinn í félagsstörfum síðar, fyrst með setu í Auðlindanefnd 1998-2000 og svo í baráttu fyrir því að viðhalda sjálfstæði Íslands, yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum hennar og verndun náttúru landsins. Þetta gerði hann m.a. með þátttöku í samtökunum Orkan okkar, með Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál og með skrifum og ræðum til stuðnings hálendisþjóðgarðinum. Frá 2016 sat hann sér til mikillar ánægju í stjórn Unicef þar til hann lét af þeim störfum í vor sakir heilsubrests.

Styrmir veiktist af heilaslagi 2. febrúar sl. og glímdi eftir það við helftarlömun. Fleiri flókin veikindi fylgdu í kjölfarið. Hans eindregna ósk var að fara heim, og það tókst með stuðningi góðs fólks í byrjun ágúst. Við tóku bjartir dagar við skrif og samveru með fjölskyldu og vinum með útsýni út á sjó og sól. En það fór svo að húmaði að og Styrmir lést um hádegisbil 20. ágúst. Þá hafði hann fyrr um morguninn lokið við að lesa próförk af síðasta pistli sínum í Morgunblaðið og senda hann aftur til blaðsins.

Nær öll starfsævi Styrmis var helguð Morgunblaðinu. Hann byrjaði að skrifa í blaðið tvítugur að aldri og hóf störf á ritstjórn sem blaðamaður 2. júní árið 1965. Hann varð aðstoðarritstjóri 1971 og ritstjóri 1972 ásamt þeim Matthíasi Johannessen og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Hann varð eini ritstjóri blaðsins 2001 þegar Matthías lét af störfum. Styrmir hvarf úr ritstjórastóli fyrir aldurs sakir sjötugur, þann 2. júní 2008, nákvæmlega 43 árum eftir að hann hóf þar störf. Styrmir átti fjölskyldu, vini og pólitíska samtals- og samferðamenn þvert á flokkslínur, en Sjálfstæðisflokkurinn var þó til æviloka flokkurinn hans.

Að ritstjórastörfum loknum hélt Styrmir áfram ritstörfum, skrifaði bækur um þætti í stjórnmálasögu landsins og í sögu Sjálfstæðisflokksins og hélt upp rýni á þjóðfélagsumræðu með pistlaskrifum í Morgunblaðið, á netinu (á Evrópuvaktinni og á styrmir.is) og í umræðuþættinum Hringborðið á RÚV. Vænst þykir fjölskyldunni um Ómunatíð sem kom út árið 2011. Hún er saga eiginkonu hans, Bistu, og er skrifuð í fjölskyldusamvinnu. Styrmir lét sig geðheilbrigðismál og málefni barna ávallt miklu varða og studdi með ráðum og dáð fjölmörg stór og smá verkefni á þeim sviðum. Hann bjó alla tíð að sterkri tengingu við náttúruna, landbúnað, kýr og Borgarfjörðinn eftir fimm sumur að Hæl í Flókadal og tengdist tónlist sterkum böndum á unga aldri þegar hann hóf tónlistarnám hjá Dr. Edelstein. Hann var ástríkur, hlýr, skemmtilegur og ráðagóður faðir, afi, bróðir, vinur og frændi sem er sárt saknað.

Útför Styrmis fer fram frá Hallgrímskirkju í dag kl. 13.30.

Henni verður streymt beint frá forsíðu mbl.is, www.mbl.is

Signi veg þinn sólin blíð, elsku pabbi minn.

Ég skrifa til þín síðar.

Þín Hanna Gunna.

Hanna Guðrún Styrmisdóttir.

Allar manneskjur hafa gildi. Allar manneskjur eru mikilvægar. Þessi einfaldi sannleikur sem ég ólst upp við var ekki settur í orð, hann bara var. Rétt eins og kærleikurinn og grunnhlýjan sem er svo sýnileg á myndum frá uppvaxtarárum okkar systranna og myndum af afanum með ungum dætrasonum – pabbi stendur á bak við, heldur um og beygir sig – til að vera jafn okkur hinum. Það vorum ekki bara við sem nutum þessarar grunnhlýju og þessa sterka baklands. Systkin, tengdasystkin, frændsystkin hans og okkar; vinir og samferðafólk gerðu það líka. Við hins vegar nutum þeirra forréttinda að fá grunnhlýjuna skilyrðislausa; festuna, beinskeyttnina, baráttuandann, kjarkinn og hörkuna sem líka þurfti til að komast af í ólgusjó þess vinnulífs sem hann valdi sér, og þess einkalífs sem örlögin færðu honum, sáum við systurnar og synir okkar afar sjaldan.

Við sáum þó meira til þessa harðsnúna kjarna síðustu mánuðina í lífi pabba því það þurfti sterkan vilja í hinstu baráttuna. Það þurfti stóran kjark – og mikinn skammt af þolinmæði – til að byrja aftur að skrifa eftir áfallið með einum fingri vinstri handar, til að prófa sig áfram í hjólastól (sem hann náði þó ekki sátt við) og til að vera heima í nýjum veruleika eftir hálfs árs dvöl á sjúkrahúsi.

Við fjölskyldan viljum færa öllum þeim sem komu að því að styðja hann og okkur þessa síðustu mánuði á spítala og ekki síst síðustu vikurnar og dagana heima innilegar og hlýjar þakkir. Það þarf hugrekki, þolinmæði, kærleika og elju til að hjálpa fólki til styrks á ný eftir áföll – og til að styðja fólk síðustu skref lífsins.

Ég hef sagt frá því annars staðar að ég hafi upplifað missi móður minnar eftir að hún veiktist fyrst á geði þegar ég barn. Það var þó ekki fyrr en síðustu mánuði sem ég fór að skilja að sá missir náði einnig til pabba. Auðvitað missti ég þau ekki í raunveruleikanum – en ungu, björtu og hláturmildu manneskjurnar sem að fæddu mig og ólu mig upp fyrstu rúmu tvö ár lífsins voru ekki lengur. Þess í stað komu einstaklingar sem höfðu öðlast djúpa virðingu fyrir lífinu og þjáningum þess; sem sýndu okkur hinum með mildi sinni, reisn og þolgæði hvernig hægt er að halda áfram að lifa, njóta, gleðjast og gefa af sér í gegnum ótalmörg áföll lífsins. Ég naut stuðnings pabba sem barn, ung manneskja og fullorðin kona og verð ávallt full þakklætis fyrir að synir mínir og systursonur fengu notið stuðnings hans á upphafsárum síns lífs. Bækurnar sem hann las upphátt, knúsin sem hann gaf, ferðirnar í fjöruna, leikirnir á gólfinu, heitu umræðurnar sem hann kveikti, sögurnar sem hann sagði, ráðin sem hann deildi og hlustunin sem hann veitti er vegarnesti sem mun styrkja þá og styðja allt þeirra líf.

Ég lýk þessum orðum á litlu kvæði eftir Höskuld Eyjólfsson sem varð á vegi mínum á Fésbókinni nú í ágúst og ég las fyrir pabba. Það gladdi hann mjög enda fjallar það um uppáhaldsstaðinn hans á þessari jörð:

Einhvern finn ég innri frið

þó æði vindar svalir

þegar bjartir blasa við

Borgarfjarðardalir.

Hulda Dóra Styrmisdóttir.

Afi minn Stymmi (því fyrir mér var hann alltaf Afi Stymmi, aldrei Styrmir) var fastur hluti af tilverunni frá því ég man eftir mér. Af honum lærði ég margt sem hefur reynst mér vel og ég mun búa að alla ævi, bæði eitthvað sem hann kenndi mér beint en aðallega bara af því að hafa þekkt hann.

Ég eyddi miklum tíma í Kópavoginum hjá ömmu og afa þegar ég var lítill og þótt heimsóknum hafi fækkað og þær styst þegar ég varð eldri þá voru þær samt tíðar. Það er alræmt meðal þeirra sem þekkja okkur bræðurna hversu oft við vorum í matarboðum, en þessi matarboð voru iðulega matur hjá ömmu og afa í Kópavogi.

Góðar minningar af heimsóknum þangað eru of margar til að telja. Þær renna sumar saman í minningunni og eflaust eru margar þeirra litaðar af fjarlægð tímans en allar einkennast þær af hlýju. Við afi fórum ótalmargar ferðir í fjöruna við Marbakka eða gönguferðir inn Fossvoginn að Nesti að kaupa nammi. Afi að baka pönnukökur. Afi að pikka á tölvuna og tala í símann. Afi að kveikja upp í arninum.

Mér þótti líka alltaf gaman að koma til afa á Mogganum. Þótt ég hafi ekki skilið fyrr en miklu síðar hvað ritstjóri gerir og skoðunarferðir um prentsmiðjuna voru algjört ævintýri fyrir 6 ára strák.

Afi og amma drógu okkur bræðurna oft á sinfóníutónleika og óperur þegar við vorum litlir, við litla kæti. Nú er það ég sem dreg aðra með mér.

Við matarborðið hjá ömmu og afa lærði ég að eiga skoðanaskipti. Oftast var pólitík eða eitthvað málefni líðandi stundar til umræðu. Sat þá afi við enda borðsins og af list sem hann hafði fullkomnað yfir mörg ár hleypti hann öllu í háa loft með einu kommenti. Umræðurnar sem fylgdu í kjölfarið voru alltaf líflegar svo ekki sé meira sagt. Þegar komið var að eftirréttinum voru þó allir orðnir vinir aftur.

Á síðari árum spurði afi alltaf þegar ég hitti hann hvað við unga fólkið værum að tala um þessa dagana. Töluðum við þá tímunum saman um pólitík, fréttir og þjóðfélagsmál. Mér brá örlítið í brún þegar ég tók eftir því að einhver setning sem ég hafði sagt í einu samtali okkar birtist á síðum Morgunblaðsins viku síðar.

Afi reiddist okkur bræðrum aðeins einu sinni. Við vorum að rífast eitthvað heiftarlega eða slást. Hann skildi okkur að og sagði okkur að við „mættum ekki vera svona vondir hvor við annan“. Sama hversu mikið vesen var á okkur, sama hversu mikil læti við vorum með eða hversu óþekkir við vorum, þá fylgdi skömmunum aldrei nein reiði fyrr en við fórum að meiða hvorn annan. Þar lágu mörkin. Og það er í raun kjarninn í öllu því sem ég lærði af afa, hvað sem bjátar á þá er maður góður við fjölskyldu og vini.

Ég er einstaklega þakklátur fyrir að hafa átt Afa Stymma að í 28 ár, en ég mun sakna hans það sem eftir er.

Styrmir Hjalti Haraldsson.

Þegar ég var lítill fannst mér mjög skrýtið að komast að því að fólk vissi hver afi minn var. Það þekkti hann sem ritstjóra Morgunblaðsins, merkilegan mann úr hinum pólitíska heimi, en vissi ekki að hann var auðvitað bara Afi Stymmi. Afi Stymmi, sem alltaf var til í að fara í bófahasarleiki með okkur Styrmi Hjalta, bróður mínum. Sagði hiklaust „Já, að sjálfsögðu,“ þegar við báðum um að fara út á vídjóleigu að leigja spólur og kaupa nammi, gengum bara rakleiðis út í bíl.

Það var svo gaman að leika við afa því hann lék sér svo innilega; sagði alltaf „RATATATATA“ þegar hann skaut úr byssunni sinni í þykjustunni og hló ógurlega. Þar brutust sennilega út hæfileikar erfðir frá afa hans, Árna Eiríkssyni leikara. Á þeim tíma fannst mér þau byssuhljóð mjög hallærisleg því við bræðurnir gátum sko hermt eftir alvöru byssum en núna þykir mér ofboðslega vænt um þessi ratatöt hans afa. Vonandi get ég nýtt mér þau í bófahasarleikjum minna barna og barnabarna.

Alveg eins og mér fannst skrýtið að allir virtust kannast við afa minn varð ég jafn undrandi að komast að því að ekki allir hefðu alist upp við að ræða, og helst rífast um, pólitík yfir kvöldmatnum og raunar við hvert tækifæri. Það tók mig mörg matarboð utan minnar fjölskyldu að átta mig á því að svona væri þetta ekki alls staðar. Hann afi hafði nefnilega einstakt lag á því að æsa upp okkur hin sem við borðið sátum, oftast með pólitískum umræðuefnum, og fylgjast svo glottandi með rökræðunum, sköpunarverkinu. Svona var hann stríðinn og eflaust eru fleiri en fjölskyldan sem þekkja til þessa. Oftast hófst þetta á því að Afi Stymmi spurði okkur dætrasyni sína álits um eitthvert málefni líðandi stundar sem hafði líklega komið fyrir í neðanmálsgrein í Der Spiegel í mesta lagi og við könnuðumst auðvitað ekkert við, lék sig þá svakalega hissa og sagði „Hva, fylgist'ekki með?“. Í kjölfarið fylgdi svo venjulega glettið bros og innilegur hlátur áður en hann útskýrði um hvað málið snerist og kom af stað heitum umræðum yfir matnum. Enginn var undanskilinn þessu. Ég minnist þess þegar ástralskur vinur minn kom í heimsókn og borðaði með okkur eitt kvöldið, en þá var auðvitað áströlsk pólitík rædd þegar í stað og hann krafinn um afstöðu til Ruperts Murdoch. Svona var hinn pólitíski skóli Styrmis Gunnarssonar sem við dætrasynir hans búum allir að og hefur án efa skilað sér í kreðsur okkar allra. Hann spurði okkur reglulega hvað við vinirnir, eða „okkar klíkur“ eins og hann orðaði það, ræddum helst en þau svör rötuðu svo gjarnan í greinarskrif í Moggann. Ég fór að vanda svörin eftir þá uppgötvun. Svona var þetta, hann afi virtist muna og vita allt þrátt fyrir að hafa allt að því stært sig af lágum einkunnum bæði úr MR og lagadeildinni. Hann fylgdist með.

Mér mun alltaf þykja afskaplega vænt um hlýjuna sem skilyrðislaust mætti manni hjá ömmu og afa á Marbakkabraut, þrátt fyrir margvísleg áföll tengd geðrænum veikindum ömmu Bistu. Við bræðurnir gátum alltaf treyst á stuðning þeirra beggja í hverju sem var, sérstaklega í léttvægum rifrildum við foreldra okkar sem, eftir á að hyggja, höfðu líklega oftast rétt fyrir sér. Þess vegna finnst mér enn þá skrýtið, eftir öll þessi ár, að hugsa til þess að fólk þekki hann í hlutverki ritstjóra Morgunblaðsins og sjálfstæðismanns en ekki sem Afa Stymma. Ég vildi óska þess að fleiri hefðu fengið að kynnast honum í afahlutverkinu, hlutverkinu sem hann var að mínu mati bestur í.

Undanfarna daga hef ég þó komist að því að þessi litli strákur sem spilaði fótbolta á malarvellinum við Melaskóla hafi í gegnum árin snert líf svo margra að óhætt er að segja að hans verði sárt saknað víða. Ég veit að ég mun alltaf sakna elsku Afa Stymma.

Ágúst Páll Haraldsson.

Þegar Styrmir og Sigrún systir mín giftu sig geisaði kalt stríð í heiminum. Þá bjó ég handan við svokallað járntjald sem ekki var lengur ímyndað en var orðið áþreifanlegur múr sem enginn komst yfir nema fuglinn fljúgandi. Gifting þeirra gladdi mig óendanlega og afsannaði þar með forneskjulegan hugsunarhátt um að „engi maður skyli óvinar síns vinur vera“. Í meira en hálfa öld ræddum við Styrmir um það sem kallað er „pólitík“ en er í raun spurningin um það hvernig mannkynið á að lifa góðu lífi á jörðinni án þess að eyðileggja hana. Til þess verðum við að vernda hina varnarlausu, menn og málleysingja. Engan hef ég þekkt sem elskaði og virti börn eins og Styrmir. Öll börn, ekki aðeins sín eigin, heldur líka börnin mín og barnabörnin og þau virtu hann og elskuðu á móti. Ótal börn áttu hann að besta vini. Forna þulan um óvini er úrelt rugl. Auðvitað á heimurinn að vera þannig að við getum elskað alla og það byrjar á börnunum. Þannig var Styrmir leiðarljós þeirra og þau munu virða og elska öll börn. Farðu í friði, Styrmir, við munum öll sakna þín.

Guðrún Finnbogadóttir.

Styrmir föðurbróðir minn minntist þess með bros á vör þegar hann, fjögurra ára gamall á Vesturgötu 18, var sendur til að ná í Moggann. Hann steig í sloppinn og datt í stiganum en hélt fast um blaðið. Þetta var hans fyrsta minning og segja má að þarna hafi verið fyrirboði á ferð.

Afi hans Árni Eiríksson kaupmaður og leikari byggði Vesturgötu 18 en lést fyrir aldur fram frá sex börnum. Styrmir var mjög náinn Vilborgu Runólfsdóttur ömmu sinni og horfði á hana standa af sér veður og vind. Sjálfur var hann þrjóskasti maður sem ég hef kynnst og sýndi óheyrilega hörku og seiglu í gegnum lífsins strauma.

Stymmi hefði gjarnan verið bóndi, helst kúabóndi. Áhugi hans og umhyggja fyrir íslenskum bændum stafaði alfarið frá tíma hans á Hæli í Flókadal í Borgarfirði þar sem hann var í sveit frá tólf til sautján ára aldurs. Stymmi sagði mér að tíminn á Hæli hefði verið hamingjusamasti tíminn í lífi hans. Á Hæli kynntist hann Guðmundi Bjarnasyni bónda sem hann bast sterkum böndum. Hann mat Guðmund meira en aðra menn. Þegar Stymmi kom fyrst að Hæli var enn ekkert rafmagn í Flókadal. Hann lærði að beita orfi og ljá og flytja hey á hestum. Fyrir Stymma var það ómetanleg lífsreynsla að kynnast þessum mörkum gamla og nýja tímans.

Það er mér ljóst að kynni Stymma við fólkið á Hæli sköpuðu jarðveginn og voru leiðarljós hans í samskiptum við þann fjölda fólks sem hann hjálpaði á lífsleiðinni. Allir gátu leitað til hans. En vænst þótti Stymma um litla fólkið. Stymmi var með eindæmum barngóður og gaf öllum litlum börnum í kringum sig óskipta athygli. Pabbi minn Gunnar og Stymmi áttu báðir tvær stelpur. Það var alltaf náið samband á milli pabba og Stymma og fyrir okkur dætur þeirra þá voru þeir líkir feður. Það má segja að við fjórar höfum séð föður okkar speglast í föðurbróður alla tíð.

Á menntaskólaárunum bjó ég um tíma hjá Stymma og Bistu þegar foreldrar mínir fluttu til útlanda. Stymmi var stöðugleiki og öryggi fyrir mig og alltaf var hann til staðar – fyrir mér var ekki betri mann að finna. En maður vissi líka hvenær best væri að halda sig til hlés. Þegar gassagangurinn í mér og Hönnu Gunnu dóttur hans stóð sem hæst tókum við eitt sinn bílinn hans og festum hann svo illa upp við Hrafntinnusker að litlu munaði að bíllinn stórskemmdist. Stymmi þurfti að koma ásamt bifvélavirkja að sækja okkur um miðja nótt. Þá var best að þegja alla leiðina heim – Hekla var um það bil að fara að gjósa í framsætinu.

Síðustu árin heimsótti Stymmi þá staði sem honum þótti vænst um. Hann fór á slóðir ömmu sinnar í Skaftafellssýslu, hann heimsótti Hæli og fór um Vestfirði þaðan sem móðir hans var ættuð. Það sem skipti Stymma mestu var fólkið í landinu. Samhengi sögunnar var í fyrirrúmi og hann vildi að fólk gleymdi ekki úr hvaða jarðvegi við erum sprottin. Fyrir mér var hann besta gerð af íhaldsmanni.

Nú er skarð fyrir skildi. Það reynist mér erfitt að kveðja frænda minn.

