Daði Már Kristófersson
Daði Már Kristófersson — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andrés Magnússon andres@mbl.is Tillögur um að prófkjör yrðu meginreglan við uppstillingu framboðslista voru felldar á landsþingi Viðreisnar, sem fram fór um liðna helgi.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tillögur um að prófkjör yrðu meginreglan við uppstillingu framboðslista voru felldar á landsþingi Viðreisnar, sem fram fór um liðna helgi. Nokkurrar óánægju gætir með það hjá hópi flokksmanna, en breytt fyrirkomulag um uppstillingu var meðal helstu atriða í sáttargjörð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns flokksins, og Benedikts Jóhannessonar, stofnanda og fyrrverandi formanns, í júlí.

„Það stendur í sjálfu sér áfram að það er vilji stjórnarinnar að prófkjör verði notuð við val á lista í framtíðinni,“ segir Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar. Hann minnir á að nú þegar sé heimilt að halda prófkjör og á t.d. von á að því að þannig verði valinn listi fyrir borgarstjórnarkosningar í vor.

Í fyrrnefndri sáttargjörð var aðeins kveðið á um að stjórnin legði fram tillögu þessa efnis, en það var eftir sem áður landsþingsins að fjalla um hana og taka ákvörðun þar að lútandi. Að því leyti hefur samkomulag Benedikts og Þorgerðar ekki verið rofið.

„Þetta var tillaga stjórnarinnar og það var búið að setja saman hóp til þess að gera tillögur um útfærsluna,“ segir Daði. „Umræðurnar á þinginu snerust fyrst og fremst um það og að ekki væri alls staðar hægt að koma prófkjörum við. Það er þá hópsins að finna lausn á því og setja fram nýjar tillögur.“ Það munu einkum hafa verið fulltrúar landsbyggðakjördæmanna, sem töldu að ákvæði um prófkjör væru of stíf.