Josep Borrell
Josep Borrell
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Varnarmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna funduðu í gær í Slóveníu og ræddu þar tillögur um að mynda sameiginlegan evrópskan herafla sem brugðist gæti við krísum með hraði.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Varnarmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna funduðu í gær í Slóveníu og ræddu þar tillögur um að mynda sameiginlegan evrópskan herafla sem brugðist gæti við krísum með hraði.

Hafa hugmyndir um að aðildarríkin komi sér upp slíkum herafla heyrst reglulega undanfarin ár, en þær raddir sem styðja myndun hraðsveitanna hafa orðið háværari í kjölfar brotthvarfs vesturveldanna frá Afganistan í síðasta mánuði.

Samkvæmt tillögunni, sem fyrst var lögð fram í maí, myndi Evrópusambandið koma sér upp 5.000 manna herafla í tengslum við endurskoðun heildarstefnu ESB í varnar- og öryggismálum, sem á að klárast á næsta ári.

„Það er ljóst að þörfin fyrir frekari varnir Evrópu hefur aldrei verið jafnljós og nú eftir atburðina í Afganistan,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í upphafi fundar. Sagðist hann telja að brottförin frá Afganistan myndi þrýsta á um breytingar í málaflokknum.

Slóvenar fara nú með formennsku í ESB, og sagði Matej Tonin, varnarmálaráðherra Slóveníu og gestgjafi fundarins, að slíkur herafli á vegum sambandsins gæti kallað á allt frá 5.000 til 20.000 manns. Lagði hann jafnframt til að „viljugar þjóðir“ gætu lagt til herafla í nafni sambandsins, ef meirihluti aðildarríkjanna samþykkti það, en nú þurfa þær allar að samþykkja aðgerðir á vegum sambandsins einróma.

Komi ekki í stað NATO

Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði að atburðirnir í Afganistan sýndu að Evrópusambandsríkin yrðu að geta staðið á „sjálfstæðari“ fótum í varnar- og öryggismálum, en á sama tíma væri brýnt að ESB reyndi ekki að koma í stað Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjamanna.

Þá lagðist hún á Twitter-síðu sinni gegn hugmyndum um að heraflinn yrði varanlegur, heldur ættu „bandalög viljugra“ aðildarríkja að leggja til hermenn í slíkar sveitir þegar krísuástand myndaðist.

Umræða um hlutverk Evrópusambandsins í varnarmálum er ekki ný af nálinni, en 21 af aðildarríkjunum 27 er einnig meðlimur í Atlantshafsbandalaginu. Hafa þau ríki verið treg til þess að stíga skref í átt að sameiginlegum vörnum ESB, sem gætu rekið fleyg í bandalagið.

Umræða um sameiginlegar varnir hefur þó aukist nokkuð eftir brotthvarf Breta úr ESB, en þeir voru andvígir öllum skrefum í átt að „Evrópuher“.