Hrein staða þjóðarbúsins sem hlutfall af landsframleiðslu var 36,6% við lok annars ársfjórðungs. Batnaði staðan talsvert frá lokum fyrsta ársfjórðungs þegar staðan var 34,1%. Hrein staða þjóðarbúsins var 1.

Hrein staða þjóðarbúsins sem hlutfall af landsframleiðslu var 36,6% við lok annars ársfjórðungs. Batnaði staðan talsvert frá lokum fyrsta ársfjórðungs þegar staðan var 34,1%. Hrein staða þjóðarbúsins var 1.120 milljarðar króna og hefur aldrei í sögunni verið betri. Þannig voru erlendar eignir 4.566 milljarðar króna en erlendar skuldir alls um 3.445 milljarðar.

Kemur þetta fram í nýbirtum þjóðhagsútreikningum Seðlabanka Íslands. Af erlendum eignum var mest bundið í verðbréfum eða 2.378 milljarðar og þá var gjaldeyrisforðinn 856 milljarðar. Bein fjárfesting nam 780 milljörðum og önnur fjárfesting 544 milljörðum. Af skuldunum vógu verðbréf þyngst eða 1.564 milljörðum króna, bein fjárfesting 1.002 milljörðum og önnur fjárfesting 868 milljörðum. Afleiður stóðu undir 12 milljörðum af erlendum skuldum.

Það sem helst hafði áhrif til bættrar erlendrar stöðu milli fjórðunga var að virði eigna hækkaði um 78 milljarða vegna gengis- og verðbreytinga og skulda um 1 milljarð. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu um 16 milljarða en erlendar eignir hækkuðu um 15 milljarða vegna fjármagnsviðskipta en skuldir lækkuðu um 2 milljarða. Verð á erlendum mörkuðum hækkaði um 8% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 9,4%. Gengi krónunnar hækkaði um 1,5% miðað við gengisskráningarvog.