Ég hef fengið góðan póst og sendi hann áfram: „Hinn 6. júlí sl. varð Björn Sigurðsson í Úthlíð 86 ára og bauð til veislu nágrönnum og vinum. Guðni Ágústsson var einn gestanna og tók með sér boðflennu að fornum sið, Halldór Blöndal.

Ég hef fengið góðan póst og sendi hann áfram: „Hinn 6. júlí sl. varð Björn Sigurðsson í Úthlíð 86 ára og bauð til veislu nágrönnum og vinum. Guðni Ágústsson var einn gestanna og tók með sér boðflennu að fornum sið, Halldór Blöndal.

Á leiðinni í afmælið hringdi Guðni í Pétur Pétursson lækni og bað hann að senda sér ljóð yfir fjöllin. Pétur kvað að bragði erindi mikið sem Guðni flutti afmælisbarninu:

Lékstu á lífsins svelli

af list um þína daga

illa gengur Elli

af þér fjör að naga.

Gakktu áfram glaður

gróðaveg að kanna,

hetja og höfðingsmaður,

hornstaur Tungnamanna.

Hér eru þingvísur úr erindi Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns í Útvarpstíðindum:

Þegar til umræðu voru á Alþingi lög um húsmæðrafræðslu í sveitum varð það að ágreiningsefni hvert lágmark skyldi setja um aldur námsmeyja. Þingnefndin, sem fjallaði um frumvarpið, hélt sér við 18 ára aldur, nokkrir þingmenn töldu 16 ár heppilegri, en Ásgeir Ásgeirsson kom með miðlunartillögu um að ákveða það 17 ár. Þá var kveðið:

Ýmsir beita orðum heitum

um er þráttað hvort sé betra

ungar meyjar upp í sveitum

átján eða sextán vetra.

Sextán áttu ýmsra hylli,

átján taldi nefndin betra,

Ásgeir var þar mitt á milli,

mat þær bestar seytján vetra.

Við sama tækifæri gjörði Bjarni Bjarnason alþm. á Laugarvatni þær athugasemdir, að ekki væru nægilega tæmandi upplýsingar á þeim námsgreinum, sem þarna skyldi kenna. Ungum stúlkum væri nauðsynlegt að fá leiðbeiningar um meðferð ungbarna fæddra og ófæddra. Þá fæddust þessar vísur:

Kvennaskólum öllum á

eftir kröfu Bjarna

meyjar skulu fræðslu fá

um fyrstu myndun barna.

Skilyrði þó er hér eitt

um þá menntun kvenna,

ef hún skyldi verða veitt

vill hann sjálfur kenna.

Gömul vísa að lokum:

Farðu að sofa frændi góður,

fer að líða að nótt.

Sýsla þú um sálarfóður

svo þér verði rótt.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is