Sigurlaug Guðbjörnsdóttir fæddist 1. maí 1945 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Laugarási föstudaginn 27. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðbjörn Pálsson bifreiðarstjóri, f. í Reykjavík 15. júní 1896, d. 30. september 1986, og Guðmunda Gísladóttir húsmóðir, f. að Stekkum í Sandvíkurhreppi í Flóa 7. febrúar 1906, d. 19. apríl 1994. Systur Sigurlaugar eru: 1) Sigríður, f. 18. ágúst 1934, d. 12. mars 2009. 2) Gyða, f. 13. september 1937, gift Stefáni Björnssyni, f. 28. október 1934. Börn þeirra eru Þórunn, f. 22. júlí 1957. Guðmundur, f. 15. september 1958, kvæntur Sigríði Guðmundsdóttur, f. 25. febr. 1959. Björn Ingi, f. 21. apríl 1966. Guðbjörg Ásta, f. 28. apríl 1979. 3) Ásta, f. 31. október 1943, d. 7. júlí 1960.

Sigurlaug giftist Óskari Guðjóni Vigfúsi Guðnasyni 1966 og eignuðust þau saman Guðna Diðrik Óskarsson, f. 27. janúar 1967, kvæntur Helgu Kristínu Þorsteinsdóttur, f. 14. september 1968. Börn þeirra eru Íris Björg, f. 25. mars 1998 og Magnús Óskar, f. 18. júní 2002.

Sigurlaug hóf sambúð með Jóhannesi Herði Bragasyni árið 1984 og eignuðust þau saman Loga Jóhannesson, f. 28. maí 1985, trúlofaður Eydísi Ósk Ásgeirsdóttur, f. 22. apríl 1985. Börn þeirra eru Alexander Ívar, f. 18. maí 2005, Óskar Dýri, f. 26. mars 2010 og Camilla Luna, f. 1. ágúst 2016.

Sigurlaug óst upp á Sólvallagötu 21 í Reykjavík, flutti síðan á Kirkjuteig 11 og síðan í Garðabæ árið 1973 til ársins 2019 og bjó lengst í Draumahæð 4 og síðan Asparási 10. Hún starfaði sem flugfreyja frá 17 ára aldri, fyrst hjá Flugfélagi Íslands, síðan Loftleiðum og áfram hjá Icelandair eftir sameiningu þessara félaga og lauk störfum þar 67 ára.

Áhugamál Sigurlaugar voru mörg en þá sérstaklega ferðalög og útivist. Hún fór daglega í gönguferðir og gekk reglulega upp á Esjuna og naut ávallt vel ferða sinna með gönguhópnum sínum.

Útför hennar fer fram frá Garðakirkju í dag, 3. september 2021, klukkan 15.

Streymt verður frá útför:

https://fb.me/e/kXO46IeVY

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Hún amma mín, Sigurlaug Guðbjörnsdóttir, var engum lík nema sjálfri sér.

Við fórum saman á bókasafnið í Garðabæ og tókum tuttugu bækur fyrir kvöldið, fórum snemma í bólið, svo við næðum örugglega að lesa þær allar. Okkur tókst það alltaf næstum. Hún sofnaði með bæði mig og bunka af bókum á hrausta líkama sínum, klædd lafbuxunum sem hún tróð mér einnig í, vegna þess að ég var aðeins klæddur gallabuxum. Vöknuðum svo við sjö vekjaraklukkur (því hún treysti alls ekki einni) og héldum við áfram að lesa bækurnar, við kláruðum þær auðvitað alltaf fyrir klukkan tólf.

Hún bjó í Asparás – þar er enn hægt að sjá útsýni yfir fallega hraunið hennar, ef þú pírir augun sérðu bláberja- og krækiberjalyng þar sem við tíndum oft ber, með boxum í hillu númer þrjú, boxahillu. Hún var soddan orðsmiður og átti hún orð sem tilheyrðu einungis henni og hennar vinkvennahópi.

