Jóhannes Eðvaldsson fæddist 3. september 1950. Hann lést 24. janúar 2021.

Útför Jóhannesar fór fram 5. febrúar 2021 í Glasgow.

Vinur minn, Jóhannes „Búbbi“ Edvaldsson, hefði orðið 71 árs í dag, 3. september, en hann lést 21. janúar 2021. Búbbi var ekki aðeins frábær knattspyrnumaður sem lék knattspyrnu víða um heiminn, heldur líka skemmtilegur og góður vinur vina sinna, elskandi faðir og eiginmaður. Ég átti því láni að fagna að eiga samleið með þessum fjörkálfi í Val og voru uppátækin af öllum gerðum og flest í græskulausu gríni. Margar eru minningarnar sem gaman er að rifja upp nú, áratugum síðar. Einu sinni vorum við að koma úr keppnisferð til Húsavíkur og var flogið í vél sem maður hefði getað haldið, miðað við útlitið, að flugmaðurinn hefði sjálfur smíðað í bílskúrnum heima. En vélin stóð sig og frammi stýrði „smiðurinn“ ef ágiskunin er rétt og hinn mjög svo mæti tannlæknanemi sem þá var, Páll Ragnarsson, sat við hliðina á honum. Palli, sem féll frá fyrr á þessu ári, var nokkuð flughræddur og þáði að sitja við hlið flugmannsins. Við Búbbi sátum aftast í vélinni og var allt með felldu þar til við áttum eftir einhverjar tuttugu mínútur eða svo, þá var Búbbi eitthvað að fikta við hurðina á vélinni sem opnaðist. Ekki gátum við lokað henni en með aðstoð Valstreyju héngum við á henni og aðalmálið var að Palli frétti ekki af þessu. Þegar lent var hlupum við Búbbi á bak við skúra sem voru nærri flugbrautinni og hófst þar nokkurra lítra vökvarennsli.

Búbbi bjó í Skotlandi mestallan tímann síðan 1975 og eftir farsælan feril hjá Celtic fékk hann gælunafnið Shuggie eða Iceman og var feikivinsæll meðal stuðningsmanna Celtic og Motherwell. Það var upplifun að vera á kveðjuleik Jimmy Johnstone og Bobby Lennox sem urðu Evrópumeistarar með Celtic 1967 og voru miklar hetjur. Leikurinn var gegn Manchester United og fór fram í maí 1976 að viðstöddum 48 þúsund áhorfendum. Celtic sigraði 4-0 og skoraði Kenny Dalglish þrjú markanna. Búbbi lék í miðju varnarinnar og tók Lou Macari, miðframherja M.U., í nefið eins og stundum er sagt, átti sem sagt stórleik. Í leikslok hlupu Johnstone og Lennox heiðurshring, á meðan lag Celtic „You never walk alone“ var spilað og allir grétu, ótrúleg upplifun. Eftir að knattspyrnuferlinum lauk ráku þau hjónin Búbbi og Catherine Bradley hótel í Inverness, frá árinu 1985, en heilablóðfall sem Búbbi fékk 1992 batt enda á atvinnuþátttöku hans. En lífið hélt áfram og þau Cathy eignuðust þrjú yndisleg börn, Ellen, Önnu og Andrew, en áður hafði hann eignast Joey í fyrra hjónabandi. Uppeldishlutverkinu sinnti Búbbi af alúð með sínum meðfædda húmor og jákvæðni og fylgdist með uppvexti barnanna. Anna litla systir, sem horft hefur á eftir bræðrum sínum Atla og Búbba deyja með stuttu millibili, var prinsessan sem oft þurfti að hugsa aðeins fyrir kappsfullum strákunum.

Búbbi lést úr Covid á sjúkrahúsi í Glasgow. Búbba var mikill sómi sýndur í Glasgow því þar átti hann marga aðdáendur sem sýna vildu hug sinn til fallinnar hetju. Hugur minn er hjá fjölskyldunni, ég sakna samtalanna sem við tókum gjarnan á sunnudagsmorgnum og bið guð að blessa fjölskylduna.

Halldór Einarsson.