Ellisif Katrín Björnsdóttir
Ellisif Katrín Björnsdóttir
Unnur Freyja Víðisdóttir unnurfreyja@mbl.

Unnur Freyja Víðisdóttir

unnurfreyja@mbl.is

Vel væri hægt að stytta bið þessa fólks eftir þjónustu hjá heyrnarfræðingum hér á landi með skipulagsbreytingum og auknu samstarfi milli ríkisins og einkaaðila, að sögn Ellisifjar Katrínar Björnsdóttur, heyrnarfræðings hjá Heyrn ehf.

Töluverð bið getur verið fyrir fullorðna eftir tíma hjá heyrnarfræðingum hér á landi. Frá þessu greindi Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, í samtali við Morgunblaðið 16. ágúst sl. Biðin skýrist að hluta af skorti á sérfræðingum í faginu þar sem heyrnarfræði er ekki kennd hér á landi og að þeir erlendu sérfræðingar sem hafa starfað við fagið hér fram að þessu hafi farið fyrr heim en ella í kórónuveirufaraldrinum, að sögn hennar.

Þá segir Ingibjörg einnig að háskólinn telji sig ekki geta hafið kennslu í heyrnarfræði hér á landi þrátt fyrir endurteknar viðræður um mikilvægi þess.

Ellisif bendir á að fólk geti leitað eftir endurhæfingu til einkastofa sem bjóða upp á styttri bið eftir heyrnarþjónustu.

„Heyrnar- og talmeinastöðin er með tvíþætta þjónustu, eina fyrir almenning og aðra fyrir sérhæfðan hóp sem þarf þjónustu strax og fær 80% endurgreiðslu á heyrnartækjum,“ segir hún.

„En svo er það almenningur sem er í miklum meirihluta sem ekki fellur undir sérhæfða hópinn og fer í röðina og lengir þannig bið þeirra sem þurfa á bráðri þjónustu að halda. Hinn almenni borgari sem er yfir 18 ára og er ekki í sérhæfða hópnum fær hundrað þúsund krónur endurgreiddar af pari af heyrnartækjum á fjögurra ára fresti frá Sjúkratryggingum Íslands þegar hann kaupir heyrnartæki af viðurkenndum löggiltum heyrnarfræðingi.“

Rekstrarleyfishöfum á heyrnarþjónustu ber að vísa þeim sem greinast með heyrnarskerðingu á betra eyra yfir 70 dB til frekari endurhæfingar hjá HTÍ og geta þeir einstaklingar ekki leitað til einkaaðila eftir þeirri sérhæfðu þjónustu.

Til að stytta bið þessa stóra hóps væri þó hægt að beina þeim sem ekki þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda til einkaaðila og stytta þar með biðina hjá HTÍ, að sögn Ellisifjar.

„Rétt væri að leiðrétta þennan misskilning að það sé svona löng bið eftir tíma hjá löggiltum heyrnarfræðingum og upplýsa frekar almenning um að hann hafi val um leita til fleiri þjónustuaðila og komist þá mun fyrr að á meðan sérhæfði hópurinn leiti til sérfræðingateymis HTÍ enda hafa þau ekki völ á öðru.“