Skallabarátta Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson í slag við Vlad Chiriches og Andrei Ratiu í vítateig Rúmena.
Skallabarátta Brynjar Ingi Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson í slag við Vlad Chiriches og Andrei Ratiu í vítateig Rúmena. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði sínum þriðja leik í J-riðli undankeppni HM 2022 gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli í gær.

Í Laugardal

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði sínum þriðja leik í J-riðli undankeppni HM 2022 gegn Rúmeníu á Laugardalsvelli í gær.

Leiknum lauk með 2:0-sigri Rúmena en íslenska liðið byrjaði leikinn vel og var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.

Viðar Örn Kjartansson fékk frábært tækifæri til þess að koma Íslandi yfir strax á 15. mínútu en frír skalli hans úr markteignum fór beint á Florin Nita í marki Rúmeníu.

Rúmenar sóttu aðeins í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks, án þess þó að ógna marki íslenska liðsins af einhverju viti, og staðan því markalaus í hálfleik.

Þegar tvær mínútur voru liðnar af síðari hálfleik kom Dennis Man Rúmenum yfir eftir að boltinn hrökk til hans á fjærstönginni. Denis Alibec átti þá fyrirgjöf sem fór af Brynjari Inga Bjarnasyni og datt beint fyrir fætur Man sem skoraði af öryggi, nánast í tómt markið.

Birkir Bjarnason fékk frábært tækifæri til að jafna metin eftir frábæra fyrirgjöf Ísaks Bergmanns á 76. mínútu en skot hans úr markteignum fór fram hjá.

Rúmenar gerðu svo gott sem út um leikinn á 83. mínútu þegar þeir geystust fram völlinn eftir hornspyrnu íslenska liðsins.

Nicolae Stanciu slapp þá einn í gegn, gerði engin mistök, stakk varnarmenn Íslands af og lagði boltann snyrtilega yfir Rúnar Alex í markinu.

Íslenska liðið var aldrei líklegt til þess að koma til baka eftir þetta og Rúmenar fögnuðu sigri.

Mark á versta tíma

Rétt áður en leikurinn hófst var fjölmiðlum tilkynnt að ekki yrði stuðst við VAR-myndbandsdómgæsluna líkt og venjan er í dag í keppnisleikjum á vegum UEFA. Bilun í tæknibúnaði varð þess valdandi að ekki var hægt að styðjast við myndbandsdómgæsluna.

Leikmenn íslenska liðsins vildu fá víti eftir tæplega hálftíma leik þegar Andri Fannar Baldursson átti skot sem virtist fara í hönd varnarmanns Rúmena og það hefði verið forvitnilegt að sjá hvort dómarinn, Aleksei Kulbakov frá Hvíta-Rússlandi, hefði farið í skjáinn og skoðað atvikið betur ef myndbandsdómgæslan hefði verið til staðar.

Íslenska liðið fékk svo sannarlega færin til þess að skora í fyrri hálfleik og hefði hæglega getað verið 2:0 yfir í hálfleik. Sóknarleikur liðsins gekk vel og bakverðir liðsins, þeir Birkir Már Sævarsson og Guðmundur Þórarinsson, voru afar ógnandi í sókninni og opnuðu völlinn upp á gátt með hlaupum sínum upp kantana.

Þá gerði íslenska liðið mjög vel í að halda í boltann og Rúmenar voru aldrei líklegir til þess að skora. Maður fékk það á tilfinninguna að ef þeim tækist að koma boltanum í netið yrði það eftir mistök í vörn íslenska liðsins.

Arnar Þór Viðarsson þjálfari hefur vafalaust verið pirraður að fá á sig mark strax í upphafi síðari hálfleiks en markið kom nánast upp úr engu. Smá sofandaháttur í vörninni og menn horfðu á boltann í stað þess að fylgja sínum manni.

Íslenska liðið virkaði slegið að fá á sig mark og það var eins og liðið hefði aðeins misst trúna á verkefnið eftir að það lenti undir. Á sama tíma pökkuðu Rúmenar í vörn eftir að þeir komust yfir og nýttu hvert tækifæri sem gafst til þess að tefja og taka mínútur af klukkunni með því að liggja vel og lengi í grasinu við minnstu snertingu.

Íslenska liðið vantaði sköpunargáfu til þess að brjóta þéttan varnarmúr Rúmena á bak aftur og þegar boltinn barst inn í teiginn voru menn einfaldlega ekki mættir í nægilega góðar stöður til þess að gera sér mat úr því.

Þá voru varnarmenn liðsins ekki nægilega sannfærandi þegar liðið tapaði boltanum ofarlega á vellinum og þeir virkuðu of stressaðir á stórum köflum í síðari hálfleik.

