Aðalheiður Svansdóttir fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1959. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 21. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru Svan Magnússon, f. á Bíldudal 7.6. 1930, d. 19.7. 2005, málarameistari í Reyjavík og Svíþjóð, og k.h., Hlíf Kristinsdóttir, f. 18.12. 1933, d. 20.7. 2019, húsfreyja í Reykjavík og Svíþjóð.

Systkini Aðalheiðar: Hafdís Svansdóttir Skarp, f. 2.10. 1950, hárgreiðslumeistari, og Kristin Svansson, f. 26.6. 1955, d. 23.7. 1994, hárskeri.

Eftirlifandi maki Aðalheiðar: Hilmar Hlíðberg Gunnarsson, f. 28.11. 1949, verslunarmaður í Reykjavík.

Börn Aðalheiðar: Hlíf Bjarnadóttir, f. 2.12. 1983, búsett í Melbourne í Ástralíu, og eru synir hennar: Elvin Elí Savage, f. 2009, og Felix River, f. 2012. Viktor Bjarnason, f. 1988, leiðsögumaður og húsasmiður búsettur í Reykjavík.

Aðalheiður ólst upp fyrst í Reykjavík, flutti með foreldrum sínum til Svíþjóðar 9 ára, en flutti síðan aftur til Íslands 1998 og var síðan búsett í Reykjavík. Aðalheiður lauk prófum sem þroskaþjálfi í Svíþjóð. Hún starfaði lengst af frá 18 ára aldri sem þroskaþjálfi bæði í Svíþjóð og hérlendis. Hún starfaði í Oddfellow-reglunni í Svíþjóð um árabil.

Útför Aðalheiðar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 3. september 2021, klukkan 13.

Elsku mamma mín.

Það er óskiljanlegt að þú sért búin að kveðja þennan heim. Engin orð geta lýst því hvernig mér líður þegar ég skrifa þessa grein. Sorgin og sársaukinn að missa þig svona unga stingur djúpt í hjartað mitt. Að geta ekki verið til staðar á þínum síðustu leiðarlokum.

Þú varst geimsteinninn minn.

Ást þín var dýpri en hafið sjálft. Þú varst sterk og hugrök kona og þú kenndir mér vel.

Þú naust lífsins best í faðmi fjölskyldunnar og brosið þitt bræddi hjörtu.

Þú studdir mig með ráðum og dáð, alltaf, til að ferðast, sjá heiminn og fylgja draumum mínum og ég gerði það.

Tenging okkar var sterk. Þú elskaðir ævintýri og varst mikil útivistarkona og dýrkaðir sólina mest.

Fegurð þín var áberandi bæði að innan og utan. Einstaklega barngóð og elskaðir drengina mína sem unnu þér líka af öllu hjarta.

Elsku mamma mín, þó að söknuðurinn sé stundum meiri en ég get ráðið við, þá veit ég að þú ert með mér í anda.

Þú ert engillinn minn. Þú færð loksins að hvíla í friði, frísk og falleg eins og þú átt að vera.

Það kemur annað líf eftir þetta líf og við sjáumst aftur þá. Góða ferð inn í ljósið, elsku mamma mín. Það mun skína bjartar vegna þín.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Hlíf Bjarnadóttir í Ástralíu.

Elsku Heidý mín, nú ertu búin að fá hvíldina. Ég veit að það voru margir englar sem komu og fylgdu þér yfir í annan heim. Hún er skrýtin þessi veröld og lífið alls ekki alltaf sanngjarnt. Ég er búin að hugsa hvað það er óréttlátt að þú hafir verið tekin frá okkur alltof snemma en svo á móti þá veit ég að þú ert hvíldinni fegin. Þegar ég skrifa þessi orð þá rifja ég upp okkar fyrstu kynni fyrir rúmum 20 árum. Pabbi var svo hamingjusamur með þér, þú varst hlý og ástrík, áttir yndisleg börn, Hlíf og Viktor, og þetta var kærkomin viðbót í fjölskylduna okkar pabba. Margt var þér til lista lagt, þú varst alltaf að gera fallegt í kringum þig hvort sem það var í heimili eða í garðinum. Þú gerðir svo góðan mat og ég lærði ýmislegt af þér eins og súpuna góðu og karríkjúklingaréttinn sem er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Hreyfing var þér mikilvæg og þú arkaðir um fjöll og dali og í sund fórstu nánast á hverjum degi. Þú elskaðir sól og sand en fátt skemmtilegra fannst þér en að vera við ströndina, liggja í sandinum og sóla þig og synda í sjónum en sjónum má líkja við einn af andardráttum lífsins. Við sem þekktum þig vitum að Abba-hljómsveitin var eitt af þínu uppáhalds og það sem við gátum dansað og sungið saman undir Abba-lögum, en Abba-myndin – það sem þú náðir að horfa á myndina, það var ansi oft, hún var þitt allra mesta uppáhald. Þú máttir aldrei neitt aumt að sjá og varst sannur vinur litla mannsins. Þú vonaðir að betri heimur myndi finnast með því að allt mannfólk gæti lifað í sátt og samlyndi á þessari jörð.

