Álfheiður Margrét Jónsdóttir fæddist 21. febrúar 1921 á Akureyri. Hún lést 28. ágúst 2021 á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri.

Foreldrar Álfheiðar voru Jón Samsonarson, húsgagnasmiður á Akureyri, f. 1870, d. 1962, og Valgerður Sigurðardóttir, húsfreyja og saumakona á Akureyri, f. 1883, d. 1932. Systkini Álfheiðar voru Rebekka húsfreyja, f. 1914, d. 2005, og Matthías sjómaður, f. 1915, d. 1963.

Álfheiður giftist Karli Hjaltasyni, húsgagnasmiði og smíðakennara, f. 1921, d. 2000. Þau skildu. Sonur þeirra var Haraldur Karlsson stöðvarstjóri, f. 1945, d. 2016. Maki Haraldar er Aldís Jónsdóttir fulltrúi, f. 1946. Börn þeirra eru 1) Jón Páll Haraldsson skólastjóri, f. 1970. Maki, Sif Einarsdóttir prófessor, f. 1966. Börn þeirra eru Aldís, Arna Beth og Darri. 2) Álfheiður Haraldsdóttir lýðheilsufræðingur, f. 1976. Maki, Jóhann Páll Ingimarsson, f. 1978. Dætur þeirra eru Freyja Bjarnveig, f. 2008, og Bríet Björk, f. 2013.

Álfheiður ólst upp á bænum Garði í Grófargili á Akureyri. Hún vann verkamannavinnu og verslunarstörf nær alla sína starfsævi. Meðal vinnustaða voru fata- og skóverksmiðjurnar á Akureyri, Skjaldborgarbíó, Amaro-verslunin, Útgerðarfélag Akureyrar og Menntaskólinn á Akureyri. Um hríð var hún verslunarstjóri og einn eigenda skóverslunarinnar Lyngdal við Hafnarstræti. Álfheiður var virkur meðlimur í Ferðafélagi Akureyrar um áratugaskeið, sat í nefndum og stjórn félagsins ásamt því að vera fararstjóri í mörgum ferðum. Þá var hún einnig í Skíðafélagi Akureyrar, keppti á fjölmörgum skíðamótum og varð m.a. Íslandsmeistari í bruni á Skíðamóti Íslands 1946.

Útför Álfheiðar fer fram frá Höfðakapellu í dag, 3. september, klukkan 13.

Ég á endalaust góðar minningar um ömmu mína. Í stuttu máli sá hún ekki sólina fyrir mér og eldri bróður mínum og án efa gjörspillti okkur á köflum. Við systkinin komum oft til Akureyrar að sumarlagi og nokkrum sinnum án foreldra okkar. Þar sem þessar heimsóknir voru oftast í júlí þá var að öllum líkindum ekki sjónvarp í boði og aldrei átti amma vídeótæki. Ég man heldur ekki sérstaklega eftir leikföngum á hennar heimili og ekki átti ég heldur alltaf leikfélaga á Akureyri. Ekki man ég samt nokkurn tíma að mér hafi leiðst og þessar heimsóknir eru einar af mínum bestu bernskuminningum. Það var fátt sem jafnaðist á við þegar amma las upp og þýddi fyrir okkur úr dönskum Andrésblöðum (áður en þau komu á íslensku – ég veit ekkert hver þessi Guffi er, amma þýddi hann sem Feitmúla), endalausum sundferðum, mörgum ferðum í lystigarðinn, bókasafnið og niður í bæ og ótal fleira. Þá var mikið dundað við saumaskap og það var fátt sem hún amma gat ekki saumað og nutum bæði ég (þó ég hafi ekki alltaf kunnað að meta það) og barbídúkkurnar mínar góðs af því, það einfaldlega lék allt í höndunum á henni. Á fullorðinsárum hef ég einnig aldrei þurft að kaupa mér borðtusku þar sem amma prjónaði þær alltaf handa mér og ég held að ég sé birg fyrir lífstíð. Þá bakaði amma bestu kanilsnúðana og vínarbrauðin, og ef við vorum ekki á svæðinu til að borða afraksturinn þá einfaldlega sendi hún gúmmelaðið með pósti til okkar. Mikið hlakkaði ég líka alltaf til þegar hún kom til okkar vestur á Patró, síðar Grindavík, oftast um jólin. Ég held að henni hafi liðið eins, þar sem oft var mikið ferðalag á sig lagt. Ég man að ein jólin kom hún vestur með flutningaskipi seint um kvöld 23. desember. Ég man einnig eftir að hafa iðulega grátið mig í svefn þegar hún fór aftur til síns heima.