Sillurauður er silfurrauður, og fór hann henni alltaf best, hún var alltaf einhvern veginn sillurauð. Ef ekki í naglalakki þá trefli og ef ekki í tefli þá í varalit, hún var alltaf með rauðan varalit, hann sérkenndi hana, hún var þekkt fyrir það, en ef svo vildi til að hún hefði ekki verið með rauðan varalit þá var það sálin hennar; fallega rauða sálin hennar.

Sillurauður þýðir líf, heilsa, dirfska, ástúð, stöðuleiki og jarðtenging, allt sem einkenndi hana. Þess vegna var þessi litur fullkominn fyrir hana, því ekki fór hann aðeins henni vel, heldur einnig persónuleika hennar og sál hennar. Sillurauður var svo mikið hennar litur að ég sé ekkert annað þegar ég hugsa til hennar. Ég sé bara rauðan, en samt sem áður finn ég blíðu, þótt ég sjái hana ekki strax, finn ég samt sem áður hennar ást, hennar kærleik og hennar stöðuleika.

Silla smitaði mann. Áður en ég vissi af hafði ég erft hennar áhugamál. Hún kenndi mér að meta góðu hlutina, eins og útivist, list, bækur og svo auðvitað skipulag.

Silla var með allt á hreinu. Allt var spikk og span, húsið alltaf hreint, ákveðin í hreyfingum og mismælti sig sjaldan. Hún Silla var fyrirmynd – fyrir alla. Hún Silla var sjálfstæðasta manneskja sem ég hef vitað af, fann sér alltaf eitthvað að gera og ætlaði alls ekki að eyða sínum verðmæta tíma.

Silla þýðir allt það góða í heiminum, blandað saman í nettri skál og plantað á jörðina til þess að gera henni greiða. Silla þýðir fegurð og viska. Silla þýðir að þú hefur alltaf einhvern veginn rétt fyrir þér. Silla þýðir þrjóska og seigla. Silla þýðir ást og umhyggja, kærleikur og jafnvægi. Silla þýðir „sú sem gengur með mér upp fjöll“. Silla þýðir hlátur, kjánalæti og grín. Silla þýðir klassísk lög á píanó. Silla þýðir fossar og að leggja langt í burtu á bílastæðum til þess að geta labbað smá. Silla þýðir að þrífa gólflistana sína oft á ári og Silla þýðir það að leggja á borð tveimur eða þremur dögum fyrir mat. Silla þýðir knús.

Silla þýðir amma.

Takk fyrir allt, amma mín – ég verð ávallt þakklátur fyrir þín gen.

Sjáumst hjá Guði.

Alexander Ívar Logason.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til hennar Sillu.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessari einstöku konu sem ávallt var óaðfinnanleg bæði í fasi og útliti. Ég er þakklát fyrir viðbrögðin og stuðninginn hennar þegar tvö ungmenni, hrædd við hvað framtíðin bæri í skauti sér tilkynntu að það væri lítill erfingi á leiðinni. Með sitt rólega fas sagði Silla að þetta yrði allt í lagi og við myndum hjálpast að. Svo þegar gullmolinn mætti á svæðið kom Silla strax og hægt var upp á fæðingardeild í fluffubúningnum með rauða varalitinn sem var hennar einkenni. Við þessi fyrstu kynni mynduðust órjúfanleg tengsl milli Sillu og ömmustráksins hennar. Þessi tengsl og væntumþykja milli þeirra leyndi sér aldrei og hann var ekki hár í loftinu þegar það fór ekki á milli mála hversu lík þau eru. Eftir að árin hafa liðið og litli gullmolinn okkar er orðinn að ungum manni með fágaða framkomu, ást á bókum og menningu, skipulagður og með allt upp á tíu fyllist ég þakklæti fyrir alla þessa dásamlegu eiginleika sem strákurinn minn hefur fengið frá ömmu Sillu. Ég er þakklát fyrir göngutúrana, berjaátið, allan lesturinn og allar þær yndislegu minningar sem strákurinn minn á um ömmu Sillu sem munu hlýja honum í hjartanu.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að sjá meira af heiminum þegar ég fékk að koma með í flug þegar Silla var að vinna. Þegar við fórum til Frakklands og hún talaði frönsku og lóðsaði okkur út um allt, gat maður ekki annað en dáðst af þessari flottu, sjálfstæðu og sterku konu. Hún var mér algjör fyrirmynd og ekki annað hægt en að dást af því hvernig hún lifði og hverju hún áorkaði í gegnum lífið.