Elsku Heidý mín, ég mun gera mitt besta að hugsa vel um pabba og Viktor, svo er hugur minn hjá Hlíf og strákunum í Ástralíu.

Hvíl í friði, elsku Heidý.

Kristjana Lind

Hilmarsdóttir.

Látin er besta frænka, elskuleg og glaðvær, það er gott að minnast hennar Öllu litlu eins og við kölluðum hana oftast. Við höfum fylgst að í sex áratugi og minningarnar eru óteljandi og ef frá er talið síðasta ár, þar sem Alla þurfti að berjast við og lúta í gras fyrir skæðum og illvígum sjúkdómi, þá eru öll þessi minningabrot svo falleg og innileg eins og þegar hún var barn að leik hjá ömmu á Grundarstígnum, unglingurinn úti í Svíþjóð með fallega hundinn sinn hana Mollý, mamman sem flutti aftur til Íslands og ól upp fallegu börnin sín hér, þau Hlíf og Viktor, og heimsóknir í Vesturbergið til hennar og Hilmars. Það er mikill söknuður í okkar hjörtum og við sendum samúðarkveðjur til Hilmars, Hlífar, Viktors, Möggu Dísar og allra aðstandenda.

Aðalheiður (Alla),

Pétur og Jón.

Óréttlæti er það orð sem kemur upp í huga okkar þegar við setjumst niður að minnast elskulegrar mágkonu aðeins 62 ára.

Fallega Heidý mín kom inn í líf brósa fyrir 20 árum þá nýkomin frá Svíþjóð þar sem hún ólst upp frá unga aldri. Það urðu miklar og góðar breytingar í Vesturhólunum með komu hennar en með smekkvísi og glaðværð breyttist heimilið úr svokallaðri piparsveinaíbúð í smekklegt og glæsilegt heimili með dyggri aðstoð frá yndislega Viktori.

Heidý var mikill náttúruunnandi og elskaði að ferðast, hún arkaði um fjöll og firnindi sér til yndisauka og ánægju með vinum og vandamönnum og ekki má gleyma Vanessu, schnauzer-tíkinni sem fékk ávallt að skottast með.

Heidý var dugnaðarforkur sem lét ekki aftra sér að fljúga alein þvert yfir hnöttinn til heimsækja dóttur sína hana Hlíf og augasteinana tvo, barnabörnin þá Felix og Elvin, sem búa í Ástralíu til að geta notið samvista við þau sem hún hafði mikið yndi og unað af. Það er óendalega mikill söknuður hjá þeim sem ekki hafa komist til landsins vegna Covid-ástands sem herjar á heimsbyggð alla.

Við kveðjum þessa bros- og hláturmildu elsku með trega í hjarta en minnumst hennar með hlýhug og þakklæti fyrir hennar góðu kynni.

Elsku Hilmar, Viktor, Hlíf, Elvin og Felix, þið eigið hluttekningu okkar allra.

Elskum ykkur.

Brynja og Atli.

Dauðinn spyr hvorki um stund né stað. Þegar hann tekur sinn toll kemur það okkur alltaf í opna skjöldu, hversu fyrirsjáanlegur sem hann kann að hafa verið í hverju tilfelli.

Í dag kveðjum við hjónin yndislega mágkonu og svilkonu, hana Heidý okkar, sem lést á Hrafnistu í Reykjavík, eftir erfiða og ójafna glímu við Alzheimer-sjúkdóminn í tvö og hálft ár.

