Guðmundur Skúli Stefánsson fæddist 6. nóvember 1952 í Reykjavík. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu á Stokkseyri 19. ágúst 2021.

Foreldrar hans voru Kristín Guðmundsdóttir leikskólakennari, f. 22. júní 1929, d. 6. ágúst 2006, og Stefán Eysteinn Sigurðsson bifvélavirki, f. 27. mars 2026, d. 6. ágúst 2008.

Systkini Skúla eru fjögur, Sigurður Mar Stefánsson, f. 27. okt. 1950, Gunnar Helgi Stefánsson, f. 27. des 1957, Guðrún Margrét Stefánsdóttir, f. 27. ágúst 1959 og Andri Stefánsson, f. 20. okt 1972.

Skúli giftist árið 1977 Hólmfríði Pálsdóttur tölvunarfræðingi. Þau skildu árið 2000. Synir þeirra þrír eru: 1) Páll búfræðingur, búsettur í Svíþjóð, f. 6. júlí 1977, sambýliskona Lina Bardach, Páll á tvo syni frá fyrra hjónabandi, þá Marcus Andre og Victor Andre, 2) Garðar Snorri viðskiptafræðingur, f. 14. mars 1980, kvæntur Ásthildi Þóru Reynisdóttur tannsmið og eiga þau tvo syni þá Brynjar Frey og Arnar Breka. Fyrir á Garðar eina dóttur, Unu Borg, með barnsmóður sinni Kristínu Ýr Gunnarsdóttur. 3) Hjörtur Pálmi Guðmundsson, f. 24. nóv 1990, kerfisstjóri, sambýliskona Bella Debbie Jane Víðisdóttir, f. 9. okt 1992, kennari. Seinni kona Guðmundar var Pensri Stefánsson, f. 9. janúar 1953, d. 18. apríl 2011.

Skúli fæddist í Reykjavík og ólst upp í Smáíbúðahverfinu. Hann útskrifaðist frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1974. Skúli lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og námi í íþrótta- og sjúkranuddi 1976. Hann stundaði nám við Háskóla í Kaupmannahöfn, Institute of Exercise and Sport Sciences og lauk þaðan B.Sc.-gráðu 1999. Árið 2002 lauk hann námi sem náms- og starfsráðgjafi frá HÍ.

Skúli var íþrótta- og sundkennari í Kópavogi frá 1974 til loka starfsævi sinnar, fyrst við Víghólaskóla og síðan við Digranesskóla. Hann var íþróttanuddari frá 1976, bæði með eigin stofu og með íslensku landsliðunum í handknattleik. Hann stofnaði Nuddskóla Íslands 1993, var skólastjóri skólans til 2001. Skúli var formaður fræðslunefndar 1993-2000 og Félags íslenskra nuddara um árabil. Hann kom að rekstri Félagsheimilis Karlakórsins Fóstbræðra 1976-92, var þjálfari í handknattleik, blaki, knattspyrnu í fjölda ára.

Skúli sat í stjórn Íþróttakennarafélags Ísland, var einn af stofnendum blakdeildar Þróttar og var í stjórn deildarinn fyrstu árin, átti sæti í dómaranefnd HSÍ, starfaði í lyfjaeftirliti á vegum ÍSÍ og var formaður fræðslu- og útbreiðslunefndar HSÍ um þriggja ára skeið auk þess að sitja í móttökunefnd HSÍ. Skúli var félagi í Oddfellow-reglunni frá árinu 2002 og var í mörg ár félagi í Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði.

Útför Guðmundar Skúla fer fram frá Digraneskirkju í dag, 3. september 2021, kl. 13.

Streymt verður frá útför á vef kirkjunnar og hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku stóri bróðir.