Hann var einstakur, ég þakka það af öllu hjarta.

Meira á www.mbl.is/andlat

Halla Gunnarsdóttir.

„Að byggja mér lítinn kofa norður við Geirsá.“ Þannig lýsti Styrmir framtíðardraumi sínum við okkur systkinin, þegar við hittum hann við jarðarför Sigrúnar Finnbogadóttur konu hans. Geirsá er árspræna í Flókadal í Borgarfirði, á norðurmerkjum jarðarinnar Hæls. Á góðum sumardögum örlar hún í grjóti, auðstokkin eða stikluð og tilgangslaust að bleyta þar færi.

Aldrei varð af kofabyggingu, en orð Styrmis lýsa hug hans til jarðarinnar, þar sem hann dvaldi í fimm sumur sem unglingur, og til fólksins, sem þar bjó, foreldra okkar, móðurbróður og afa. Þangað kom hann sumarið 1950, 12 ára stráklingur, eftir að maður frænku hans, okkur ótengt fólk, hafði spurt, hvort ekki vantaði sumardreng. Á Hæli kynntist Styrmir miklum breytingum á búskaparháttum og aðstöðu allri. Ræktun og húsbyggingar stórefldust. Dráttarvél og jeppi voru til á bænum, þegar hann kom, en hestar voru mikið notaðir, kýr handmjólkaðar og heyjað á engjum með orfi, ljá og hrífu. Styrmir var þátttakandi í öllum útistörfum og hafði metnað fyrir því, að Hælsbændur væru ekki annarra eftirbátar.

Eitt sinn var tekin upp kvikmynd, þar sem má sjá heyband á Hæli og hey reitt heim á hestum. Þar bregður Styrmi fyrir, þar sem hann var að leggja á reipin. Myndbrotið fékk hann í hendur fyrir hálfu öðru ári og sagði þá frá áfalli, sem hann varð fyrir í þetta sinn og taldi það versta, sem hann lenti í á Hæli: Þegar síðasta heylestin kom heim ætlaði Styrmir að lyfta sátu af klakki, orkaði ekki og heyrði, að Jakob móðurbróðir okkar tautaði við einhvern nærstaddan: „Hann er ekki kvensterkur!“ Síðar á ævinni átti Styrmir eftir að sýna, að andlegan styrk hafði hann mörgum meiri.

Minningabrot frá sumrinu 1953: Verið er að hirða hey af túni í hlöðu og beðið eftir því, að dráttarvélin birtist með heysæti í eftirdagi. Ungviðið klifrar í þaksperrum og steypir stömpum í heyinu. Styrmir, 15 ára, situr þar og les „Varðberg“, vikublað, sem var málgagn „Lýðveldisflokksins“ frá árunum 1952-1953. Hann var áskrifandi og fékk blaðið sent með mjólkurbílnum. – Móðurafi okkar, Guðmundur Bjarnason, studdi Sjálfstæðisflokkinn einn heimilismanna. Þeir Styrmir voru samverkamenn og ræddu saman. En faðir okkar, Ingimundur Ásgeirsson, hafði mikla nautn af því að hleypa sumarstráknum upp með pólitískum samræðum við kvöldmatarborðið. Mátti borðið þola þung áhersluhögg Styrmis. Ósættið varð aldrei langætt.

Þótt sumardvölinni lyki hélt Styrmir vináttu og tryggð við Hælsfólk, kom oft sem gestur, ýmist einn eða með vinum sínum frá skólaárunum og síðan Sigrúnu konu sinni og stundum dætrunum. Ekki var það síst í tengslum við haustréttir, þótt fyrrum hefði okkur þótt áhugi hans meiri á kúm en sauðfé. Þá gafst líka tækifæri til þess að hitta fólk, sem hann hafði kynnst í sumardvölinni.

Styrmir hélt áfram að vitja Flókadals, þó að nýtt fólk kæmi að Hæli, gjarnan í för með Gunnari bróður sínum, sumardreng á Hæli. En eins og gengur fækkaði samfundunum, sem urðu helst við merkisafmæli eldra fólksins og á síðustu kveðjustundum þess, en taugin til þeirra bræðra slitnaði aldrei.

Við þökkum Styrmi 70 ára vináttu. Þar er góður maður genginn.

Innilegar kveðjur til dætranna, Huldu Dóru og Hönnu Guðrúnar, afkomenda þeirra, systkina Styrmis og fjölskyldna þeirra.

Systkinin frá Hæli:

Björk, Ásgeir, Ingunn og

Helga Ingimundarbörn.

Það var ekki alveg stórátakalaust að hitta nýja nágrannann og fjölskyldumeðliminn Styrmi Gunnarsson. Hann var moggaritstjóri, Natósinni og íhaldskarl, minna mátti það ekki vera.

Maðurinn sem ég hitti fyrir 35 árum var sannarlega íhald, kommafjandi og hernaðarsinni en slík manneskjubaun að ég fyrirgaf honum það allt strax við fyrstu samskipti.

Nærgætinn við skoðanir mínar hlustaði hann samviskusamlega, gagnrýndi og hló.

Eftir því sem ég varð óhræddari við að viðra stjórnmálaskoðanir mínar við hann því harðara tók hann á móti, svolítið eins og í tennis.

En alltaf var dillandi húmor, alltaf hlegið, alltaf gaman ... því við vorum sammála um að vera alltaf ósammála.

Ég mun sakna Styrmis.

Öllu hans góða fólki sendi ég kveðju okkar Rúts frá miðbaug.

Þórunn Hreggviðsdóttir.

Styrmir Gunnarsson var einstaklega kraftmikill, öflugur og hugsjónaríkur ritstjóri Morgunblaðsins. Hann naut trausts fólks í öllum greinum þjóðlífsins. Hann sýndi öllum þann trúnað sem er einkenni góðra blaðamanna. Hann var kröfuharður við sjálfan sig og einstaklega agaður. Frá morgni og þar til blaðið fór í prentun síðla kvölds var hann vakinn og sofinn yfir öflun frétta, vinnslu þeirra og frágangi.

Þegar Matthías Johannessen og Styrmir ritstýrðu Morgunblaðinu af miklum metnaði var rekstur blaðsins arðbær og gaf ritstjórum svigrúm til að kosta nokkru til við öflun og vinnslu frétta. Sé blaðinu frá þessum árum flett má sjá að efnistök voru önnur og dýpri en nú tíðkast. Áskrift að blaðinu var mikil. Ekki þurfti að haga forsíðu eða fréttavali og efnistökum á þann veg að höfðaði til kaupenda með uppslætti um eitthvað sem þótti vænlegt til að auka söluna.

Styrmir tók virkan þátt í að breyta starfsháttum á ritstjórninni með nýrri tækni. Þar var Morgunblaðið í fararbroddi og einnig með netútgáfunni mbl.is sem ávann sér fljótt vinsældir og mikla útbreiðslu.

Alúð við innra starf á ritstjórn Morgunblaðsins gaf því styrk og trúverðugleika út á við. Rödd blaðsins var áhrifamikil í samfélaginu hvort sem litið er til stjórnmála, menningarmála eða annarra mikilvægra grunnstoða góðs og heilbrigðs samfélags.

Áður fyrr var talað um Morgunblaðsmenn, Tímamenn og Þjóðviljamenn í umræðum um stuðning kjósenda við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Sósíalistaflokkinn/Alþýðubandalagið.

Í ritstjóratíð Styrmis voru dregin skil á milli Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Sjálfstæði blaðsins kallaði á meiri íhugun og rökstuðning við ritun ritstjórnargreina en þegar þær snerust um að túlka flokkslínu á jákvæðan hátt. Sjálfstæðið kallaði einnig á festu gagnvart stjórnmálamönnum sem töldu sjálfsagt að blaðið túlkaði stefnu þeirra og störf gagnrýnislaust. Þarna reyndi oft á viðnámsþrótt Styrmis sem hélt málstað blaðsins fram af festu. Hann lét þó aldrei af hollustu sinni við sjálfstæðisstefnuna. Viðhorf hans markaðist mjög af stefnu og starfsháttum Sjálfstæðisflokksins á viðreisnarárum sjöunda áratugarins. Blasti það við öllum sem lásu greinar hans allt til lokadags.

Síðasta samstarfsverkefni okkar Styrmis snerist um útgáfu vefsíðunnar Evrópuvaktarinnar. Til hennar stofnuðum við, báðir komnir á eftirlaun, til að berjast gegn áformum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Styrmir taldi baráttunni ekki lokið árið 2015 þar sem alþingi hefði ekki samþykkt afturköllun ESB-umsóknarinnar. Hann beitti sér síðan fyrir að stofnað var félag innan Sjálfstæðisflokksins til að árétta nauðsyn varðstöðunnar um fullveldi þjóðarinnar, sem var honum hjartans mál. Hann var síður en svo talsmaður einangrunar Íslands heldur vildi að við stæðum í báða fætur í alþjóðasamstarfi.

Yfir öllum samskiptum við Styrmi er mikil birta. Hann var ljúfur og góður vinur. Umhyggjusamur með viðkvæma lund.

Blessuð sé minning Styrmis Gunnarssonar.

Björn Bjarnason.

„Styrmir,“ heyrist í símanum, röddin lág og ákveðin, ritstjórinn á línunni, fyrst á ritstjórn Morgunblaðsins í Aðalstræti, svo í Kringlunni og síðan hér í Hádegismóum. Erindin voru margvísleg, ómöguleg fyrirsögn á forsíðu, hvernig mér dytti í hug að setja tiltekna frétt á síðu fjögur, væri ekki ráð að tala við fleiri í fréttinni á blaðsíðu tíu.

Styrmir Gunnarsson markaði djúp spor í blaðamennsku og þjóðmálaumræðu á Íslandi. Hann stýrði Morgunblaðinu ásamt Matthíasi Johannessen þegar blaðið var í miklum uppgangi og þeir voru öflugt og magnað tvíeyki. Þegar Matthías hætti sat Styrmir síðan einn á ritstjórastóli.

Segja má að Styrmir hafi verið eitt með blaðinu. Hann lagði línurnar í upphafi dags og var á línunni þegar síðustu síður blaðsins voru á leið út í prentsmiðju um eða upp úr miðnætti.

Styrmir kom víða við og var maður mikilla hugsjóna. Hann hafði áhuga á öllu, var forvitinn, síspurull og vildi vita allt; hvað væri að gerast, hvers vegna og hver stæði á bak við það. Hann vildi ekki bara vita hvað væri að gerast í ákveðnum málum, heldur skynja tíðarandann, hvað væri nýjum kynslóðum efst í huga, hvaða hræringar væru í samfélaginu.

Hann var líka ótrúlega vel heima, hvort sem það var um innanlandsmál, eða erlend málefni, og ég minnist þess vart að hann hafi rekið í vörðurnar nema umræðuefnið væri fótbolti.

Það var gott að leita ráða hjá Styrmi, hann réði heilt og af yfirsýn. Hann var ekki skaplaus, en ávallt rólegur og yfirvegaður þótt mikið gengi á í kringum hann – og kannski sérstaklega þá. Hann var kröfuharður, en gerði líka miklar kröfur til sjálfs sín.

Styrmir vildi veg Morgunblaðsins og mbl.is sem mestan. Blaðið átti að vera helsta uppspretta upplýsinga í íslenskri fjölmiðlun og endurspegla samfélagið allt og um leið að hafa áhrif. Eftir lestur blaðsins átti lesandinn að geta myndað sér skoðun á þeim málum, sem efst voru á baugi, og hann átti ekki að þurfa að leita annað til að vita hvað væri að gerast. Blaðið bar þessum metnaði vitni.

Hann lagði ríka áherslu á að gera menningarlífinu rækileg skil með viðtölum og gagnrýni og var í fararbroddi í umræðu um umhverfismál.

Honum var annt um hag íslensks samfélags og sérstaklega bar hann fyrir brjósti velferð þeirra, sem minnst mega sín. Hann taldi að á Íslandi þyrfti enginn að búa við fátækt og skort, síst af öllu börn, og það ætti að vera í forgangi hjá öllum stjórnmálaflokkum að skapa réttlátt samfélag á Íslandi þar sem allir gætu notið sín að verðleikum. Lagði hann sig fram um að halda stjórnmálamönnum við efnið í fréttaflutningi blaðsins og leiðaraskrifum.

Lýðræðið var Styrmi dýrmætt og honum var mikilvægt að það missti ekki gildi sitt. Sá hann fyrir sér að nota mætti framfarir í tækni til þess að koma á beinu lýðræði. Þannig mætti færa valdið beint í hendur kjósenda og styrkja þar með lýðræðið og efla.

Geðheilbrigðismál höfðu sérstakan sess hjá Styrmi og er óhætt að segja að skrif Morgunblaðsins undir hans stjórn hafi valdið straumhvörfum í þeim efnum, ekki síst í viðhorfi almennings til þeirra. Styrmir sá til þess að mikið var fjallað um strauma og stefnur í geðheilbrigðismálum í blaðinu og lagði sitt af mörkum til að opna umræðuna um þau og uppræta fordóma. Umhyggja hans fyrir þessum málum náði einnig til málfars í blaðinu og brýndi hann fyrir blaðamönnum að gæta þess að nota ekki niðrandi líkingar eða orðfæri, sem vísaði til geðheilbrigðis, í fréttum og frásögnum.

Styrmir var heill og góður og það var lærdómsrík reynsla og heiður að fá að starfa náið með honum um árabil og njóta leiðsagnar hans og yfirsýnar og fá að rökræða við hann og deila. Það var líka gaman að vinna með Styrmi, hann hafði gott skopskyn og gat verið fyndinn og stríðinn. Hann naut þess að mæta í vinnuna á hverjum degi og það smitaði út frá sér.

Það er erfitt að trúa að hann sé horfinn á braut og þurfa með sorg í hjarta að sætta sig við að þegar síminn hringir mun ekki framar heyrast á hinum endanum: „Styrmir.“

Huldu Dóru og Hönnu Guðrúnu og sonum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur um leið og ég kveð kæran vin.

Karl Blöndal aðstoðarritstjóri.

Ég hafði ekki unnið lengi á Morgunblaðinu, kannski þrjú eða fjögur ár, þegar ég sat inni á skrifstofu Styrmis í framhúsinu við Aðalstræti, þar sem hann var að setja mig inn í flókið fréttaverkefni sem hann og Matthías höfðu ákveðið að setja mig í. Mér er enn minnisstætt þegar Styrmir sagði við mig, að hnitmiðaðri kynningu á verkefninu lokinni: „Og hér er ekki um neitt hraðaupphlaup að ræða, Agnes mín. Þú færð þann tíma sem þú þarft til þess að klára verkið.“ Ég sagði ritstjóranum að ég hefði alltaf haldið að hann hefði ekki hundsvit á íþróttum. Hann hélt nú ekki og upplýsti mig um að sem strákur hefði hann keppt í fótbolta með KR. Ég sagði þá við hann að ég væri viss um að hann hefði verið full back og hann sagði undrandi: „Já, hvernig veistu það?“ Ég sagði honum að þeir lélegustu væru alltaf settir í þá stöðu! Þetta fannst ritstjóranum mínum mjög fyndið og sagði að hann hefði aldrei vitað hversu óvirðulega stöðu hann lék á sínum stutta knattspyrnuferli.

Seinna skildist mér að það hefði verið annar hvor félaga minna úr Víkingi frá því við vorum börn, fréttastjórarnir Sigtryggur (Siddi) eða Ágúst Ingi (Gústi), sem lýsti því fyrir ritstjóranum þegar hann var nýbúinn að ráða mig, að ég hefði þótt nokkuð skæð í hraðaupphlaupum þegar ég keppti fyrir Víking í handbolta.

Þessi litla saga af Styrmi finnst mér lýsa honum ágætlega. Hann hafði afskaplega lítið vit á íþróttum en hikaði ekki við að nota íþróttamál ef hann taldi að það auðveldaði sér að koma því til skila sem hann vildi að kæmist til skila.

Það voru mikil forréttindi að starfa undir handleiðslu og ritstjórn þeirra Styrmis og Matthíasar. Í 17 ár starfaði ég undir beggja ritstjórn á Morgunblaðinu og svo átta árum betur undir ritstjórn Styrmis eins. Af engum hef ég lært jafn mikið og af þeim tveimur. Raunar tel ég óhætt að upplýsa það hér og nú að ég blótaði á laun um langt skeið eftir að Styrmir hætti á Morgunblaðinu því að í reynd starfaði ég áfram í ellefu ár og fjóra mánuði undir ritstjórn Styrmis eftir að hann hætti. Staðreyndin er sú að ég leitaði alltaf í smiðju hans þegar ég var í verkefnum sem ég taldi betra að bera undir hann og leita ráða hjá honum. Hann bjó yfir þeirri dómgreind sem ég treysti best, hafði yfirburðaþekkingu og vildi ávallt ráða mér heilt, sem hann gerði oft í mánuði, allar götur þar til ég hætti á Morgunblaðinu haustið 2019, þá nýorðin 67 ára gömul. Ekki síst vegna okkar góðu vináttu og gagnkvæma trausts þótti mér ofurvænt um það, þegar Mogginn hélt mér veglegt kveðjuhóf þegar ég hætti, að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, skyldi bjóða Styrmi sem eins konar leynigesti í hófið, því honum var alla tíð fullkunnugt um vináttu okkar Styrmis.

Það leið ekki á löngu, eftir að ég byrjaði á Mogga, þar til við Styrmir urðum góðir vinir og entist sú vinátta út ævi hans, án þess að nokkurn tíma bæri skugga á. Vissulega gátum við tekist á, meira að segja hnakkrifist, en alltaf vorum við sömu vinirnir. Reyndar hafði hann yfirleitt betur, ef við á annað borð tókumst á, því hann hafði þessa „sögulegu yfirsýn“ sem hann benti mér oft á að ég hefði ekki, en huggaði mig um leið með því að með aldrinum og aukinni þekkingu og reynslu myndi ég smám saman öðlast slíka yfirsýn. Enda steinhættum við að takast á löngu áður en hann hætti á Morgunblaðinu 2. júní 2008.

Styrmir var afskaplega víðsýnn, réttlátur, hreinskiptinn og fordómalaus maður, sem hafði afar góð áhrif á flumbruna mig. Hann var kröfuharður og metnaðarfullur fyrir hönd Morgunblaðsins í garð okkar á ritstjórninni, en það fór ekki fyrir brjóstið á okkur sem störfuðum undir hans stjórn, því sama hversu ríkar kröfur hann gerði til okkar um frammistöðu og gæði frétta eða annars efnis sem unnið var á ritstjórn Morgunblaðsins, þá vissum við alltaf að hann gerði mun meiri kröfur til sjálfs sín.

Vissulega gat hann verið mjög sparsamur á hrós, þegar við höfðum gert eitthvað sérstaklega vel, skúbbað, skrifað frábæra grein eða greinaflokk, en þannig var Styrmir bara. Mér er minnisstætt á einum morgunfundi fréttadeildar í Kringlunni, man ekki nákvæmlega hvaða ár, þegar Styrmir hóf fundinn á því að hrósa ritstjórninni fyrir frábært blað þennan dag. Siddi fréttastjóri var á vaktinni þennan dag og þegar Styrmir hafði lokið máli sínu sagði Siddi: „Augnablik, Styrmir. Ég ætla að skrá hjá mér dagsetninguna og ártalið á þessum degi þegar þú hrósaðir okkur!“

Ég kveð vin minn og ritstjóra með söknuði en jafnframt miklu þakklæti fyrir allt sem hann gaf mér af rausn sinni. Ég mun ávallt minnast Styrmis með væntumþykju og hlýju. Einstakur maður er genginn.

Dætrum hans, Huldu Dóru og Hönnu Guðrúnu, og sonum þeirra votta ég mína dýpstu samúð og bið algóðan guð að vaka yfir þeim.

Agnes Bragadóttir.

