40 ára Guðný Drífa fæddist í Keflavík en ólst að mestum hluta upp í Reykjavík. Hún gekk í Hlíðarskóla og Æfingaskóla KÍ sem heitir núna Háteigsskóli.
40 ára Guðný Drífa fæddist í Keflavík en ólst að mestum hluta upp í Reykjavík. Hún gekk í Hlíðarskóla og Æfingaskóla KÍ sem heitir núna Háteigsskóli. „Ég prófaði alls kyns íþróttir sem krakki, var aðeins í ballett, en var mestmegnis í frjálsum íþróttum. Síðan söng ég í Skólakór Æfingaskólans og var í stofnhópnum þegar Stúlknakór Reykjavíkur var stofnaður.“ Eftir grunnskólann fór Guðný að vinna en var með annan fótinn í menntaskóla. „Frá 18 ára aldri hef ég mest unnið við leik- og grunnskóla.“

Þegar hún var 23 ára varð mikil breyting á hennar högum. „Ég kynntist manninum mínum 23 ára og fluttist í Fellabæ, en núna búum við á Teigabóli í Fellum þar sem við erum sauðfjárbændur. Það var bara gott að fara úr miðbænum og austur í sveit.“

Guðný Drífa er menntaður stuðningsfulltrúi og leikskólaliði og auk bændastarfanna er hún heimilisfræðikennari við Fellaskóla í Fellabæ. „Svo var ég að hefja háskólanám við Háskóla Íslands í heilsueflingu og heimilisfræðikennslu við menntavísindasvið.“

Helstu áhugamál Guðnýjar Drífu eru söngur og tónlist, útivist og hjólreiðar. „Ég er í kirkjukórnum hérna og það er ofboðslega skemmtilegur félagsskapur. Í svona litlu plássi er þetta líka svolítið samfélagsþjónusta því við syngjum við gleði- og sorgarstundir samfélagsins hér.“

Fjölskylda Eiginmaður Guðnýjar Drífu er Einar Örn Guðsteinsson, bóndi og verktaki, f. 31.3. 1982, og þau eiga börnin Ragnar Sölva, f. 2007, og Laufeyju Helgu, f. 2009. Áður átti Guðný Vernharð Inga Snæþórsson, f. 24.9. 2001.