Cecelia Maria Kaldalóns Balys fæddist í Montreal í Kanada 7. desember 1969. Hún lést á Ottawa Hospital 12. júní 2020. Foreldrar hennar eru Þorbjörg Kaldalóns Jónsdóttir, f. 28.10. 1945 í Reykjavík og Edward Balys fæddur 21.12. 1938 í Kaunas, Litháen. Systkini Ceceliu eru Kenneth Balys, f. 20.4. 1968, og Christina Balys, f. 4.11. 1974. Cecelia var barnabarn Selmu Kaldalóns, f. 1919, d. 1984, og Jóns Gunnlaugssonar læknis, f. 1914, d. 1997.

Cecelia ólst upp í Montreal og síðar í Ottawa í Kanada. Hún hóf nám í stjórnmálafræði við Paris Institute of Political Studies og lauk því síðan frá McGill University í Montreal. Hún starfaði m.a. í Kanada, Bandaríkjunum, Frakklandi og á Íslandi. Hún hafði mikinn áhuga á tónlist, myndlist og bókmenntum. Eftir hana liggja nokkrar ljóðabækur sem ekki hafa verið gefnar út.

Cecelia verður jarðsungin frá Selfosskirkju í dag, 3. september 2021, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á:

https://selfosskirkja.is

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Kæra Cece frænka.

Okkar fyrstu kynni voru í Montreal í Kanada sumarið 1971, þú þá rétt liðlega eins árs og ég á fermingaraldri kominn til þessarar fallegu og listrænu borgar til að líta eftir litlu frænku og aðeins stærri bróður, Kenny.

Þessi heimsókn var upphafið á fallegri vináttu okkar sem stóð óhögguð alla tíð. Þínir dvalarstaðir á lífsleiðinni sem tengdust námi og vinnu voru allt frá Montreal, Ottawa, Los Angeles, Vancouver og París til Reykjavíkur sem gerði það að verkum að oft liðu mörg ár án þess að við hittumst en það breytti engu, alltaf var eins og við hefðum sést síðast í gær.

Tíminn sem þú dvaldir á Íslandi og við unnum saman á tíunda áratugnum var frábær og gefandi og endurspeglaði þekkingu þína á málefnum tengdum okkar samstarfi og jafnframt þína góðu tungumálakunnáttu í ræðu og riti, af þér lærði ég faglega ensku sem aldrei fyrr og eflaust eitthvert smáræði í frönsku.

Iðulega sátum við fram á kvöld eftir vinnu og undirbjuggum næstu skref sem tengdust meðal annars markaðssetningu og uppstillingu á þeirri vöru sem við vorum að vinna með auk þess að láta hugann taka flugið eins og þér var einni lagið.

Afraksturinn af þessu framlagi okkar og annarra innan fyrirtækisins þótti einstakur á heimsvísu eins og viðurkenningar sem bárust utan úr heimi bera vitni um. Þar áttir þú stóran þátt.

Cece, þitt líf var ekki alltaf einfalt en gott lundarfar, einstakar gáfur og áhugi fyrir öllu sem tengdist list og menningu var hluti af þínum stóra sjarma auk þess sem þú hefðir sómt þér vel á tískupöllum Parísarborgar.

Sjáumst síðar, kæra frænka.

Þinn frændi,

Þórhallur.

Það var morgun einn sem ég vaknaði snemma til að undirbúa Kvennahlaupið sem átti að verða seinna um morguninn, að ég kíkti á Facebook og sá að Obba frænka hafði skrifað færslu. Þá vissi ég strax hvað hafði gerst. Cece frænka mín var dáin. Hún hafði látist nokkrum klukkustundum fyrr, eftir erfið veikindi. Þetta var í júní 2020, fyrir rúmu ári, þegar Covid-19 hélt Vesturheimi í köldum greipum sér og útgöngubann var í Kanada. Loksins er aska hennar komin til Íslands og verður jarðsett á Selfossi, þar sem hún var skírð mörgum áratugum fyrr, og íslenska fjölskyldan hennar fær að kveðja í hinsta sinn.

Ég var 16 ára þegar foreldrar mínir buðu Cece að búa hjá okkur þegar hún kom til Íslands eftir ævintýralegt ferðalag um Evrópu. Ég var ekkert ýkja hrifin af henni þegar hún kom, því ég kunni ekki ensku og hún ekki íslensku. Með tímanum mynduðust þó sterk systrabönd milli okkar. Ég lærði ensku af henni, sem ég bý enn að, og hún lærði íslensku. Hún varð stóra systir mín sem ég gat leitað til vegna stráka- og vinkvennamála. Um tíma unnum við báðar í fjölskyldufyrirtækinu og þá var ekki leiðinlegt hjá okkur. Mér þótti alltaf vænt um að sjá Cece og breiða brosið hennar, líka eftir að hún flutti úr húsinu okkar og fór að búa ein. Þá saknaði ég hennar, sérstaklega þegar hún flutti til baka til Kanada.

Það er sárt og erfitt að kveðja og ég vildi óska þess að ég hefði fengið fleiri stundir með henni. En minningin um góða konu lifir í hjarta mér um ókomna tíð og fyrir það er ég þakklát.

Selma.

Með söknuði kveð ég elskulega frænku mína Cece sem lést 12.6. 2020 í Ottawa eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein aðeins fimmtug að aldri.