„Þú ert frábær!“ kallaði Styrmir á eftir mér er ég gekk út af skrifstofu hans í lok fyrsta vinnudags míns hjá honum snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þann dag hafði ég flust milli deilda á Morgunblaðinu, komin upp á ritstjórn og þekkti þennan Styrmi ekki neitt. Ég horfði forviða á hann því enginn hafði sagt mér áður að ég væri frábær. Að auki fór það orð af Styrmi að hann talaði ekki við neinn, lokaði sig bara inni á skrifstofu. Þvílík öfugmæli! Þessi orð hans lögðu grunninn að samstarfi okkar næstu áratugina.

Styrmi mætti til vinnu fyrstur á morgnana og var síðastur heim. Hélt svo áfram að heiman fram á nótt. Þannig gekk þetta allan ársins hring. Á þessum árum kynntist ég honum í gegnum samskipti og samtöl. Þótt munnurinn segði eitt sögðu augun og fas kannski annað. Styrmir átti ótrúlega auðvelt með að lesa í fólk og aðstæður. Auk gesta- og viðskiptafunda hélt hann daglega stöðufundi með stjórnendum. Þeir gátu orðið ansi skrautlegir því með einni setningu gat hann hleypt dauflegum fundi í bál og brand. Þegar honum hafði tekist vel upp setti hann upp ánægjulegan hrekkjasvip, leyfði umræðunum að loga smástund, en gat svo – að því er virtist algjörlega áreynslulaust – lægt öldurnar með annarri setningu.

Margir vildu fá áheyrn hjá ritstjórum Morgunblaðsins. Styrmir var alltaf til staðar og fáir fóru bónleiðir frá honum. Hann gerði greiða, hvatti fólk áfram, lagði inn gott orð fyrir vandalausa, hringdi í vin sem átti vin sem þekkti mann – en enginn mátti vita af aðkomu hans. Hann vildi ekkert fyrir sig í staðinn. Þetta þekkja þeir sem leituðu til hans.

Honum féll aldrei verk úr hendi. Flestir samstarfsmenn þekktu símtalið sem hófst á orðunum „Styrmir“ en stundum var hann svo niðursokkinn að hann gleymdi að kynna sig. Þá sat hann með augun límd við skjáinn, fálmaði eftir símanum, sló inn númer í blindni, byrjaði að tala og skellti svo á. Þannig voru mörg símtölin til mín og sem betur fer héldu þau áfram eftir að hann lét af störfum sem ritstjóri.

Styrmir sýndi fólki raunverulegan áhuga, spurði frétta, um skoðanir fólks á ýmsum málefnum, hvernig fjölskyldan hefði það. Upplifun flestra var að þeir væru sérstakir í hans huga – og líklega voru þeir það.

Hann hafði yndi af því að búa til klíkur. Uppáhaldsklíkan var Laugarnesklíkan en í henni voru skólafélagar frá því í den. Þegar hann frétti að ég væri ættuð frá Þórshöfn á Langanesi bjó hann umsvifalaust til Þórshafnarklíkuna. Hann hafði nefnilega áhuga á Þórshöfn því að dóttir hans hafði heimsótt staðinn barn að aldri með vinkonu sem átti þangað ættir að rekja. Í þessa klíku setti hann alls konar fólk sem átti það aðallega sameiginlegt að vita ekki af þessari klíku, hvað þá að það væri í henni.

Við Styrmir unnum lengi náið saman. Ég kynntist hans mörgu hliðum: skarpa ritstjóranum með sterkar skoðanir, blíða og þolinmóða eiginmanninum, föðurnum og afanum, vininum Styrmi. Ég kynntist manninum sem elskaði fólkið sitt, klassíska tónlist, sveitina sína, vínarbrauð (hann hætti reyndar í vínarbrauðinu) og klíkurnar sínar, stráknum sem tíndi baunir í Danmörku og þótti vænt um kýr, manninum sem brann fyrir geðheilbrigðismálum, manninum sem hafði óbeit á óheilindum og templaranum sem var á móti brennivíni (með áherslu á „brenni“). Allt áfengi var „brenni“vín. Ég kynntist þverbjálkanum Styrmi sem var samt fljótur að bakka þætti honum ástæða til og jafnréttissinnanum Styrmi. „Svona segja bara konur,“ svaraði hann mér eitt sinn þegar ég viðraði við hann efasemdir um hæfni mína til að takast á við krefjandi verkefni.

Það er klisjukennt að segja að aldrei hafi borið skugga á samvinnu okkar – en þannig var það samt. Hversdagsleiki okkar var góður og það er mælikvarðinn á lífsgæði. Auðvitað gátum við tuðað hvort í öðru eins og gengur, en þó aðallega ég í honum. En það var nudd um ómerkileg atriði eins og t.d. stólana hans Eykons – vonandi fyrirgefur hann mér að telja þessa stóla ómerkilega. Ég vildi að hann fengi sér nýjar mublur þegar hann fluttist í Kringluna en hann mátti ekki heyra það nefnt. Sem ritstjóri dagblaðs, sem krefðist betri kjara fyrir þá sem minnst hefðu, gæti hann ekki leyft sér slíkt óhóf. „Hversu trúverðug heldurðu að slík skrif séu ef fólk sér svo ritstjórann hreiðra um sig í þykkum leðursófum?“ spurði hann. Og varð ekki haggað. Allra náðarsamlegast fékk ég leyfi til að láta hreinsa áklæðið. Svo hófst sama þrasið þegar flutt var í Hádegismóa og aftur var sófasett Eykons, sem þá var orðið gatslitið, flutt með á hans spartversku skrifstofu. Þá vann ég reyndar áfangasigur því ég mátti láta setja nýtt áklæði á settið. „En það má ekki vera dýrt áklæði,“ sagði hann til öryggis. Svo slúttaði hann flestum ágreiningsefnum okkar með orðunum „þú skilur þetta þegar þú ert komin á virðulegan aldur“. Sama nuddið var með afmælin hans. „Ætlarðu virkilega að hafa af okkur veislu?“ kvartaði ég fyrir sextugsafmælið hans. „Það verður engin veisla, það verður ekkert,“ sagði hann, „ en ég held veislu þegar ég verð áttræður!“ Svo liðu 20 ár og allt í einu var komið að þeim tímamótum. Þegar ég fékk símtal sem hófst á orðunum „frú Guðlaug “ vissi ég að þetta væri alvarlegt símtal. Ég, sem komst aldrei á virðulegan aldur og var líklega alltaf sama stelputrippið og byrjaði að vinna hjá honum í Aðalstrætinu, var nú skyndilega orðin „frú Guðlaug“. Erindið var að biðja mig að koma í veg fyrir að afmælisins yrði minnst í blaðinu. „Þú verður að lofa mér þessu,“ margítrekaði hann með þunga. Svo ég lofaði – en maldaði fyrir siðasakir í móinn. „Ég held veislu þegar ég verð hundrað ára!“ sagði hann glaðhlakkalegur – væntanlega með sama svip og hann er með á forsíðu þessa blaðs – og bætti svo hlýlega við „ því hvað eru 20 ár á milli vina?“

Um leið og ég kveð vin minn og velgjörðamann, sem oftar en einu sinni olli straumhvörfum í lífi mínu, sendi ég dætrum hans, sonum þeirra og öðrum ástvinum samúðarkveðjur.

Guðlaug Sigrún Sigurðardóttir.

Styrmir var ritstjóri í 37 ár og réðst til blaðsins ungur lögfræðingur og var yfirmaður minn í nær öll þau ár sem við störfuðum saman. Hann var góður og hjálplegur yfirmaður og lét sér annt um starfsmenn sína. Hann og Matthías Johannessen ritstjóri áttu samstarf sem var nær óaðfinnanlegt, svo gott var það. Matthías var ritstjórinn fljúgandi en Styrmir var sá jarðbundni. Þeir voru upp á sína vísu hið ákjósanlega tvíteymi sem stýrði Mogganum, en samstarf þeirra leiddi til þess að blaðið varð langbesti fjölmiðill landsins og þótt víðar væri leitað. Birtingarmynd þess lýsti sér í því að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir stóðu, kusu að skrifa í blaðið þótt þeir aðhylltust ekki ritstjórnarstefnu þess.

Ég las pistil Styrmis í sama blaði og andlát hans var tilkynnt. Þar var fallegt að sjá Styrmi, ritstjóra sem lét sig iðulega pólitískt gjörningaveður varða, skrifa sinn hinsta pistil um menningu, málaflokk sem Matthías bar iðulega ábyrgð á í áralöngu samstarfi þeirra. Styrmir nefndi pistilinn „Menning og pólitík“. Þar fjallar Styrmir um Robert Schumann og konu hans Klöru Schumann, sem var afburða píanóleikari og tónskáld, eins og eiginmaður hennar, en Robert átti við geðveiki að stríða. Hann minnist síðan á frækilegan árangur Víkings Heiðars í Royal Albert Hall í London og ber árangur hans saman við fleiri íslenska tónlistarmenn eins og Atla Heimi, Jón Leifs og Sigvalda Kaldalóns, sem bjuggu til íslenskar lagaperlur, eins og kunna er.

Með hinsta pistli sínum tæpti Styrmir á málum sem voru honum hugleikin, pólitík og menningu. Styrmir brýndi fyrir stjórnmálamönnum framtíðar að styrkja íslenska menningu með ráðum og dáð. Þannig var Styrmir, sífellt vakinn yfir þjóðmálum og íslenskri menningu. Ég samhryggist dætrum hans og nákomnum ættingjum fráfall góðs manns og frábærs ritstjóra. Blessuð sé minning Styrmis Gunnarssonar.

Magnús Finnsson,

fyrrv. fréttastjóri Morgunblaðsins.

Fyrir að verða 16 árum sneri ég heim frá Ástralíu úr námi. Vegna skurðaðgerðar leit út fyrir að dvölin yrði fram á nýtt ár en framtíðin var óráðin.

Það var þá sem staða losnaði á erlendri fréttadeild Morgunblaðsins en hana skipuðu þá fimm fréttahaukar. Þegar mest var voru síðurnar sex talsins, þéttskrifaðar af texta, og ítarlegar fréttaskýringar daglegt brauð.

Fyrir hvatningu vinar míns sendi ég atvinnuumsókn á blaðið en þar þekkti ég engan persónulega. Eftir nokkurn tíma barst boð um viðtal hjá Styrmi Gunnarssyni ritstjóra á skrifstofunni í Kringlunni.

Sá fundur breytti lífi mínu og reyndist það mikið gæfuspor að kynnast Styrmi. Hann var þá áhrifamesti blaðamaður landsins en kom fram við nýgræðinginn af virðingu. Ræddum við um Reagan og stríðið gegn hryðjuverkum en Styrmir vissi að ég hefði skrifað gegn því sem og gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Ýmislegt í hugmyndastraumum þess tíma virkar nú jafn fjarlægt og barokktímabilið.

Þvert á það sem andstæðingar blaðsins héldu fram veitti Styrmir blaðamönnum sínum mikið sjálfræði til að rækta eigin áhugamál og hugðarefni. Birtist það meðal annars í fjölda bóka og listaverka sem fyrrverandi og núverandi starfsmenn blaðsins hafa sent frá sér. Er þar Ragnar Axelsson fremstur í flokki.

Sumarið 2007 kynnti ég Þorsteini heitnum Sigfússyni prófessor. Úr varð samstarf um útgáfu bókar um vetni. Leiddi það aftur til reglulegra skrifa um umhverfismál og orkumál í blaðið í víðum skilningi. Sumt af því taldist þá róttækt en er nú meginstraumur í stjórnmálunum.

Sama má segja um skrif jafnaldra mína sem þá störfuðu á blaðinu. Ekki síst um kvenfrelsismál.

Hæfileikar blaðamanna liggja á mismunandi sviðum. Sumir eru frábærir stílistar en ófrumlegir greinendur. Aðrir skrifa einfaldari texta en eru frumlegri í nálgun sinni. Styrmir hafði til að bera þessa eiginleika í ríkum mæli. Megin einkennið á texta hans var mikil rökfesta og gott vald á íslensku.

Við þetta má bæta gífurlegri vinnusemi en hann var margra manna maki.

Styrmir lét af störfum ritstjóra skömmu fyrir efnahagshrunið og tóku þá við mikil átakaár í íslenskum stjórnmálum. Allir vissu hvar sannfæring Styrmis lá í þeim átökum en baráttan gegn aðild að Evrópusambandinu birtist ekki síst á vef Evrópuvaktarinnar sem hann hélt úti ásamt Birni Bjarnasyni.

Síðar hóf Styrmir skrif á vefnum Styrmir.is en síðasta greinin birtist 1. febrúar síðastliðinn með fyrirsögninni „Hræddur maður í Kreml“. Þegar hann hóf svo aftur reglubundin pistlaskrif í Morgunblaðið sendi ég honum árnaðaróskir. Heyrði ég þá á förnum vegi að lesendur höfðu saknað pistla hans mikið.

Franski rithöfundurinn Michel Houellebecq hefur fjallað um nálægð rithöfundarins sem listamanns. Við lesturinn komist lesandinn svo nærri hugarheimi höfundarins.

Styrmir var á sinn hátt einn af höfundum Íslands enda miðlæg stærð í þjóðmálaumræðunni. Á þann hátt hafði hann mótandi áhrif á marga Íslendinga. Í sem fæstum orðum tel ég að hann hafi stuðlað að heilbrigðri þjóðernisást og brýnt fyrir mönnum að allir Íslendingar væru sem ein áhöfn. Af þeim sökum bæri hvorki að skilja að fólk í stéttir né horfa fram hjá okkar minnstu bræðrum.

Vegna slíkra viðhorfa var blaðið sakað um sósíalisma, meðal annars fyrir það sjónarmið að máltíðir ættu að vera aðgengilegar börnum óháð efnahag foreldra.

Menn sem stinga svo oft niður penna komast ekki hjá því að endurtaka sig. Hins vegar beið maður alltaf eftir pistlunum hans Styrmis. Hafa fáir haft jafn mikil áhrif á lífshlaup mitt og viðhorf.

Við leiðarlok þakka ég forsjóninni fyrir þann mikla heiður að hafa fengið að starfa fyrir Styrmi Gunnarsson.

Sagt er að maður komi í manns stað. Það er ekki rétt. Stórt skarð er fyrir skildi.

Baldur Arnarson.

Það er vandasamt verk að vera ritstjóri en það er líklega enn vandasamara verk að eiga fjölmiðil. Á því langa árabili sem ég starfaði á Morgunblaðinu með Styrmi Gunnarssyni sagði hann blaðið heppið með eigendur sína. Það var lærdómsríkt að fylgjast með og taka þátt í samspili ritstjórnar og framkvæmdastjórnar en ég var svo lánsöm að fá að starfa á hvorum tveggja vígstöðvum. Það var oft tekist harkalega á en alltaf með virðingu og vinsemd.

Þeir voru ótal fundirnir þar sem skipst var á skoðunum. Oftast var Styrmir reiðubúinn að hlusta á ný sjónarmið en þegar honum þótti spjótin beinast um of að hans yfirráðasvæði, ritstjórninni, varði hann sitt af miklu harðfylgi. Í hans huga voru engar málamiðlanir þegar sjálfstæði ritstjórnar var annars vegar. Sjálfstæðið þurfti að vera algjört.

Við áttum mjög gott samstarf í störfum mínum sem blaðamaður, rekstrarstjóri ritstjórnar og umsjónarmaður Tímarits Morgunblaðsins og fleiri sérútgáfna Árvakurs. En samstarfið var líka gott þegar ég var framkvæmdastjórnarmegin eða „hinum megin borðsins“ og bar ábyrgð á að auglýsinga- og áskriftartekjur skiluðu sér. Á því blómaskeiði, þegar við náðum lestrinum í 64% og biðlistar voru eftir auglýsingaplássi, var gaman hvern vinnudag. Við Styrmir vorum alls ekki alltaf sammála um leiðirnar sem átti að fara. En í því fólst áskorun og gerði starfið enn skemmtilegra. Þegar metnaðarfullum markaðsstjóra fannst lestrartölur á einstökum efnisþáttum blaðsins heldur lágar benti hann mér á að það skipti ekki máli hversu margir læsu heldur hverjir læsu. Í því var mikill sannleikur.

Það var ómetanlegt að geta leitað í smiðju Styrmis enda var hann ráðagóður og margir sem leituðu til hans. Einhverju sinni sagði Styrmir að ég væri einhyrningur þegar honum fannst ég heldur of fylgin mér að reyna að koma mínu í gegn. Frá honum komið þótti mér þetta hið mesta hrós.

Nú þegar horft er yfir fjölmiðlaflóruna á Íslandi er ljóst að þau tekjumódel sem stuðst hefur verið við eru ekki lengur nothæf og finna þarf nýjar leiðir til að halda úti sjálfstæðum ritstjórnum. Það er ennþá þannig að það er vandasamt verk að vera ritstjóri og enn vandasamara að eiga fjölmiðil.

Styrmir reyndist mér vel, hann treysti mér fyrir nýjum verkefnum og gaf mér ótal tækifæri til að blómstra innan veggja blaðsins. Fyrir það er ég honum þakklát.

Ég sendi systrunum Huldu Dóru og Hönnu innilegar samúðarkveðjur. Minning um öflugan ritstjóra og einstakan mann lifir.

Margrét Kristín Sigurðardóttir.

Ritstjórnarþríeykið á Morgunblaðinu, Matthías, Eykon og Styrmir, var gott teymi þar sem mannkostir og hæfileikar hvers um sig bættu hina upp.

Styrmir var erlendis þegar ég hóf störf haustið 1971 og ég beið spennt eftir að hitta þennan þriðja yfirmann minn, sem þá var nýráðinn aðstoðarritstjóri. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum því þarna mætti ég hlýjum og mildum manni sem kom fram við mig eins og jafningja. Ég komst að því síðar að hann var passlega stríðinn og þótti óþægilegt þegar honum var hrósað eða athyglin beindist að persónu hans, þrátt fyrir að hann ætti ekki í vandræðum með að koma fram og standa fyrir málstað.

Það var spennandi fyrir 18 ára ungmenni að hefja störf sem ritari ritstjóranna og ekki síst að vinna á kröftugri og lifandi ritstjórn. Þá hafði Morgunblaðið mikil áhrif í þjóðfélaginu og áhugavert var að fylgjast með því fólki og þeim samböndum sem ritstjórarnir höfðu í þjóðfélaginu. Það kom í minn hlut að vélrita upp minnispunkta Styrmis eftir trúnaðarsamtöl og þegja yfir því sem ég varð áskynja. Þetta voru áhugaverð samtöl, oftast um pólitík, enda átti Styrmir trúnaðarsamband við fólk langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna. Sumir af þessum minnispunktum hafa komið fram í bókum hans en aðrir ekki.

Í þá daga voru gömul dagblöð ekki til á rafrænu formi. Mjög oft vantaði Styrmi upplýsingar um hitt og þetta sem hafði verið fjallað um og þá kom að mér að fletta möppum og finna greinar. Hann var ansi naskur að giska á mánuði og ár þar sem mátti finna þau gögn sem hann vantaði í það og það skiptið.

Skrifborð hans og jafnvel gólf voru ávallt þakin pappír, en eins og svo margir sem virðast vinna í óreiðu vissi hann nákvæmlega hvað var í hverjum bunka. Það kom alloft fyrir að hann hringdi í mig utan úr bæ og bæði mig að finna blað sem væri ofarlega eða neðarlega í hinum eða þessum bunkanum á borðinu eða gólfinu. Það stóðst alltaf.