Ég er þakklát fyrir það að þó að leiðir okkar Loga skildu þá hafði það aldrei áhrif á sambandið milli hennar og ömmustráksins hennar en hún tók af mér það loforð að það myndi aldrei hafa áhrif á þeirra samband. Það var henni mjög mikilvægt, við það loforð var svo sannarlega staðið enda var það mér afar dýrmætt að hafa hana jafn mikið í lífi hans og áður. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast góðmennsku hennar og einlægni,þeir eiginleikar sýndu sig svo sannarlega þegar ég eignaðist syni mína en fljótlega eftir að þeir fæðast kom Silla í heimsókn, í fyrra skiptið með ofboðslega falleg föt sem hún hefði prjónað fyrir hann og seinna skiptið kom hún með fallegan gjafapoka fullan af dóti sem hún hefði keypt í útlöndum og auðvitað laumaði hún að mér slúðurblöðum og naglalökkum í zip lock-poka eins og hún átti svo oft til í að gera. Henni þótti svo alveg rosalega vænt um þegar Alexander fór með Dag bróður sinn í heimsókn til hennar og ekki þótti honum leiðinlegt að fá að prófa píanóið. Þetta er ekki sjálfgefið en lýsir því svo vel hvernig manneskja Silla var. Þetta er eitthvað sem mér mun alltaf þykja vænt um og taka mér til fyrirmyndar.

Elsku Silla, takk fyrir allt.

Elsku Alexander mínum, Loga, Eydísi, Óskari og Camillu. Guðna og fjölskyldu, Gyðu og vinkonum hennar Sillu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Íris Dögg Vignisdóttir.

Haustið 1958 kom saman hópur ungra stúlkna úr ýmsum hverfum borgarinnar og víðar af landinu til þess að hefja nám við Kvennaskólann í Reykjavík. Ein þessara stúlkna var Sigurlaug Guðbjörnsdóttir. Þarna mynduðust ný vinatengsl sem hafa haldið allt fram á þennan dag. Þegar leið á skólagönguna var stofnaður saumaklúbbur sem Sigurlaug var dýrmætur hluti af. Alls urðum við níu sem höfum haldið sambandinu í gegnum áratugina með reglulegum hittingi. Því miður hefur fækkað í hópnum og Sigurlaug er önnur sem kveður.

Þegar börnin voru yngri komum við í barnaafmæli hver hjá annarri og nutum þess að fylgjast með þroska barnanna. Margs annars er líka að minnast frá þessum áratugum og eigum við allar okkar minningar um stundir með Sigurlaugu.

Sigurlaug var matkona og minnisstætt að fara með henni í hádegi á sunnudegi á Gildaskálann sem var í Aðalstræti, Matstofu Austurbæjar og fleiri staði. Efst á listanum var að fá sér vel steikt vínarsnitzel og meðlæti. Hin síðari ár var hún búin að tileinka sér heilsusamlegra fæði sem hún framreiddi af snilld.

Sigurlaug hafði yndi af tónlist og sótti lengi vel tónleika víðs vegar um borgina. Hún tók upp píanónám sem hún hafði stundað sem barn, fór að læra frönsku og ferðaðist meðal annars til Frakklands í því skyni. Hún tók einnig fram pensla og sótti myndlistarnámskeið sem var eitt af því síðasta sem hún naut.

