Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur: "Þetta er hin skynsama leið sem getur skapað sátt um sjávarauðlindina. Sátt sem sárlega vantar."

Afstaða þjóðarinnar til þess hvort markaðurinn eigi að ráða verðinu á verðmætum fiskimiðanna er skýr. Um 77% þjóðarinnar vilja að útgerðir landsins greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni, skv. nýlegri skoðanakönnun Gallup. Um fá mál er þjóðin jafn einhuga og um þetta grundvallaratriði. Þjóðin virðist treysta markaðnum. Samkvæmt sömu könnun eru hins vegar 7,1% þjóðarinnar á móti því að útgerðirnar greiði markaðsgjald. Þrátt fyrir það er það sú leið sem farin er. Leið sem fámennur minnihluti styður.

Fólk upplifir réttilega að kerfið í kringum veiðiréttinn er ekki í þágu almannahagsmuna, enda verður almenningur af milljörðum á ári hverju með þessu fyrirkomulagi. Ástæðan er að útgerðin greiðir veiðigjald sem ákvarðað er af stjórnmálunum í stað þess að markaðurinn meti einfaldlega verðmætin eins og eðlilegt er.

Markaðsgjald fyrir verðmætin

Eitt helsta baráttumál Viðreisnar frá stofnun flokksins er að markaðsgjald verði greitt fyrir verðmæti fiskimiðanna. Að réttur til veiða fáist með tímabundnum leigusamningum til 20-30 ára. Hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári. Í fyllingu tímans verði því allar veiðiheimildir bundnar samningum. Útgerðin greiði fyrir afnot af fiskimiðunum í samræmi við markaðsverðmæti. Með þessum heilbrigðu leikreglum fæst sanngjarnt gjald til þjóðarinnar og jafnframt meiri arðsemi í greininni án þess að kollvarpa kerfi sem hefur marga kosti. Vissa skapast til lengri tíma hjá þeim sem stunda veiðar vegna fyrirkomulagsins um samninga til lengri tíma. Þetta er hin skynsama leið sem getur skapað sátt um sjávarauðlindina. Sátt sem sárlega vantar.

Stefna Viðreisnar er jafnframt að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá um að afnot af þjóðareigninni verði tímabundin og að fyrir afnot skuli greiða eðlilegt markaðsgjald. Ef stjórnarskráin er skýr um að afnot af fiskimiðunum geti aðeins fengist með tímabundnum samningum fær orðið þjóðareign loksins áþreifanlega og raunverulega merkingu. En hvað er það sem veldur því að breytingar í átt að markaðsgjaldi eru svo þungar þegar afstaða þjóðarinnar er svo skýr?

Skýrar átakalínur

Átakalínurnar milli stjórnmálaflokka eru hvergi skýrari en hér. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír styðja allir óbreytt ástand um sjávarútveginn. Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafa allir lýst yfir vilja til að halda óbreyttu ríkisstjórnarsamstarfi áfram. Samstarf þeirra þýðir því óbreytt ástand í þessu grundvallarmáli. Nú fara frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fram á ritvöllinn með þau skilaboð að breytingar á þessu kerfi séu af hinu slæma. Flokkurinn sem í orði kveðnu boðar markaðslögmál telur önnur lögmál eiga að gilda hér. Það vakti eðlilega athygli þegar Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í nýlegu viðtali að flokkur hans glímdi við trúverðugleikavanda og nefndi í því sambandi sjávarútvegsmálin sérstaklega. Hið sama gerði Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi þingmaður flokksins í grein þar sem hann sagði að vandi Sjálfstæðisflokksins fælist einna helst í því að hann væri eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins ræður för. Hagkvæmnin sem Vilhjálmur setti í gæsalappir er vitaskuld hagkvæmni stórútgerðarinnar sem greiðir gjafverð fyrir afnot af fiskimiðunum.

Tækifærin í sjávarútvegi

Við þurfum að nýta tækifærin í sjávarútveginum betur. Það verður ekki gert með neinum kollsteypum. Kerfið þarf hins vegar að vera sanngjarnt og mikilvægasti liðurinn í því er að þjóðin fái eðlilegan hlut. Það er best gert með því að setja kvótann á markað og með því að verja þjóðareignina í stjórnarskránni. Það er stefna Viðreisnar. Hærri tekjum sem þjóðin fær verður hægt að verja til mikilvægra verkefna í þágu almannahagsmuna. Sjávarútvegurinn hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið og atvinnugreinin er mikilvægur þáttur í sögu þjóðarinnar. Það skiptir miklu að um þessa grein ríki sátt. Eðlilegar leikreglur eru leiðin til þess.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í Reykjavík norður. thorbjorg.s.gunnlaugsdottir@althingi.is