Ólafur Halldórsson fæddist á Mýrum í Hornafirði 7. apríl 1951. Hann lést á hjúkrunarheimilinu á Höfn 28. ágúst 2021.

Foreldrar hans voru hjónin Halldór Sæmundsson frá Stórabóli f. 7. janúar 1913, d. 13. maí 1991 og Rósa Ólafsdóttir frá Holtahólum, f. 31. mars 1917, d. 21. desember 1995. Þau bjuggu allan sinn búskap á Stórabóli ásamt börnum, en eftir andlát Halldórs flutti Rósa á Höfn.

Systir Ólafs er Anna Eyrún, f. 1954, búsett á Höfn. Hennar maki var Kristján Vífill Karlsson, f. 1948, d. 10. desember 2018. Börn þeirra eru Svala Björk, Halldór Steinar og Karl Guðni.

Eiginkona Ólafs var Lára María Theódórsdóttir, f. 27. ágúst 1962, d. 5. júní 2018. Synir þeirra eru Halldór, f. 21. maí 1993 og Agnar, f. 16. maí 1995. Þeir eru búsettir á Tjörn, þar sem þeir ólust upp. Unnusta Agnars er Gunnhildur Birna Björnsdóttir, f. 1995. Foreldrar Láru Maríu voru hjónin Theódór Daníelsson kennari, f. 2. febrúar 1909, d. 12. september 1984 og Hallveig Kristólína Jónsdóttir ljósmóðir, f. 9. október 1921, d. 12. október 1977. Lára María var einkabarn foreldra sinna.

Ólafur ólst upp við hefðbundinn sveitabúskap en fór ungur til sjós en sinnti einnig bíla- og vélaviðgerðum og síðar rak hann sitt eigið fyrirtæki með vörubílum og vinnuvélum.

Útför Ólafs fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 4. september 2021, kl. 14.

Streymt verður frá athöfninni á heimasíðu Hafnarkirkju.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku Óli, minn kæri bróðir.

Minningarnar hrannast upp nú þegar þú hefur yfirgefið þennan heim og það allsnögglega, enda varstu sú manngerð sem vildi sjá hlutina gerast hratt.

Við ólumst upp saman við gott atlæti foreldra okkar í sveitinni, á bænum Stórabóli, sem er með eitt fegursta útsýni sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Þú byrjaðir snemma að sýna vélum og tækjum mikinn áhuga, svo mikinn að þú reifst í sundur þau tæki sem tiltæk voru hverju sinni og settir saman á ný. Ég játa það fyrst núna að það var erfitt að fyrirgefa þér þegar þú reifst í sundur eina merkilegustu jólagjöf sem mér var gefin þegar við vorum börn, en það var lítil dúkkuþvottavél sem gekk fyrir rafhlöðum og var því næstum alvöru tæki. Þú þurftir að finna út hvernig svona tæki væri hannað og smíðað, reifst í sundur og það á jóladag, en komst því ekki saman aftur. Ég fyrirgaf þér samt, enda gerðirðu síðar meir við margar alvöru þvottavélar sem biluðu og þar á meðal mína.

Á fullorðinsárum þínum varstu sjálfmenntaður, einstakur viðgerðarmaður og þeir voru ófáir sem leituðu til þín. Ég man að á sumrin eftir að bindivélarnar komu til sögunnar varstu á ferð og flugi um nærliggjandi sýslur til að aðstoða bændur og orðspor þitt óx hratt og fljótlega vissu menn hversu gott var að leita til þín með alla skapaða hluti.

Ungur fórstu á sjóinn og sextán ára keyptirðu fyrsta bílinn og eins merkilegt og það nú er var það ekki Volvo. Nú standa í hlaðinu á Tjörn ansi mörg Volvo-tæki, enda vissirðu alltaf hvað þú vildir í þeim efnum.

Við vorum alltaf náin og þú hringdir daglega í mig ef því varð við komið. Á vissum tímapunkti fækkaði símtölunum verulega, sennilega í kringum árið 1990, en ég fyrirgaf þér það og fljótlega komst ég að því að ung Reykjavíkurmær átti hug þinn allan. Elsku Lára María þín, sem kvaddi alltof snemma, skildi eftir risastórt skarð í hjarta þínu og strákanna ykkar, Halldórs og Agnars og okkar allra sem kynntumst henni.

Símtölum til Önnu systur fór aftur fjölgandi og við studdum hvort annað eftir bestu getu eftir að við höfðum bæði misst maka okkar með sex mánaða millibili. Nú er síminn hljóðnaður aftur.

Þú veist að synirnir eru heilsteyptir, stórkostlegir karakterar eins og þú varst og nú hefur elsku Agnar þinn fundið ástina í lífi sínu og hann segist ætla og vilja hafa Halldór sér við hlið, alltaf.

Í dag, 4. september, leggstu aftur við hlið þinnar ástkæru Láru Maríu.

Megið þið bæði hvíla í friði.

Þín systir,

Anna Eyrún.