Jón Elvar Guðmundsson
Jón Elvar Guðmundsson
Andrés Magnússon andres@mbl.is Alþingismenn geta ekki farið sínu fram við skattlagningu borgaranna, þeir eru bundnir af stjórnarskrá í slíkri löggjöf sem annarri. Sérfræðingur í skattarétti telur að framkomnar tillögur um stóreignaskatt séu ómarkvissar og hæpið að ná þeim fram. Dómur Hæstaréttar um lögmæti auðlegðarskatts skjóti ekki stoðum undir þær, öðru nær.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Alþingismenn geta ekki farið sínu fram við skattlagningu borgaranna, þeir eru bundnir af stjórnarskrá í slíkri löggjöf sem annarri. Sérfræðingur í skattarétti telur að framkomnar tillögur um stóreignaskatt séu ómarkvissar og hæpið að ná þeim fram. Dómur Hæstaréttar um lögmæti auðlegðarskatts skjóti ekki stoðum undir þær, öðru nær.

Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, vakti athygli á því í samtali við Morgunblaðið í gær, að tillaga Samfylkingarinnar um stóreignaskatt stæðist tæplega stjórnarskrá. Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, vísaði því á bug í gær með orðum um að „löggjafanum [hefði] verið játað mjög ríkt svigrúm til að ákveða hvernig skattheimtu er háttað“.

Stjórnarskráin er sú sama

Morgunblaðið spurði Jón Elvar Guðmundsson, lögmann hjá Logos og sérfræðing í skattarétti, um þessa deilu og forsendur stóreignaskatts.

„Það væri gengið mjög greitt um gleðinnar dyr löggjafans að túlka dóma Hæstaréttar svo, að það sé nóg að pólitíkusa langi til að ráðstafa fé til þess að líta megi fram hjá stjórnarskránni.“ En dygði að setja tímamörk á slíkan stóreignaskatt, t.d. eitt kjörtímabil? „Já, mögulega, en þó því aðeins að tiltekin séu sérstök rök fyrir fjárþörfinni.“

Jón Elvar segir að Jóhann Páll vísi til algengs en almenns orðalags Hæstaréttar um hið pólitíska skattlagningarvald. „Um sértækan eignarskatt dugir það varla, því Hæstiréttur lagði sérstakt mat á auðlegðarskattinn 2013 og var nokkuð skýr um skilyrði hans. Þar var ríkið að leita leiða til að fjármagna grunnþjónustu, ekki einhver gæluverkefni eða jafna stöðu manna. Ef það þurfti sérstaka réttlætingu fyrir því þá, þá á það engu síður við nú. Stjórnarskráin er sú sama.“

Hann segir um grátt svæði að ræða og erfitt að finna meðalhófið. „Ef menn ætla að finna afmarkaðan hóp til þess að skattleggja, þá þarf að finna mjög veigamikla réttlætingu fyrir því að velja tiltekinn hóp samfélagsins, sem beita á þyngri álögum en aðra. Ég fæ ekki séð að þær óvenjulegu aðstæður séu fyrir hendi nú,“ segir Jón Elvar. „Vissulega má benda á mikil útgjöld vegna heimsfaraldursins, en miðað við fjármálaáætlun þá er ekki komið í nein þau óefni að grípa megi til slíkra óyndisúrræða,“ segir hann.

„Löggjafanum er ekki heimilað frjálst pólitískt mat til þess að mismuna fólki og velja úr hóp, sem á að fara verr með en aðra. Það verður að fara að stjórnarskránni um það.“

Um framkvæmdina treystir Jón Elvar sér ekki að fullyrða, en minnir á að þeir auðugustu í þessum hópi séu jafnframt þeir sem hafa mestan hvata og eiga auðveldast með að flytja sig um set.