Jón Þór Guðmundsson fæddist 29. september 1947 á Akranesi. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 26. ágúst 2021. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson úr Reykjavík, framkvæmdastjóri Rafteikningar, f. 2. júlí 1927, d. 7. júlí 1983 og Guðfinna Jóhannesdóttir, húsmóðir úr Hafnarfirði, f. 26. ágúst 1927, d. 6. mars 2017.

Systkini Jóns Þórs eru Alma Hanna, f. 8. janúar 1951, eiginmaður hennar er Bragi Jens Sigurvinsson og eiga þau þrjú börn og Hrefna, f. 16. október 1952, d. 5. júlí 2014, eiginmaður hennar var Einar Einarsson og eiga þau þrjú börn.

Jón Þór var í sambúð í nærri 2 áratugi með Jónu Guðvarðardóttur, leirlistamanni úr Hafnarfirði, f. 15. júní 1949, og eiga þau eina dóttur, Hildi Ýri, f. 21. ágúst 1976. Sonur hennar er Benjamín Úlfur Hildarson, f. 8. maí 2018. Jón Þór var í sambúð með Rósu Mörtu Guðnadóttur, f. 1. desember 1955, slitu þau samvistum, sonur þeirra er Arnar Guðni, f. 3. maí 1989. Unnusta hans er Ásdís Sólveig Jónsdóttir. Sonur Rósu Mörtu er Magnús Kári Bergmann, f. 11. maí 1975. Eiginkona hans er Drífa Magnúsdóttir og eiga þau þrjár dætur.

Jón Þór fæddist á Akranesi, elstur systkina sinna, og bjó þar fyrstu ár ævinnar. Hann fór ungur í sveit til hjónanna Stellu og Gústa á Sólbakka í Borgarfirði og leit hann á það sem sitt annað heimili. Jón Þór gekk í Barnaskólann á Akranesi, Varmalandsskóla Borgarfirði og fór síðan í Hagaskóla, en fjölskyldan bjó þá í vesturbæ Reykjavíkur. Þau fluttu síðan í Hraunbæ í Árbæjarhverfi.

Jón Þór nam rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og fór að vinna við iðn sína eftir það. Hann var um tíma sem línumaður hjá Rarik, starfaði hjá Burmeister & Wain í Danmörku, vann hjá Rafteikningu og var einn af stofnendum og eigendum Rafafls. Hann vann sjálfstætt við iðngrein sína meirihluta starfsævinnar. Jón Þór var búsettur í Hafnarfirði meirihluta ævinnar.

Hann var útivistarmaður og stundað silungs- og laxveiðar í ám og vötnum. Hann var virkur félagi í Sjóstangaveiðifélag Reykjavíkur með heilsan leyfði. Jón Þór var einn af frumkvöðlunum sem settust að í Christianiu í Kaupmannahöfn á sínum tíma. Hann ferðaðist víða um heiminn, fór t.d. um alla Evrópu og fór í langferð til Taílands og Pakistan með viðkomu á Súmötru.

Jarðarför Jóns Þórs fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 3. september 2021 klukkan 13.

Þakklæti fyrir að hafa kynnst þér, Jón Þór, og þakklæti fyrir árin er við deildum saman tilverunni.

Þú varst nær alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt og árin okkar í Fagrahvammi standa þar upp úr. Naumhyggja endurspeglaði tilveru okkar.

Heillastjarna féll okkur í skaut með fæðingu Hildar Ýrar 1976 og höfum við fengið að njóta ástar og umhyggju hennar síðan.

Sl. ár hefur hún verið vakandi og sofandi yfir þér, pabba sínum.

Við erum lánsöm og nú færði hún okkur gleðigjafann Benjamín Úlf sem hefur gefið afa sínum ómælda gleði síðustu þrjú árin.

Jón Þór, þú lifir með okkur, minningin er fögur um náttúru og ævintýramanninn í þér.

Kærleikskveðja,

Jóna.

Jón Þór vinur okkar, eða Jónsi eins og hann var alltaf kallaður, er látinn og það er margs að minnast. Hann var að mörgu leyti óvenjulegur maður sem fór sínar eigin leiðir í lífinu og fann ætíð snjallar og einfaldar lausnir á vandamálum sem þurfti að leysa.

Kynni okkar hófust um 1970 þegar hann og Jóna móðursystir mín tóku Fagrahvamm vestan við Hafnarfjörð á leigu. Húsið var í mjög hrörlegu ástandi en þau voru ekki í vandræðum með að gera það íbúðarhæft. Fagrihvammur er lítill burstabær úr timbri sem stendur á fallegum stað í hrauninu. Framan við húsið er stór og gróin hraunlóð, með ferskvatnstjörnum og heillandi strandlengju.

