Guðný Guðjónsdóttir fæddist á Akranesi 3. október 1940. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 21. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigurbjörg Sigríður Jónsdóttir, f. 4. nóvember 1919, d. 8. desember 2010 og Guðjón Ólafur Jónsson, f. 7. desember 1916, d. 2. október 1996. Systkini Guðnýjar eru: J ón Rúnar, f. 23. nóvember 1941, d. 13. janúar 2016; Hugrún Valný, f. 10. júlí 1943 og Kristín f. 22. mars 1957.

Guðný bjó alla sína ævi á Akranesi. Hún vann lengi í fiskvinnslu þar, var í rúm 20 ár starfsstúlka og aðstoðarkokkur í Hvalstöðinni í Hvalfirði og endaði starfsævina í ræstingum á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða.

Útför Guðnýjar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 3. september 2021, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á vef Akraneskirkju:

https://www.akraneskirkja.is/.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat.

Látin er Guðný Guðjónsdóttir, móðursystir okkar. Gugga frænka var stór þáttur af lífi okkar systkinanna, sér í lagi á æskuárunum. Hún bjó hjá afa og ömmu á Akranesi en heimili þeirra á Háholtinu var okkur alltaf opið. Þau þrjú komu líka oft í heimsókn í Hvalfjörðinn. Það bættist við fjörið í annars líflegu húsinu í Saurbæ þegar þrenningin mætti, gjarnan var tekið í spil, setið og spjallað og smakkað á ýmsum kræsingum. Saman áttum við ótalmargar gleðistundir.

Gugga vann mörg sumur í eldhúsinu í Hvalnum og það var sannkölluð ævintýraveröld fyrir okkur krakkana að fá að ganga með henni um rangala bragganna, kíkja í risastórt búrið og sjá lífið og fjörið þegar starfsfólkið kom til að borða. Stundum leyfði hún okkur að smakka nýtt og ilmandi bakkelsið og koma með í herbergið sitt í einum svefnbragganum sem var mikil upplifun. Á Skaganum var boðið í ísrúnt og við tekin með á knattspyrnuleiki ÍA en ÍA-hjarta Guggu var stórt og sló með félaginu.

Gugga var hláturmild og fyndin. Hún sá spaugilegu hliðarnar á ýmsum málum og á góðum stundum lék hún bæði menn og atburði. Þótt hún hefði sig sjaldan mikið í frammi gat hún gleymt sér í sprelli og alls kyns fíflaskap með börnum. Enda var hún barngóð og hafði gaman af krökkum, veitti þeim athygli og stríddi á saklausan hátt. Þegar við sjálf eignuðumst börn prjónaði hún á þau, stríddi þeim á sinn góðlátlega máta og spurði um þeirra hagi.

Gugga átti ýmis áhugamál, prjónaði mikið, spilaði, horfði á sjónvarp, stundaði boccia og sundleikfimi. Í eðli sínu var hún nægjusöm, vinur vina sinna og umhyggjusöm. Hún var ömmu stoð og stytta hennar síðustu ár og sá til þess að hún gat búið heima lengur en vænta mátti.

Gugga fékk ósk sína uppfyllta, hún vildi ekki verða „elliært gamalmenni“ og ekki enda ævina á stofnun. Undanfarið hafði henni gengið æ verr að halda heimili vegna Alzheimer og hafði fengið pláss á dvalarheimili. Það var því ekki eftir neinu að bíða. Hún kvaddi þessa veröld í flýti eftir tæplega sólarhringsdvöl á sjúkrahúsi og losnaði þar með við að hverfa inn í veröld óminnisins.

Að leiðarlokum þökkum við Guggu frænku allar góðu stundirnar, spilamennskuna og spaugið. Við minnumst hennar með þakklæti og hlýju.

Sigríður Munda, Guðjón Ólafur, Jóney og Einar Kristján.