Rekstrarhagnaður hátæknifyrirtækisins atNorth á Íslandi nam 1,6 milljónum dollara á síðasta ári, eða rúmum tvö hundruð milljónum króna og lækkaði um 2,2 milljónir dollara á milli ára, eða 279 milljónir króna.
Í tilkynningu frá félaginu segir að tekjur atNorth af íslenskri starfsemi hafi numið 36 milljónum dollara árið 2020, eða tæplega 4,6 milljörðum króna, og hafi lækkað um tæp 30% frá fyrra ári.
EBITDA-hlutfallið árið 2020 nam 27% af tekjum félagsins, en var 20% á árinu 2019.
Í tilkynningunni segir að reksturinn á árinu 2020 hafi markast mjög af Covid-19 heimsfaraldrinum. Eftirspurn á gagnavers- og ofurtölvuþjónustumarkaði hafi dregist saman með hagsveiflunni, en með skjótum viðbrögðum hafi náðst veruleg hagræðing í rekstri og kostnaðarlækkun sem að hluta sé varanleg. Þá hafi tafir á afhendingu nýs tölvubúnaðar frá birgjum orðið til þess að uppsetningum nýrra verkefna seinkaði með tilheyrandi tæknilegum áskorunum, eins og einnig kemur fram í tilkynningunni frá fyrirtækinu.