[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íris Dungal fæddist 3. september 1951 í Reykjavík og ólst upp á Suðurgötu 12.

Íris Dungal fæddist 3. september 1951 í Reykjavík og ólst upp á Suðurgötu 12. „Æskuheimili mitt var mikið menningarheimili og þar var oft glatt á hjalla Þangað komu margir þjóðþekktir einstaklingar og man ég sérstaklega eftir þeim Páli Ísólfssyni og Ragnari í Smára sem voru einstaklega skemmtilegir og sögufróðir menn. Faðir minn var prófessor í læknisfræði og einn af stofnendum Krabbameinsfélagsins. Hann var forstöðumaður rannsóknarstofu Háskólans og einn af frumkvöðlum í rannsóknum á tengslum lungnakrabbameins og reykinga. Ég var mjög hænd að honum og fékk að eyða miklum tíma með honum í vinnunni sem var bæði lærdómsríkt og skemmtilegt fyrir mig.“

Íris var í sveit í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu í 6 sumur. „Það var dásamlegt að vera þar og mér þykir alltaf vænt um Aðaldalinn. Faðir minn kom alltaf að heimsækja mig og hélt þá erindi fyrir bændurna í sveitinni í samkomuhúsinu. Þar var honum vel tekið, ekki síst vegna þess að hann hafði fundið upp ormalyf fyrir sauðfé sem breytti miklu fyrir bændur í þá daga.“

Í bænum gekk Íris í Landakotsskólann og síðar í Hagaskóla og lauk verslunarprófi úr Verslunarskóla Íslands. „Ég lauk ekki við stúdentinn fyrr en síðar á ævinni úr MH og svo fór ég í Háskóla Íslands 58 ára og útskrifaðist með meistaragráðu þaðan í íslensku.“

Þegar Íris var nýkomin á unglingsárin dró ský fyrir sólu. „Ég missti bæði systur mína, Lönu og föður minn sem dó ári síðar. Á þessum tíma var lítið um sálfræðihjálp fyrir ungmenni sem lentu í slíkum áföllum, en sem betur fer held ég að mikil breyting hafi orðið þar á. En þarna urðu mikil vatnaskil í mínu lífi og þetta var mjög erfitt.“

Móðir Írisar giftist Edward Kristni Olsen nokkrum árum eftir dauða föður Írisar. Hann var einn af stofnendum Loftleiða og hún var þar flugfreyja en hafði áður starfað hjá Flugfélagi Íslands. „Þegar mamma giftist fór lífið mikið að snúast um Loftleiðir og flug og maður smitaðist af þessum áhuga eins og margir, en það var svolítill ævintýraljómi yfir flugfreyjustarfinu enda ekki eins algengt að Íslendingar ferðuðust eins og nú er. Ég ætlaði að vera eitt sumar en það sumar varð að 48 árum.“

Íris byrjaði að fljúga 19 ára gömul hjá Loftleiðum. „Ég hugsa að ég hafi verið yngsta flugfreyjan sem byrjaði.“ Það hefur ýmislegt breyst frá þessum árum í fluginu. „Ég byrjaði að fljúga um leið og mamma hætti, en hún þurfti að hætta þegar hún varð fertug. Reglurnar voru ótrúlegar. Í upphafi voru þær þannig að þú þurftir að hætta þegar þú giftir þig eða eignaðist barn. Ég var ein af fyrstu flugfreyjunum sem fékk barnsburðarleyfi í þrjá mánuði og hélt vinnunni. Það var árið 1974.“

„Síðan fóru eiginlega bara öll börnin mín í flugið, maðurinn minn var framkvæmdastjóri hjá Icelandair og ég á tvo syni sem eru flugstjórar og dóttur sem er bæði flugfreyja og íslenskufræðingur og leiklistarkennari líka. Svo á ég son sem var flugþjónn og er verkfræðingur í dag og starfar á skrifstofu Icelandair. Flest tengdabörnin eru einnig í fluginu svo við erum ein stór flugfjölskylda,“ segir hún hlæjandi.

Hún segir að skemmtilegustu ferðirnar voru svokallaðar heimsferðir þar sem flogið var með sama hópinn í kannski þrjár vikur og stoppað í nokkra daga á hverjum stað. „Ég fór í þannig ferð til Suður-Ameríku og síðan líka til Afríku og það er ekki annað hægt en vera þakklátur að fá svona tækifæri í starfi og geta séð framandi lönd og menningu sem maður myndi aldrei annars hafa kynnst.“

Íris er mjög mikil fjölskyldumanneskja og hún segir að hennar bestu stundir séu með barnabörnunum, sem séu orðin níu og það tíunda sé á leiðinni. Einnig á hún sjö stjúpömmubörn svo fjölskyldan er orðin skemmtilega stór. „Síðan var ég mikið á skíðum þegar ég var yngri og ég hef alltaf haft mjög gaman af því að ferðast. Svo þykist ég alltaf vera á leiðinni í golfið en er ekki alveg komin þangað enn,“ segir hún hlæjandi. Íris er mjög félagslynd og fer líka mikið í leikhús og prjónar heima. „Núna held ég upp á afmælið með fjölskyldunni í Toscana á Ítalíu.“

Fjölskylda

Eiginmaður Írisar er Guðmundur Þorlákur Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Icelandair, f. 19.4. 1949. Foreldrar hans eru hjónin Páll Guðmundsson, f. 23.8. 1922, d. 15.9. 2000 og Sveinbjörg Kristjánsdóttir, f. 22.3. 1927, d. 9.10. 2010. Börn Írisar og Guðmundar eru 1) Níels Dungal Guðmundsson flugstjóri, f. 29.4. 1974, í sambúð með Jóhönnu Kristínu Ólafsdóttur. Hann á soninn Guðmund Pétur Dungal, f. 2004, með Jóhönnu Dögg Pétursdóttur, f. 31.10. 1970. 2) Kristinn Páll Guðmundsson, flugstjóri, f. 16.11. 1977 í sambúð með Telmu Björk Fjalarsdóttur, f. 6.10. 1984. Þau eiga börnin Írisi Björk, f. 2013; Emblu Björk, f. 2017, og Indí Björk, f. 2020. Áður átti Kristinn börnin Lönu Björk, f. 2003, og Birki Thor, f. 2006, með Ingibjörgu Sveinsdóttur, f. 4.2. 1980. 3) Lana Íris Dungal Guðmundsdóttir, flugfreyja og íslenskufræðingur og leiklistarkennari, f. 16.12. 1986, í sambúð með Magnúsi Snorra Ragnarssyni, f. 7.11. 1975 og þau eiga börnin Flóka Dungal, f. 2019 og Hrafnar, f. 25.9. 2020. 4) Arnar Gauti Guðmundsson, deildarstjóri hjá Icelandair, f. 2.3. 1990 í sambúð með Maríu Þórisdóttur, f. 14.3. 1992. Þau eiga soninn Guðmund Gauta, f. 2019. Albróðir Írisar er Haraldur Dungal læknir, f. 21.5. 1950, og hálfbróðir samfeðra er Leifur Dungal læknir, f. 18.5. 1945. Systir hennar sammæðra er Lana Johnson, f. 26.6. 1943, d. 24.8. 1964.

Foreldrar Írisar eru Níels Haraldur Pálsson Dungal, f. 14.6.1897, d. 29.10. 1965, og Ingibjörg Alexandersdóttir Olsen, f. 6.9. 1925, d. 22.7. 1995.