Oft var ég kölluð út á kvöldin til að vinna eða vinnudagurinn teygðist langt fram á kvöld og þá var stundum gott að setjast örþreytt að vinnu lokinni og spjalla við hann stutta stund á léttu nótunum. Hann talaði af miklum hlýhug um dvöl sína í Borgarfirðinum þegar hann var drengur og bar mikla virðingu fyrir því fólki sem hann var í sveit hjá. Hann sagði mér líka að sér hefði verið illa við Dani framan af ævinni en hafði séð það síðar að þeir höfðu ekki farið eins illa með Íslendinga og skólabækur skýrðu frá. Honum fannst hann þurfa að leiðrétta þetta við mig þar sem ég er hálfdönsk. Vitnaði hann reyndar oft í danska hlið mína og þá oftast glettinn í bragði. Þá var það honum mikið gleðiefni að eignast barnabörn og nefndi meðal annars að það væri svo gaman að fá hratt vaxandi dóttursynina í mat því þeir tækju svo hraustlega til matar síns.

Við Styrmir áttum mikið og gott samstarf í þá áratugi sem ég starfaði á blaðinu en skiljanlega mest meðan ég var ritari. Það var alltaf hægt að leita til hans og hann fann sér tíma til að hlusta og styðja. Það er þakkarvert.

Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Hildur Friðriksdóttir.

Æskuvinur minn Styrmir Gunnarsson er til moldar borinn í dag. Leiðir okkar lágu saman í Laugarnesskólanum, – við vorum báðir í hinum fræga „Skeggjabekk“. Þar var samrýndur hópur og tókst góð vinátta innan hans. Af okkur strákunum nefni ég Jón Baldvin Hannibalsson, Magnús Jónsson, Ragnar Arnalds og Svein Eyjólfsson. Við hittumst gjarna heima hjá Ragnari og oftar en ekki skeggræddum við pólitík. Móðir hans, Guðrún Jónsdóttir Laxdal, hafði gott lag á okkur stákunum. Hún kenndi okkur að meta klassíska tónlist og nýja strauma í bókmenntum. Hún var mjög frjálslynd og hvatti okkur til að skiptast á skoðunum með opnum og skipulögðum hætti. Að því bjuggum við æ síðan að hafa kynnst þessari fjölgáfuðu konu.

Leiðir okkar Styrmis skildi þegar ég fór í Menntaskólann á Akureyri en lágu aftur saman eftir stúdentspróf þegar ég gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu. Mér er sérstaklega minnisstætt þríeykið Eykon, Matthías Johannessen og Styrmir. Það vann vel saman, þótt einstaklingarnir væru ólíkir að upplagi og allri gerð. Eykon sat á alþingi, Matthías var eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar, víðsýnn og sífrjór og greip hugmyndir á lofti. Styrmir var mjög vel að sér um erlend málefni, vel skipulagður og hafði ásamt Þorbirni Guðmundssyni yfirumsjón með daglegum rekstri blaðsins. Það kostaði mikla viðveru en Styrmir naut þess, að hann bjó yfir skipulagshæfileikum og hafði lag á fólki, – gat leiðbeint án þess að vera þreytandi.

Á þessum tíma var Morgunblaðið stórveldi. Tíminn, Þjóðviljinn og Alþýðublaðið lutu sterkri flokkspólitískri stjórn, sem auðvitað skerti sjálfstæði þeirra og getu til að segja óháðar fréttir. Morgunblaðið hafði á hinn bóginn engin bein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn þótt stuðningurinn við hann væri öllum ljós. Á þessum árum vissi þunginn í hinni pólitísku umræðu að varnar- og öryggismálum og frjálsræði í viðskiptum. Þar var Styrmir á heimavelli. Það var í senn styrkur Morgunblaðsins og um leið Sjálfstæðisflokksins að bregðast ekki í þeim efnum.

Ég hef oft verið að hugsa um það, hvílíkt úthald Styrmir hafði. Þrátt fyrir hina miklu vinnu og viðveru á Morgunblaðinu virtist hann alltaf hafa tíma fyrir Sigrúnu konu sína, en hún átti við alvarleg geðræn veikindi að stríða. Þessi reynsla olli því, að Styrmir setti sig vel inn í þau mál og var til hinstu stundar óþreytandi baráttumaður þess, að geðræn veikindi hefðu þyngra vægi innan heilbrigðisþjónustunnar.

Hinn 2. febrúar sl. fékk Styrmir slag og lamaðist hægra megin, sem aftur olli því, að hann átti erfitt með að kveða að orðum, að gera sig skiljanlegan. Hann hélt hins vegar fullum andlegum styrk og gat beitt vinstri hendinni eins og áður. Þetta dugði honum til að vera áfram virkur í þjóðfélagsumræðunni. Hann pikkaði með einum putta vinstri handar á tölvuna og á hverjum laugardegi birti Morgunblaðið pistil hans um það, sem honum var efst í huga hverju sinni. Og þar kenndi margra grasa. Þótt við Styrmir værum sammála í öllum grundvallaratriðum voru ágreiningsefnin nóg. Og svo var í síðasta skiptið sem við hittumst. En það er ekki þess vegna sem sú kveðjustund er mér sérstaklega minnisstæð heldur hitt, að Styrmir hafði undir lokin ákveðið að hann skyldi komast heim af spítalanum og fá að deyja þar. Og sú mynd líður mér ekki úr minni, þar sem hann situr uppi í rúminu og horfir yfir Fossvoginn í sólskininu en meðfram strandlengjunni er stígur og fólk á gangi, – líf! Ég fann að vini mínum leið vel þarna eins og honum gat vel liðið. Guð blessi minningu hans.

Halldór Blöndal.

Genginn er Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins og einn mesti áhrifamaður landsins um áratugaskeið. Ekki þarf að fjölyrða um hvílík stofnun í íslensku samfélagi Morgunblaðið er, en Styrmir hélt jafnframt svo um þræði, að segja má að hann hafi sjálfur verið stofnun í samfélaginu.

Leiðir Styrmis og Sjálfstæðisflokksins lágu snemma saman, enda hafði hann frá öndverðu fastmótaðar skoðanir á stjórnmálum, bæði þessum innlendu og eins erlendum straumum, sem hann hafði næman skilning á, bæði í alþjóðlegu samhengi en ekki þó síður á þýðingu þeirra á Íslandi og fyrir Íslendinga.

Þegar í menntaskóla vakti Styrmir athygli fyrir dugnað og málafylgju, svo þá þegar var ljóst hvílíkt efni væri á ferð. Það kom enn frekar í ljós í Háskólanum, þar sem hann tók dyggan þátt í félags- og stjórnmálalífi meðfram laganáminu. Það gerði hann bæði á vettvangi Orators, hins öfluga félags laganema þar sem hann var formaður 1960-61, en einnig í stúdentapólitíkinni í víðari skilningi. Þá þegar mátti greina hvar áhugi hans og hæfileikar lágu, þegar hann varð ritstjóri Stúdentablaðsins.

1963 var Styrmir kjörinn formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og var það til ársins 1966. Á engan er hallað þó því sé haldið fram hér, að Styrmir hafi verið einhver öflugasti formaður í sögu félagsins og starfsemin með ólíkindum viðamikil og virk.

Engum blandaðist hugur um að þar var forystumaður á ferð og að þar væri fundinn einn af framtíðarleiðtogum flokksins. Hann skrifaði mikið um stjórnmál og hélt meðal annars úti einkar fjörlegri síðu í Morgunblaðinu á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), en hann sat í stjórn þess 1965-67. Hann varð mjög handgengur Geir Hallgrímssyni borgarstjóra og með þeim tókst djúp vinátta.

Það var því nánast sjálfsagt og eðlilegt, að þessi ungi og öflugi framtíðarmaður færi í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 1966, þar sem hann var settur í baráttusætið. Á kjördegi vantaði hins vegar herslumuninni til þess að hann næði inn í borgarstjórn, en hann varð öflugur varaborgarfulltrúi og formaður bæði Æskulýðsráðs borgarinnar og Fræðsluráðs.

Ógerningur er að segja fyrir um það, sem ekki varð, en það má teljast afar sennilegt að hefði Styrmir helgað sig þeim vettvangi, þá hefði hann orðið borgarstjóri í fyllingu tímans og án mikils vafa komist til æðstu metorða er fram liðu stundir. Til þess hafði hann allt sem þurfti.

Hann hafði hins vegar hafið störf á ritstjórn Morgunblaðsins árið 1965, þar sem hann var vitaskuld í „pólitísku deildinni“, skrifaði forystugreinar, Staksteina og pólitískar fréttir. Það sást að pólitískum andstæðingum sveið undan þeim skrifum og Þjóðviljinn úthrópaði hann fyrir vikið sem versta manninn af öllum vondum, sem finna mætti á Morgunblaðinu. Þar starfaði hann með þeim Matthíasi Johannessen, Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og Eyjólfi Konráði Jónssyni (Eykon), auk þess sem að Geir Hallgrímsson var stjórnarformaður Árvakurs. Þar var Styrmir á heimavelli og brátt ljóst að þar myndi hann hasla sér frekari völl. Hann dró sig því út úr beinni stjórnmálaþátttöku og helgaði blaðinu krafta sína.

Um þá munaði svo sannarlega, því í hönd fóru mestu uppgangstímar Morgunblaðsins, þar sem það bar höfuð og herðar yfir aðra miðla og má segja að á síðum þess hafi verið þungamiðja þjóðmálaumræðu í landinu.

Morgunblaðið, líkt og Styrmir, fylgdi Sjálfstæðisflokknum jafnan að málum, en það var þó ekki einhlítt. Um sumt voru skiptar skoðanir innan flokks sem utan og þar gat stundum farið svo að blaðið hafði að lokum aðra skoðun, en orðið höfðu ofan á innan Sjálfstæðisflokksins. Um leið vann blaðið skipulega að því að skera á bein tengsl við Sjálfstæðisflokkinn og fann sér jafnframt það erindi að halda honum við efnið.

Á sama tíma lagði Morgunblaðið sig fram um að standa undir nafni sem „blað allra landsmanna“, en í því fólst meðal annars að leita andstæðra sjónarmiða, gefa þeim rými á síðum blaðsins og eins að ráða inn á ritstjórn fólk, sem ekki var endilega í sama pólitíska ranni og ritstjórarnir og ritstjórnarstefnan.

Þar skipti máli að Styrmir átti góð tengsl í allar áttir. Hann átti gamla og dygga vini í öðrum flokkum, hann hafði bundist fjölskylduböndum í aðrar áttir og átti auðvelt með að tala við hvern sem er. Menn vissu líka að Styrmir væri ekki aðeins sjálfstæðismaður, hann væri líka sjálfstæður maður. Hann hafði á sínum tíma verið meðal 60-menninganna, sem lögðust gegn því að sjónvarpsútsendingar Varnarliðsins næðu út fyrir varnarsvæðið, og hann átti líka eftir að leggjast af miklum þunga gegn kvótakerfinu.

Hann og Morgunblaðið voru því ekki taglhnýtingar neins. Og menn vissu að á samtölum við hann var mikið að græða, hann var skilningsríkur og góður hlustandi, sem hafði mikið fram að færa, án þess að menn þyrftu endilega að vera sammála honum eða hann þeim. Því kynntist ég af eigin raun og af þeim ánægjulegu samtölum hafði ég mikið gagn og líka gaman.

Í þeim samtölum varð manni ljóst, að hinn rauði þráður í skoðanaskrifum hans var sannur og einlægur. Og sanngjarn. Hann var þjóðrækinn og víðsýnn íhaldsmaður, sem lét stýrast af mannúð, mildi og menningu. Af því að hann þekkti og vissi að það eru slík gildi sem gefa lífinu gildi og eiga að ráða för í mannlegu samfélagi.

Það fannst sumum kannski skrýtið hjá manni, sem hafði jafnafdráttarlausar skoðanir og Styrmir, pólitískum skylmingameistara úr jarðvegi kalda stríðsins, sem sýndist jafnan hafa sjö penna á lofti. En það er einmitt vegna þess að hann hafði vel grundvallaðar skoðanir og sannfæringu um mannhelgi, frelsi og ábyrgð okkar hvert á öðru. Það skein í gegn til hinsta dags og það verður arfleifð hans.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins færi ég fjölskyldu Styrmis okkar innilegustu samúðarkveðjur, en um leið minnumst við og þökkum fyrir hans farsælu störf í þágu hugsjóna okkar sjálfstæðismanna, lands og þjóðar. Guð blessi minningu hans.

Bjarni Benediktsson,

formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þegar leiðir okkar Styrmis Gunnarssonar lágu fyrst saman í 10 ára bekk í Melaskólanum vakti hann athygli mína fyrir fallega framkomu, góðar námsgáfur og spretthörku. Á næstu vegferð okkar saman, í Menntaskólanum í Reykjavík, hafði orðfimi í ræðu og riti og þekking á alþjóðastjórnmálum bætzt í kostasafn hans.

Á háskólaárunum gerðist það svo einhvern veginn af sjálfu sér, að mikil og góð samvinna tókst á milli okkar Styrmis. Við reyndumst vera skoðanabræður í flestu er laut að stjórnmálum. Báðir gengum við til liðs við Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, og störfuðum þar háskólaárin í hópi fjölmargra góðra félaga. Og um langt skeið unnum við svo saman innan vébanda Sjálfstæðisflokksins, áttum þar svipuð áhugamál og að mestu leyti sömu félagana.

Það var í félagsstarfinu, sem ég greindi þann kost Styrmis Gunnarssonar, sem verður mér minnisstæðastur. Hann var eiginlega hinn fullkomni samherji. Reiðubúinn að ganga fram fyrir skjöldu og taka forystu, þegar þess var þörf. Reiðubúinn að fylgja frumkvæði annarra, þegar það átti við. Gerði ekki kröfur fyrir sjálfan sig. Studdi aðra dyggilega. Vék sér ekki undan verkum. Lagði fram sinn skerf – og vel það.

Samstarfshæfileiki Styrmis er ein útgáfan af þeim mannkosti hans að vera vinur vina sinna, mannkosti, sem vinir hans á mörgum sviðum íslenzks mannlífs urðu aðnjótandi.

Við Steinunn sendum dætrum Styrmis, Huldu Dóru og Hönnu Guðrúnu, fjölskyldum þeirra og öðrum aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Hörður Einarsson.

Skólabróðir minn, Styrmir Gunnarsson, er látinn. Með honum hverfur af braut einn skeleggasti málsvari sjálfstæðis Íslands, íslenskrar tungu, hálendis Íslands og íslensks tónlistararfs. Kynni okkar urðu náin þegar Styrmir aðstoðaði okkur Brynju Benediktsdóttur, skólasystur okkar úr MR, við að kynna leikrit hennar „Ferðir Guðríðar“ í Þýskalandi haustið 2005. Ég hringdi í Styrmi og spurði hann hvort hann eygði möguleika á að hjálpa okkur. Hann kvaðst eiga von á tveimur þekktum „útrásarvíkingum“ þann dag og tóku þeir vel í bón hans. Nú gátum við skipulagt ferð og sýndum leikritið í Frankfurt, Bonn, Köln, Hamborg og í Berlín. Valdís Arnardóttir leikkona fór með hlutverk Guðríðar og önnur hlutverk í sýningunni við frábærar undirtektir.

Styrmir lét sér ávallt annt um samskipti Íslendinga og Þjóðverja. Hann var staddur í Berlín í júní 1963 ásamt skólabróður okkar Herði Einarssyni. Þeir upplifðu þá frægu ræðu Johns F. Kennedys við múrinn, þegar hann sagði „Ich bin ein Berliner“. Í nóvember 2005 var haldin listahátíðin Íslandsmyndir í Köln. Í leiðara Morgunblaðsins 22. nóvember skrifaði Styrmir: „Sennilega er engin þjóð í heimi, sem sýnir Íslandi fortíðar og nútíðar jafn mikinn áhuga og Þjóðverjar. Þann áhuga eigum við að endurgjalda með því að stórauka samskipti okkar við Þjóðverja og leggja aukna áherzlu á að kenna þýzku í skólum landsins og halda fram þýzkri menningu.“

Árið 2019 bauð ég honum að halda erindi á málþingi Þýsk-íslenska félagsins í Köln. Erindið nefndi hann „Island und Deutschland – Neue Verbindungen auf alter Grundlage“. Þar fjallaði hann um öryggismál Íslands í framtíðinni og samskipti norðurskautslandanna og Þýskalands. Ég fylgdist ávallt með skrifum Styrmis í Morgunblaðinu, sem báru vitni um mikla þekkingu og yfirsýn yfir íslenska menningu og stjórnmál. Mér var brugðið þegar ég frétti af því að hann hefði veikst alvarlega í febrúar.

Fyrir stuttu heimsótti ég hann og rifjuðum við þá upp gömul kynni. Við minntumst á skólabróður okkar Atla Heimi tónskáld og skrásetningu verka hans. Síðasta grein Styrmis birtist 21. ágúst, daginn eftir andlát hans. Þar benti hann á mikilvægi þess að skrásetja verk allra íslenskra tónskálda fyrr og síðar, enn fremur að inna sambærilega vinnu af hendi varðandi leiklist. Fjölskyldu Styrmis votta ég innilega samúð mína. Blessuð sé minning hans.

Sverrir Schopka.

Hann var sjálfum sér líkur til hinsta dags. Þrátt fyrir heilsuáfall, sem hefði knúið flesta menn til að biðjast vægðar, neitaði hann að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Hann neytti sinna seinustu krafta til að ljúka við laugardagsgreinina, sem birtist að honum látnum. Þannig var hann allt sitt líf, skyldurækinn og kröfuharður – en fyrst og fremst við sjálfan sig.

Okkar kynni hófust í öðrum bekk í gaggó, nánar tiltekið í hinum alræmda Skeggjabekk í Laugarnesskólanum. Ég kom að vestan og frá vinstri. Hann kom úr Vesturbænum og lengst til hægri. Okkur lenti saman á fyrsta degi. Sú rökræða hefur senn staðið, með hléum, í meira en hálfa öld. Henni var enn ekki lokið, þegar fundum okkar bar seinast saman. Hann var stríðinn og rökfastur, en hlustaði á mótrök og tók rökum – oftast nær. Það var ekki til í honum snobb. Uppskafning og yfirborðsmennska var eitur í hans beinum, sem og hégómaskapur og látalæti. Hann var hreinskilinn og hreinskiptinn og fór ekki í manngreinarálit.

Það átti líka við um hina, sem þarna háðu sitt kalda stríð: Ragnar Arnalds, verðandi formann Alþýðubandalagsins, Halldór Blöndal, fulltrúa Engeyjarættarinnar og þjóðrækið íhald til hinsta dags, Svein Eyjólfsson, síðar fjölmiðlamógúl, og Magnús Jónsson, kvikmyndagerðarmann og lífskúnstner. Við gátum verið svarnir óvinir, ef því var að skipta, en létum andstæðinginn aldrei gjalda skoðanaágreinings. Vináttuböndin hafa alltaf haldist, hvað svo sem á hefur dunið. Það reyndi ekki síst á í samskiptum okkar Styrmis, en drengskapur hans brást aldrei.

Slíkur maður er auðvitað vel til forystu fallinn – reyndar sjálfkjörið foringjaefni. Hann hefði reynst andstæðingunum erfiður viðfangs. En þeir hefðu mátt treysta því, að hann léti þá aldrei gjalda skoðana sinna. Það var sagt um Anthony Crosland – sem á tímabili á æskuárum var minn mentor – að hann hefði verið besti leiðtogi breska Verkamannaflokksins, sem flokkurinn aldrei fékk. Sama máli gegnir með Styrmi. Hann var best til forystu fallinn af þeim sjálfstæðismönnum af hans kynslóð, sem ég hef kynnst. Á það reyndi aldrei, af ástæðum, sem hér eru ekki til umræðu. En bók Styrmis, „Ómunatíð“, sem hann samdi í samvinnu við konu sína og dætur, skýrir það – og ber drengskap hans fagurt vitni.