Það að vera langyngstur í systkinahópi hefur sína kosti og mín æska mótaðist í mörgu af því. Snemma fékk ég að fara með þér á hina ýmsu staði í tengslum við íþróttastarfið, en í íþróttastarfinu varst þú mjög virkur. Ég var viðstaddur útskrift þína á Laugarvatni þótt að ég væri smábarn og síðar átti ég einnig eftir að feta þau fótspor. Þú komst víða við í félagsstörfum, starfaðir innan sérsambanda ÍSÍ og þekktir starfsemi íþróttahreyfingarinnar vel. Við gerðum þjálfaradagbækur þar sem áhugamál okkar beggja og hugmyndir runnu saman í eitt og fannst mér það frábært framtak. Ég fékk að koma í æfingakennslu til þín og lærði mikið og það má segja að það hafi verið þín sterka hlið að leiðbeina og kenna. Þú vildir alltaf hjálpa til og það að geta kennt einhverjum að synda eða leiðbeint með öðrum hætti, í gegnum þjálfaranámskeið eða í kennarastarfinu var þín sterka hlið.

Þar sem ég var svo miklu yngri þá var ég jafnframt eins og elsti strákurinn þinn og ég man enn vel eftir skíðaferðum í Bláfjöll og ferðalögum þar sem strákarnir ykkar og ég vorum eins og bræður. Ég fékk að upplifa svo margt með þér sem ég þakka fyrir.

Það er með miklum söknuði að ég kveð þig elsku stóri bróðir. Þú kenndir mér svo margt.

Þinn

Andri.

Guðmundur Skúli, eða Skúli eins og hann var alltaf kallaður af sínum nánustu, er fallinn frá aðeins 68 ára að aldri. Við erum alltaf óviðbúin því þegar kallið kemur hjá þeim sem standa okkur nær og svo er einnig hér þótt heilsu Skúla hafði hrakað mjög undanfarin ár. Við Skúli kynntumst kornung, ég 15 ára og hann 18 á gamlárskvöld 1970. Mér leist strax vel á hann, ekki síst vegna þess að hann var einn af fáum allsgáðum í Silfurtunglinu rétt eftir miðnætti á því gamlárskvöldi. Við urðum par og giftum okkur 7 árum seinna þegar við skírðum Palla, frumburðinn okkar. Við áttum saman tæp 30 góð ár og gerðum ótal skemmtilega hluti saman sem fjölskylda, s.s. skíðaferðir, tjaldferðalög um Ísland og Evrópu og göngu- og jeppaferðir á hálendinu. Skúli lærði og sýndi samkvæmisdansa sem unglingur og við höfðum gaman af að dansa, hann var góður stjórnandi og eftirsóttur dansherra á böllum. Í löngum sumarfríum kennara féll það að mestu leyti í hans hlut að sinna drengjunum okkar þegar frí var í skólum. Hann studdi ötullega við bak þeirra í íþróttum, þjálfaði og hvatti á alla vegu og var þannig á margan hátt á undan sinni samtíð, því þá þótti ekki eins sjálfsagt og nú er að feður sinntu börnum sínum svo mikið. Skúli var drengur góður, hlýr og bóngóður og skipti sjaldan skapi þau tæp 30 ár sem við bjuggum saman, en hann þótti strangur kennari. Eftir íþróttakennaranámið lærði hann íþróttanudd, stofnaði Nuddskóla Íslands og var vinsæll nuddari sem margir nutu góðs af. Það var styrkur að hafa Skúla nálægt þegar einhver þarfnaðist aðhlynningar því hann var yfirvegaður og flinkur að binda um sár, vefja með teygjubindum og þ.h. sem oft var þörf á hjá fjörugum drengjum, íþróttafólki og göngufélögum. Skúli hafði einstaklega gaman af að braska með bíla og hef ég ekki tölu á fjölda þeirra bíla sem við áttum í okkar búskapartíð. Einu kröfurnar sem gerðar voru fyrsta áratuginn voru að bíllinn kæmist frá A til B og dræpi ekki á sér á ljósum. Árið 1984-85 tók Skúli sér frí frá kennslu og fylgdi mér og strákunum okkar til Englands þar sem ég stundaði nám og vinnu. Þar vann hann í verksmiðju jafnframt því að þjálfa enskt handboltalið og sinna heimilinu. Árin okkar tvö 1984-1985 í Englandi voru einn besti tími okkar sem fjölskyldu, laus við hraðann og stressið á Íslandi og allur frítíminn var helgaður okkur og strákunum einum. Við vorum alla tíð samhent í því sem við gerðum en ýmislegt varð þess valdandi að við fjarlægðumst hvort annað og slitum að lokum samvistum í lok árs 2000. Síðar kynntist Skúli góðri konu, Pensri, sem hann giftist í janúar 2010 og virtist þá vera kominn á góðan stað í lífinu og við afar ánægð fyrir hans hönd. En lífið er oft óréttlátt og Pensri dó úr krabbameini einu og hálfu ári eftir brúðkaupið sem var mikið áfall fyrir Skúla sem náði sér aldrei á strik eftir það og er nú allur, 10 árum síðar, látinn langt um aldur fram.

