Sigur Davíð Snorri Jónasson þjálfari fagnaði sigri í gær en Brynjólfur Willumsson fyrirliði 21-árs liðsins fór meiddur af velli snemma leiks í Brest.
Sigur Davíð Snorri Jónasson þjálfari fagnaði sigri í gær en Brynjólfur Willumsson fyrirliði 21-árs liðsins fór meiddur af velli snemma leiks í Brest. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Hinn 18 ára gamli Hákon Arnar Haraldsson nýtti tækifærið heldur betur vel þegar honum var skipt inn á sem varamanni strax á 5. mínútu í Brest í Hvíta-Rússlandi í gær.

Hinn 18 ára gamli Hákon Arnar Haraldsson nýtti tækifærið heldur betur vel þegar honum var skipt inn á sem varamanni strax á 5. mínútu í Brest í Hvíta-Rússlandi í gær. U21 árs landsliðið í knattspyrnu var þangað mætt til að glíma við Hvít-Rússa í fyrsta leik sínum í nýrri undankeppni EM.

Skiptingin kom ekki til af góðu því fyrirliðinn Brynjólfur Willumsson þurfti að fara af leikvelli. Ekki tók það Hákon nema kortér að koma Íslandi yfir og hann bætti við marki á 53. mínútu. Ísland var þá komið í góða stöðu og ekki kom að sök þótt Aleksandr Shestjuk tækist að skora fyrir Hvíta-Rússland á 70. mínútu.

Ísland lék fyrr á þessu ári í lokakeppni EM U21 árs liða í annað skiptið í sögunni og liðið hóf nú undankeppni með því að ná í þrjú stig á útivelli. Í undanriðli 4 eru einnig Grikkland, Kýpur, Portúgal og Liechtenstein.

Bræður tóku þátt í leiknum fyrir Íslands hönd. Hinn 17 ára gamli Kristian Nökkvi Hlynsson var í byrjunarliðinu og Ágúst Eðvald Hlynsson kom inn á eftir 69 mínútur.

kris@mbl.is