Nafn Styrmis er og verður með órjúfanlegum hætti tengt Morgunblaðinu og ritstjóratíð þeirra Matthíasar Johannessen, sem var stórveldistímabil blaðsins. Saman breyttu þeir því úr flokksblaði í þjóðarvettvang. Saman tóku þeir, ásamt okkur jafnaðarmönnum, upp baráttuna fyrir því, að auðlindir Íslands yrðu í stjórnarskrá lýstar þjóðareign. Og að þjóðin fengi í sinn hlut réttmætan arð af nýtingu þeirra. Því stríði er ekki lokið. Og það sem verra er: Blaðið, sem þeir Matthías beittu í þessari baráttu í þágu þjóðarhagsmuna, er nú gefið út og kostað af þeirri nýríku yfirstétt, sem hirt hefur auðlindararðinn í skjóli pólitísks valds.

Það var Styrmi líkt, að hann hélt áfram, eftir að hann stóð upp úr ritstjórastólnum, að láta til sín taka til stuðnings góðum málum til hinsta dags.

Við Bryndís kveðjum bernskuvin okkar þakklátum huga með virðingu og söknuði.

Jón Baldvin og Bryndís.

Við Styrmir hittumst fyrst á Garðballi fyrir rúmum sex áratugum. Hann var þá í fylgd með Ragnari Arnalds og var kynntur fyrir mér með þeim orðum að þarna væri maður sem afsannaði regluna: Segðu mér hverja þú umgengst og ég skal segja þér hver þú ert. Þetta væri nefnilega stækur Heimdellingur en umgengist helst kommúnista. Þeir sem svo voru nefndir voru auk Ragnars menn á borð við Jón Hannibalsson, Magnús Jónsson, Atla Heimi og Halldór Blöndal. Sumir þeirra voru úr svokölluðum Skeggjabekk í Laugarnesskólanum.

Þessi tengsl héldust greinilega lífið á enda. Ég minnist þess sem dæmi að Magnús (Mangi eymingi) var fenginn til að leikstýra Túskildingsóperunni eftir Bert Brecht hjá Leikfélagi Akureyrar. Hann fékk mig til að fara með sér yfir þýska frumtextann. Þetta tók nokkur kvöld og að því afreki loknu þótti okkur efni til að skála. Þegar nóttin nálgaðist vildi Magnús fara að hitta gamla kunningja. Styrmir var fyrsta val. Mér þykir nefnilega svo vænt um hann Stymma, sagði Mangi. Ég samþykkti, Mangi hringdi og við fórum suður í Kópavog.

Það var í samræmi við áðurnefnt tvíbenta dálæti Styrmis á vinstrimönnum að á tímabili áttum við hlykkjótta pólitíska samleið þar sem báðir voru hallir undir praktískt samstarf þeirra sem væru með hreinar línur yst á hvorum væng og lausir við allt miðjumoð. Þetta byggðist á reynslu okkar úr Stúdentaráði og er kannski eitthvað í ætt við núverandi ríkisstjórn.

Ég sjálfur reyndi Styrmi ekki að öðru en heiðarleika. Hann var að vísu grunaður um að hafa lagt til efni í mjög rætna skýrslu til CIA um okkur hjón þegar ég varð sendikennari við háskólann í Vestur-Berlín 1963. Ég var yfirheyrður vegna þessa. Ég spurði hann löngu seinna um þetta en hann bar það af sér, viðurkenndi þó að þeir hefðu talið okkur stórhættulegt fólk á þeim tíma. Þegar múrinn í Berlín féll 1989, birtist á hinn bóginn í Morgunblaðinu gömul lygaþvæla um skipti mín við STASI sem ég hafði fyrir löngu leiðrétt opinberlega. Ég hringdi í Styrmi og hann baðst afsökunar í blaðinu strax daginn eftir. Svona voru okkar skipti.

Árni Björnsson.

Styrmir Gunnarsson varð vinur minn um tvítugt. Ég var þá lausráðinn blaðamaður á Morgunblaðinu og var ritstjóri Stúdentablaðsins fyrir árið 1959, en í ritnefndinni voru þeir Halldór Blöndal, síðar ráðherra, Eysteinn Þorvaldsson, síðar prófessor, og Jón Einarsson, síðar prófastur á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Faðir Styrmis, Gunnar Árnason, var sonur Árna Eiríkssonar leikara á Vesturgötu 14 en Gunnar var hallur undir þjóðernisjafnaðarstefnu margra þýskra á þessum tíma og gaf út smárit til stuðnings foringjanum.

Styrmir Gunnarsson var vígamaður orðsins. Hann lifði lífinu af ástríðu og miklum þokka. Konur löðuðust að þessum gjörvilega manni, sem skildi vel vonir þeirra og þrár. Við áttum sameiginlegt báðir að eiga „erfiðar konur“ – sem stríddu við þrálát andleg veikindi og þurftum oft að leita til Karls Strand á geðdeild Borgarspítalans. Við áttum verulega góð samskipti þegar ég starfaði í norska sendiráðinu í rúm 32 ár. Já, ég þekkti til ættingja konu Styrmis: Finnbogi Rútur Arnarson hefur verið vinur minn í áratugi.

Styrmir Gunnarsson bjó yfir nístandi sjálfsgagnrýni – sem stundum varð honum erfið. Með honum er genginn sá blaðamaður íslenzkur, sem líklega má telja jafnoka þeirra Valtýs Stefánssonar og hins hugumstóra ritstjóra og skálds – vinar hans – Matthíasar Johannessen. Þrjá erfingja á hver maður: Mennina – moldina – og sálarinnar meðtakara.

Bragi Kristjónsson.

Við vorum í sömu klíkunni í menntaskóla við Styrmir skólabróðir okkar sem við kveðjum í dag með söknuði og sorg í hjarta. Strax á þessum árum kom í ljós að fáum var betur treystandi fyrir stóru sem smáu. Pabbi hans hikaði ekki einu sinni við að lána honum Opelinn og við nutum góðs af, ókum fram og aftur um borgina í leit að tilgangi lífsins.

Svo tók sjálft lífið við með sínum óræða tilgangi og Styrmir fékk fljótlega sinn skammt af erfiðum ákvörðunum. Veikindi Bistu konu hans fóru að koma í ljós nokkru eftir að dæturnar tvær fæddust og flestum var ljóst hversu vel hann höndlaði þær þrengingar sem á fjölskylduna voru lagðar. Það var í hans eðli að leita að lærdómi í öllu sem á vegi hans varð og hann virti veröldina fyrir sér forvitinn og fróðleiksfús.

Í stað þess að þegja og byrgja þetta allt saman inni ákvað hann að deila því með okkur hinum og bókin um Bistu sá dagsins ljós. Það er varla hægt að setja sig í spor þessa kraftmikla manns þegar hann varð fyrir síðasta áfallinu. En þótt hann ætti erfitt með að tala og hreyfa sig þá gafst hann ekki upp. Hann hélt áfram að skoða ástandið í veröldinni með sínum forvitnu augum og tók aftur til við að skrifa laugardagspistlana sína fyrir Morgunblaðið. Þar viðraði hann jafnan áhyggjur sínar af ýmsu sem miður fer í okkar samfélagi. Framar öðru var honum hugleikið að tryggja velferð barna og á þeim vettvangi var hann í góðu samstarfi við barnamálaráðherra.

Við sem útskrifuðumst úr MR 1958 förum nú smám saman að tínast út af sviðinu. Flestum finnst skipta máli að eitthvað sé eftir þegar við hverfum og það sem Styrmir skilur eftir sig mun án efa halda minningu hans á lofti.

Við vottum dætrum hans og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúð.

Ragnar og Hallveig.

Vinur minn og lærifaðir, ég fór að hugsa það eftir að þú skildir við að við höfðum átt í samskiptum í tæpar 1.400 vikur í lífinu. Stundum einu sinni í viku, stundum miklu oftar. Þegar við hittumst fyrst bauðstu upp á snittur, sódavatn og kaffi. Hlustaðir á eldinn í mér og brostir. Þú vissir dýpra, vissir lengra. Við áttum sameiginlegan þráð um betra lyndi umburðar og skilnings til handa þeim sem höfðu fengið huglæga merkimiða geðlæknisfræðinnar. En við vorum sammála um að þeir einstaklingar væru meira en þeir takmörkuðu miðar tímabundinna einkenna.

Ég finn ekki nógu stór orð til að ná utan um og þakka þér framlag þitt til geðheilbrigðismála. Öll skiptin sem þú mættir á fundi til að afla fjármagns, hlusta á tillögur, liðka fyrir samskiptum og tengja fólk saman. Þú bast allt saman af nærgætni og alúð. Hlustaðir og komst með skynsamlegar tillögur.

Hvernig þú hlustaðir, Styrmir; annar vanginn út á öxl og hönd undir um leið, athygli þín öll á orðum viðmælandans. Á manneskjunni sem sat á móti þér. Þú hlustaðir svo vel, spurðir spurninga, snerir talinu nær aldrei að sjálfum þér. Hlustaðir, sást og skynjaðir. Veittir svo vel það sem flestir þrá; óskerta athygli.

Ég finn heldur engin orð til að þakka þér hvernig þú steigst inn í mitt líf og leyfðir mér að njóta vináttu þinnar og leiðsagnar. Þú varst alltaf til staðar. Studdir, vísaðir og lánaðir dómgreind. Jarðbast eldinn. Ávallt að baki í erfiðleikum og velgengni. Sannkallaður bakhjarl. Ég mun reyna að gjalda þá skuld gagnvart komandi kynslóðum, með þig og þína minningu í huga.

Þú varst heimakær. Öll skiptin sem ég sá hvítu mávana fljúga á ljósbláa stellinu ykkar Bistu á Marbakkanum. Þú helltir upp á, bauðst sterkt og gott kaffi með mjólk og eitthvað sætt með, leyfðir mér að draga upp pípu eða vindil með samræðum okkar.

Við náðum nú samt nokkrum ferðum. Ein slík ógleymanleg með vísindamanninum, vini okkar, í heimsókn að Húsafelli og til bænda í Lundarreykjadal og um sveitina sem var þér svo kær, að Hæl í Flókadal.

Styrmir, þú varst margbrotinn maður en í grunninn bjóstu yfir svo miklum mannkærleik. Svo sterkri nærveru. Visku og kænsku. Þú varst maður staðfestu og grundvallarafstöðu. Frá dýpstu rótum hjartans þakka ég þér fyrir að vera alltaf til staðar, fyrir að láta þér ekki standa á sama og umfram allt fyrir að vera svona góður maður.

Að skilnaði sendi ég þér tvær vísur yfir himnuna:

Þitt góðláta eðli, þín gefandi hönd

gæddi margt lífið, skóp vináttubönd.

Nú böndin ei bresta þó upp fari önd

og berist svo tær yfir frelsarans lönd.

Ég kveð þig í sátt en minningin skýr

skín ljóst sem viti er leið minni stýr.

Þinn greinandi hugur svo gefandi og hlýr

í hjarta mér lifir og að eilífu býr.

(HU)

Þinn vinur,

Héðinn Unnsteinsson.

Styrmir Gunnarsson var einn af feðrum Klúbbsins Geysis. Það voru nokkrir málsmetandi menn og konur sem skýrðu út fyrir ráðamönnum þjóðarinnar mikilvægi þess að styðja þá sem þjáðst höfðu af geðsjúkdómum hvers konar til sjálfstæðis eftir að heilbrigðiskerfið hafði sinnt sínu. Þetta var á seinustu árum síðustu aldar og hefur Klúbburinn síðan fylgt mörgum út til betra lífs. Þau byggðu upp Klúbbinn með starfsfólki og félögum í þá mynd sem hann er í dag, þar sem starfað er eftir alþjóðlegri hugmyndafræði og er Klúbburinn vottaður af Clubhouse International. Við höfum þannig sýnt árangur sem stenst erlendan samanburð enda fengið vottun fyrir árangur alveg frá upphafi.

Styrmir var í stjórn Klúbbsins á bernskuárum hans – fylgdi honum eftir meðan verið var að byggja hann upp og var alla tíð haukur í horni hans þegar á þurfti að halda. Yfirvegun hans, raunsæ sýn og eldlegur áhugi á málefninu voru ómetanleg fyrir Klúbbinn. Það var okkur heiður að kynnast slíkum manni.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við þakka honum að leiðarlokum framlag hans sem bætt hefur líf svo fjölmargra. Það er þannig sem góðir menn skilja eftir sig sporin í lífi samborgaranna.

Fyrir hönd Klúbbsins Geysis,

Anna S. Valdimarsdóttir stjórnarformaður, Jón Sigurgeirsson, klúbbfélagi og stjórnarmaður.

Margar góðar minningar koma upp í hugann og djúpt þakklæti fyrir góða samfylgd. Vináttuna þykir mér afar vænt um, kaffispjallið og góð ráð. Ég gat alltaf leitað til Styrmis, hann veitti mér stuðning í oft stormasömu landslagi baráttunnar fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu. Hann leiðbeindi mér af hreinskilni, sinni djúpu þekkingu um málefnið og gaf mér alltaf heiðarlega endurgjöf. Fyrir mig var það ómetanlegt að njóta hans gæsku, þekkingar og vináttu. Ég geymi í hjartanu samtölin okkar og dýrmæta leiðbeiningu.

Styrmir var einlægur baráttumaður fyrir bættri geðheilbrigðisþjónustu og studdi frumkvöðlastarf einstaklinga og hópa. Hann studdi Hugarafl allt frá stofnun og það var honum að þakka að Hugarafl náði svo sterkt inn í samfélagið strax á fyrsta starfsári. Styrmir opnaði Morgunblaðið og ýtti undir að umræða um geðheilbrigðismál komst á annan og betri stað. Það varð sýnilegra að hópur fólks sem gengur í gegnum geðrænar áskoranir er breiður og fjölbreyttur. Umræðan veitti aðhald og minnti á mikilvægi þess að gæta réttinda og virðingar.

Það var einnig hægt að varpa ljósi á nýja hugmyndafræði og aðra nálgun. Hugmyndafræði sem byggist á valdeflingu, virðingu og mannréttindum. Þó enn sé langt í land þegar kemur að því að gera geðheilbrigðiskerfið mannlegra og betra, er alveg ljóst að með óeigingjörnu starfi Styrmis í áratugi skapaðist farvegur til að gera betur og réttlátar.

Styrmir minnti á mikilvægi fjölskyldunnar og þau verðmæti sem felast í þeim stuðningi sem aðstandendur eru svo tilbúnir að veita, oftast án stuðnings frá því meðferðarkerfi sem byggt er upp í kringum einstaklinginn.

Styrmir var alltaf með okkur Hugaraflsfólki í baráttunni, hann kom á viðburði Hugarafls og studdi okkur í ræðu og riti. Styrmir hlaut fyrstu Gáru Hugarafls árið 2008 sem var örlítill þakklætisvottur í hans garð. Gáruna veittum við Styrmi í tilefni af opnum fundi Hugarafls og Árna Tryggvasonar leikara. Fundurinn var opinn almenningi í Norræna húsinu og hlaut nafnið „Uppá grasið aftur“. Í tilkynningu kom fram eftirfarandi: „Tilgangur fundarins er að varpa ljósi á fleiri leiðir til bata geðsjúkra og aukna valmöguleika. Rætt verður um hvort ekki eigi að stíga fleiri skref í þjónustu og þróa fleiri brýr á milli stofnana og samfélags“. Árni Tryggvason leikari steig fram og ræddi áralanga baráttu sína við kvíða. Styrmir var fundarstjóri ráðstefnunnar og við notuðum tækifærið til að hrósa honum sem honum var annars ekkert allt of vel við.

Það að njóta stuðnings og þekkingar Styrmis hefur verið ómetanlegt fyrir Hugarafl og gerði raunar það að verkum að það kom ekki til greina að gefast upp þó að baráttan væri oft erfið. Styrmir vissi að Hugarafl þrýsti á nauðsynlegar breytingar og að nýtt afl varð að koma inn í samfélagið. Samfélag okkur hefur margt að þakka fyrir og ég vona að okkur auðnist styrkur til að fylgja eftir ótrúlegu framlagi Styrmis til að ýta undir breytingar á oft stöðnuðu kerfi.

Innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Auður Axelsdóttir.

Einn af áhrifavöldunum í lífi mínu er genginn á vit feðra sinna.

Bíræfin ung menntaskólastúlka úr verkalýðsstétt vildi verða blaðakona á Morgunblaðinu. Eftir að hafa borið út blaðið frá 10 ára aldri þótti henni ekki tiltökumál að taka strætó niður í Morgunblaðshöll til að óska eftir samtali við annan af tveimur ritstjórum blaðsins.

Handaband Styrmis var þétt og augnaráðið í senn fast og hlýtt þegar hann vísaði henni til sætis í sófa á skrifstofunni fyrir nærri því fjörutíu árum. Mitt í öllu annríkinu átti hún athygli hans óskipta áður en hann benti henni vinalega á að koma aftur þegar hún væri orðin stúdent.

Örlögin höguðu því þannig til að hún kom aftur og starfaði við blaðamennsku á Mogga í 15 ár. Á þeirri vegferð sannfærðist hún ekki aðeins um manngæsku Styrmis heldur dugnað og skarpar gáfur þótt vissulega gæti hann hvesst sig og þau hafi oft ekki deilt sömu pólitíkinni.

Styrmir var sanngjarn yfirmaður, góður hlustandi og bjó yfir afbragðsinnsæi til að átta sig á hvaða viðfangsefni hentuðu hverjum og einum. Þegar hann kallaði mig til sín til að fela mér umfjöllun um sjálfshjálparhópa Geðhjálpar fann ég að þar sló hjarta hans. Hann fylgdist vel með framgangi verkefnisins og hvatti mig áfram þar til ég fékk þá hugmynd að gerast eins konar leynigestur í einum af sjálfshjálparhópunum til að átta mig betur á viðfangsefninu. Þá setti hann í brýnnar.

Reynslunni ríkari, orðin framkvæmdastjóri Geðhjálpar ljósárum síðar, skildi ég betur þennan svip. Þá lágu leiðir okkar Styrmis aftur saman í gegnum baráttuna fyrir bættu geðheilbrigði. Rétt eins og við okkar fyrstu kynni fangaði virðing hans gagnvart fólki óháð stétt og stöðu athygli mína þegar hann kynnti mig fyrir vinum sínum sem samstarfskonu af Morgunblaðinu. Auðmýkt hans og velvilji snart mig og svo marga aðra á langri vegferð hans í pólitík og lífinu sjálfu.

Styrmir hafði ekki þörf fyrir að eigna sér heiður af góðum verkum eða að láta bera á sér. Þegar leið á ævina var hann eins konar „grand old man“ í Kópavogi. Hann hélt áfram að hitta fólk, nýta tengsl sín, þekkingu og reynslu til að láta gott af sér leiða bæði beint og óbeint í ræðu og riti. Hann beitti sér fyrir bættri stöðu barna, fólks með geðvanda og annarra lítilmagna og var óhræddur við að ganga á skjön við stefnu flokksins þegar svo bar undir.

Styrmir var ekki fullkominn frekar en aðrir. Ólíkt svo mörgum hafði hann hins vegar sjálfsþekkingu og hugrekki til að játa mistök sín og tala einlæglega um erfiða persónulega reynslu sína. Þar má nefna þátttöku hans í kalda stríðinu og persónulegar frásagnir hans um lífshlaup sitt og samfylgd konu sinnar með erfiðum geðsjúkdómi.

Í dag kveðjum við mikla manneskju, ekki með hliðsjón af pólitískum sigrum þó áhrif Styrmis hafi vissulega verið mikil á því sviði heldur af því að hann hafði til að bera auðmýkt til að bera jafna virðingu fyrir öllu fólki, hugrekki til að feta sínar eigin leiðir, horfast í augu við sjálfan sig og deila örlátlega með öðrum lífs síns lærdómi.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir.