Hún fór mikið í gönguferðir í nágrenni borgarinnar og það þurfti þó nokkurt þrek til að fylgja henni eftir í þeim. Ferðir í berjamó voru líka ástríða og þegar líða tók á sumar var farið að athuga hvar væri ber að finna og helst áttu það að vera bláber þó að krækiber fengju að fljóta með.

Nokkurra daga ferð til Kaupmannahafnar fyrir um það bil sex árum er einnig minnisstæð. Þá voru rifjaðir upp staðir og veitingahús sem voru vinsæl áratugum áður. Þar var Sigurlaug á heimavelli og þræddi eldri bæjarhluta eins og hún hefði verið þar fyrir stuttu.

Hún helgaði fluginu starfsævi sína, fyrst sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands, síðan hjá Loftleiðum og síðast Flugleiðum. Fylgst var grannt með flugáætlun hennar þannig að hún væri á landinu þegar kom að saumaklúbb.

Sigurlaug var glæsileg kona, fallega klædd og smekkvísi hennar viðbrugðið eins og heimili hennar hafa borið vott um, allt frá því hún hóf búskap í kjallaranum á Kirkjuteigi hjá fyrrverandi tengdaforeldrum og síðan á ýmsum stöðum í Garðabænum.

Því miður hafa aðstæður ekki leyft mikinn samgang undanfarna mánuði en síðast kom Sigurlaug í saumaklúbb fyrir um ári og við nutum þess að hafa hana með okkur, alltaf jákvæða og yndislega.

Við minnumst áratuga vináttu með þakklæti og vottum Guðna, Loga, systur hennar Gyðu og fjölskyldum þeirra samúð.

Saumaklúbburinn;

Dóra, Gréta, Guðný, Margrét, Ingibjörg, Soffía og Steinunn.

Elsku Sigurlaug okkar lagði af stað í sína hinstu flugferð föstudaginn 27. ágúst 2021.

Sigurlaug fæddist 1. maí 1945 og ólst upp á Sólvallagötu í Reykjavík.

Litla bláeyga stúlkan með ljósu krullurnar var ólík systrum sínum sem allar voru dökkar yfirlitum og brúneygar. Hún var fjörmikil og uppátækjasöm og naut samvista með fjölskyldu sinni og stórfjölskyldu sem ferðaðist mikið innanlands, í sumarbústað, berjaferðir og aðra útivist. Hún gekk í Melaskólann og síðan lauk hún námi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún lærði á píanó sem barn og hafða alla tíð mikið yndi af klassískri tónlist.

Sigurlaug fór ung í flugfreyjunám og starfaði sem flugfreyja alla sína starfsævi.

Hún var glæsilegur fulltrúi kvenna í starfi, lífi og leik. Henni virtist ekkert ómögulegt, var afar skipulögð, smekkvís og gekk í öll verk. Í frítíma sínum skipulagði hún garða, lagði stéttar, byggði palla, múraði, steypti og málaði hýbýli og húsgögn. Var sífellt að breyta og bæta. Einnig var hún listræn prjónakona og gladdi fjölskyldu og vini með fallegum handgerðum munum

Sigurlaug var sannkallaður heimsborgari sem talaði mörg tungumál og færði umheiminn til okkar í fjölskyldunni. Sjálfstæði hennar, jákvæðni, skipulagshæfileikar, yfirvegun og húmor nýttust henni vel í lífi og starfi. Hún ferðaðist mikið, eðli málsins samkvæmt, í starfi og einnig í frítíma sínum með vinkvennahópnum sem var stór og samheldinn. Þær fóru saman í borgarferðir, gönguferðir, fjallgöngur um víða veröld og í íslenskri náttúru.

Hún fór til Frakklands um nokkurra mánaða skeið til sð skerpa á frönskunni og bjó þá á frönsku heimili. Hún skellti sér í píanónám þegar fór að hægjast um og naut þess að rifja upp, halda áfram að læra og njóta þess að spila. Hún sótti mikið listræna viðburði, hreyfði sig dagega og voru gönguferðir í sérlegu uppáhaldi, gekk á fjöll og elskaði íslenska náttúru.