Jón Þór og Jóna bjuggu í Fagrahvammi í nokkur ár og þar bjó Einar Már bróðir Jónu með þeim í upphafi. Þau nýttu það sem náttúran hafði upp á að bjóða, voru með lítinn bát og reru til fiskjar, ræktuðu kartöflur og grænmeti, voru með hænur og hunda og stunduðu sjálfsþurftarbúskap. Jóna var með keramikverkstæði í skúr við hús foreldra sinna á Austurgötu í Hafnarfirði og Jón Þór rak rafmagnsverkstæði Rafafls í Hafnarfirði og sinnti allskonar raflagnavinnu.

Jóni Þór og Jónu bauðst að kaupa lítið sumarhús í næsta nágrenni við Fagrahvamm, sem þau nefndu Réttarkot. Þar bjó vinur þeirra til að byrja með. Síðan buðu þau mér að búa í húsinu gegn því að ég aðstoðaði þau við hitt og þetta. Jón Þór var ætíð vinmargur og leituðu margir til hans því hann var úrræðagóður og hjálpsamur. Ferð sem við fórum saman vestur á firði sumarið 1974 til að aðstoða vini okkar við að lagfæra rafmagnið í húsinu þeirra og koma skolpmálum í betra stand er mjög eftirminnileg. Jón Þór var alltaf boðinn og búinn þegar leitað var til hans og aðstoðaði hann okkur með glöðu geði þegar laga þurfti rafleiðslur í íbúð sem við höfðum fest kaup á.

Á meðan Jón Þór og Jóna bjuggu í Fagrahvammi fæddist dóttirin Hildur Ýr, sem ólst fyrstu árin upp í þessu einstaka umhverfi. Fjölskyldan flutti síðan í timburhús við Hverfisgötu í Hafnarfirði sem þau keyptu. Nokkru síðar skildi leiðir þegar Jóna flutti til Ungverjalands. Jón Þór fór þá í reisu um heiminn en nokkru seinna hóf hann sambúð með Rósu og eignuðust þau soninn Arnar Guðna. Eftir að þau skildu bjó Jón Þór einn um árabil og undi sér einna best á sumrin og fram á haust við silungsveiði og útivist, annaðhvort einn eða með góðum vinum.

Síðustu árin átti Jón Þór við hnignandi heilsu að stríða. Þessi hrausti, léttstígi og glaðlyndi maður glímdi við minnisglöp undir það síðasta, sem skertu lífsgæði hans verulega. Hann hélt samt góða skapinu lengst af. Góður og traustur vinur hefur lokið lífsgöngunni og er farinn á nýjar slóðir. Við sendum Hildi Ýri og Benjamín Úlfi, Arnari, Ölmu og öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Jónatan Garðarsson og

Rósa Sigurbergsdóttir.

Í dag fylgi ég góðum vini mínum, Jóni Þór, til grafar. Við kynntumst fyrir rúmum 60 árum síðan á Biljard-stofunni að Einholti, en með okkur tókst mikil vinátta sem aldrei bar skugga á. Leiðir skilur í nokkur ár en við fylgjumst samt alltaf hvor með öðrum. Í september árið 1974 verða mikil tímamót í lífi okkar þegar ég fór einn inn í Þórsmörk og hitti þar óvænt Jón Þór og félaga hans. Það var fagnaðarfundur. Þeir fögnuðu afmæli Jóns Þórs með miklum gleðskap. Þegar við komum aftur til Reykjavíkur sagði ég við strákana: „Við hittumst á sama stað að ári.“ Þegar ég mætti niður á BSÍ til að taka rútuna inn í Þórsmörk þá var Jón Þór þar mættur og við fórum þangað saman og áttum frábæra helgi. Okkur fjölgaði í hópnum og höfum farið saman í Bása í 45 ár, árlega á sama tíma ársins. Með okkur strákunum komu síðan kærustur, eiginkonur, börn og síðar barnabörn. Við Jón Þór brostum stoltir þegar köllin eftir ömmu og afa heyrðust því þá fannst okkur víð vera ríkir. Um Goðalandið var gengið út um allar trissur og landssvæðið kannað. Í dag telur þessi hópur yfir 70 manns og er því mikið líf og fjör þegar hópurinn mætir saman inni í Básum. Eftirvæntingin er ætíð mikil að hittast aftur að ári og byrja krakkarnir strax að teja niður að næstu ferð, svo spenntir eru þeir. Þessi hópur var eins og samhent fjölskylda. Einnig héldum við sameiginlega stórglæsilegan nýjársfagnað til margra ára.