Ekki grunaði mig þegar ég hitti Styrmi í fyrsta sinn að við ættum eftir að verða jafngóðir vinir og við urðum. Við hittumst fyrst á opnum fundi um ESB árið 2009. Ég var ungur og úr ræðustólnum fylgdist ég með Styrmi og fann sterkt að hann var að taka út þennan unga sveitamann. Ég hafði heyrt margt um Styrmi og umræður í æsku minni um ritstjórann á Morgunblaðinu voru ekki alltaf fallegar.

Í upphafi þingferils míns lágu leiðir okkar reglulega saman gegnum málefni tengd ESB. Ég var ungur stjórnarliði, í forsvari fyrir þá sem vildu ekki að Ísland gengi í ESB, og Sjálfstæðisflokkur Styrmis var í stjórnarandstöðu. Fyrstu árin hafði ég ákveðinn vara á mér gagnvart Styrmi, enda alinn upp við að Sjálfstæðisflokkurinn setti eigin hagsmuni alltaf í 1. sæti. Engu að síður vorum við í góðu sambandi og um tíma töldu sumir að Styrmir stýrði því sem ég segði og ritaði. Sannleikurinn var þó sá að eftir því sem við kynntumst meira dró úr samtölum okkar um hefðbundin pólitísk mál.

Ég man sérstaklega vel eftir skemmtilegum fundum þegar Ragnar Arnalds bauð mér, Styrmi og Guðna Ágústssyni í kaffi til sín. Efni fundanna átti að vera ESB en yfirleitt talaði ég lítið, hallaði mér aftur og naut þess að hlusta á þessa þrjá reynslumiklu menn takast á um stjórnmál.

Það má segja að það hafi orðið ákveðin kaflaskil í sambandi okkar Styrmis þegar bókin Ómunatíð kom út sem fjallaði á opinskáan hátt um sjúkdómsbaráttu eiginkonu Styrmis og þau áhrif sem hún hafði á hann og fjölskylduna. Við áttum langt og gott spjall eftir útgáfu bókarinnar og í framhaldinu fann ég hvernig samband okkar breyttist. Eftir þetta fann ég sterkt hversu stórt hjarta Styrmir hafði. Það var þarna sem kunningsskapurinn byrjaði að þróast yfir í vináttu, þó langur vegur væri frá því að ég gæti fjallað um persónuleg mál á jafn opinskáan hátt og Styrmir gerði í bókinni.

Þegar ég varð ráðherra fyrir tæpum fjórum árum sagði ég við Styrmi: „Núna gerum við þetta sem við höfum talað um. Núna vinnum við kerfisbreytingar fyrir börnin sem búa við erfiðar aðstæður.“ Frá þessum tíma hafa fáir veitt mér persónulega jafn mikinn stuðning í þessum málum og minn góði vinur og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Til að varpa ljósi á hversu mikinn áhuga hann hafði á þessari vinnu þá ræddum við sjaldnast um önnur mál en þau sem tengdust breytingum í málefnum barna. Við ræddum þessi mál oft, hann hlustaði og veitti mér góðar ráðleggingar sem skiptu miklu máli.

Eftir að Styrmir veiktist heimsótti ég hann nokkrum sinnum. Það var glampandi gleði í augum hans þegar stórar lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi í vor. Þegar ég heimsótti hann í sumar og útskýrði næstu skref sagði ég honum hughreystandi að hann mætti ekki fara strax því við værum rétt að byrja. Ég fann að honum þótti vænt um þessi orð en úr brosi hans mátti lesa að hann væri að undirbúa sig undir ferðalagið.

Ég trúi því að Styrmir sé á góðum stað og fylgist áfram með breytingum í málefnum barna. Ég vil að lokum nota tækifærið og votta fjölskyldu hans innilega samúð.

Ásmundur Einar Daðason,

félags- og barnamálaráðherra.

Ég hefði ekki trúað því fyrir svo sem hálfri öld að það ætti fyrir mér að liggja að rita minningarorð um ritstjóra Morgunblaðsins. Mogginn var jú tæki illu aflanna, ef ekki illskan sjálf í svo mörgum málum. Einhvern veginn tókst mér þó alltaf að fá birtar greinar hjá Matthíasi og Styrmi og ég minnist þess meira að segja að blaðinu hafi verið haldið opnu eitt sinn til kl. 17 á föstudegi meðan beðið var eftir svargrein frá mér í tilteknum aðalfundarslag hjá Geðhjálp.

Við sem tekist höfum á við geðrænar áskoranir og félagið Geðhjálp stöndum í mikilli þakkarskuld við Styrmi. Stuðningur hans, hlýja og virðing, sem við fundum ævinlega fyrir, í nærveru hans á fundum með okkur og í ótal verkum til að styrkja okkar málstað, verður seint fullþakkað. Persónulega var það mín reynsla að enginn maður hefur á sama hátt lyft mér upp með hlýjum orðum og viðurkenningu á framlagi til okkar sameiginlega baráttumáls, og þá minntist hann gjarnan gömlu daganna í starfi TENGLA.

Ég minnist atviks á seinni árum er við sátum saman á opnum fundi hjá Geðhjálp og sátum aftarlega í salnum. Þá halla ég mér að honum og hvísla: Styrmir, ég er farinn að standa mig að því að vera sammála þér æ oftar. Ég sagði þetta í hálfgerðum áhyggjutón en var þá að vísa ekki hvað síst til föstu laugardagspistlanna hans í Morgunblaðinu.

Þá svarar Styrmir að bragði: Hvernig heldurðu að mér líði þá?

Ég þakka Styrmi innilega fyrir samfylgdina, stuðning hans við mannréttindabaráttu geðsjúkra og aðstandenda, glæsilegt fordæmi hans og frumkvæði í málum okkar.

Innilegar samúðarkveðjur til dætra Styrmis og annarra aðstandenda.

Blessuð sé minning hans.

Sveinn Rúnar Hauksson.

Sá Styrmir Gunnarsson, sem ég kynntist ungur, var ólíkur hinni opinberu mynd af Morgunblaðsritstjóranum, en hann átti að vera klækjarefur með alla þræði í hendi sér. Sá Styrmir, sem ég þekkti, hafði þrjá eiginleika til að bera í meira mæli en flestir aðrir: hann var trygglyndur, vinnusamur og tilfinninganæmur. Hann var um árabil einn nánasti trúnaðarmaður Geirs Hallgrímssonar, enda sagði Geir mér úti í Lundúnum haustið 1981, að hann vildi helst, að Styrmir tæki við formennsku af sér. Er bók Styrmis um átökin í Sjálfstæðisflokknum á áttunda og níunda áratug hin fróðlegasta. En Styrmir var ekki síður tryggur æskuvinum sínum, jafnvel þótt þeir hefðu haslað sér völl annars staðar, og þótti okkur sjálfstæðismönnum stundum nóg um.

Styrmir var afar vinnusamur, vakinn og sofinn á Morgunblaðinu, en um leið jafnan reiðubúinn að eyða löngum tíma í spjalli yfir hádegisverði eða kaffibolla, og kom þá í ljós, hversu áhugasamur hann var um fólk. Hann hugsaði miklu frekar í mönnum en málefnum, fannst mér stundum. Þó var hann eindreginn fylgismaður lýðræðisþjóðanna í kalda stríðinu og stundaði þá upplýsingaöflun fyrir vesturveldin, eins og hann lýsir í einni bók sinni. Hann sagði mér, að þeir Matthías Johannessen hefðu ákveðið eftir sigurinn í kalda stríðinu að beita ekki hinu mikla afli Morgunblaðsins til að gera upp við íslenska kommúnista. Græða þyrfti sár frekar en stækka. En hann efaðist samt stundum um, að sú ákvörðun hefði verið rétt, sérstaklega eftir að hann las bækur okkar Þórs Whiteheads og Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna.

Styrmir var í þriðja lagi mjög tilfinninganæmur. Hann var í hjarta sínu, fannst mér, enginn sérstakur stuðningsmaður hinna ríku og voldugu, eins og margir héldu, heldur hafði hann óskipta samúð með lítilmagnanum, hver sem hann var. Hann tók alltaf svari smákapítalistanna gegn stórlöxunum. Jafnframt átti hann til mikla blíðu. Við sátum stundum að skrafi á skrifstofu hans á Morgunblaðinu, og var hann þá hinn ákveðnasti, en ef dætur hans hringdu, tók hann alltaf símann og málrómurinn breyttist, röddin lækkaði og mýktist. Hann reyndist fjölskyldu sinni og vinum mjög vel, og hann elskaði land sitt og þjóð fölskvalaust. Hann var þjóðernissinni í bestu merkingu þess orðs.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Styrmir Gunnarsson var einn þeirra manna sem var svo áberandi í íslensku þjóðlífi að það er eins og maður hafi alltaf þekkt hann. Þó er það svo að ég byrjaði fyrst að vera í reglulega talsambandi við hann eftir að ég kom heim úr námi og gerðist aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Ég kynntist Styrmi líka í gegnum Einar Odd tengdaföður minn, en þeir ræddu oft og mikið saman.

Þegar ég hóf þingmennsku eftir kosningarnar árið 2007 þótti mér mjög gagnlegt að leita til Styrmis og fá álit hans á ýmsum málum. Mér fannst hann vera örlátur á tíma sinn og alltaf til í að gefa ráð. Mér er minnisstætt þegar ég hringdi kexbrjálaður í hann yfir því alheimsóréttlæti sem ég taldi mig hafa orðið fyrir við skipan í þingnefndir árið 2007. Hann hlustaði á þusið í mér og síðan fylgdi kennslustund í sögu átaka um nefndarskipaninr þingflokks Sjálfstæðisflokksins síðustu áratugi. Síðan benti hann mér á að ég myndi lifa betur og lengur ef ég hætti að æsa mig yfir smámunum, nóg væri af mikilvægum málum til að fást við og vera æstur yfir ef því væri að skipta. Mér hefur síðan gengið svona og svona að fara eftir þessum góðu ráðum Styrmis.

Í samtölum okkar ræddum við mjög oft sögu Sjálfstæðisflokksins, ég spurði og hann svaraði. Ég var á Sólbakka vestur á Flateyri þegar ég átti síðasta samtalið mitt við Styrmi. Við ræddum um Ólaf Thors og samskipti hans við Einar Olgeirsson, m.a. í ljósi þess ríkisstjórnarsamstarfs sem nú er að renna sitt skeið. Af þessum samtölum við Styrmi hafði ég mikið gagn og gaman. Hann bað mig um að lesa yfir próförk að bók sinni Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar. Það var skemmtilegt verkefni og ég gaf mér góðan tíma til verksins. Sumar athugasemda minna tók Styrmir til greina og aðrar ekki, eins og gengur. En vinnulaunin voru afar góð, við sátum yfir kaffi og súkkulaði heima hjá honum tímunum saman og ræddum efni bókarinnar sem og stöðu stjórnmála á Íslandi og í Evrópu síðastliðin hundrað ár eða svo.

Skemmtilegast var þó að ræða um málefni líðandi stundar við Styrmi. Ég las allt sem hann skrifaði, var oft sammála honum. En oft var ég líka mjög ósammála honum og það var þá sem mest gaman var að hringja í hann og rökræða. Það var langt á milli okkar í sumum málum, eins og til dæmis í sjávarútvegsmálum, við vorum ekki á sama máli um beint lýðræði og ég ekki alfarið sammála honum um stöðu alþjóðamála. Og það var einmitt um þessi mál og fleiri sem var svo gaman og gefandi að rökræða við Styrmi.

Fyrir utan að vera sammála um mikilvægi hins frjálsa samfélags þá vorum við mjög samstíga í skoðun okkar um mikilvægi lista og menningar fyrir samfélagið. Við deildum áhuga á píanótónlist og Styrmir var oft gestur á stofutónleikum á heimili okkar Brynhildar, bæði á Ránargötu og á Ljósalandi. Mér er mjög minnisstætt hversu upptendraður og stoltur Styrmir var fyrir hönd þjóðarinnar þegar við ræddum saman eftir tónleikana í Háskólabíói þegar Víkingur Heiðar flutti píanókonsert Daníels Bjarnasonar undir stjórn tónskáldsins, skömmu eftir bankahrun. Það var eins og verkið og flutningur þess sannaði fyrir Styrmi að þótt ýmislegt væri ekki í lagi í þjóðfélaginu, þá ætti þjóðin glæsta framtíð og það fæddust enn snillingar á Ísland.

Í síðasta pistli sínum í Morgunblaðinu lagði Styrmir til að gengið yrði í það verk að skrásetja verk íslenskra tónskálda, útgáfu þeirra og frumflutning. Hann nefndi að harðsnúin klíka manna úr öllum flokkum stæði að baki kröfunni. Þessi klíka er sannarlega til og hafandi sjálfur hitt a.m.k. hluta hennar vil ég gefa fjárlaganefnd komandi Alþingis það ráð að gefast strax upp og finna til fjármagn í þetta þarfa verkefni.

Svona var Styrmir, hugsandi og skrifandi um áhugaverða hluti allt fram í andlátið. Það er sjónarsviptir að honum og ég sendi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Illugi Gunnarsson.

Það er mikil eftirsjá að Styrmi Gunnarssyni , fjölskylduvini í meira en hálfa öld. Hann var með sínum rökfasta penna mikill áhrifavaldur í íslensku þjóðlífi en fyrir fjölskyldu okkar var hann fyrst og fremst traustur og góður vinur.

Vinskapur okkar við Bistu og Styrmi hófst með alíslenskum hætti þess tíma. Við ákváðum ásamt öðrum að reisa fjölbýlishús. Það gekk upp samhliða því að þar ólust upp dætur þeirra Hulda Dóra og Hanna Guðrún og börn okkar Kristín Hulda, Katrín Auður og Aðalsteinn Haukur og mynduðu tengsl sem hafa haldist síðan.

Styrmir hafði næmt auga og sterkar tilfinningar fyrir öllu sem er íslenskt – náttúru landsins, tungu og sögu. Þetta kom meðal annars fram í fjölskylduferðum okkar á níunda áratugnum þegar við með sameiginlegum vinum heimsóttum árlega í júlí/ágúst fáfarna staði á þeim tíma. Hann hafði nefnilega þann hátt á að skrá hjá sér það sem fyrir höndum bar og skrifa síðan lýsingu í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins með sögulegu ívafi og tilvitnunum um staðina og umhverfi. Þannig getur maður flett upp frásögnum um spaka yrðlinga á vappi við Hesteyri, hættulegum atvikum á Gæsavatnaleið, farangursflutninga upp og niður hinn alræmda Illakamb í Lóni, og mannlíf til forna á eyðibýlinu Eintúnaháls (á leið upp að Laka) en þangað átti hann ættir að rekja.

Styrmir kunni þá list að hlusta og hlusta vel á það sem sagt var við hann. Það kom honum sjálfsagt vel í starfi en það hafði í för með sér sterka tengingu við viðmælendur. Hann sýndi af sér einstaka hæfileika í veikindum Bistu að koma til skila í ræðu og riti hve öflug geðhjálp er bæði nauðsynleg og brýn. Og fáir eiga jafn stóran þátt í að koma af stað opinberri umræðu um þessi mikilvægu mál.

Við þökkum samfylgdina með Bistu og Styrmi og vottum systrunum og börnum þeirra innilega samúð okkar.

Guðný og Sverrir Haukur.

Margir þeirra, sem voru nemendur í Laugarnesskólanum á árunum kringum 1950, muna eftir einum bekknum, sem bar hróður sinn og skólans víða. Orðið, sem fór af bekknum meðal nemenda í næstu árgöngum á eftir, má ráða af því, að það var talað um „stóru krakkana“ með ákveðinni virðingu þegar þessi bekkur átti í hlut. Sú virðing óx í krafti þess hlutverks sem bekkjarsystkinin áttu eftir að leika í þjóðlífinu og á sér varla hliðstæðu. Meðal þeirra var Styrmir Gunnarsson, sem margir munu minnast sem eins merkasta manns landsins meðan hans naut við. Ekki vegna þess hann hefði gegnt áberandi embættum, heldur vegna þess að hann var á sinn hátt hinn hljóðláti afreksmaður á vettvangi þar sem fullkomin fagmennska, vönduð og metnaðarfull vinnubrögð og glöggskyggni voru höfð í hávegum til að ná hinum ýtrasta árangri. Tvíeykið Styrmir Gunnarsson og Matthías Johannessen var óviðjafnanlegt og skóp einstakt veldi Morgunblaðsins, sem meðal annars byggðist á því að opna blaðið fyrir sem fjölbreyttustum skoðanaskiptum. Sjálfur lagði Styrmir góðum málum lið, svo sem geðheilbrigðismálum, og skylt er að nefna þann drjúga skerf sem hann lagði af mörkum á síðustu æviárunum í baráttunni fyrir vernd og varðveislu einstæðrar náttúru Íslands af víðsýni, rökfestu og sannfæringu. Hann skrifaði á þann hátt að fólk skildi eðli mála, til dæmis þegar hann jafnaði baráttunni fyrir vernd og varðveislu íslenskra náttúruverðmæta við baráttuna fyrir vernd fiskimiða og lífríkis hafsins. Hann var einn af „stóru krökkunum“ í víðum skilningi fram á hinstu stund og er því kvaddur með djúpri virðingu og þökk.

Ómar Ragnarsson.

Ég á mér draum

um betra líf.

Ég á mér draum

um betri heim.

Þar sem allir eru virtir,

hver á sínum stað,

í sinni stétt og stöðu.

Þar sem allir eru mettir

gæðum sannleikans.

Þar sem allir fá að lifa

í réttlæti og friði.

Þar sem sjúkdómar,

áhyggjur og sorgir

eru ekki til.

Og dauðinn aðeins upphaf

að betri tíð.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Nú hefur Styrmir Gunnarsson verið leystur undan þjónustu við menn og málefni og hefur verið kallaður inn í himin Guðs þar sem allir eru mettir gæðum sannleikans. Þar sem allir fá að lifa í réttlæti og friði. Þar sem sjúkdómar og sorgir eru ekki til. Og dauðinn aðeins upphaf að betri tíð.

Styrmir Gunnarsson var merkur maður sem hafði með einlægni sinni, brennandi áhuga og einurð mikil áhrif á samfélag sitt. Hann fylgdist vel með og var með puttann á púlsinum. Hann var afar næmur og hjartahlýr, skilningsríkur, góður hlustandi og hluttekningarsamur maður. Hann virti fólk og skoðanir þess og það sem það hafði fram að færa, þótt hann væri vissulega ekki alltaf sammála öllum um allt og gæti greint á um leiðir. Þá var hann viðræðugóður og fannst að sjónarmið þyrftu að heyrast og lagði hann sannarlega sitt af mörkum í þeim efnum. Hann átti auðvelt með að setja sig í spor náungans og meta framlag fólks til umræðunnar hverju sinni í ævinnar stormi.

Hann upplifði margt bæði í störfum sínum og einkalífi og þurfti að lifa með og takast á við menn um málefni en einnig þurfti hann að takast á við sjálfan sig og sitt einkalíf líkt og við öll þurfum að gera, sem hann og gerði með einstökum og eftirtektarverðum hætti sem sannarlega er til eftirbreytni.

Um leið og ég sendi fjölskyldu hans og hinum fjölmörgu samferðamönnum fyrr og síðar sem og öllum velunnurum hans sem kynntumst honum og nutu þess að vera í samskiptum við hann og þess sem hann hafði fram að færa innilega samúðar- og kærleikskveðju þakka ég Styrmi hér með með mikilli virðingu fyrir samfylgd hér á síðum blaðsins í tæp 40 ár og fyrir að sýna mér velvild, skilning og hvatningu allt frá því að ég steig mín fyrstu skref á ritvellinum tvítugur að aldri. Bið ég þess og vona að hann fái nú að upplifa draum sinn um bætt og betra líf í nýjum heimi þar sem allir eru virtir fyrir sitt framlag til lífsins.

Bið ég algóðan Guð, höfund og fullkomnara lífsins, að blessa minningu Styrmis Gunnarssonar og einnig öll þau sem hann elskaði mest og unni heitast.