Það dýrmætasta í lifi Sigurlaugar voru synir hennar tveir, Guðni og Logi og umvafði hún drengina sína með ást og umhyggju. Það var sérstakur tónn í rödd hennar er hún nefndi nöfn þeirra. Velferð þeirra var ætíð í fyrirrúmi. Hún var vinur tengdadætra sinna, Helgu og Eydísar og barnabörnunum var fagnað, hverju og einu og áttu þau alltaf vísan stað og samveru með ömmu.

Sigurlaug naut þess að skapa fallegt heimili fyrir sig og fjölskyldu sína. Hún var afbragðskokkur og alltaf að prófa eitthvað nýtt og brást aldrei bogalistin. Matarboðin hennar voru rómuð og glæsileg. Einnig var hún snillingur að búa til ýmsa smárétti/kökur og síðar hrákökur sem var skipulega fryst í smáum einingum og dregið fram við öll tilefni. Það var ekki bara gómsætir réttir og kaffi heldur skemmtilegar umræður, húmor og glettnislegur hlátur, ásamt umhyggju fyrir öðrum sem gerði samvistir við hana ógleymanlegar.

Þær systur Gyða og Sigurlaug voru afar samrýmdar, bjuggu um áratuga skeið í göngufæri hvor frá annarri og töluðu saman daglega. Stórhátíðum eyddu þær gjarnan saman og var gamlárskvöld fastur viðburður hjá þeim í tilverunni og eyddu þær ætíð áramótum saman við glæsileg veisluhöld a la Sigurlaug.

Að leiðarlokum er þakklæti og virðing efst i huga okkar fyrir dýrmæta systur, frænku og ekki síst, vinkonu okkar allra.

Sonum hennar, Guðna og Loga, tengdadætrunum Helgu og Eydísi og barnbörnunum: Írisi, Magnúsi, Alexander, Óskari og Kamillu vottum við okkar dýpstu samúð.

Gyða og Stefán, Þórunn, Guðmundur, BJörn Ingi og Guðbjörg.

Afar kær vinkona er fallin frá, hún Silla er farin í sína síðustu ferð. Við minnumst hennar með þakklæti fyrir einstaka vináttu og tryggð síðastliðna áratugi. Við kynntumst í háloftunum á áttunda áratugnum í gegnum vinnu okkar sem flugfreyjur hjá Loftleiðum, síðar Icelandair. Hún starfaði alla sína starfsævi sem flugfreyja.

Silla var með eindæmum félagslynd, mikill húmoristi og var alltaf kát og glöð. Hafði smitandi og dillandi hlátur. Hún var mjög virk og öflug í alls konar félagsstarfsemi. Var í mörgum klúbbum, vina- og gönguhópum. Silla var dugnaðarforkur, skipulögð og alltaf með mörg járn í eldinum, hvort sem það var að mála, flísaleggja, fara í daglegar gönguferðir eða fjallgöngur. Hún lagði aldrei frá sér prjónana og kíkti í örheimsóknir til vina og vandamanna. Silla hafði mikinn áhuga á tónlist og lærði á píanó, var í frönsku- og myndlistarnámi. Einnig var hún tíður gestur í leikhúsum borgarinnar.

Áfallið dundi yfir stuttu eftir starfslok. Silla greindist með Alzheimers-sjúkdóminn og hvarf hún smám saman inn í eigin heim. Síðustu tvö árin dvaldi hún á Roðasölum.

Við þökkum starfsfólki þar fyrir góða umönnun og hlýtt viðmót.

Elsku Silla, mikið eigum við eftir að sakna þín, en minningarnar munu ylja okkur um ókomna tíð. Hvíl í friði, elsku vinkona.

Við vottum sonum hennar Guðna og Loga, Gyðu systur og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ókunnur)

Þuríður Vilhjálmsdóttir (TV),

Kristín Aradóttir.