Í gegnum árin lagði amma mikla áherslu á hollt líferni og mataræði og var farin að hafa áhyggjur af skordýraeitri á grænmeti og ávöxtum löngu áður en það komst í tísku, enda alltaf með eindæmum heilsuhraust miðað við aldur. Tæplega níræð fór hún létt með að setjast á gólfið hjá Freyju dóttur minni til að leika við hana og standa upp aftur án hjálpar. Bara núna í sumar sátum við svo öll fjölskyldan saman yfir kaffibolla og amma, 100 ára gömul, sagði okkur gamansögur úr æsku sinni og hélt þræði allan tímann. Hennar heilsusamlegi lífsstíll hefur eflaust leikið stórt hlutverk í hennar háa aldri og það hefði ekki komið mér á óvart þótt hún hefði lifað í mörg ár til viðbótar. En það hefur verið erfitt að vera svona fjarri henni síðustu ár og ennþá erfiðara að sjá hana eldast og geta ekki gert hlutina sem veittu henni alltaf svo mikla ánægju, þá aðallega hluti tengda handavinnu og útiveru. Það er því undarleg tilfinning að vera svona innilega glöð yfir að hún hafi loksins fengið hvíldina sem hún þráði svo mikið, en vera á sama tíma svo sorgmædd yfir að hún sé farin frá okkur.

Hvíl í friði, elsku amma mín. Ég mun ætíð sakna þín og það verður skrýtið að koma til Akureyrar án þess að heimsækja þig.

Þín

Álfheiður.

Eftir eitt hundrað ár og óteljandi fjallaferðir og skíðabunur er loksins komið að leiðarlokum hjá elsku Heiðu ömmu. Um leið og ég finn til söknuðar þá finn ég hversu mikil forréttindi voru að eiga hana fyrir ömmu, vin og glæsilega fyrirmynd. Hún var stórmerkileg manneskja og aðdáunarverð.

Amma átti góðar minningar úr barnæsku. Hún ólst upp í hjarta bæjarins og bjó reyndar á Akureyri alla sína tíð. Sögur hennar úr bernsku fjölluðu nær alltaf um ástríka foreldra, systkini og góða vini. Hún eignaðist fljótt áhugamál sem hún sinnti af kappi. Þau fólust yfirleitt í útiveru, hreyfingu og hvers kyns heilsurækt. Hún lærði að synda í fyrstu Sundlaug Akureyrar sem var rétt fyrir ofan æskuheimilið í Garði og sundið var henni alla tíð kært. Skíðin og fjallamennskan urðu þó helsta áhugamálið og í Skíðafélagi Akureyrar og Ferðafélagi Akureyrar eignaðist hún marga sína bestu vini og félaga. Hún ferðaðist um allt land með FA og bjó að miklum fróðleik um náttúru og sögu.

En hún þurfti líka að glíma við mikið mótlæti og ég veit að móðurmissir, bróðurmissir, skilnaðurinn við Kalla afa, atvinnuskortur og fátækt mörkuðu hana mjög. Þannig held ég að amma hafi oft bognað og átt erfitt. Á sama tíma virðist hún hafa byggt upp aðdáunarverða seiglu og lífsvilja og sem komu henni í gegnum súrt og sætt. Hún vann alla þá vinnu sem bauðst og lifði naumt til að sjá fyrir sér og pabba. Hún kveinkaði sér sjaldan, kom sér í gegnum allan mótbyr upp á eigin spýtur og ráðdeildin fylgdi henni alla tíð. Að sama skapi gat hún verið skoðanarík, hörð í horn að taka og gat meira að segja verið býsna langrækin. Hún var þannig alls ekki allra.

Hin hliðin á þessari sterku manneskju var hins vegar einlæg og óbilandi ást í garð fjölskyldunnar. Við barnabörnin – og síðar barnabarnabörnin – nutum þess í alla staði og margar af okkar bestu æskuminningum eru stundirnar með Heiðu ömmu, ýmist þegar hún kom í heimsókn til okkar eða þegar við dvöldum hjá henni á sumrin. Við höfðum alltaf eitthvað fyrir stafni og hún naut þess að vera með okkur og við með henni. Hún dekraði við okkur, ferðaðist með okkur og fræddi okkur. Hún sagði okkur líka sögur um Akureyrina sína og mannlífið þar, enda finnst mér saga ömmu og saga Akureyrar eitt.

