Þorkell Sigurlaugsson
Þorkell Sigurlaugsson
Eftir Þorkel Sigurlaugsson: "Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka forystu í velferðar- og heilbrigðismálum. Líklega eru hvergi meiri tækifæri til úrbóta og framfara en á því sviði."

Mikill einhugur ríkti um kosningaáherslur okkar í velferðarmálum á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins 29. ágúst sl. Áskoranir og tækifæri eru þar fjölmörg og málaflokkurinn er ótvírætt einn sá mikilvægast og afdrifaríkasti fyrir lífsgæði almennings í landinu.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka forystu á þessu sviði enda margvíslegt umbótastarf fram undan bæði innan heilbrigðisráðuneytisins og velferðarráðuneytisins. Í þessari samantekt er það helsta sem kom fram í ályktun okkar í velferðarnefndinni, með nánari skýringum frá mér, sem formaður velferðarnefndar flokksins. Þetta endurspeglast að mestu í stjórnmálaályktun og kosningaáherslum flokksráðsfundarins.

Mótum nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu

Nauðsynlegt er að móta nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu, m.a. hvað varðar samstarf opinberra aðila við þá fjölmörgu sem sinna einkarekinni velferðarþjónustu. Efla þarf sérstaklega forvarnir og endurhæfingu og virkja einnig einkaframtakið til að fást við það gríðarlega stóra verkefni sem bíður okkar á næstu árum og áratugum vegna öldrunar þjóðarinnar. Forvarnir og endurhæfing, auk nýtingar nýrrar tækni þar á meðal fjarskipta og upplýsingatækni, getur lækkað heilbrigðiskostnað, en ekki síst aukið lífsgæði og lengt líf landsmanna.

Sjúklingar um land allt þurfa góðar samgöngur, en jafnframt tækifæri til að nýta stafrænar lausnir. Meira jafnræði þarf að ríkja á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

Geðheilbrigðismál í sérstakan forgang

Leggja ber mun meiri áherslu á forvarnir í geðheilbrigðismálum og snemmtæka íhlutun hvað varðar börn og unglinga. Um helmingur þeirra sem fara á örorku fyrir 35 ára aldur eru með geðsjúkdóm sem meginskýringu. Efla þarf göngudeildarþjónustu og auðvelda heilsugæslunni að sinna betur þessum þætti heilbrigðismála.

Nauðsynlegt er að bæta úr húsnæðismálum geðdeildar Landspítala. Húsnæðið þarf að vera hentugra, nútímalegra, meira aðlaðandi og í takt við nútímasjónarmið í geðheilbrigðislækningum. SÁÁ hefur lyft grettistaki á sviði áfengissýki og annarra fíkniefna, og ekki er síður þörf á að takast á við geðsjúkdóma og húsnæðismál því tengt.

Bætum hag eldri borgara

Innleiða þarf nýtt fyrirkomulag ellilífeyris almannatrygginga og skapa jákvæða hvata til vinnu og sveigjanlegra starfsloka. Tekin verði upp sérstök lífeyrisuppbót til þeirra sem hafa áunnið sér takmörkuð lífeyrisréttindi. Frítekjumark atvinnutekna verði hækkað strax í 200.000 krónur á mánuði.

Fjölga þarf þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum, en um leið auka valkosti eldra fólks að búa sem lengst á eigin heimili eða dvelja á hjúkrunarheimili. Heimaþjónusta við aldraða er kerfisdrifin og tekur ekki nægilega vel á þörfum hvers og eins. Án virkrar aðstoðar aðstandenda eru aldraðir oft í miklum erfiðleikum. Lagfæra verður rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila svo rekstraraðilar gefist ekki upp og afhendi ríkinu lyklana.

Endurskoðum tryggingakerfi fólks með skerta starfsorku.

Almannatryggingakerfi öryrkja er allt of flókið eftir margs konar bútasaum undanfarna áratugi. Tryggja þarf fjárhagslegt sjálfstæði öryrkja og stuðlað sé að því að öryrkjar sem hafa starfsgetu geti hafi ávinning af því að afla sér tekna án verulegra skerðinga. Öryrkjum verði auðvelduð þátttaka á almennum vinnumarkaði eftir því sem starfsgeta leyfir og tryggja lágmarkstekjur til lífsviðurværis án þess að draga úr hvata til sjálfsbjargar.

Nýtum einkaframtakið

Nýta þarf einkaframtakið mun betur á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga á því sviði. Einstaklingaframtak hefur alla tíð verið leiðandi drifkraftur nýsköpunar og framfara. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk þurfa að eiga fleiri en einn valkost þegar kemur að sjúkrahússtarfsemi og almennri heilbrigðisþjónustu. Langir biðlistar og tvöfalt heilbrigðiskerfi er þjóðarskömm í velferðarsamfélagi þar sem allir eiga að njóta góðrar þjónustu án tillits til efnahags eða þjóðfélagsstöðu.

Ný stefna í sjúkrahúsþjónustu.

Móta þarf heildstæða stefnu í sjúkrahúsþjónustu landsmanna. Landspítali þarf sem þjóðarsjúkrahús að sinna vel sínu skilgreinda hlutverki á sviði bráðalækninga, flóknustu aðgerða, rannsókna og háskólakennslu. Til að Landspítali geti sinnt þessu forystuhlutverki þarf að gera honum kleift að draga úr annarri starfsemi sem aðrir geta sannarlega einnig komið að. Innleiða ber framleiðslumælikerfi svokallað DRG-kerfi (e. Diagnosis Related Groups) til að auka gegnsæi og mæla megi framleiðni eða skilvirkni spítalakerfisins. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir skilvirkni kerfisins að geta greint kostnað ákveðinna verka og geta framkvæmt samanburð milli stofnana.

Meiri nýsköpun í velferðar- og heilbrigðisþjónustu

Nýsköpun á öllum sviðum velferðar- og heilbrigðisþjónustu mun stuðla að aukinni hagkvæmni og gæðum í rekstri. Mikil tregða hefur verið hjá sumum opinberum stofnunum að gera samstarfs og þróunarsamninga við lítil frumkvöðlafyrirtæki með stafrænar lausnir og margvíslegar tæknilausnir.

Við menntun heilbrigðisstarfsfólks, vísindarannsóknir og fjárfestingu er þörf á fjölbreyttu rekstrarformi og fleiri atvinnutækifærum, m.a. til að auka áhuga ungs fólks. Með margvíslegu samstarfi við opinberar stofnanir, einkum Landspítala, er hægt að styðja betur við og virkja ótrúlegan drifkraft einstaklinga og lítilla einkafyrirtækja. Heilbrigðis- og líftæknilausnir eru mikilvægt vaxtatækifæri til atvinnusköpunar og útflutnings hér á landi. Nú þegar eru fjölmörg dæmi um fyrirtæki sem hafa náð gífurlegum vexti og árangri á örfáum árum með grænum, hugvitsdrifnum þekkingariðnaði.

Sjálfstæðisflokkurinn boðar nýjar áherslur og nýja tíma í velferðar- og heilbrigðismálum. Það sem kallað hefur verið vandamál á þessu sviði er miklu fremur tækifæri. Líklega eru hvergi meiri tækifæri til úrbóta og framfara en í velferðar- og heilbrigðismálum. Komum því í verk!

Höfundur er formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Þorkel Sigurlaugsson