Við fráfall hennar er mér efst í huga þakklæti fyrir þær mörgu skemmtilegu og innihaldsríku stundir sem við áttum saman. Ég hitti fyrst þessa ljúfu frænku mína er ég fór til Montreal sumarið 1970 til að hjálpa til við barnapössun hjá systur minni. Cece var þá 6 mánaða og Kenný bróðir hennar 2 ára, tveir yndislegir og líflegir litlir krakkar. Cece mín hafði þessi undurfögru grænu augu og strax sterkan persónuleika. Mér þótti vænt um að fylgjast síðan með þessum tveimur litlu frændsystkinum vaxa og dafna er systir mín kom með þau í heimsókn til Íslands.

Þegar ég fór næst til Kanada 1985 hafði Cece breyst í gullfallega, klára og ábyrgðarfulla unga konu þó að í rauninni væri hún bara unglingsstúlka. Cece var góður námsmaður og talaði vel frönsku enda var hún í menntaskóla fyrir frönskumælandi stúdenta. Eftir menntaskóla fór Cece til Frakklands í nám við Paris Instititute of Political Studies, því námi lauk hún síðar í McGill University, Ottawa með gráðu í stjórnmálafræði og hagfræði. En Cece var margt til lista lagt og áhugasviðið vítt.

Cece fluttist til Íslands árið 1995 og vann þrjú ár í fyrirtæki frænda sinna. Á þessu tímabili kom hún oft í heimsókn til okkar á Grandaveginn. Hún var afburðagreind með næman skilning á lífinu og mannlegu eðli. Trygglyndi og sterk réttlætiskennd voru einkennandi þættir í fari hennar. Cece var alltaf áberandi smart klædd, hafði einstaklega mikla útgeislun og einstaka frásagnargáfu. Því var alltaf skemmtilegt að fá hana í heimsókn og oft spjallað fram á nótt. Hennar var sárt saknað hjá okkur á Grandaveginum er hún ákvað að flytja aftur til Kanada, þar sem hún fékk fína vinnu hjá Givenchy-tískuhúsinu í Toronto við markaðsmál. Síðar flutti hún til Los Angeles og vann þar ásamt sambýlismanni sínum við upptökustúdíó fyrir tónlistamenn. Þar undi hún hag sínum vel og naut lífsins. Seinustu árin bjó Cece í Ottawa, sem voru henni um margt erfið vegna veikinda, þó að hún bæri sig vel.

Cece bjó yfir mörgum hæfileikum og hafði fjölþætt áhugamál, m.a. listir, tónlist, tísku, hönnun, bókmenntir, stjórnmál og markaðsmál.

Minningin um gullfallega, vel gefna, skemmtilega og listræna frænku lifir.

Ég og Örn vottum Þorbjörgu systur, Ed, Kenný, Tínu og Sveve okkar dýpstu samúð.

Margrét Kaldalóns, Örn Kaldalóns Magnússon.

Í dag kveðjum við kæra systurdóttir sem lést eftir stutta baráttu við illvígt krabbamein. Það er sárt til þess að hugsa þegar fólk af yngri kynslóðum kveður þennan heim áður en röðin kemur að þeim eldri. Nú á tímum Covid gerast allir hlutir hægt en hún Cece kvaddi þessa jarðvist í júní 2020 og nú rúmlega ári síðar er hún jarðsett á Selfossi. Hún var fædd í Kanada 1969 og var því nýlega orðin fimmtíu ára. Þarna lauk æfi stelpu sem við hjón fengum tækifæri til að kynnast náið þegar hún kom hingað til Íslands 1995 og bjó hjá okkur í tvö ár ásamt því að starfa í fyrirtæki okkar bræðra. Í Cece fengu dætur okkar stóra systur sem talaði ensku og voru þær fljótar að ná tökum á því tungumáli. Þær elskuðu hana og fannst hún algjörlega frábær. Þetta voru skemmtilegir tímar enda mikið líf og fjör á heimilinu og Cece sem var mjög smekkleg kom sterk inn í rekstur félags okkar. Cece bjó hér á Íslandi í þrjú ár sem var að okkar mati allt of stuttur tími. Síðan höfum við fylgst vel með lífsgöngu hennar sem bæði var full af sigrum og einnig ósigrum og veikindum hin síðari árin. Við bræður, Þórhallur og ég, fórum til Kanada 2019 til þess að hitta þær mæðgur, Obbu systur og Cece, og áttum með þeim yndislega tíma. Cece fór með okkur um Ottawa og sagði frá stöðum af mikilli innlifun og þekkingu. Ljóst er að hugur hennar var mjög hneigður til lista og fór hún m.a. með okkur á listasafn sem hún sagði að væri í miklu uppáhaldi hjá sér. Það var mikil upplifun hjá okkur að fá leiðsögn hennar um safnið og átta okkur á hvað þekking hennar var mikil á bæði myndlist og sögu. Ég er ánægður með að hafa fengið þetta tækifæri til að hitta hana í þetta síðasta skipti og knúsa hana. Eins og fram hefur komið er Cece jarðsett í kirkjugarðinum á Selfossi en á Selfossi eigum við stórfjölskyldan margar góðar minningar. Pabbi starfaði þar sem læknir frá hausti 1953 í ellefu ár og fjölskyldan sótti þar reglulega kirkju. Ég sem er sjötti í röð níu systkina er fæddur þar 1954 og á þar af leiðandi sterkar taugar til bæjarins. Því þykir mér vænt um að hún frænka mín skuli nú fá legstað í bænum þar sem hún var skírð á sínum tíma og að ég geti heimsótt hana í ferðum mínum gegnum Selfoss.

Kæra Obba, Kenny, Tina og Ed, við samhryggjumst innilega

Friður Guðs blessi þig kæra frænka, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Helga og Sigvaldi,

Lómsstöðum.