Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson
Eftir Arnar Sigurðsson: "Hið eiginlega álitamál er þó auðvitað hvaða hagsmunum Félag atvinnurekenda berst fyrir?"

Ólafur Stephensen, fyrir hönd hilluplásshafa í ÁTVR, hefur ítrekað í viðtali í Morgunblaðinu fyrirmæli til dómsmálaráðuneytisins um að ráðuneytið dæmi í meintum „skattalagabrotum“ sem og brot er varða „löggæslu“ í framhaldi af fyrri fyrirmælum sama efnis sem beint var til fjármálaráðuneytisins.

Ekki er alveg ljóst af hverju fjármálaráðuneytið áframsendi fyrirmælin nema vegna formsatriða þar sem umrædd lög heyra undir dómsmálaráðuneytið. Flestir vita að á Íslandi er sk. þrískipting ríkisvaldsins í gildi þar sem dómsvald er einmitt sjálfstætt og blessunarlega ekki undir valdboði ráðherra.

Ólafur nefnir að uppi sé „furðuleg staða“ og að hann eigi rétt á að fá „skýr svör um afstöðu stjórnvalda“. Það sem er auðvitað furðulegast við þá stöðu sem nú er uppi á 21. öld er að á Íslandi skuli vera til staðar einokunarverslun sem þar að auki er rekin af hinu opinbera sem einnig rekur Samkeppniseftirlit sem ætlað er að fyrirbyggja slíkan rekstur. Markmið ríkiseinokunarverslunar er að neyða neytendur með hálstaki til viðskipta en á vef www.sante.is fara allir sjálfviljugir sem vilja gera betri kaup. Það er ekki bara furðulegt að einokun skuli vera til staðar heldur stórfurðulegt að einstaklingur í forsvari fyrir sjálfstætt starfandi atvinnulíf skuli berjast fyrir slíku ofbeldi gegn atvinnufrelsi.

Einstök ráðuneyti geta auðvitað gefið út álit í málum sem þessum en þau geta reyndar líka ákveðið að gera það ekki og skal því spáð hér. Fjármálaráðherra hefur reyndar sagt í viðtali við Morgunblaðið að „ég á erfitt með að sjá að netverslun með áfengi stangist á við lögin“. Skýrari verða nú álitin varla. Á hinn bóginn er rétt að ÁTVR hefur einmitt kært Sante.is, m.a. fyrir að innheimta virðisaukaskatt án þess að hafa til þess virðisaukaskattsnúmer. Þeirri kæru var beint réttilega til þess aðila sem úthlutaði Santewines. SAS-númerinu 140848 og mun því einmitt vera réttur aðili til að „taka af allan vafa“ í samræmi við fyrirmæli Ólafs sem þó gæti reyndar gert slíkt sjálfur með einu símtali. Um önnur vafaatriði, eins og hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í gildi gæti félagsskapur Ólafs þá bara höfðað sérstakt dómsmál, nema ef Ólafur tæki einföldu svari frá ráðherra um að svo sé. Hið eiginlega álitamál er þó auðvitað hvaða hagsmunum Félag atvinnurekenda berst fyrir.

Höfundur er víninnflytjandi. arnar@santewines.net

Höf.: Arnar Sigurðsson