Það er því í senn bæði viðeigandi, fallegt og þakkarvert hversu vel Akureyrarbær sá um hana síðustu árin. Þá bjó hún á dvalarheimilinu Hlíð, en óþarft er að taka það fram að ömmu fannst það alveg ómögulegt að geta ekki séð um sig sjálf. Við fjölskyldan viljum senda okkar bestu kveðjur til starfsfólksins á Grenihlíð fyrir einstaka umönnun, þolinmæði og fagmennsku í hvívetna.

Elsku ömmu þakka ég ástina, uppeldið og ógleymanlegar minningar. Það var gott að vera ömmustrákur.

Jón Páll.

Það eru forréttindi að fá að kynnast Álfheiði og aldarsögu hennar. Álfheiður ólst upp að Garði á gilbrúninni rétt fyrir neðan sundlaugina í hjarta Akureyrar. Hún ólst upp við umhyggju og alúð en sorgin barði dyra snemma. Móðir Álfheiðar lést þegar hún var aðeins 10 ára gömul. Hún fór ekki með síðustu ferðina að Kristnesi, ekki mátti smita barnið af berklum. Þegar mamma dó hætti ég líklega að stækka sagði Álfheiður. Um það var ekki meira rætt.

Álfheiður stundaði íþróttir og útivist langa ævi. Líf hennar er samofið sögu sundlaugarinnar. Hún synti í kaldri lauginni sem var fyrst stíflaður lækur. Hún var mikil skíðakona, glanni af myndunum að dæma hátt í bröttu fjalli hömrum girtu. Álfheiður varð Íslandsmeistari í bruni minna en þremur mánuðum eftir að einkabarnið, tengdafaðir minn, Haraldur fæddist. Hún sagði okkur margar sögur af góðum stundum að Skíðastöðum, forvera Hlíðarfjalls, og svaðilförum á fjallaskíðum. Það fyrsta sem hún spurði, skömmu eftir 100 ára afmælið þegar við vorum á ferð, „hvernig var færið“?

Sonurinn var yndi augna hennar og barnabörnin tvö, á þau mátti ekkert halla þá var Álfheiði að mæta. Það var vel skiljanlegt, Álfheiður ól ein upp son sinn eftir skilnað þegar Haraldur var tveggja ára, 1948. Skömmu síðar fékk hún Akureyrarveikina og annaðist hann ein að mestu. Hún var sjálfstæð móðir, vann við ýmis störf við sjávarútveg og iðnað á Akureyri. Hún átti hlut í og rak skóverslunina Lyngdal. Sonurinn fór í sveit til ættingja í Kinn að sumrum en Álfheiður stundaði fjallamennsku.

Álfheiður var mikil útvistarkona, fjallageit. Hún var í Ferðafélagi Akureyrar fram á hinsta dag og byggði upp að Laugafelli. Hún lýsti fyrir okkur ólíkum leiðum sem farnar voru upp á hálendið hvernig vegarstæðin þróuðust og farkostunum. Við leituðum til fararstjórans og lágum saman yfir kortabókum. Hún gat fjálglega leiðbeint hvernig best væri t.d. að ganga á Herðubreið sem hún hafði farið á um hálfri öld áður. Hún þekkti hvern tind í Glerárdal eins og lófann á sér Súlur, Kerlingu Hlíðarfjall og henni er minnisstæð ferð á Tröllafjall.

Á veggjum hennar voru myndir af horfnum perlum sem sökkt var við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Hún hafði komið að Töfrafossi í Kringilsárrana og lýsti hvernig þreytan eftir langa göngu hafi liðið úr henni. Álfheiður var umhverfissinni alla tíð, hjarta hennar sló í takt við náttúru landsins. Hún var ekki hrifin af ágangi mannanna og afleiðingum fyrir landið sem ásamt ójöfnuði var í hennar huga versti óvinur þjóðar. Hún lýsti skoðun sinni skýrt í hárbeittum stökum og á kosningadögum. Móðir náttúra fóstraði hana í heila öld, nærði og veitti ómælda gleði þrátt fyrir þunga sorg í brjósti. Af aldargöngu Álfheiðar er margt að læra um samspil manns og náttúru í viðkvæmu landi á norðurhjara fyrir komandi kynslóðir.

Takk fyrir samfylgdina Álfheiður. Þín verður minnst við silfurreyninn sem þú gróðursettir í gilinu þar sem Garður stóð. Nú ertu horfin í faðm ástvina loksins og þið orðin eitt – móðir náttúra og þú.

Sif Einarsdóttir.