Við Jón Þór vorum nágrannar í Hafnarfirði. Hann bjó í Fagrahvammi en ég að Víðistöðum og var mikill samgangur á milli okkar. Þegar heimsmeistaramótið var í skák smitaði það okkur og var þá mikið teflt og stúderað, okkur báðum til mikillar ánægju. Síðan kom snooker-tímabilið hjá okkur, við spiluðum minnst einu sinni í mánuði í mörg ár. Það var erfitt að horfast í augu við það að hann gæti ekki spilað lengur vegna sjúdóms síns. Þá tapaði hann því síðasta sem hann hafði gaman af. Tómið tók við.

Jón Þór kenndi mér að kasta flugu og fórum við í margar veiðiferðir bæði i ár og vötn. Hann var lunkinn veiðimaður og kenndi mér margt sem viðkemur veiði. Fyrir mér opnaðist þó alveg nýr heimur þegar Jón Þór kynnti mér fyrir sjóstangarveiði og frábærum veiðifélögum sem ég er honum mjög þakklátur fyrir.

Við Jón Þór höfðum ákveðið að þegar við kæmust á eftirlaunaaldurinn skyldum við stunda þetta sameiginlega áhugamál af miklum krafti, en sá draumur rættist ekki. Ef það er líf eftir þetta líf þá munum við kannski hittast eins og í Þórsmörk forðum daga. Þá mun ekkert bíta á okkur og við getum látið drauma okkar rætast. Ef svo er ekki þá þakka ég þér, elsku vinur, fyrir trygga vináttu í öll þessi ár og allar okkar góðu stundir. Takk fyrir allt.

Innilegar samúðarkveðjur til barna og ættingja.

Kristján Vídalín og fjölskylda

Það var alltaf heitt á könnunni og nýlagað eftir hverja gönguferð í Þórsmerkurferðum okkar ferðafélaganna í Milljónafélaginu. Þetta mikilvæga hlutverk var gjarnan í höndum Jóns Þórs, kærs vinar og ferðafélaga sem nú er fallinn frá. Hann ásamt fleirum hafði farið nokkrar ferðir í Þórsmörk þar sem ákveðið var að stofna ferðahóp en fyrsta ferð Milljónafélagsins sem ferðahóps var haustið 1987 og urðu þessar ferðir árlegur viðburður eftir það. Þar hefur ótalmargt skemmtilegt verið brallað saman í gegnum árin, góðar gönguferðir, tindar toppaðir, setið við seiðandi eld, spilað og sungið en síðasta ferð Jóns Þórs var sjötugs afmæli hans þar sem við héldum honum tölu og tókum lagið honum til heiðurs eins og til siðs hefur verið.

Jón Þór var traustur og góður vinur sem hafði notalega nærveru en gat verið svolítill prakkari í huga yngri kynslóðarinnar og hlaut viðurnefnið Hrekkjalómurinn hjá þeim sumum en allt var í glettnu gríni gert. Hann hafði gaman af því að segja skemmtisögur af mönnum og atburðum, gjarnan eilítið kryddaðar sem gerði þær skondnari og skemmtilegri áheyrnar. Hann var mikill útivistarmaður, elskur að náttúrunni og veiðimaður af guðs náð. Þar fann hann sig allra best.

Við ferðahópsfélagar fórum einnig margar verslunarmannahelgar að Langaholti á Snæfellsnesi og nutum samverunnar ásamt börnunum okkar á þessari gullfallegu strönd sem þar er. Þaðan eigum við einnig fjölmargar góðar minningar við leik og störf en drjúgur tími fór í að draga að rekavið í góðan bálköst sem tendraður var á laugardagskvöldum. „Hver á svo hvaða barn?“ var viðkvæði Svövu húsráðanda þegar við vorum að sinna ungviðinu, enda fæddust allmörg börn á þessum árum og allir tóku sameiginlegan þátt í að sinna þeim. Enn hanga fallegar myndir á Langaholti frá þessum dýrðardögum á ströndinni góðu. Lengi var líka til siðs að Milljónafélagar hittust á nýárskvöldum, þar sem við kvöddum liðið ár og fögnuðum saman nýju ferðaári. Þangað mætti hann ætíð í sínu fínasta pússi og eftir góðan málsverð var tjúttað við Stones og fleiri góð gamlingjalög.

Jón Þór er þriðji meðlimur Milljónafélagsins sem hverfur á braut úr hópnum okkar. Í hugum okkar er hann á leið til fundar við Kjarra og Hóa í spaugið og ævintýrin. Vitum að honum verður vel fagnað og hver veit nema þeir líti til okkar stjörnubjörtum augum í næstu Merkurferð.

Vel sé þér, vinur,

þótt vikirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður,

æðra, eilífan

þú öðlast nú.

(Jónas Hallgrímsson)

Ástvinum sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

F.h. Milljónafélagsins,

Helga Þorsteinsdóttir.