[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Rekstrarafkoma Orkusölunnar, sem er dótturfyrirtæki RARIK, versnar talsvert milli ára ef marka má árshlutareikning móðurfélagsins sem nú hefur verið birtur. Þar má sjá að tekjur Orkusölunnar námu tæpum 2,4 milljörðum á fyrri hluta ársins (nefnt Raforkusala undir starfsþáttayfirliti RARIK) en nam rúmum 2,9 milljörðum króna yfir sama tímabil í fyrra.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Rekstrarafkoma Orkusölunnar, sem er dótturfyrirtæki RARIK, versnar talsvert milli ára ef marka má árshlutareikning móðurfélagsins sem nú hefur verið birtur. Þar má sjá að tekjur Orkusölunnar námu tæpum 2,4 milljörðum á fyrri hluta ársins (nefnt Raforkusala undir starfsþáttayfirliti RARIK) en nam rúmum 2,9 milljörðum króna yfir sama tímabil í fyrra.

Samdráttinn má að stórum hluta rekja til þess að RARIK var með úrskurði kærunefndar útboðsmála skikkað gegn eigin vilja til að ráðast í útboð á raforkukaupum vegna svokallaðs dreifitaps sem verður í öllum kerfum þeirra fyrirtækja sem hafa með raforkuflutning að ræða.

Innri salan skreppur saman

Í reikningum RARIK eru kaup fyrirtækisins frá dótturfélaginu, Orkusölunni, merkt sérstaklega sem „innri sala“ og námu kaupin 350 milljónum króna á fyrri hluta síðasta árs en aðeins 48 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Stærstan hluta samdráttarins má rekja til þess að í útboði sem RARIK réðist í á síðastliðnu ári varð Orka náttúrunnar hlutskörpust þegar kom að sölu á orku til að mæta fyrrnefndu orkutapi í dreifikerfinu.

Þegar niðurstaða útboðsins lá fyrir og ljóst að ON hefði boðið betur en Orkusalan og aðrir þátttakendur í útboðinu sagði í frétt á vef RARIK að tilboð ON hefði falið í sér 4,08 kr./kWst. og að miðað væri við að viðskiptin fælu í sér afhendingu orku sem næmi 80 GWst/ári. Gróflega má því áætla að heildarkaupin nemi 330 milljónum á ári, þótt töpin í kerfum RARIK geti samkvæmt heimildum numið á bilinu 50 til 100 GWst/ári. Samkvæmt upplýsingum frá RARIK má þó ekki rekja allan samdráttinn í „innri sölu“ til þess að ON reyndist hlutskarpast í dreifitöpum. Þannig hafi breytingar einnig orðið á starfsemi fyrirtækisins á Höfn í Hornafirði þar sem hitaveita var tekin í notkun í stað raf- og olíukyndingar sem leiddi óhjákvæmilega til raforkuviðskipta innan fyrirtækisins.

Samdráttur í almennum tekjum

Í árshlutareikningi RARIK má einnig lesa að tekjur frá öðrum viðskiptamönnum en móðurfélaginu hafi dregist talsvert saman hjá Orkusölunni. Þannig námu tekjur af þeim hluta starfseminnar 2.594 milljónum á fyrri árshelmingi 2020 en 2.314 milljónum í ár.

Allt leiðir þetta til þess að rekstrarafkoma Orkusölunnar reynist jákvæð um 260,5 milljónir á fyrstu sex mánuðum þessa árs en var 459,5 milljónir í fyrra. Jafngildir það 43% samdrætti.

ON eykur umsvifin
» Á sama tíma og samdráttur verður hjá RARIK reynist vöxtur hjá ON.
» Samkvæmt árshlutareikningi OR námu tekjur frá þriðja aðila af orkusölu og framleiðslu 7,9 milljörðum á fyrri hluta árs.
» Hækkar sá liður í reikningnum um rúmar 900 milljónir.
» Má gera ráð fyrir að útboð RARIK eigi þar hlut að máli.