Nú eru tuttugu ár frá því Hilmar, bróðir og mágur, kynnti fyrir okkur hjónum þessa lífsglöðu og síbrosandi elsku sem þar með var orðin ein af fjölskyldunni, eins og við hefðum alltaf verið henni samstíga. Með nærveru sinni var Heidý okkur öllum stöðug áminning um það að lífið væri dásamlegt og þess virði að lifa því. Hún var alltaf kát og hress og hlaðin starfsorku, mikil útivistarkona og göngugarpur, naut þess að fara í fjallgöngur og fór daglega í drjúgar gönguferðir með tíkina sína, hana Vanessu, meðan hennar naut við. Heidý stundaði sundlaugarnar af kappi og þau hjón voru nánast daglegir og vinsælir gestir í Breiðholtslauginni. Hún var stórglæsileg kona, ætíð smekkleg í fatavali og vel til höfð og hafði yndi af því að halda sér og Hilmari glæsilegt heimili af mikilli natni og sérstakri smekkvísi.

Heidý var matgæðingur af guðsnáð, meistarakokkur og hafði gaman af því að slá upp glæsilegum veislum sem margar eru eftirminnilegar fyrir frábæran veislukost, fallegan umbúnað og einlæga gestrisni. Þær eru auk þess margar og ógleymanlegar stundirnar sem við hjónin áttum með Hilmari og Heidý í sumarbústað okkar í Svínadalnum.

Nú er gott að ylja sér við allar þær minningar sem Heidý átti svo stóran þátt í að gera ógleymanlegar. Við kveðjum því Heidý með miklum söknuði og þakklæti.

Elsku Hilmar, Hlíf, Viktor, Magga og aðrir aðstandendur. Okkar dýpstu samúðarkveðjur á þessari erfiðu kveðjustund.

Karólína Gunnarsdóttir og

Björn Gíslason.

Laugardaginn 21. ágúst barst okkur sú sorglega frétt að hin yndislega og elskaða vinkona okkar Heidý Svansdóttir væri látin.

Hún fæddist í Reykjavík og kom til Svíþjóðar með fjölskyldu sína níu ára gömul og hóf hún nám í skólanum þar sem hún kynntist okkur, og þessi 16 ár mynduðum við óaðskiljanlega klíku.

Við kölluðum okkur stjúpsysturnar. Einn daginn vorum við heima að sauma, næsta dag fórum við á skauta og eftir á heimsóttum við krána og drukkum kakó með rjóma. Heidý var okkur sjálfsögð, hjartagóð, náin vinkona, og bar með sér mikla gleði. Hún var alltaf örlát og opin í huga, ærslafull og til í alls konar prakkaraskap. Í starfi sínu sem forstöðukona hjúkrunar- og umönnunardeildarinnar komu sér vel tilfinningar og virðing hennar fyrir óskum og þörfum annarra.

Hún talaði alltaf hlýlega um Íslandi og fór með okkur þangað 1977. Undir leiðsögn Heidýjar fórum við að Gullfossi og Geysi og skoðuðum heita hveri.

Hún gerði það með afburðum vel. Við höfum síðan margsinnis komið til Íslands með fjölskyldum okkar og heimsótt þessa góðu vinkonu okkar og fjölskyldu hennar.

Heidý var afar stolt móðir þeirra Hlífar og Viktors. Hún unni þeim meir en nokkrum öðrum og hefði fært þeim tunglið að gjöf ef það hefði verið mögulegt. Með tímanum flutti svo Heidý heim til Íslands. Þá kom Hilmar inn í líf hennar. Hann varð ást hennar og tryggur faðmur. Með honum deildi hún áhugamálum sínum sem voru tónlist, ferðalög, vinir og vandamenn.

Við stjúpsystur höfum alltaf getað skipts á gleði og sorg okkar á milli. Við erum svo þakklátar fyrir að hafa getað haldið upp á sextugsafmælin okkar í Stokkhólmi 2019. Við eigum svo margar góðar minningar af okkar elskuðu Heidý. Við, fjölskylda okkar og vandamenn fyllumst miklum söknuði og sorg við fráfall hennar.

Þakka þér fyrir allt og allt Heidý.

Þínar elskuðu stjúpsystur,

Berit, Gunilla, Lena, Marita, Susanne, Yvonne.