Hvíl í friði, elsku Skúli, vonandi ertu kominn á betri stað núna og við sem eftir lifum varðveitum góðar minningar.

Hólmfríður.

Það var breiður hópur sem hóf nám við Þróttó árið 1973. Þar eignaðist ég nokkra vini fyrir lífstíð. Einn af vinunum var Skúli. Hann var hraustmenni, skemmtilegur og sérlega notalegur ljúflingur, en kunni reyndar ekki á klukku.

Hann hafði mikinn áhuga á bílum hér áður fyrr og hann hafði ætíð mikinn áhuga á söng. Var til að mynda lengi í karlakórnum Þröstum. Hann var vel frambærilegur í bókstaflega öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Var alltaf jákvæður og talaði aldrei illa um nokkurn mann. Hann var drengur góður.

Fyrir tæplega hálfri öld hljóp hann í skarðið, þegar veislustjóri í brúðkaupi okkar hjóna forfallaðist. Hann tók það verk að sér nokkrum klukkutímum fyrir veisluna og fór létt með. Stjórnaði leikjum og söng og spilaði undir á gítar. Veislan þótti sérlega skemmtileg.

Við hjónin eignuðumst mjög góða vini í þeim Skúla og Hófí og áttum við fjögur margar góðar stundir saman. Ein af þeim bestu var þegar við mættum í skemmtilegt kvöldverðarboð hjá þeim hjónum. Eftir góðan mat, gott spjall og mikinn hlátur var fjörug músík sett á fóninn og við skelltum okkur á gólfið og dönsuðum eins og enginn væri morgundagurinn. Hjörtur, þeirra yngsti, skottaðist í kringum okkur eins og kátur hvolpur. Þetta kvöld var okkur eftirminnilegt vegna þess að einungis viku seinna hringdi Skúli, þau Hófí voru að skilja. Það var lítið um svefn hjá okkur hjónunum þá nótt.

Eftir skilnaðinn var vinur minn mjög laskaður. Hann sagði alltaf að sér liði vel og hann væri ánægður, við hjónin fundum annað. Hann var ekki sáttur. Svo kynntist hann Perci. Þau gengu í hjónaband og loksins virtist vinur minn finna gleðina aftur. Yndisleg kona, sagði hann. Ekki löngu seinna greindist hún með krabbamein og lést einhverjum mánuðum seinna.

Þarna var Skúli farinn að misnota áfengi. Bakkus var ráðandi og hann var harður húsbóndi.

Við heimsóttum Skúla á Stokkseyri. Eins og ætíð vildi hann allt fyrir okkur gera. Honum leið vel í litla þorpinu og sagðist ánægður með lífið þar.

Hann var stoltur af öllum sínum. Strákunum og barnabörnunum þó hann talaði ekki oft um þau. Sýndi myndir og nafngreindi með smá fréttum bæði maður um það, annars ekki. Sennilega vildi þessi öðlingur hafa reynst öllum sínum svo miklu betur. Hann sagði mér að seinna nafn miðsonar þeirra Hófíar hefði komið til vegna þess að ég bar það nafn. Það hefur mér alltaf þótt vænt um.

Hann Skúli vinur minn var ekkert sérstaklega mikið fyrir að tala í síma. Hann svaraði bara stöku sinnum þegar ég hringdi, en vissi alltaf af því að ég hefði reynt að ná í hann. Fyrir örfáum vikum sló hann þó óvænt á þráðinn til mín. Síðasta símtalið. Hann var að venju sáttur við lífið og tilveruna. Löngu hættur að gera einhverjar kröfur.

Kærum vini þakka ég öll góðu árin. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Hrefna Palla, Garðari Snorra, Hirti, Hófí og öllum þeim sem þótti vænt um Skúla.

Í hvert sinn sem við missum vin deyjum við lítið eitt (hindu-máltæki).

Snorri.