Ása Soffía Friðriksdóttir var fædd á Hóli við Miðstræti í Vestmannaeyjum 16. september 1930. Hún lést á heimili sínu, Hraunbúðum 21. ágúst 2021.

Ása ólst upp í Vestmannaeyjum og átti heima á Hóli sem hún var jafnan kennd við.

Foreldrar hennar voru Friðrik Jesson, íþróttakennari og forstöðumaður Náttúrugripasafns Vestmannaeyja, f. 14.5. 1906, d. 3.9. 1992, og Magnea Sjöberg, verslunarkona og samstarfskona Friðriks á Náttúrugripasafninu, f. 16.7. 1909, d. 16.1. 1998.

Ása var elst fjögurra systra, þær eru Jessý Friðriksdóttir, f. 9.4. 1934, gift Trausta Jakobssyni, f. 5.2. 1933, d. 03.6. 2011, þeirra börn eru Magnea, María og Trausti Friðrik.

Ágústa Þyrí Friðriksdóttir, f. 27. 10. 1944, gift Kristjáni Egilssyni, f. 5.7. 1939, þeirra synir eru Þröstur Egill og Logi Jes.

Brynhildur Friðriksdóttir, f. 2.9. 1948, gift Inga Tómasi Björnssyni, f. 11.9. 1946, börn þeirra eru Inga Lára, Magni Freyr og Eva Lind.

Ása giftist Gísla Ágústi Hjörleifssyni 31.12. 1951, Gísli var fæddur á Raufarfelli undir Eyjafjöllum 13.2. 1923, d. 17.9. 1967, foreldrar hans voru Hjörleifur Guðjónsson, f. 21.5. 1893, d. 24.1. 1973, og Soffía Runólfsdóttir, f. 21.4. 1890, d. 4.10. 1982.

Þau hófu búskap í Eyjum en fluttu til Keflavíkur 1958 þar sem þau bjuggu þar til Gísli lést, flutti þá Ása til baka til Eyja með syni sínum til að vera nær fjölskyldu sinni.

Ása og Gísli eignuðust einn son, Friðrik Magnús, f. 5.3. 1949, og er hann kvæntur Ingibjörgu Sigurjónsdóttur, f. 14.11. 1950, þau eiga tvö börn.

Börn þeirra eru: Bjarki, f. 11.8. 1976, kvæntur Maríu Ösp Karlsdóttur, f. 31.12. 1979, synir þeirra eru Friðrik Hrafn, f. 2.10. 2015, og Hákon Baldur, f. 18.5. 2017, María Ösp á frá fyrri sambúð Birni Smára, f. 16.3. 2007, og Svandísi Kötlu, f. 12.9. 2008.

Sigríður Ása, f. 23.6. 1979, gift Ian David Jeffs, f. 12.10. 1982, þeirra synir eru Liam Daði, f. 20.3. 2006, og Erik Logi, f. 9.2. 2016.

Ása gekk í Barnaskóla Vestmannaeyja og Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, lauk hún námi þrátt fyrir sitt sjónleysi með aðstoð fjölskyldu og góðrar vinkonu. Ása vann á almennum vinnumarkaði við ýmis störf eftir að hún flutti aftur til Eyja.

Útför Ásu fer fram frá Landakirkju í dag, 3. september, kl. 13, streymt verður frá athöfninni á heimasíðu Landakirkju:

https://www.landakirkja.is

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Okkur fannst allaf gaman að hitta Ásu, en hún og Eiki eru systkinabörn. Hún hafði oft komið heim á Laugarásveginn á þeim árum sem fjölskyldan bjó í Keflavík og Eiki og Friðrik kynntust þá sem börn.

Við sem hjón kynntumst Ásu Fíu vel þegar við bjuggum í Holte rétt fyrir utan Kaupmannahöfn 1970 og 1971 og hún kom til að vinna á Skodsborg heilsustofnun sem er ekki langt frá Holte. Við vorum rúmlega tvítug en hún rúmlega fertug þarna, en fannst alveg ótrúlegt að við fyrstu samveru okkar hvarf aldursmunurinn. Sama gerðist með stelpurnar sem unnu með henni á Skodsborg, þar var heldur ekkert spáð í aldur og skemmtu þær sér konunglega saman eftir því sem Ása sagði okkur. Þær lentu saman í sóttkví í nokkurn tíma vegna þess að það kom upp einhver skaðræðispest hjá einhverri sem þær umgengust og sagði Ása okkur margar sögur af því hvernig þær skemmtu sér saman í sóttkvínni, ekkert vol og væl.

Við hittumst oft, oftast kom hún heim til okkar en í nokkur skipti fórum við til hennar. Hún tók strætó frá Skodsborg til Holte og hittum við hana á brautarstöðinni þar og gengum með henni heim til okkar sem var nokkurn spöl frá stöðinni og svo aftur til baka að lokinni heimsókn og var spjallað allan tímann. Hún var alveg ótrúlega ratviss miðað við hve sjónskert hún var og vitum við að hún fór með vinkonum sínum úr vinnunni niður í miðbæ Kaupmannahafnar og varð eins konar leiðsögumaður þar eftir að hafa farið um viðkomandi svæði áður.

Hún fór heim á undan okkur og heimsóttum við hana nokkrum sinnum til Eyja eftir að við komum heim og einnig kom hún og dvaldi nótt og nótt hjá okkur þegar hún átti leið í bæinn. Alltaf var jafn gaman að heyra hana segja frá mönnum og málefnum því alltaf var létt yfir sögum hennar og gat hún séð spaugilegar hliðar á flestum málum.

Við fjölskyldan gistum hjá henni 1977 eða 1978 og nutum Þjóðhátíðar. Svo liðu árin og eins og svo oft gerist leið lengra og lengra á milli þess sem við hittumst, en alltaf var það jafn gaman og yndislegt.

Við höfum ekki verið í sambandi síðustu árin nema með jólakveðjum en fylgst með henni úr fjarska. Nú er hún farin og við kveðjum hana með innilegu þakklæti fyrir þau fótspor sem hún markaði í líf okkar og biðjum fyrir innilegar samúðarkveðjur til allra ástvina hennar.

Eiríkur og Hulda.