Kristján Ragnar Bjarnason sjómaður var fæddur í Árbakka á Eskifirði 21. ágúst árið 1935. Hann lést á Fjóðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 23. ágúst 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Laufey Sigurðardóttir og Bjarni Kristjánsson.

Kristján var þriðji elstur fimm barna þeirra hjóna en önnur voru þau Sigurður Bjarni, Svana, Nikólína og Nanna Kolbrún. Eru þau öll látin.

Þann 25. desember árið 1957 kvæntist Kristján Önnu Sigurrós Sigurjónsdóttur frá Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurjón Níelsson frá Fáskrúðsfirði og Björg Flórentína Bergsdóttir frá Krossi, Beruneshreppi. Þau eignuðust átta börn, en þau eru: 1) Jóna Björg, f. 14.5. 1956, búsett á Breiðdalsvík, hennar börn eru: Anna Ragna, Sigurjón Björn í sambúð með Jóhönnu Guðrúnu Árnadóttur og eiga þau þrjú börn, Linda Rut, börn hennar eru tvö og eitt barnabarn, Sigurjóna gift Einari Hreinssyni og á hún eina dóttur, Guðrún Sigurlína í sambúð með Evu Hopmann. 2) Bjarni, f. 2.7. 1957, búsettur á Eskifirði. Kvæntur Mörtu Kristjánsdóttur. Börn hans: Guðný Margrét, sambýlismaður hennar er Björgvin Antonsson, börn þeirra eru þrjú, Kristján Ragnar á einn dreng og Jónína Bjarney, í sambúð með Jóni Frey Sveinbjörnssyni og þau eiga á eina stúlku, börn Mörtu eru Einar Kristberg, Bergur Ingi og Stefán Bjarni, allir Einarssynir. 3) Sigurjón, f. 2.4. 1959, búsettur hér á Eskifirði, kvæntur, Guðrúnu Þóru Guðnadóttur. Börn þeirra eru: Jónatan Már, kvæntur Ásu Guðmundsdóttur, börn þeirra eru fimm, Davíð Brynjar, kvæntur Sonju Einarsdóttur og börn þeirra eru þrjú, Anna Sigurrós, í sambúð með Gísla Grétari Agnarssyni og eiga þau tvö börn og Birkir Snær. 4) Kristján, f. 5.5. 1960, búsettur á Reyðarfirði. 5) Laufey Sigríður, f. 3.9. 1962, búsett hér á Eskifirði, gift Eggerti Ólafi Einarssyni. Börn þeirra eru: Valgeir, í sambúð með Þorgerði Sigurbjörnsdóttur og eiga þau þrjú börn, Kristbjörg í samúð með Þórði Frey Brynjarssyni og eiga þau tvo syni, og Sigurrós.

6) Guðbjörg Þórdís, f. 11.5. 1964, búsett hér á Eskifirði, gift Einari Sverri Björnssyni börn þeirra eru: Þóra, í sambúð með Jóni Gunnari Sævarssyni, börn Þóru eru tvö. Guðjón Arnarr, kvæntur Helgu Dröfn Ragnarsdóttur og eiga þau tvær dætur. 7) Eiríkur, f. 1.12. 1970, búsettur í Reykjavík, kvæntur Jóhönnu Lindu Hauksdóttur og eiga þau tvíburana Önnu og Guðrúnu. 8) Sigurður Nikulás, f. 9.3. 1977, búsettur hér á Eskifirði

Stjáni ólst upp á Eskifirði og byrjaði ungur að vinna til sjós með föður sínum en 18 ára gamall lá hans á vertíð suður í Sandgerði þar sem hann vann hjá Miðnesi. Þar kynntist Stjáni Önnu Sigurrós. Árið 1956 lá leið þeirra austur á Eskifjörð þar sem þau hófu búskap og bjuggu þar alla tíð. Stjáni var til sjós mestan hluta ævinnar og vann svo við ýmis störf tengd sjávarútvegi eftir að hann hætti til sjós.

Útför Kristjáns fer fram frá Eskifjarðarkirkju í dag, 4. september 2021, kl. 14.

Elsku hjartans afi minn, nú ert þú loksins sameinaður ömmu á ný og ég veit að þið eruð hamingjusöm saman í sumarlandinu. En þegar símtalið kom þá brotnaði hjarta mitt í þúsund mola, ég átti alls ekki von á því þarna. Þú sem varst svo hress á afmælisdaginn þinn og við áttum yndislegt símtal, þegar ég fór að hugsa um það eftir á þá var eins og undirmeðvitundin þín hafi vitað hvað var í vændum.

Við vorum búin að plana svo margt sem við ætluðum að gera saman. Eftir standa yndislegar minningar sem við áttum, allar ferðirnar okkar í Hafnarnes, einn uppáhalds staðinn ykkar ömmu. Allir rúntarnir sem við tókum, ekki var nú hægt að enda ferðina án þess að koma við á Mjóeyri og athuga hvort við sæjum tjaldinn utan við gömlu bræðsluna. Hlustuðum saman á uppáhaldstónlistina þína og þú hækkaðir alltaf þegar íslenski þjóðsöngurinn kom í græjunum og þú söngst með, að koma til þín í kaffi, kökur og spjall. Þú komst nánast alla morgna til okkar í vinnuna eftir að þú varst búinn að fara ferð á bryggjurnar og athuga með veiði og skoða skipin því sjómennskan var þér mikið. Þú komst svo alltaf eftir hádegi og leiddist mér ekki að gefa þér malt og staur. Þessar minningar eru mér ómetanlegar í dag. Þú varst alltaf svo hlýr og góður en einnig ákveðinn og þrjóskari en allt og hef ég það frá þér. Það er ekki hægt að minnast þín án þess að minnast á ástríðu þína fyrir fótbolta og Tottenham, þú hlýtur að gleðjast yfir því að þeir séu á toppnum.

Væntumþykja þín í garð barnanna minna var mér ómetanleg og hvað þeim þótti vænt um þig, það lýsir sér best í því að sonur minn geymdi fyrstu ferð sína á Anfield í 11 mánuði því það kom ekki til greina að fara á annan leik en Liverpool – Tottenham því það var liðið þitt.

Afi Stjáni var alltaf til staðar ef eitthvað var. Allar stundirnar sem við áttum saman við að spjalla, spila, yatsy, horfa saman á fótboltann eru svo dýrmætar í dag. Ég elska þig elsku hjartans afi minn. Bið að heilsa ömmu.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(JÁ)

Þín

Þóra.