Annað markið drap svo leikinn alveg og sú litla trú sem eftir var í íslenska liðinu hvarf alveg um leið og boltinn söng í netinu þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum

Liðið saknaði klárlega sinna reynslumestu manna sem hefðu getað dregið vagninn áfram þrátt fyrir mótbyr. Þá vantaði einhvern inn á völlinn til þess að berja trú í liðið í síðari hálfleik.

Varamenn liðsins áttu einnig ágætis spretti en þeim tókst ekki að hafa þau áhrif á leikinn sem Arnar Þór vildi eflaust sjá frá þeim.

Erfið staða í riðlinum

Eftir tap gærdagsins er íslenska liðið í mjög erfiðri stöðu í riðlinum með 3 stig í fimmta og næstneðsta sætinu eftir fjórar umferðir.

Takist liðinu að vinna bæði Norður-Makedóníu 5. september og Þýskaland hinn 8. september í næstu tveimur leikjum á Laugardalsvelli er liðið aftur komið í baráttuna um sæti á HM en það er fátt sem bendir til þess að Ísland sé að fara að leggja bæði þessi lið að velli miðað við spilamennsku gærdagsins.

Leiðin til Katar virðist því ófær en það skal þó aldrei afskrifa íslenska karlalandsliðið enda hafa þeir sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru oft bestir þegar mest á reynir.

Á sama tíma vantar marga leikmenn sem þekkja þá stöðu ansi vel að vera með bakið upp við vegg og það er helsta áhyggjuefni Arnars Þórs Viðarssonar og þjálfarateymisins.

ÍSLAND – RÚMENÍA 0:2

0:1 Dennis Man 47. eftir fyrirgjöf frá vinstri.

0:2 Nicole Stanciu 83. eftir skyndisókn Rúmena.

Ísland: (4-3-3) Mark : Rúnar Alex Rúnarsson. Vörn : Birkir Már Sævarsson, Hjörtur Hermannsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Guðmundur Þórarinsson. Miðja : Birkir Bjarnason, Guðlaugur Victor Pálsson, Andri Fannar Baldursson (Ísak Bergmann Jóhannesson 66). Sókn : Jóhann Berg Guðmundsson, Viðar Örn Kjartansson (Jón Dagur Þorsteinsson 66), Albert Guðmundsson (Andri Lucas Guðjohnsen 79).

M

Birkir Már Sævarsson

Jóhann Berg Guðmundsson

Birkir Bjarnason

Brynjar Ingi Bjarnason

Viðar Örn Kjartansson

Gul spjöld : Nedelcu 8., Chiriches 37., Nita 77., Hagi 85., Jón Dagur 85., Ísak Bergmann 90.

Dómari : Aleksei Kulbakov, Hvíta-Rússlandi.

Áhorfendur : 1.961.

* Birkir Már Sævarsson og Birkir Bjarnason léku báðir sinn 99. A-landsleik og geta því spilað 100. leikinn þegar Ísland mætir Norður-Makedóníu á sunnudaginn.

* Jóhann Berg Guðmundsson var fyrirliði íslenska liðsins og lék sinn 80. landsleik.

* Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á sem varamaður og lék sinn fyrsta A-landsleik.

Algjör óþarfi að tapa þessum leik

„Ég er hundfúll og við erum það allir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir 0:2-tap gegn Rúmeníu í J-riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli í gær.

„Það var algjör óþarfi að tapa þessu, sérstaklega eftir góðan fyrri hálfleik. Hann var ekki frábær en hann var mjög góður. Ég er stoltur af strákunum, sérstaklega eftir fyrri hálfleikinn.

Við sköpuðum þrjú til fjögur góð færi og fengum fleiri tækifæri til að skapa ennþá meira. Svo er slökkt á okkur í byrjun seinni og það er ekki í boði á þessu stigi. Þegar þú ert kominn í þessa leiki, þá þarf að vera kveikt á öllum í 90 mínútur plús. Þeir tóku innkast fljótt og við settum ekki pressu á boltann. Eitt af okkar gildum er að gefa ekki mörk en við gáfum þeim mark. Við verðum að læra af því. Fyrstu 20-25 eftir það voru í lagi, við stjórnuðum leiknum og fengum góð færi. Það voru augnablik í þessar 20 mínútur,“ bætti Arnar við.

Þjálfarinn segir margt hafa farið úrskeiðis í leiknum en á sama tíma var hann ánægður með ýmislegt.

„Ég var ekki ánægður með hápressuna. Við ætluðum að pressa hátt en náðum því ekki. Andstæðingurinn spilaði aðeins öðruvísi en við vorum búnir að greina. Við leiðréttum það í hálfleik. Ég var rosalega ánægður með hvernig við vorum að færa boltann og færin sem við sköpuðum okkur voru eitthvað sem við vorum búnir að æfa. Við vildum koma inn með krossana og þannig fær Viðar sín færi,“ bætti landsliðsþjálfarinn við á blaðamannafundi íslenska liðsins í Laugardalnum í gær.