[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Umfang mála sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis hefur vaxið verulega á seinusta einu og hálfu ári. Í fyrra fjölgaði til að mynda kvörtunum til umboðsmanns um þriðjung frá árinu áður og voru rúmlega 540 mál skráð hjá umboðsmanni. Þetta er metfjöldi kvartana á einu ári að því er fram kemur í nýútkominni ársskýrslu umboðsmanns fyrir árið 2020. Til samanburðar var meðalföldi kvartana á ári 2015-2019 408 talsins.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Umfang mála sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis hefur vaxið verulega á seinusta einu og hálfu ári. Í fyrra fjölgaði til að mynda kvörtunum til umboðsmanns um þriðjung frá árinu áður og voru rúmlega 540 mál skráð hjá umboðsmanni. Þetta er metfjöldi kvartana á einu ári að því er fram kemur í nýútkominni ársskýrslu umboðsmanns fyrir árið 2020. Til samanburðar var meðalföldi kvartana á ári 2015-2019 408 talsins.

Þessi þróun hefur svo haldið áfram og verið viðvarandi í rúmlega hálft annað ár. Á fyrri hluta yfirstandandi árs hafa umboðsmanni borist 315 kvartanir, sem er tæplega 20% vöxtur miðað við sama tíma í fyrra.

Ekki er talið fyllilega ljóst hvað skýrir þessa fjölgun og í umfjöllun í ársskýrslunni kemur fram að fjölgunina í fyrra sé ekki hægt að rekja beint til mála sem tengjast kórónuveirufaraldrinum, þó þau mál gætu átt eftir að koma inn á borð umboðsmanns ef og þegar borgararnir hafa tæmt aðrar kæruleiðir í stjórnsýslunni, sem tekur sinn tíma.

Í þessum tölum um kvartanir til umboðsmanns eru ekki taldar með allar þær ábendingar sem honum berast vegna frumkvæðiseftirlits, svo sem tengdar heimsfaraldrinum. „Þess má geta að á fyrri hluta ársins 2021 hefur kvörtunum og ábendingum tengdum Covid-19 fjölgað en enn sem fyrr hafa ekki verið skilyrði til að ljúka mörgum slíkum málum með efnislegri umfjöllun,“ segir í ársskýrslunni.

Hjá umboðsmanni voru einnig afgreidd til muna fleiri mál í fyrra en árið á undan en þeim fjölgaði um meira en rúman helming og á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs hefur afgreiddum málum fjölgað um liðlega 36%.

Fram kemur að á liðnu ári var leyst úr 544 málum hjá umboðsmanni. Þar af voru 27 álit þar sem umboðsmaður beindi tilmælum til stjórnvalda og 57 bréf þar sem ábendingum var komið á framfæri. Samhliða þessum vexti hefur átt sér stað nokkur breyting á eðli þeirra kvartana sem umboðsmaður fær inn á sitt borð. Allt frá upphafi hafa þær flestar verið vegna tafa á afgreiðslu mála í stjórnsýslunni og hjá stjórnvöldum en í fyrra varð sú breyting á að kvartanir vegna opinberra starfsmanna urðu í fyrsta sinn flestar. Þær varða m.a. ráðningarmál. Hefur umboðsmaður ítrekað velt því upp, hvort þörf sé á að lögfesta sérstakar bótareglur í tilefni af lögbrotum við ráðningar í opinber störf og lagaheimild til að bæta miska í slíkum tilvikum.

Þörf á viðhorfsbreytingu

Á seinasta ári tvöfaldaðist einnig fjöldi kvartana milli ára vegna aðgangs að gögnum og upplýsingum. Fram kemur að umboðsmaður hafi ítrekað bent á „að oft virðist litið svo á að beiðni um aðgang að gögnum sé íþyngjandi fyrir viðkomandi stjórnvald og það sé einhvers konar kvöð að afgreiða slík mál og þeim jafnvel svarað seint og illa og aðgengi takmarkað eins og kostur er. Þá eiga stjórnvöld hér á landi nokkuð langt í land með að beita reglum um aðgang að gögnum með viðunandi og þá sambærilegum hætti og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Það er mikil þörf á bæði viðhorfsbreytingu innan stjórnsýslunnar og aukinni þekkingu á þessum reglum hjá starfsmönnum stjórnsýslunnar,“ segir í ársskýrslunni.

Seld á nauðungarsölu

Meðal mála sem sagt er frá í ársskýrslu umboðsmanns er kvörtun frá konu yfir því að fasteign hennar hefði verið seld nauðungarsölu til fullnustu kröfu Tryggingastofnunar (TR) um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Fjárhæð kröfunnar nam um 590 þúsund kr. en fasteignin var boðin upp og seld á 23 milljónir kr. Fram kemur að TR fékk um 65 þúsund kr. í sinn hlut eftir að innheimtukostnaður hafði verið dreginn frá en eftirstöðvarnar voru afskrifaðar. Umboðsmaður taldi að TR hefði ekki uppfyllt ákveðnar skyldur svo sem að leggja mat á nauðsyn þess að fara fram á nauðungarsölu til að innheimta kröfuna og gæta meðalhófs. Ekki hefði heldur verið upplýst með fullnægjandi hætti hversu há endurkrafan ætti að vera eða konunni verið leiðbeint um að hægt væri að óska eftir undanþágu frá henni.