Sigurbjörn Þorkelsson.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja þakka Styrmi Gunnarssyni ómetanlegan stuðning í ræðu og riti.

Kynni okkar af Styrmi ná eingöngu aftur til ársins 2015 þannig að þau eru ekki löng en þau voru samt sem áður dýrmæt bæði okkur persónulega og Hagsmunasamtökunum því hann studdi málstað þeirra með ráðum og dáð.

Hlýjan sem frá honum stafaði og hvatningin í orðum hans, bæði til okkar persónulega og í opinberum skrifum, hafa verið okkur og baráttu HH fyrir réttlæti ómetanleg því það var hlustað þegar Styrmir talaði.

Eins og alþjóð veit var Styrmir var einstaklega fróður um menn, málefni og söguna. En hann bjó ekki bara yfir fróðleik, af honum stafaði djúp viska sem var allt að því áþreifanleg með hætti sem erfitt er að lýsa.

Flokkspólitík skipti engu máli í samskiptum við Styrmi enda vorum við öll sammála um grundvallaratriði eins og réttlæti til handa heimilunum sem lentu illa í hruninu, og að aldrei skuli þjóðin, undir nokkrum kringumstæðum, framselja réttinn á auðlindum sínum í hendur erlendra aðila.

Við teljum að sú barátta hafi reynt töluvert á Styrmi því í henni reis hann upp gegn gömlum félögum. Margir hefðu látið kyrrt liggja en ekki Styrmir. Hann gaf ekkert eftir og barðist fyrir þessari sannfæringu sinni þó það væri ekki líklegt til vinsælda í flokki sem hann studdi alla sína tíð.

Fólk sem stendur með sannfæringu sinni með þessum hætti á virðingu skylda. Styrmir á okkar ómælda.

Blessuð sé minning Styrmis Gunnarssonar.

Fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir og

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir.

Það var snemma árs árið 2000 að ég hitti Styrmi Gunnarsson í fyrsta sinn. Ég og Diljá Ámundadóttir höfðum, að tillögu reyndrar konu, bókað fund með ritstjóra Morgunblaðsins til að ræða þá meinsemd sem kynferðisofbeldi var og er í íslensku samfélagi og krefjast úrbóta í umfjöllun fjölmiðla. Hvorug okkar mun nokkru sinni gleyma þessum fundi – og það gerði Styrmir heldur ekki. Við vorum ungar og óðamála. Styrmir hlustaði, spurði og endurtók. Og lærði. Þetta var ein af hans sterkustu hliðum: að mæta manneskjunni og reyna að skilja það sem hann kannski gat ekki skilið. Í kjölfarið réðst Morgunblaðið í viðamikla umfjöllun um meðferð nauðgunarmála og ritstjórnarstefna blaðsins breyttist. Þetta var gott veganesti fyrir ungt fólk í réttlætisbaráttu.

Þessi kynni mín af Morgunblaðinu urðu til þess að ég sótti þar um sumarvinnu, sem ég fékk í annarri atrennu. Ég starfaði þar með ýmsum styttri hléum í sex ár og á þessum tíma bauð Styrmir mér reglulega til samtals þar sem hann yfirheyrði mig um skoðanir mínar á mönnum og málefnum og tilfinningu mína fyrir pólitískum sviptivindum. Þarna kynntist ég fleiri hliðum hans, líka kaldastríðsmanninum sem hafði háð stríð þar sem allt var leyfilegt. Þetta var alvöru skóli.

Styrmir stóð vörð um réttindi mín til að hafa skoðanir sem ekki samræmdust hinum gagnrýniverðu hlutleysisviðmiðum sem blaðamönnum voru ýmist sett eða þeir settu sér sjálfir. Það stóð í mörgum þegar ég var gerð að þingfréttaritara Morgunblaðsins árið 2007, hlutleysisraddirnar hljómuðu víða og mörgum á hægri vængnum þótti nóg um. Styrmir sagði mér löngu síðar að stundaðar hefðu verið skipulagðar hringingar þar sem kvartað var undan fréttaskrifum mínum. Þetta lét hann hins vegar aldrei rata til mín, enda skotið yfir markið. En hann hafði stundum athugasemdir sjálfur og ef þær voru réttmætar gat honum orðið heitt í hamsi.

Morgunblaðið á þessum tíma var ekki bara dagblað, það var stofnun. Styrmir og Matthías Johannessen höfðu í sameiningu byggt upp blað með breiða skírskotun og fjölbreyttum hópi fagfólks sem kunni að búa til blað. Það er ekki við hæfi hér að fjalla um hvernig Morgunblaðið breyttist eftir dag Styrmis og hvernig breytingar áranna hafa farið með blaðamennsku, heldur miklu fremur að dvelja við þakklætið sem ég ber í brjósti fyrir árin á Morgunblaðinu, eins og það var undir hans ritstjórn.

Við Styrmir héldum alltaf sambandi. Í sínum síðasta tölvupósti til mín fagnaði hann ráðningu minni til ASÍ; honum leið alltaf vel að vita af fyrrum blaðamönnum Moggans á sem fjölbreyttustum stöðum í samfélaginu. Og í okkar síðasta samtali – sem við áttum fyrir skemmstu – var fyrsta spurningin: „Hvað eru vinstri menn að hugsa?“ Svo fylgdu margar spurningar og eins og áður gerði ég mitt besta til að svara. „Ég ætla ekki að þreyta þig lengur,“ sagði ég þegar ég kvaddi. Nú er hvíldin komin og megi hún vera Styrmi Gunnarssyni góð.

Um leið og ég þakka samfylgdina votta ég dætrum hans, ættingjum og vinum mína dýpstu samúð.

Halla Gunnarsdóttir.

Ég ræddi útgáfumál líklega fyrst við Styrmi Gunnarsson einhvern tíma á tíunda áratugnum þegar ég var útgáfustjóri Vöku-Helgafells. Þá gekk hann með þá hugmynd að skrifa sögu Sjálfstæðisflokksins á tímum Geirs Hallgrímssonar. Sem áhugamanni um pólitík fannst mér vitaskuld magnað að hitta þetta stórveldi í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Á næstu árum bárust þessi skrif í tal þegar leiðir okkar lágu saman eða við töluðum saman í síma út af ýmsum málum. Það var þó ekki fyrr en hann hafði lokað ritstjóraskrifstofu Morgunblaðsins að baki sér að hann hófst handa við bókarskrif.

Á árunum 2009 til 2017 gáfum við hjá Veröld út sex stórmerkilegar bækur eftir hann. Allar voru þær á sviði þjóðfélagsmála – nema ein.

Hann fjallaði um hrunið í bókunum Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn (2009) og Hrunadans og horfið fé (2010) þar sem hann skrifaði bók upp úr rannsóknarskýrslu Alþingis á ógnarhraða.

Sjálfstæðisflokkurinn – átök og uppgjör kom út 2012 – bókin sem upphaflega bar á góma hjá okkur: „Þessi bók átti að verða til fyrir tveimur áratugum. Af því varð ekki vegna anna. Ég hafði þá og hef enn þörf fyrir að fjalla um átökin í Sjálfstæðisflokknum frá láti Bjarna Benediktssonar 10. júlí 1970 og fram til ársloka 1985 og raunar lengur út frá sjónarhóli okkar stuðningsmanna Geirs Hallgrímssonar. Ég tel að því afreki sem hann vann við að halda Sjálfstæðisflokknum saman á þeim árum hafi ekki verið gerð fullnægjandi skil. Þessi bók er tilraun til þess.“

Hann var ekki hættur að fjalla um Sjálfstæðisflokkinn. Tveimur árum síðar kom Í köldu stríði – Barátta og vinátta á átakatímum sem var hreinskiptin lýsing á veröld sem var í íslenskri pólitík. Þá sendi hann frá sér Uppreisnarmenn frjálshyggjunnar árið 2017 þar sem hann var enn að fjalla um þætti úr sögu flokksins úr innsta hring.

Allar bera þessar bækur þess merki að Styrmir vildi gera upp fortíðina á heiðarlegan hátt.

En sú bók sem mun án nokkurs vafa halda nafni hans hvað lengst á loft er Ómunatíð – saga geðveiki (2011). Þar fjallaði hann um veikindi Bistu, eiginkonu sinnar, og áhrifin sem þau höfðu á líf hans og dætra þeirra. „Ef þessi saga hjálpar einhverjum þeirra [sem verða fyrir þungum áföllum vegna geðsjúkdóma] að takast á við þetta erfiða líf er til einhvers unnið.“ Í ómunatíð var leiðarhnoðað hjá Styrmi að þegar búið er að segja frá öllu, er ekki lengur yfir neinu að þegja.

Í öllu þessu útgáfustússi fór ekki hjá því að pólitík líðandi stundar og fyrri tíma bærist í tal. Eins og nærri má geta voru þau samtöl upplýsandi, fróðleg en um fram allt áhugaverð og skemmtileg. Alltaf var stutt í brosið, röddin var hlý og maður fann að hann var með okkur í liði í bókaútgerðinni. Eins og þegar hann sendi mér skeyti um að þekktur maður á stjórnmálasviðinu hefði áhuga á að skrifa sögu sína og væri jafnvel byrjaður. „Hvernig er best að ná sambandi við hann?“ skrifaði ég á móti. „Þú hringir í hann.“ Kannski kemur sú bók út á næstu misserum.

Ég votta dætrum Styrmis, Huldu Dóru og Hönnu, innilega samúð mína.

Pétur Már Ólafsson.

Kæri Styrmir.

Það var mér mikið áfall að heyra af andláti þínu, enda taldi ég þig á góðri leið í bataferlinu er ég sá aftur sunnudagspistlana þína í Morgunblaðinu í sumar. Ég held að ég geti fullyrt að þú hafir verið einn merkilegasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni enda búnir að hittast árum saman og höfum rætt um hin ýmsu mál frá ýmsum hliðum og baunað á hvor annan með tilheyrandi húmor. Fáir menn voru með jafnstórt tengslanet þvert á stjórnmálaflokka og viðskiptablokkir sem og aðra lykilmenn í íslensku samfélagi sl. áratugi.

Vinátta okkar hófst þegar Baugsmálið svokallaða stóð sem hæst, er við ræddum um hina dapurlegu „skæruliðadeild“ sem þá beitti sér gegn þér og fleiri aðilum þér tengdum og reyndi að matreiða allt málið sem skipulagða rógsherferð „Bláu handarinnar“ svokölluðu, og að allur málatilbúnaður ákæruvaldsins væri fyrst og fremst skipulögð rógsherferð og dylgjur öfundarmanna Baugs.

Stuttu síðar ræddum við um „fjármálamiðstöðina Ísland“ en þá hafði fjölskylda okkar fjárfest stóran hluta eigna sinna í fjárfestingarfélaginu Gnúpi hf. sem var á þeim tíma einn stærsti hluthafi Kaupþings banka sem og FL Group hf.

Var ég þá búsettur erlendis og átti afar erfitt með skilja tugprósenta gengishækkanir þessara félaga á árinu 2007 og ekki síst þessi margfrægu „krosseignatengsl“ stærstu hluthafa bankanna. Það var stórmerkilegt að heyra hvernig þú fékkst nánast alla stjórnendur bankanna á fund sem og fulltrúa stærstu endurskoðunarfyrirtækja landsins þar sem allir sögðu kerfið afar sterkt og árangur íslensku fjármálafyrirtækjanna væri fyrst og fremst hugvit, metnaður og góður rekstur!

Um mitt ár 2017 er ég kom heim til Íslands vegna dómsmáls sem fjölskyldan þurfti að höfða, m.a. gegn fyrrum stjórnendum fjárfestingarfélagsins Gnúps, fórum við að hittast 2-3 í mánuði á heimili þínu og héldum þeim fundum áfram allt fram að sl.vori.

Sú aðstoð sem þú veittir okkur í þessum fjölskylduharmleik var ómetanleg enda vissir þú hvaða aðferðum yrði beitt gegn okkur enda sömu lögmenn þar að verki og léku aðalhlutverkið í Baugsmálinu fræga. Teymi okkar var þá tvöfaldað og landslið sérfræðinga kallað út til að styrkja okkur og nú er aðalmeðferð fram undan og mun ég sakna þín verulega þegar sú barátta hefst.

Það sem stendur hins vegar fyrst og fremst upp úr okkar góðu samtölum, var sú ástríða sem þú hafðir við að laga ójöfnuð, bæta lífskjör þeirra sem minna mega sín og auka auka fjárframlög til geðsjúkra á Íslandi.

Einnig hafðir þú brennandi áhuga á að finna skynsamlega lausn á hinum endalausu deilum um kvótakerfið fræga, þ.e. að byggja brú til fulltrúa þessara glæsilegu fyrirtækja og almennings og útrýma þessum deilum í eitt skipti fyrir öll.

Ég þakka þér fyrir vináttu okkar Styrmir og ég mun sakna okkar góðu samtala. Ég veit að þú finnur þér góðan stað í nýjum heimkynnum og haldir áfram að láta gott af þér leiða. Ég mun svo sannarlega halda áfram á þeirri vegferð með þau mál sem við ræddum svo oft um og gera það sem í minu valdi stendur til að opna augu annarra hvað þau mál snertir.

Þinn vinur,

Björn Sch. Thorsteinsson.

Að byggja upp traust. Það er það sem mér er minnisstæðast í samskiptum mínum við Styrmi Gunnarsson – hvað sem stjórnmálaskoðunum líður. Á vissu tímabili hittumst við þó nokkrum sinnum á skrifstofu hans í Morgunblaðshúsinu þegar ég kom heim frá London þar sem ég var við doktorsnám í arkitektúr við The Bartlett School of Architecture (UCL). Við mæltum okkur mót til að spjalla um hvað væri nýtt af nálinni í arkitektúr bæði hér heima og erlendis og þekktumst því ágætlega.

Nokkrum árum síðar fékk ég símtal til Spánar þar sem ég bjó og bý enn. Það var um síðustu aldamót. Þetta símtal olli straumhvörfum í lífi mínu og hefur vonandi haft áhrif á aðra. Efni símtalsins leiddi nefnilega til greinaflokksins Sögur húsanna (http://sagahusanna.blogspot.com). Ég fékk þá áskorun að skrifa vikulegar greinar fyrir Fasteignablaðið, efla fjölbreytni þess og höfða til fleiri lesenda. Greinarnar voru skrifaðar sameiginlega með Javier Sánchez Merina arkitekt.

Þó greinarnar yrðu stuttar var okkur mikilvægt að bera efni þeirra og sannleiksgildi undir höfunda húsanna, arkitektana sem þau höfðu teiknað. Efniviðurinn var nefnilega oft gripinn við kaffiborðið eða eitthvað sem höfðum heyrt. Við þurftum staðfestingu áður en greinin var birt, fá grænt ljós. Ég held að Styrmir hafi kunnað vel við slík vinnubrögð, að láta greinar ekki frá sér fara fyrr en málefnið væri skoðað niður í kjölinn.

Flokkarnir urðu fleiri en Sögur húsanna urðu ekki aðeins lesefni áskrifenda Morgunblaðsins. Eftir birtingu voru þær þýddar á spænsku og greinar úr flokknum birtar vikulega í héraðsblaðinu La Verdad og ABC á landsvísu. Ferilsaga Sagna húsanna er löng og óþarfi að telja hana alla upp. Greinarnar hafa þó orðið að efnivið fyrir fjölda fyrirlestra víðs vegar um heim og námsefni fyrir arkitektaskóla í Ottawa í Kanada og Umeå í Svíþjóð og nú í vikunni hönnunardeild Listaháskólans.

Við eigum Styrmi margt að þakka á sviði menningarlegrar umræðu, þessi saga er aðeins ein þeirra. Megi hann hvíla í friði.

Ég sendi fjölskyldu Styrmis innilegar samúðarkveðjur.

Halldóra Arnardóttir,

PhD listfræðingur.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tæpum tveimur vikum segir Styrmir Gunnarsson meðal annars frá vináttu þeirra Atla Heimis Sveinssonar tónskálds og frumkvæði nokkurra æskuvina Atla að stofnun samtaka sem höfðu að markmiði að skrásetja höfundarverk hans sem er æði stórt í sniðum. Inn í þennan hóp komum við nokkrir vinir Atla úr tónlistarheiminum og leiddum þessa vinnu með góðri hjálp Sifjar Sigurðardóttur, konu Atla, og Kristínar Sveinbjarnardóttur. Fundir samtakanna voru jafnan líflegir og gefandi enda æskuvinirnir þjóðkunnir einstaklingar, þeirra á meðal Halldór Blöndal, Ragnar Arnalds, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson að ógleymdum þeim Atla og Styrmi. Styrmir var með sinni skörpu greind og djúpa innsæi einkar atkvæðamikill í þessu starfi enda skilaði það miklum árangri. En hann horfði lengra og benti oft á nauðsyn þess að skrásetja höfundarverk íslenskra tónskálda og verk úr öðrum listgreinum eins og fyrrnefnd grein í Morgunblaðinu ber vott um.

Við undirrituð vottum fjölskyldu Styrmis Gunnarssonar okkar dýpstu samúð um leið og við þökkum honum dýrmæt kynni og öflugt starf fyrir Hollvinasamtök Atla Heimis Sveinssonar.

Sigurður Ingvi Snorrason og

Áshildur Haraldsdóttir.

Það er ekki á hverjum degi sem óútnefndur landsfaðir kveður þetta líf. En það var Styrmir Gunnarsson svo sannarlega. Sagt var að völd Styrmis á ritstjórastóli Morgunblaðsins hafi verið ígildi ráðherrastarfs, og má færa rök fyrir því. Eina fötlun Styrmis var að hann var sjálfstæðismaður alla sína tíð. Ekki veit ég hvort hið yfirgengilega mannréttindatraðk Stalíns gerði hann svona fráhverfan vinstrinu, en eitthvað af þeirri stærðargráðu hlýtur það að hafa verið. Styrmir hefði sómt sér prýðilega á ritstjórn Þjóðviljans í seinni tíð, eða bara hvaða vinstra blaðs sem var, með alla mannúðina sem hann bar með sér og úr penna hans kom. En segja má að Mogginn með Styrmir og Matthías hafi eiginlega fallið fyrir eigin bragði þegar frjálshyggjuófögnuðurinn reið húsum hér á Vesturlöndum sem mest upp úr 1990 og næstu tvo áratugina, og gerir að hluta til enn. Því hatur útrásarpáfanna á andófi Morgunblaðsins á hegðun þeirra náði út yfir gröf og dauða. Baugsklíkan og Kaupþingsklíkurnar sameinuðust í því að ganga af Árvakri dauðum. Sem þeim svo sannarlega tókst. Meðal annars með auglýsingatakmörkunum í blaðinu árum saman og á endanum oft auglýsingabanni, og mörgum öðrum kárínum sem þessir frjálshyggjupáfar sammæltust um á hendur blaðinu.

Í Hruninu var svo komið að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, var komið með algerlega ólífvænlegar skuldir. Og því fór sem fór að Morgunblaðið komst í hendur Guðbjargar, Þórólfs í Skagafirði og Samherja og annarra útgerðarbaróna sem eiga aðeins tvennt sameiginlegt: Að halda kvótanum áfram hjá þessum fáu fjölskyldum sem tela sig eiga hann, og að hata Evrópusambandið. Því þeir vita sem er að á endanum mundi Evrópusambandið setja reglur um réttlátari gjöld og aðgang annarra fyrirtækja að auðlindinni, ef við værum þar innanborðs. Og til þess mega þeir ekki hugsa. Mest þess vegna tröllríða falsfréttirnar um Evrópusambandið svo mjög húsum hér á landi, svo sem að Evrópusambandið muni taka af okkur stóran hluta fiskveiðikvótans og semja um restina við önnur lönd. Lygar, lygar og aftur lygar. Og einmitt þess vegna má alls ekki sækja um inngöngu í sambandið, þótt ekki væri nema til að komast að raun um hver raunveruleg skilyrðin þar eru. Ekki fyrir nokkurn mun.

