— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis mun sitja Heimsráðstefnu þingforseta sem fram fer í Vínarborg dagana 7. til 8. september næstkomandi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis mun sitja Heimsráðstefnu þingforseta sem fram fer í Vínarborg dagana 7. til 8. september næstkomandi. Daginn eftir situr hann þingmannaráðstefnu á vegum IPU, heimssamtaka þjóðþinga, í sömu borg.

Þetta verður eitt af síðustu embættisverkum Steingríms, sem lætur af þingmennsku á kjördag hinn 25. september nk.

En nú er það spurning hver muni taka við keflinu af Steingrími og gegna embættinu þar til nýtt þing hefur verið kallað saman og nýr forseti kosinn. Ekki getur gengið að hafa engan þingforseta starfandi enda er hann einn að þremur handhöfum forsetavalds í fjarveru forseti Íslands. Hinir eru forsætisráðherra og forseti Hæstaréttar. Líklegast má telja að Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins verði sá útvaldi.

Í sjöttu grein þingskaparlaga segir að fráfarandi forseti og varaforsetar skuli gegna störfum frá kjördegi og fram til þingsetningar nýkjörins Alþingis hafi þeir verið endurkjörnir alþingismenn. Sé forseti ekki endurkjörinn gegnir störfum hans sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, ella aldursforseti, sbr. 1. gr., sé enginn þeirra þingmaður lengur.

Í forsætisnefnd Alþingis sitja auk Steingríms Guðjón S. Brjánsson, 1. varaforseti, Brynjar Níelsson, 2. varaforseti, Þorsteinn Sæmundsson, 3. varaforseti, Willum Þór Þórsson, 4. varaforseti, Björn Leví Gunnarsson, 5. varaforseti og Bryndís Haraldsdóttir, 6. varaforseti.

Guðjón S. Brjánsson og Þorsteinn Sæmundsson láta nú af þingmennsku líkt og Steingrímur og koma því ekki til greina. Brynjar, Willum, Björn Leví og Bryndís eru öll í framboði. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru þrjú þau síðastnefndu í næsta öruggum sætum en Brynjar tæpastur, nú í Reykjavíkurkjördæmi norður. Ef Brynjar nær ekki kjöri er Willum því næstur til að taka við keflinu.