Það er fáheyrt að jafnvoldugir menn og Styrmir og Matthías ritstjórar Morgunblaðsins hafi tekið þá skynsömu afstöðu til fiskveiðikvótamálsins gegn Flokknum og öllu innmúraða liðinu hans. Það er áræðni af stærðargráðu sem sjaldan sést. Nánast aldrei. Enda höfðu þeir rétt fyrir sér. Að ef ekki væri snúið af braut þessarar misskiptingar þá myndi rísa upp pólitísk vinstribylgja sem hvorki Mogginn né Flokkurinn myndi nokkuð ráða við. Sem svo kom á daginn. Flokkurinn aldrei verið minni. Aldrei færri viljað starfa með honum á þingi. Og aldrei jafnmiklar efasemdir um einstaklingsfrelsið sem hann hefur þó barist fyrir alla sína tíð.

Rétt er að þakka Styrmi á þessum tímamótum fyrir mjúk og þægileg kynni. Og alltaf var mannúðin við stjórnvölinn í huga hans. Það er ekki lítils virði í dag.

Magnús Skarphéðinsson.

Látinn er víðsýni og virti hugsjónamaðurinn Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins.

Styrmir skrifaði fjölda greina um hin ýmsu málefni til lands og sjávar, t.d. um pólitík, sem hrifu marga og það úr öllum flokkum, enda rökin og áherslurnar skýrar sem hann setti fram hverju sinni.

Hann var í reynd penni fólksins í landinu.

Ég kynntist Styrmi hin síðari ár með samskiptum á skoðunum um hin ýmsu málefni og vorum við oftast sammála um þarfa verkþætti og framtíðarsýn til lands og sjávar.

Mér þótti vænt um þessi samskipti, þ.e. að Styrmir gæfi sér tíma til að lesa hugleiðingar mínar og svara þeim.

Þar fór maður sem þorði að viðra sínar skoðanir varðandi pólitík þvert á flokka, einnig varðandi sinn fylgisflokk, sem og um hin ýmsu mál sem betur mættu fara í þjóðfélaginu og víðar.

Heiðursmaður sem land og þjóð þurfti á að halda til að vekja ráðamenn o.fl. til umhugsunar um hin ýmsu og þörfu umbótamál í samfélaginu og vonandi tekur einhver við keflinu það varðandi þótt erfitt verði að fylla það skarð.

Með virðingu og þökk kveð ég heiðursmanninn Styrmi Gunnarsson.

Samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og vina.

Ómar G. Jónsson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Arfur og markmið

Styrmir Gunnarsson vildi að Ísland væri ekki aðeins farsælt samfélag, heldur fullkomið samfélag. Um það snerist líf hans og störf. En sá sem ber slíka von í brjósti verður óhjákvæmilega fyrir vonbrigðum. Við erum bundin af takmörkunum okkar sjálfra. Það er ekkert fullkomið nema sköpunarverkið sjálft. Þó má reyna að bæta samfélagið. Um það snerust hugsjónir Styrmis og viðhorf. Arfleifðartengdur grunnur, leiðarstefna og markmið augljós, farsæld, hagsæld og manndáð.

Styrmir var traustur samverkamaður og gott að heita á hurðir hans.

Hugur minn er nú bundinn þeirri góðu minningu sem ég á um hann, nú þegar hann er fallinn í bylnum stóra seinasta.

Ég sendi dætrunum samúðarkveðjur. Þær hafa átt eftirminnilega foreldra.

Matthías Johannessen.

Hinsta kveðja

Úr Ómunatíð

„Öll lífsreynzla, hversu erfið sem hún kann að vera, hefur sínar jákvæðu hliðar. Það á líka við um þau erfiðu örlög sem alvarlegir geðsjúkdómar eru. Fólk þroskast betur og meira og með öðrum hætti en ella. Fánýtur metnaður hverfur. Grundvallarviðhorf til lífsins breytast – til hins betra.

Við sem haft höfum náin kynni af geðsjúkdómum tökum nærri okkur þegar við fréttum af ungu fólki sem stendur frammi fyrir þeim. Við vitum hvað þetta unga fólk getur átt í vændum – og að allt lífið getur verið undir.

Þessi bók er ekki sízt skrifuð í þeirri von að einhverjir í þeim hópi og aðstandendur þeirra geti haft gagn af lífssögu þeirra sem hér er fjallað um.

En það er líka önnur mjög persónuleg ástæða fyrir því að bókin var skrifuð. Ég hef í bráðum hálfa öld fylgzt með baráttu eiginkonu minnar við alvarlegan geðsjúkdóm. Ég hef fylgzt með henni bíða ósigur í þeirri baráttu aftur og aftur. Ég hef fylgzt með henni rísa upp í hvert sinn og hefja þá baráttu á ný af einstöku hugrekki og þrautseigju þar til að nú síðustu árin má segja að jafnvægi hafi náðst.Umhverfi okkar hefur stundum átt erfitt með að skilja hana og háttsemi hennar með öllum þeim sveiflum, hæðum og lægðum og óvæntum og óskiljanlegum viðbrögðum sem þessum sjúkdómi fylgja. Það væri ekki rétt að segja að bókin hafi verið skrifuð til að veita henni „uppreisn æru“. Það varðar ekki við ærumissi að verða veikur. En kannski var hún skrifuð til þess að sýna fram á að einstaklingur, sem hefur orðið að heyja erfiða baráttu við alvarlegan geðsjúkdóm nánast öll sín fullorðinsár getur með því að gefast aldrei upp skapað sér sæmilega eðlilegt líf, eignast börn og barnabörn og notið þess að sjá framtíðina blasa við afkomendum sínum og gert sér vonir um að hlutskipti þeirra í lífinu verði betra.

Loks má vel vera að ég sé að skrifa þessa bók til þess að gera upp einn veigamesta þáttinn í mínu eigin lífi og gera mér sjálfur betur grein fyrir örlögum þess unga fólks sem hittist í húsi í Vesturbænum í febrúarmánuði 1964. Hvað sem öðru líður er það svo að hér er bók sem skrifuð var af þörf og vonandi verður hún einhverjum til gagns.

Það sem mestu skiptir er þó þetta: hvers vegna hefur Sigrún kona mín fallizt á að saga sín sé sögð með svo opinskáum hætti og þá meðal annars með beinum tilvitnunum í sjúkraskýrslur og þrátt fyrir þann sársauka, sem fylgir því að rifja þessa fortíð alla upp – og hann hefur verið mikill? Fyrir því er bara ein ástæða. Það hafa margir aðrir orðið fyrir þungum áföllum vegna geðsjúkdóma og því miður eiga margir eftir að verða fyrir þeim. Ef þessi saga hjálpar einhverjum þeirra að takast á við þetta erfiða líf er til einhvers unnið. Það á ekki sízt við um þann þátt málsins, sem snýr að börnum þegar annað foreldri verður veikt á geði. Fyrir tæplega hálfri öld var sú hlið málsins nánast ekki til umræðu. Og þótt mikið hafi breytzt á þeim áratugum sem liðnir eru, skortir þó enn nokkuð á að hugað sé á fullnægjandi hátt að andlegri velferð hinna „ósýnilegu barna“, eins og börn geðsjúks foreldris hafa verið kölluð á máli fagfólks. Þegar öllu er á botninn hvolft er vonin um að bókin geti orðið framlag til þess að málefni þeirra barna verði tekin fastari tökum kannski umfram allt annað ástæðan fyrir því að þessi bók kemur út.“

Brot úr formála Styrmis að

bók sinni Ómunatíð birt í

samráði við fjölskyldu hans.

Hinsta kveðja

Kveðja frá ritstjórum Morgunblaðsins

Styrmir Gunnarsson ritstjóri átti sér víðtæk og fjölbreytt áhugaefni. Hann var forvitinn, en ekki hnýsinn, um manneskjur almennt. Hann beindi augum sínum og áhuga ekki eingöngu í átt að sigurvegurum samtímans. Mannlífsflóran var öll undir og sérstaklega, fangaði margbreytilegt fólk opinn huga hans, sem var fullur eftirtektar, velvildar og samúðar þegar það átti við. Hann gat verið dómharður í garð einstaklinga og þoldi suma illa.

Virkur ritstjóri á blaði, og þá ekki síst á fjölmiðlasamsteypu eins og Árvakur er, fær inn á gólf til sín fjölbreytt eintök mannlífsins. Hafi Styrmir alið með sér „fordóma“ í garð einhvers, sem hann hafði óvænt séð eitthvað misjafnt til, var því máli ekki lokið. Um leið og glytti í aðra mynd og jákvæðari, og hann þóttist mega vera viss um að það væri ríkari þáttur viðkomandi, tók hann það mið.

Með sama hætti og hann fylgdi leitandi huga góðra blaðamanna um sína ólíku samferðamenn, var hann sjálfur fjarri því og frábitinn að veifa sinni persónu út á við, meira en þurfti. Og sennilega gekk hann lengra en það. Hann taldi engan akk í að persóna hans stæði sem opin bók út á við. Margir fjölmiðlamenn eru heldur á því að persóna þeirra sjálfra eigi að vera aðal persónan af tveimur eða fleirum þegar að þeim og „verkefninu“ slær saman. Styrmir taldi slíka kollega sína í veröld blaðamennskunnar hafa borið af leið og óvíst að þeir yrðu endilega farsælir blaðamenn. Þeir sem töldu sig, hvað sem á gekk, jafnan vera í forgrunni en ekki fréttin eða sagan sjálf voru því teknir með fyrirvara. Hitt er annað mál, að Styrmi var ljóst að ekki væri eftirsóknarvert að allir öflugustu starfsmenn langstærstu fréttastofu landsins, væru sem steyptir í sama mót. En helstu grundvallaratriði vandaðrar fjölmiðlunar urðu allir að hafa í heiðri ætti ekki að falla dökkur blettur á starfsemina.

Þar sem Styrmir dró persónu sína helst aldrei að húni ævistarfsins þá varð ekki með öllu laust við að smám saman varð til sú ímynd af Styrmi ritstjóra að þar færi dularfullt eintak á útbreiddum og áhrifamiklum fjölmiðli, huldumaður og valdsmaður í senn, sem Styrmir sjálfur gerði þó ekki mikið með.

En hitt er rétt að Styrmir kunni að þegja þegar það átti við. Og það vissu menn, að minnsta kosti þeir sem náðu að kynnast honum bærilega og ná trausti eða vináttu hans. Þótt það sé mikilvægur þáttur góðs fréttamanns að segja frétt fljótt og örugglega, og stundum helst fyrstur allra, þá er eiginleikinn sá, að ráða við það þegja á sérstökum augnablikum, einnig mikilvægur. Og þá snýst málið um að þegja nægilega lengi. Til dæmis svo tryggja megi að mynd sem virðist skýr og örugg, sé orðin það án verulegs vafa. Það er ekki hægt að stinga kjöthitamæli í fréttahnoð og sjá hvort það sé rétt steikt, hvorki brennt í gegn né sárgrætilega hrátt.

Blaðamaður og í ýmsum tilvikum ritstjóri sem telur sér skylt að þegja um frétt en ekki segja hana getur réttlætt það í sinni innri baráttu og hefur þá stundum styrk í vitneskju sem hann býr einn yfir, að slík ákvörðun muni síðar beina enn mikilvægari frétt í fjölmiðilinn, en án þess að þá þurfi að byggja á ágiskunum eða völtum heimildum. Í því dæmi er traustið aðalgaldurinn. Um það snýst ákvörðunin eins og svo oft endranær. Traust verður oftast til á löngum tíma en hverfur á augnabliki. Þeir sem stundum hafa heyrt fyrri ritstjóra kalsa slík mál, eða jafnvel upplýsa löngu liðin leyndarmál í þaula, þegar liðinn tími leyfði það, telja þær frásagnir sanna að gagnkvæmt traust lykilmanna sé flestu dýrmætara í þeirri tilveru sem hér er undirliggjandi.

Þótt Styrmir Gunnarsson stýrði með öðrum fjölmennum vinnustað áratugum saman var hann einkar laginn við að halda sig til hlés, þegar hann vildi það, án þess þó að skerða í neinu stöðu sína sem einn af miðpunktum öflugasta fjölmiðils landsins svo lengi. En jafnvel á slíkum skeiðum fann samstarfsfólkið að hann og þéttustu samstarfsmennirnir voru aldrei langt undan. Og skyndilega varð svo allt samt eins og fyrr og kafað ekki ofan í hvern hlut og hvert atriði, stórt og smátt. Það leiðir hins vegar af eðli máls, að á fjölmennum fjölmiðli fara lykilstarfsmenn, stundum í hóp eða fáir saman og ráða ferð frá degi til dags, án þes að þeir sem fara með endanlega ákvörðun komi þar endilega að. Það fólk hefur aflað sér trausts, verðskuldar það og tryggir að fjölmiðillinn sé snar í snúningum, án þess að slegið sé af kröfum hans.

Vakandi og lifandi fjölmiðill gerir um leið ríkar kröfur til fjölmargra starfsmanna um að rísa undir því að taka sjálfstæðar ákvarðanir og fella þær að þeim hefðbundnu og viðurkenndum lögmálum (skrifuðum sem óskrifuðum) sem á fjölmiðlinum gilda. Þetta átti auðvitað einnig við í tíð Styrmis, þegar stjórnendur áttu þó auðvelt með að grípa ákveðnir inn í og stundum af miklum þunga, og jafnvel nokkrum hávaða, þegar stefna, vilji, saga og andi Morgunblaðsins var undir að mati yfirstjórnarinnar. Myndin, sem áður var nefnd, um dulúðarfyrirbærið Styrmi, var til staðar. En þeir sem nærri voru eða næstir Styrmi myndu geta vitnað um einkennismynd hans sem manns, sýndi agaðan mann, að jafnaði mildan í umgengni og með hæga, lágværa og tillitssama nálgun.

Á kröftugum fjölmiðli gat þurft að grípa til sverari sverða. Þegar aðstæður eða atvik kölluðu á, eða ágangur utanaðkomandi atburða æptu á viðbrögð og það stundum harkaleg viðbrögð, og ekki seinna en strax, þá vantaði ekkert upp á slíkt hjá ritstjóranum. Honum gat reyndar auðveldlega verið misboðið af utanaðkomandi þrýstingi, eða þegar hann þóttist skynja laumulegar eða við blasandi tilraunir og lítt faldar tilraunir til misnotkunar utan úr bæ, sem allir sæmilegir fjölmiðlar eru á varðbergi gegn. Þeir sem töldu sig lengst af hafa kynnst hægum, varfærnum og aðgengilegum ritstjóra í Styrmi Gunnarssyni áður en þeir stóðu frammi fyrir viðbrögðum við slíku tilefni kynntust nú annarri manngerð, eins og hendi væri veifað. Þá kom þruman úr heiðskíra loftinu. Þá var tekið hart og hlífðarlaust á móti og blásið á blaður og blekkingar.

Styrmir þekkti innlenda sögu, svo ekki sé talað um persónulega sögu áhrifafólks af öllum hillum og úr flestum skúmaskotum þjóðfélagsins betur en flestir aðrir, bæði í stóru og smáu. Aðgengi var löngum furðulega gott að ritstjórum blaðsins forðum tíð, sem þó voru oftar en ekki störfum hlaðnir.

Styrmi hafði í áratugi verið trúað fyrir atburðum, átökum og uppnámi, þar sem miklir hagsmunir voru iðulega undir og undruðust margir þolgæði hans við að hlusta á sjónarmið og áhyggjur manna úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Hann naut trúnaðar, og reyndar meiri en flestir aðrir, úr röðum manna úr öllum þeim stjórnmálaflokkum sem náðu máli í hans tíð.

Ritstjóri, með eðalkosti Styrmis og með brennandi áhuga á þjóðfélagsmálum, á óteljandi sviðum, hafði oftar en ekki tekið afstöðu, stundum harða afstöðu, pólitíska og jafnvel persónulega. Og hann var óhræddur og reyndar áhugasamur um að taka skylmingar við menn, þá sem hann þekkti vel og eins hina sem bönkuðu næsta ókunnir upp á hjá ritstjórninni. Þeir sem þáðu boð um skylmingar gátu þurft að taka á honum stóra sínum. Við slíkar snerrur gætu gestir ímyndað sér að ritstjórinn hafi þegar bitið í sig afstöðu sem ekki yrði þokað. Það var reyndar ekki útilokað, en var þó fjarri því að vera víst. Þessi var iðulega hans aðferð til að knýja fram hvassa umræðu um sjónarmið og upplýsingar frá viðmælandanum um aðrar hliðar en Styrmir hafði aðallega heyrt fram til þessa. Og ekki síður til þess að ná út úr gestinum, jafnvel óviljandi, í hvaða erindum hann var raunverulega kominn á ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins.

Næsti viðmælandi gat svo hæglega fengið sambærilega ögrun, en nú úr þveröfugri átt. Á því stigi var Styrmi ekki aðallega kappsmál að byggja upp eigin málstað eða samherja sinna, heldur fremur að skilja málavexti enn betur og leggja mat á hvar skurðpunktur tiltekinna ágreiningsmála kynni að liggja á þessu augnabliki.

Það var ekki endilega víst að öðrum mönnum tækist slík söfnun sjónarmiða og raka áður en þeir bitu sig algjörlega fasta og þar með rökhelda. Styrmir gerði sér glögglega ljóst að leiðandi menn á fjölmiðli, sem tekur sig alvarlega, og tekur lesendur sína alvarlega, verði stundum að velja þá braut sem farin yrði áður en mál væru að fullu þroskuð. Það var aldrei ákjósanlegt en iðulega óhjákvæmlegt á fjölmiðli. Því lengur sem tækist að feta sig áfram eftir því sem staðreyndir byggðu undir afstöðuna, því betra. En fátt væri lakara fyrir fjölmiðil, sem vissulega væri bundinn þrúgandi tímamörkum, en að tileinka sér afstöðu sem hann sæti uppi með, eftir að í ljós kom að ekki hefðu allar meginlínur staðreynda verið komnar í hús. Það var hins vegar auðveldara að sætta sig við slíkt síðar, þegar víst var að allir þeir sem komu að verki höfðu lagt sig alla fram og hvergi slegið af kröfum til sjálfra sín eða hópsins alls.

Tveir ritstjórar héldu lengst af saman um stjórnvöl Morgunblaðsins þann tíma sem Styrmir var þar, Matthías Johannessen og hann. Þeir voru um margt mjög ólíkir menn og kannski um flest. Það er í flestum tilvikum kostur. Og alltaf ef að mennirnir sem áttu í hlut voru að öðru leyti eins og fóstbræður í fornum sögum. Herbergin þeirra lágu saman í höfuðstöðvum Morgunblaðsins, hvar sem þær voru þá. Skrifstofuveggurinn var á milli þeirra, en hann komst ekki upp á milli þeirra.

Fyrir hönd Morgunblaðsins og Árvakurs og starfsmanna fyrr og síðar kveðjum við Styrmi Gunnarsson ritstjóra með söknuði og þakklæti. Eins og í ólíkindasögu eða ævintýri, sem getur ekki endað á betri veg, setti Styrmir punkt aftan við farsæl og frjó störf sín á Morgunblaðinu á því augnabliki sem hann var að kveðja fólkið sem hann elskaði og tilveruna að öðru leyti, á heimili þeirra.

Styrmir sleit ekki þráðinn við Morgunblaðið sitt fyrr en á lokametrunum.

Davíð Oddsson, Haraldur Johannessen.

HINSTA KVEÐJA
Að leiðarlokum kveð ég Styrmi Gunnarsson með djúpu þakklæti fyrir einlæga vináttu, stuðning og samstarf til áratuga.
Genginn er mætur maður sem lifði og starfaði fyrir hugsjónir í þágu lands og þjóðar til síðasta dags.
Hallgrímur B. Geirsson.